Austurglugginn - 07.08.2015, Qupperneq 12
Um forgengileika
allra hluta
Í síðustu viku fór ég í sex daga
göngu um svokallaðar Víknaslóðir.
Gengið var frá Borgarfirði suður í
Loðmundarfjörð, með viðkomu í
Beiðuvík og Húsavík. Náttúrufeg-
urðin á þessum slóðum er ótrúleg
og það gladdi mig mjög að fá loks-
ins tækifæri til að kynnast svæðinu.
Á göngunni hugsaði ég margt,
enda nægur tími og friður til að
hugsa þegar maður er á göngu
í átta tíma á dag. Ég hugsaði til
dæmis um daglegt streð fólksins
sem byggði þessar slóðir. Margar
kynslóðir lögðu á sig gífurlega
vinnu við að rækta land og bú-
stofn og koma sér upp húsakosti.
Svo lögðust þessir staðir smátt og
smátt í eyði þegar lífsmunstur Ís-
lendinga breyttist á 20. öldinni. Allt
sem fólk hafði baksað við varð að
engu. Húsin grotna niður og nátt-
úran tekur aftur völdin.
Í kjölfarið fylgdu hugsanir um
þróun byggðar almennt og svo það
hvernig við lifum lífinu. Við streðum
flest við að byggja eitthvað varanlegt.
Eitthvað sem stenst tímans tönn.
Eitthvað til að eftirláta börnunum
okkar og barnabörnum þegar við
hrökkvum upp af.
Í þetta streð okkar fer gífurleg
orka. Við sláum lífinu á frest fyrir
vinnuna. Við viljum eignast þak
yfir höfuðið, góðan bíl og öryggi.
Það gerist bara með því að vinna
hörðum höndum.
En hversu oft stöldrum við við
og hugsum málið? Til hvers er allt
þetta streð þegar öllu er á botninn
hvolft? Við tökum ekkert af þessu
með okkur í gröfina. Allt sem við
byggjum upp mun tíminn mylja niður.
Heimsókn á stað eins og Loð-
mundarfjörð minnir mann óþægi-
lega á þessa staðreynd. Við lifum
lífinu alltaf eins og við höfum nógan
tíma, eins og hægt sé að byggja upp
eignir, öryggi og stöðugleika, eitt-
hvað sem endist. Sannleikurinn er
sá að allur tíminn sem fer í streðið
fæst aldrei til baka. Það er ekki hægt
að nota hann í eitthvað fallegt og
skemmtilegt. Og ég óttast að í ell-
inni muni maður ekki sjá eftir því
að hafa ekki verið meira í vinnunni,
að maður hafi aldrei eignast rétta
bílinn eða náð að borga niður hel-
vítis húsnæðislánið. Maður mun sjá
eftir því að hafa ekki ferðast meira,
upplifað meiri fegurð, hlegið meira,
elskað meira, eytt meiri tíma með
fólkinu sínu.
Með þessu er ég auðvitað ekki
að segja að við eigum að hætta
að vinna og liggja bara í leti. En
hættum að taka allt svona fjandi
alvarlega! Hættum að láta eins og
allt þurfi að gerast akkúrat strax.
Hættum að vinna meira en 40 tíma
á viku. Ef hlutirnir klárast ekki á 40
tímum, þá þarf bara að ráða fleira
fólk, eða sætta sig við að sumt þarf
bara að bíða.
Notum svo tímann í að gera góða
hluti: Vera úti í náttúrunni, eyða
tíma með þeim sem við elskum,
elda og borða góðan mat, fara á
tónleika, myndlistarsýningar og
íþróttakappleiki, sitja á kaffihúsi
með vinum okkar og hlæja.
Ég held raunar að ef samfélagið
okkar væri meira svoleiðis, þá ættum
við kannski auðveldara með að halda
í unga fólkið okkar og lokka til okkar
nýja íbúa. Ég held að það minnki
líkurnar á því að í framtíðinni fari
fólk úr borgunum í gönguferðir á
„Fjarðaslóðir“ til að skoða yfirgefin
þorp og verksmiðjur.
Sigurður Ólafsson
Lokaorð
vikunnar
Austfirðingarnir Tinna Rut Guð-
mundsdóttir og Hallur Ásgeirsson
gengu í hjónaband í lok júlí. Sjón-
varpsstöðin CNN myndaði brúð-
kaupið og tók viðtal við hjónin fyrir
þáttinn Wonderlist 2015 sem sýndur
verður ytra í febrúar.
Tinna Rut og Hallur giftu sig í
Garðakirkju laugardaginn 26. júlí
síðastliðinn. Rúmri viku fyrir stóra
daginn barst Tinnu Rut beiðni
gegnum vinkonu sína að taka þátt í
klukkustundarlangri heimildamynd
í sjónvarpsseríunni Wonderlist 2015
sem er ferða- og samfélagsgreining-
arþáttur sem tekinn er upp út um
allan heim, þar sem „samsettar fjöl-
skyldur“ eru í brennidepli.
Tinna Rut og Hallur samþykktu
að vera með en saman eiga þau tvö
börn og Hallur önnur tvö úr fyrri
samböndum. Sex manna tökulið
fylgdi þeim eftir yfir daginn og tóku
nýgiftu hjónin í viðtal daginn eftir.
Verður ómetanlegt að eiga
upptökuna
„Þetta gekk allt saman mjög vel,“ segir
Tinna. „Ég hef oft hugsað um stóra
daginn, hvernig það yrði þegar ég
gifti mig. Ég hlakkaði mest til þess
að heyra brúðarmarsinn og einnig að
ganga inn kirkjugólfið með pabba.
Ég ætlaði mér aldeilis að sjá svipinn
á Halli þegar hurðin opnaðist, en
þar sem dóttir mín, sem átti að vera
brúðarmær, var ekki tilbúin í þetta
og bara grét og vildi koma til mín,
stressaðist ég svolítið upp og náði því
ekki alveg. Alla athöfnina horfði ég
aðallega á Hall, trúði varla að þetta
væri að gerast – hann var að verða
maðurinn minn og það var ansi góð
tilfinning,“ segir Tinna.
Tinna segist ekki hafa hugsað
mikið um allar myndavélarnar sem
þó fylgdu henni allan daginn. „Ég
hafði um svo margt annað að hugsa
í kirkjunni. Það var aðeins erfiðara
meðan ég var að taka mig til en ég
var bara ég sjálf. Þeir mynduðu meira
að segja þegar ég var að gefa Emmu
brjóst, í brúðarkjólnum.
Ég er ekki mikið fyrir athygli en mér
þótti þetta spennandi og skemmti-
legt. Það verður gaman að sjá þetta
og okkur á eftir að þykja ómetanlegt
að fá að eiga upptökurnar og góðar
myndir frá þeim.
Hrifnir af öllu saman
Í viðtalinu að brúðkaupi loknu voru
auk Tinnu Rutar og Halls, börnin
þeirra auk barna Halls sem og önnur
barnsmóðir hans. Þau segja að það
hafi komið þáttastjórnendum í opna
skjöldu hversu samskiptin eru góð.
„Þeir voru mjög hrifnir af öllu
saman, þótti umhverfið dásamlegt
og umgjörðin á brúðkaupinu einn-
ig. Það var mikil gleði í athöfninni,
ég og dóttir mín sungum til Tinnu,
pabbi hennar söng útgöngulagið og
strákarnir sem ég þjálfa í Fjölni stóðu
heiðursvörð. Þetta var allt einstak-
lega vel heppnað. Þeim þótti einnig
mjög athyglisvert að önnur barns-
móðir mín sé góð vinkona okkar og
spurðu mikið út í það sem og fjöl-
skyldutengslin almennt,“ segir Hallur.
KBS
Austfirskt brúðkaup á CNN
Ljósmyndari CNN fangar gleðiríkt augnablik.