Austurglugginn - 10.04.2015, Blaðsíða 7
AUSTUR · GLUGGINN Föstudagur 10. apríl 7
keyrði mig hreinlega í kaf með fyrr-
greindum afleiðingum. Við fengum
svo sannarlega skellinn og þurftum
að endurmeta líf okkar.“
Stendur upp og dustar af
sér moldina
Í kjölfar veikindanna ákvað Elísabet að
fara í skóla. „Fyrst lífið bauð mér upp
á þetta, þurfti ég plan B. Ég ákvað að
bjarga sjálfri mér, en þarna voru liðin
þrjú ár og ég hafði ekki náð heilsu.
Mig hafði alltaf langað til þess að læra
annað hvort matvæla- og næringar-
fræði eða tannlækninn. Þarna fannst
mér yfirþyrmandi að fara í sex ára
tannlæknanám án þess að vera einu
sinni búin með stúdentinn. Niður-
staðan varð sú að ég fór í þriggja ára
nám í næringarþerapíu í Danmörku
sem byggðist upp á því að ég mætti
í lotu þangað einu sinni í mánuði,
nokkra daga í senn. Læknar voru
ekki bjartsýnir á að ég héldi námið
út auk þess sem þeir bentu mér á
að hópíþrótt og skíði yrði aldrei á
minni stundatöflu. Þeir reyndust
ekki sannspáir því ég kláraði námið
og fer bæði á skíði og æfi blak í dag.“
Elísabet setti sér þriggja ára mark-
mið sem samanstóð að því að klára
námið í Danmörku og stúdentspróf
fyrir fertugt, sem og hún gerði. Bætti
þó um betur og hélt áfram og er nú
að klára mastersnám í næringarfræði
við Háskóla Íslands.
„Þetta hefur verið pínu töff á
stundum, en er að hafast. Maður
hefur aðeins um tvennt að velja – að
gefast upp eða dusta af sér moldina
eftir fallið. Auðvitað eru vankantar
á því að missa heilsuna, en ég hef
aldrei verið að velta mér mikið upp
úr þessu eða láta það stoppa mig að
ég sé kannski orkuminni en aðrir –
ég haga bara lífi mínu samkvæmt því
eða reyni að taka tillit þegar ég finn
að ég er að keyra mig út. Þetta var
mikil lífsreynsla og eins og ég segi
alltaf, plan B er ekkert endilega verra,
ég veit hreinlega ekki hvert hvert ég
hefði stefnt með plan A. Í staðinn
fékk ég að vera heimavinnandi með
börnin mín í mörg ár, það er frábært
tækifæri þó svo það hafi ekki komið
til af góðu.“
Fann hárrétta húsið
Það hafði alltaf blundað í Elísabetu
að koma aftur austur og árið 2007
sá hún tækifærið. „Alcoa auglýsti í
blöðunum eftir vélstjóra og tækni-
fræðingi, en Gunni er vélstjóri og
trommuleikari. Mig langaði aftur
austur, sérstaklega til þess að komast
nær fólkinu mínu. Gunni þvertók
fyrir slíkar hugmyndir og fannst ég
vera orðin eitthvað óskýr í kollinum.“
Á þessum tíma var Gunnar að
klára tæknifræðinám frá HR og fór
í skoðunarferð austur í Alcoa og varð
mjög hrifinn af fyrirtækinu. Svo vildi
til að þá vantaði vél- og tæknifræð-
ing og að endingu var hann lokkaður
austur og segir Beta að hann hafi verið
knúsaður í starfið, en hann kolféll
fyrir fólkinu, starfsumhverfinu og
staðnum. Hann bjó fyrsta árið einn
á Reyðarfirði og þegar flutningar
fjölskyldunnar nálguðust klikkaði
fyrirhugað leiguhúsnæði.
„Ég vildi þá bara kaupa hús og
Gunni spurði mig hvort ég vildi nú
ekki prófa að búa á staðnum fyrst.
Ég sagði að það væri allsstaðar gott
að búa og sá ekki vandamálið við
þetta. Þarna vorum við stödd í fríi á
Húsavík. Það var frábært veður og
við stóðum út á palli við kvisthús
sem stóð við á. Gunni segir; „Ókei
Beta, finndu þá hús. En, ég vil bara
kvisthús sem stendur við á.“ Ég rauk
inn, settist við tölvuna og fann þetta
hús – kvisthús við á. Gunni átti ekki
möguleika á að bakka út úr þessu
og við vorum búin að kaupa hús-
ið nokkrum dögum síðar. Ég segi
honum reyndar oft að gæta að því
hverju hann óskar sér því það hefur
tilhneygingu til að rætast."
Nýbúar í þorrablótsnefnd
Fjölskyldunni líkar vel á Reyðarfirði
en Betu þótti erfitt að komast inn í
samfélagið. „Mér fannst þetta erfitt í
fyrstu og samfélagið lokað. Við vorum
dregin í þorrablótsnefnd í vetur og
kynntumst þeim hópi mjög vel, en
þekktum líklega ekki helminginn af
þeim sem við vorum að gera grín að.
Það er alveg magnað að upplifa hve
slík nefnd, samsett af ólíkum ein-
staklingum, getur unnið vel saman
og gert flotta hluti. Líklega er snið-
ugt að hafa alltaf ein nýbúahjón í
nefnd til þess að koma þeim inn í
samfélagið.“
Kamelljónið Elísabet
Eftir að hafa setið með Elísabetu um
stund er ekki erfitt að átta sig á því að
hún hefur gaman að lífinu og nýtur
þess að gera skemmtilega hluti. „Ég
er algert kamelljón og finnst eigin-
lega gaman að gera allt mögulegt. Ég
er í blaki með frábærum hópi hér á
Reyðarfirði, við fjölskyldan förum á
skíði, förum mikið út að ganga með
hundinn í þessu dásamlega umhverfi
sem við búum við. Ég hef líka gaman
af lestri og eldamennsku og er ein-
mitt með matreiðslunámskeið fyrir
Austurbrú núna í vetur.
Ég finn mér alltaf eitthvað og
finnst gaman að gefa öllu sjenst, en
mesta ánægju hef ég af mannlegum
samskipum og eyða tíma með fólki.
Vinir mínir segja samt að ég geti ver-
ið orðhvöss og hafi sterkar skoðanir,
en ég vil meina að það eigi að ræða
hluti af ástríðu og hafa skoðun og tjá
sig. Reyndar á ég mikið af karlkyns
vinum og vil ég meina að þeir þoli
oft betur góðar rökræður sem hafa
engan eftirmála.
Ég er einmitt svo ánægð með að
börnin mín geti rökrætt, tjáð sínar
skoðanir og staðið á sínu – ég tel
það kost á meðan aðrir segja að það
sé yfirgangur, svona getum við verið
misjöfn.
Annars held ég að ég sjái nú oft
spaugilegu hliðina á lífinu og er ekk-
ert sérlega mikið að velta leiðinleg-
um hlutum fyrir mér. Góður hlátur
er eitthvað sem ég elska og ég nýt
þess í botn að hlæja og njóta lífsins.“
Bæjarhátíðir eiga að
byggja á listafólki
svæðisins
Að endingu barst talið að íbúasam-
tökum Reyðarfjarðar, en Elísabet er
ein þeirra sem tók þátt í að virkja
þau á nýjan leik og situr nú í fimm
manna stjórn þeirra. „Mig langaði
til þess að starfa í samtökunum og
leggja þannig mitt að mörkum við að
gera gott samfélag enn betra. Maður
heyrir allt of oft raddir þess efnis að
ekkert sé að gerast á staðnum. Okkur
langar að rífa þetta upp í samvinnu
við íbúa. Fyrirhugað er að endur-
vekja Bryggjuhátíðina í einhverri
mynd í sumar og tengja jafnvel við
Hernámsdaginn.
Bæjarhátíðir eiga að byggja á lista-
fólki svæðisins. Við eigum ótrúlega
mikið af hæfileikaríku fólki sem er
um að gera að efla og nýta. Það þarf
ekki alltaf að að leita út fyrir, bara
að smúla rétta fólkinu út og virkja
það. Sjáum það best þegar kemur að
okkar árlega þorrablóti, hvernig hæfi-
leikarnir leynast í hverri manneskju.
Við eigum það til að halda að gras-
ið sé grænna hinumegin, en svo er
ekki. Sagan af gamla manninum er
ansi góð. Hann fór ungur að heiman
til þess að leita að gulli. Hann eyði-
lagði líkama sinn með því að grafa
og grafa eftir gulli um allan heim,
án árangurs. Að endingu fór hann
heim á túnblettinn sem gamall maður
til þess að deyja. Eftir andlát hans
fannst gullnáma, aðeins 50 metrum
frá húsinu. Við erum svo ansi oft
með gullnámuna í bakgarðinum án
þess að gefa því gaum. Við þurfum
að líta okkur nær og njóta.“
KBS
Betu þykir fátt skemmtilegra en að verja tíma við vinum sínum. Frá vinsrti; Lísbet Alexandersdóttir, Elísabet, Berglind Ingvarsdóttir og
Jóna Bjarnadóttir.
„Við erum
svo ansi oft
með gull-
námuna í
bakgarðin-
um án þess
að gefa því
gaum.“