Austurglugginn - 25.11.2021, Qupperneq 11
AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 25. nóvember 11
„Megrunarkúltúrinn er jafn farsæll
og hann er því hann virkar ekki.
Ef ein duftdolla skilaði því sem
lofað er þá væri gróðinn ekki svona
mikill. Framleiðendurnir græða því
okkur mistekst. Við teljum okkur
sjálf vera ástæðuna þannig við
reynum aftur og kaupum annan
kúr. Staðreyndin er hins vegar
að megrunarkúrar lukkast illa
og í þeim tilfellum þar sem fólk
grennist hratt eru líkur á að það
fitni aftur og þá enn meira.
Utan á sígarettupökkum stendur
að reykingar drepi. Í tilfelli
megrunarkúranna eru 95% líkur á
að þeir virki ekki en 12% líkur að
viðkomandi þrói með sér átraskanir,
sem eru geðsjúkdómur. Hví eru ekki
viðvaranir á þeim?
Það er alltaf verið að mata okkur
á að við séum ekki nóg heldur
þurfum að breyta einhverju til að við
upplifum okkur nóg. Til að græða
á okkur þarf markaðurinn fyrst
að brjóta okkur niður þannig við
trúum að við þurfum að kaupa okkur
hamingjuna. Svona skilaboð eru svo
víða að við erum orðin blind á þau.
Síðan koma ný orð. Megrunarkúr
er orðið neikvætt svo nú er talað um
lífsstílsbreytingu, þótt í raun sé oft
það sama á bakvið.“
Þetta segir Erna Kristín, sem vakið
hefur athygli fyrir orð sín um jákvæða
líkamsímynd á samfélagsmiðlum
undir nafninu Ernuland, auk þess
sem hún hefur gefið út tvær bækur
um málefnið. „Ég var með neikvæða
líkamsímynd frá barnsaldri,
átröskunin poppaði síðan upp á
unglingsárunum. Ég náði tökum
á henni með bættri sjálfsímynd og
jákvæðri líkamsímynd, fyrir alvöru
í kringum 2018 og hef haldið
góðum bata síðan. Ég er hins vegar
alltaf á tánum því þetta er geðrænn
sjúkdómur sem hverfur ekkert
endilega fyrir fullt og allt. Þess vegna
er svo mikilvægt að leita aðstoðar
fagaðila til að vinna úr málunum,“
segir Erna um eigin reynslu.
Ólíkir líkamar
Hún leggur áherslu á að í grunninn
séu líkamar mannfólksins
ólíkir. Staðalímyndir, einkum í
auglýsingum, komi inn hjá fólki
brengluðum hugmyndum um útlit
sem aftur skapi óánægju með eigin
líkama og pressu um að gera eitthvað
í málinu. Úr þessu geti orðið erfiður
vítahringur.
„Fyrsta skrefið í átt að jákvæðri
líkamsímynd er því að gera fólk
meðvitað um umhverfið og hvers
vegna við upplifum líkamann okkar
ekki sem nóg. Jákvæð líkamsímynd
felst í að bera virðingu fyrir líkama
okkar og annarra óháð útliti, heilsu,
stærð eða líkamsgetu. Að virða hann
eins og hann er í dag og í gegnum
allar breytingar. Við eigum öll að fá
að elska okkur eins og við erum.“
Niðurlægingin virkar ekki
Erna heimsótti Austurland á
sama tíma og talsverð umræða
var um offitu barna og ungmenna
á landsbyggðinni eftir sýningu
fréttaskýringaþáttarins Kveiks á
RÚV. Erna segir umræðu sem þessa
vandmeðfarna. Ekki skili neinu að
skamma þá sem teljist of þungir, það
jaðarsetji þá bara frekar.
„Það stuðar fólk stundum þegar
ég segi að það þurfi að bera virðingu
fyrir líkömum óháð heilsu, en það
er kannski fyrst þegar við dettum
út af heilbrigðisvagninum sem við
þurfum sjálfsmildi. Við höfum
reynt niðurbrotið og vitum að það
er ekkert nema skyndilausn að ætla
að búllía sig út úr erfiðri stöðu. Í
jákvæðri líkamsímynd felst að vilja
líkamanum vel og þannig náum við
utan um almennt heilbrigði.
Líkamsvirðing er annað svið
jákvæðrar líkamsímyndar, hvernig
við komum fram við jaðarsetta
hópa. Heilsu of þungs fólks hrakar
meira út af útskúfun heldur en
fitu. Við setjum samasemmerki
milli fitu og óheilbrigðis meðan
orsakasamhengið er mikið flóknara.
Í okkar heilbrigðiskerfi og víðar
hefur verið kerfisbundin mismunum
sem hjálpar svo sannarlega ekki þeim
sem eru jaðarsettir að leita þjónustu.
Við eigum öll að hafa sama aðgang
að heilbrigðiskerfinu óháð stærð.
Í því breska er verið að taka upp
þyngdarhlutlausa nálgun, þar er
sjúklingi mætt óháð stærð. Um leið
og fólk fær þá þjónustu sem það á
að fá sem manneskja þá skilar það
meiri árangri.“
Góð næring, hreyfing og
svefn
Hreyfing er einn af grunnþáttum
heilbrigðis en hún getur líka keyrt
um þverbak. Jaðarsetningin þýðir
líka að erfitt getur verið fyrir þá sem
vilja stunda hreyfingu að byrja, þar
sem útskúfun veldur því að hvorki
aðgengi né viðhorf, er ekki það sama
og manneskja í viðurkenndri stærð
fær.
„Það getur verið erfitt að sækja
sér almennt heilbrigði þegar maður
er jaðarsettur, tækin í salnum henta
ekki endilega feitum og það er erfitt
að finna íþróttafatnað. Á sama tíma
hugsar forréttindafólkið: „Ég ætla að
hreyfa mig,“ og gengur inn í salinn
án nokkurra vandkvæða.
Hver einstaklingur þarf að horfa
á hvað hann geti gert til að þóknast
sínum líkama, hvað hann geri til
að honum líði vel og hafi orku í
lífið. Almennt heilbrigði snýst um
þetta. Til þess þarf að hugsa að
góðri næringu, sofa nóg og hreyfa
sig hóflega. Almennt heilbrigði er
ekki ofþjálfun eða neita sér um mat.
Gallinn er hins vegar að góð næring
og hreyfing er ekki aðgengileg
öllum.“
Bænastund á Hellisheiði
Erna kveðst afar ánægð með
þær viðtökur sem hún fékk við
fyrirlestrum sínum eystra. „Ég
fann mikinn áhuga sem ég er
mjög þakklát fyrir. Unglingarnir,
sem létu oft fara lítið fyrir sér á
fyrirlestrunum, voru þeir sem sendu
skilaboð eftir fyrirlesturinn. Allt eins
og þau sem spurðu á fyrirlestrunum
þá eru þau að fást við ýmislegt og
vilja fá ráð. Þess vegna skiptir máli
að þau hafi öruggt rými heima hjá
sér og í skólanum til að ræða málin
því utan þess er hamrað á þeim alla
daga.“
Erna tilkynnti skömmu eftir að
hún sneri aftur suður að hún væri
orðin ófrísk af tvíburum. Hún vissi
það hins vegar sjálf í ferðinni. „Ferðin
var æðisleg en ég var að fást við mikla
ógleði og á milli fyrirlestra lá ég fyrir
uppi á hóteli. Það var samt miklu
skemmtilegra en að vera lasin heima
hjá sér.“
Svo var það ferðin yfir Hellisheiði
eftir fyrirlesturinn á Vopnafirði. „Á
leiðinni hringdi ég í vinkonu mína,
hún var hissa á að ég væri þarna, hélt
að heiðin væri lokuð. Ég hugsaði með
mér hvort þessi vegur væri nokkurn
tíman opinn. Mér leið eins og ég
myndi hrynja niður af fjallinu, þetta
var svo bratt. Leiðin kom mér á óvart
að því leyti að hún var rosalega falleg
en að sama skapi hef ég aldrei farið
með jafnmargar bænir á svo stuttum
tíma – og verandi guðfræðimenntuð
kann ég nokkrar.“
GG
„Eigum öll að fá að elska okkur eins og við erum“
Jákvæð líkamsímynd
Erna Kristín á fyrirlestri með nemendum í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Mynd: GG