Austurglugginn - 25.11.2021, Síða 8
8 Fimmtudagur 25. nóvember AUSTUR · GLUGGINN
Eins og vera á fljúgandi vélsleða
Flug með paramótorum
Hópur paramótor flugfólks var
meðal þeirra sem heimsóttu
Austurland á liðnu sumri. Um er
að ræða íþrótt sem aðeins handfylli
af fólki stundar reglulega hérlendis
enda veðuraðstæður oft snúnar.
Austfirskar aðstæður eru með þeim
mest krefjandi en þegar vel viðrar er
gaman að svífa um svæðið.
Áður en lengra er haldið er rétt að
útskýra örfá enskuskotin hugtök.
Margir kannast við svifflug, eða
gliding, sem felst í að svífa um á
óvélknúnu loftfari. Það er þá gjarnan
dregið á loft af ökutæki. Paragliding,
eða fallhlífarsvifflug, er að svífa um
á væng. Tekið er á loft með aðstoð
ökutækis, eða með að hlaupa upp í
vindinn, oft fram af fjallshlíð. Með
paramótor er léttum mótor bætt við
vænginn sem eykur flugmöguleikana
til muna.
„Þetta er svolítið eins og að vera á
seglskútu eða spíttbát. Í paragliding
ertu háðari veðri og vindum. Með
mótornum geturðu tekið á loft nánast
hvar sem er á 15-20 mínútum“ segir
Skúli Sveinsson, einn þeirra sem
stunda paramótorflug.
Flugu um Austurland
Hann og Marvin Wallace komu fyrst
tveir í sumar. Marvin var á undan
og flaug þá um á Jökuldal en þeir
flugu síðan saman upp Norðurdal
Fljótsdals, yfir í Suðurdalinn og
til baka, frá Skjöldólfsstöðum á
Jökuldal og inn að Stuðlagili og
í Mjóafirði. „Við flugum inn að
Klifbrekkufossum en ætluðum út að
Dalatanga. Það var of mikil ókyrrð
til þess, sennilega hefðum við ekki
átt að fara í loftið þennan dag en við
vorum komnir langa leið og því var
kýlt á þetta,“ segir Skúli.
Hann kom síðan aftur tveimur
vikum síðar með alþjóðlegum hópi
sem reyndi að fljúga upp Fljótsdal
en varð frá að hverfa vegna ókyrrðar.
„Það leit út fyrir að vera í lagi en
þegar við vorum komnir upp fundum
við að það var hliðarvindur sem síðan
endurkastaðist af fjöllunum.“
Um var að ræða hóp undir
merkjum Scout, slóvensks fram-
leiðenda paramótora sem jafnframt
stendur fyrir ferðum víða um heim
og hefur komið reglulega til Íslands.
Hugmyndasmiðurinn að baki Scout
fer fyrir hópunum og var með eystra
í sumar.
Mikilvægast að læra á
vænginn
Aðspurðir segjast Marvin og Skúli
reiknast það til að sjö manns séu
virkir í paramótorflugi hérlendis.
Marvin hefur flogið í sex ár en Skúli
í fjögur. „Ég sá myndband úr fyrstu
ferð Scout til Íslands á YouTube
og hugsaði með mér að ég væri að
missa af einhverju svo ég skráði mig
á námskeið,“ segir Skúli.
Bæði Skúli og Marvin segja að
fyrsta árið hafi farið í að læra bara
á vænginn sjálfan, taka á loft, svífa,
bregðast við hvernig hann hegðar
sér og lenda. Mótorinn sé í raun
minnsta málið. „Hann er í raun
bara til að koma þér í loftið,“ segir
Marvin.
Skúli notaði síðan fyrsta tækifærið
sem honum gafst til að fara í ferð
með Scout-hópnum. „Ég lærði mikið
af þeim. Þannig fékk ég reynslu til að
meta aðstæður og vita hvenær óhætt
sé að fara í loftið,“ segir hann.
Öruggara að vera hærra
Flughæðin með paramótornum er
í allt að 300 metra hæð yfir jörðu.
Marvin útskýrir að öryggi sé falið
í hæðinni, samanborið við að í
paragliding er flogið neðar. „Öryggið
er meira því hærra sem flogið er
því þá hefurðu meiri tíma til að
bregðast við. Það hefur verið mikil
framþróun í þessum búnaði síðustu
10 ár, græjurnar eru orðnar góðar
og bæði einfaldara og öruggara að
fljúga. Vængirnir þola meira þannig
meira þarf til að þeir brotni saman.
Vængurinn er það sem þú treystir
á að lokum, það má allt bila nema
hann. Það getur drepist á mótornum
eða brotnað upp á vænginn. En
þó það gerist hefurðu varafallhlíf.
Tölfræðin hefur sýnt að þetta er alls
ekki hættulegra en annað flug,“ segir
Marvin. „Þú getur átt mótorhjól og
keyrt það skynsamlega eða eins og
brjálæðingur. Ef varlega er farið þá
er þetta tiltölulega öruggt sport –
það er að minnsta kosti það sem ég
segi konunni minni!“ bætir Skúli við.
Mótorinn er á baki flugmannsins.
Hann vegur um 30 kg en síðan
bætast við 12 kg af eldsneyti.
Félagarnir segja að við það dugi til
tæplega tveggja og hálfs tíma flugs,
eða um 100 km. „Það er hóflegt að
fljúga í 1,5-2 tíma, velja sér 65-70
km hring,“ segir Skúli en bætir við
að dæmi séu um að hérlendis hafi
mjög reyndir flugmenn, með auka
eldsneyti, verið á loftið í 5 tíma og
flogið yfir 250 km.
Sjáum ekki vindinn
Þeir fara yfir veðurfræðin fyrir
flugið, hvernig veður og vindar
eru í mörgum lögum. Yfirleitt eru
skilyrðin best á morgnana, þeir
eru oft komnir á staðinn klukkan
fimm, eða seint á kvöldin. Sólin
hitar jörðina og þá myndast ókyrrð.
Tæknilega séð er hægt að fljúga allan
ársins hring, svo lengi sem veðrið er
stillt. „Það er betra að kunna skil á
þessu, í raun erum við bara að fljúga
á víniltaui. Við vitum ekki alltaf um
vindinn því við sjáum hann ekki. Við
göngum út frá að vindur sé undir 5
m/s. Það er hægt að fljúga í aðeins
meira en þá getur verið erfitt að
höndla vænginn á jörðinni því hann
þarf að vera flatur þegar flogið er af
stað,“ segir Marvin. „Það er samt
sagt að það sé betra að vera á jörðinni
og óska þess að maður sé í loftinu
frekar en vera í loftinu og óska þess
að vera á jörðinni,“ skýtur Skúli að.
Fyrir flug á Íslandi fer því nokkur
tími í að elta veðrið. „Hóparnir
sem koma hingað keyra stundum
landshornanna á milli. Stundum ná
þeir ekki að fljúga nema 3-4 daga
af vikunni sem þeir eru hér. Þetta
er ekki eins og á Spáni þar sem þeir
fljúga á hverjum degi. Þeir eru samt
dolfallnir yfir náttúrunni hér. Það
er hægt að sjá sambærilegt annars
staðar í heiminum en ekki sömu
fjölbreytnina í jafn stuttu flugi,“
segir Skúli.
Að draga fótinn eftir
haffletinum
Frelsið og fjölbreyttara sjónarhorn
á náttúruna er það sem heillað
hefur Skúla og Marvin mest við
paramótorflugið. „Ég var á flugi í 20
metra hæð yfir skógi um daginn. Ég
hallaði mér fram og hugsaði: „Mikið
er þetta eðlilegt sjónarhorn.“ Þetta
er skilgreiningin á frelsi fyrir mér,“
segir Marvin.
„Snilldin við þetta form flugs
er að það fer ekki hratt. Það er
ótrúleg upplifun að fljúga nánast
við jörðina og geta dregið fótinn
eftir haffletinum. Þetta er svolítið
eins og að vera á fljúgandi vélsleða,“
segir Skúli.
Þeir hafa hug á að koma aftur
næsta sumar, þótt fjöllin og dalirnir
geri aðstæður krefjandi og fljúga
víðar, nefna Þerribjörg, Berufjörð og
Lónsöræfi. „Þetta er svo allt öðruvísi
náttúra en hér syðra,“ segir Marvin
að lokum.
GG
Skúli á flugi í sumar. Mynd: GG