Nesfréttir - 01.03.2022, Side 16

Nesfréttir - 01.03.2022, Side 16
16 Nesfrétt ir Einn óvenjubjartan morgun í mars sit ég við vinnuborðið með rjúkandi kaffibolla og renni augunum sifjulega yfir tölvupóstinn. Skyndilega segir einhver nálægt mér út í loftið, alvöruþrunginni röddu: Það er önnur lægð á leiðinni. Dauðaþögn ríkir á skrifstofunni. Kaffið kólnar í bollunum. Svona hefur þetta verið síðustu vikurnar. Veðrið er greinilega langleitt á því að vera ekki helsta umræðuefni Íslendinga og hefur heldur betur minnt á sig. Hér hafa farið um hyldjúpar lægðir með stormviðri og snjó, hver á eftir annarri, svo við höfum varla haft tíma til að vinda úr vatnssósa yfirhöfnum og djammgöllum áður en skollið er á annað óveður, enn kræfara en það síðasta. Þetta finnst mörgum eðlilega leiðinlegt og þreytandi til lengdar, sérstaklega ef færðin er slæm og fjölskyldubíllinn fastur inni í hnausþykkum klakabing. En í storminum býr líka hreinsandi kraftur. Frumafl sem oft hefur orðið skáldum yrkisefni. Þekktasta dæmið úr íslenskum bókmenntum er líklega kvæðið „Stormur“ eftir Hannes Hafstein. Þar segir meðal annars: ... þegar þú sigrandi‘ um foldina fer, þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér. Ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir, ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir. Storminum fylgir nefnilega ekki bara eyðilegging og glundroði, heldur kraftmikil umbreyting og endurnýjun. Fátt beintengir okkur við náttúruna með sama hætti og þegar óumflýjanlegt illvirði skekur húsin okkar svo rúðurnar svigna og rafmagnslínur slitna. Sjáðu mig! segir stormurinn. Sjáðu hvað ég get gert! Í skáldsögunni Kafka on the Shore segir Haruki Murakami að þegar þú kemur út úr storminum verður þú ekki sama manneskjan og sú sem gekk inn í hann. Það er það sem þessi stormur snýst um. Munum því þegar næsta lægð skríður upp að landinu að stormurinn er millibilsástand. Ekki bara veður heldur umbreytingarafl og þegar honum slotar er heimurinn að einhverju leyti nýr og annar og það er gott. Nema þú hafir fengið trampólín nágrannans inn um eldhúsgluggann. TRYGGVI STEINN STURLUSON Bókavörður á Bókasafni Seltjarnarness BÓKAÐ MÁL StormurPÚTT, LEIKHÚS OG GAMAN SAMAN Góð þátttaka hefur verið í allri dagskrá félags og tómstundastarfsins undanfarnar vikur þ.e.a.s. eftir að fjöldatakmarkanir voru rýmkaðar og er það von okkar allra að nú sé takmörkunum lokið. Á undanförnum vikum höfum við spilað félagsvist, bingó og sungið í hverri viku. Öll námskeiðin hafa verið í gangi ásamt jóga og allri hreyfingu sem í boði er í dagskránni. Nýja púttaðstaðan á Austurströnd 5, er frábær aðstaða sem okkur í félagsstarfinu stendur til boða að nýta og eigum við fastan tíma þar alla þriðjudagsmorgna kl. 10.30. Allir mjög ánægðir, mátulega mikil keppni í gangi, alltaf góður kaffisopi í boði og notarleg stemming. Góður rómur var gerður að leikhúsferðinni á sýninguna Er ég mamma mín í Borgarleikhúsinu 3. mars síðastliðin. Verið er að skipuleggja aðra leikhúsferð, sem auglýst verður bráðlega. Miðvikudagskvöldið 16. mars var svo komið því að hafa gaman saman í salnum á Skólabrautinni. Fólk almennt komið í þörf fyrir að lyfta sér aðeins upp. Allir mættir uppábúnir með hatta og fínerí og skemmtu sér og öðrum með góðum sögum og vísnasöng. Góðar veitingar og frábærir skemmtikraftar sem sungu og sprelluðu og gerðu kvöldið skemmtilegt. LIONS, HÓTEL HOLT OG PÁSKAEGGJABINGÓ Þriðjudaginn 22. mars verður Lionsklúbbur Seltjarnarness með félagsvist í salnum á Skólabraut kl. 19.00. Þetta er árviss viðburður sem haldist hefur í áraraðir að Lions bjóði í eldri borgurum í félagsvist. Hvetjum fólk til að fjölmenna og njóta. Þriðjudaginn 5. apríl nk. verður farið í bæjarferð. Nú er ferðinni heitið á Hótel Holt þar sem tekið verður á móti hópnum með leiðsögn, kynningu og listagöngu um staðinn. Heimsókninni lýkur með kaffiveitingum á hótelinu. Farið verður með rútu frá Skólabraut kl. 13.30. Verð kr. 3.500. Skráningarblöð liggja frammi á Skólabraut og Eiðismýri. Einnig má skrá sig hjá Kristínu í síma 5959147 / 8939800. Þess má geta að þessi ferð var á dagskrá í byrjun mars 2020, en vegna lokana og covid var henni frestað um óák. tíma, en er sem sagt komin á dagskrá aftur nú tveimur árum síðar. Sama má segja um páskaeggjabingóið, það hefur ekki verið haldið í tvö ár vegna sömu ástæðu, en nú er það komið á dagskrá. Páskaeggjabingóið verður haldið í safnaðarheimili kirkjunnar mánudagskvöldið 11. apríl kl. 19.30 og eru allir velkomnir. HEILSUEFLING OG AÐALFUNDUR FÉLAGS ELDRI BORGA Nýr hópur í heilsueflingarátakinu Janus heilsuefling 65+ fór af stað nú um áramót. Almenn ánægja er með þetta frábæra verkefni sem hefur náð til mjög margra. Æft er undir stjórn þjálfara sem gerir æfingaplan fyrir hvern og einn og vel er fylgst með þátttakendum. Aðalfundur félags eldri borgara verður haldinn í salnum á Skólabraut 3-5 þriðjudaginn 5. apríl 2022 kl. 17.00. Dagskrá skv. lögum félagsins. Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara verður sérstakur gestur fundarins og heldur erindi um starfsemi sambandsins. Umræður og kaffi. FÉLAGS- OG TÓMSTUNDASTARF ELDRI BÆJARBÚA

x

Nesfréttir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Nesfréttir
https://timarit.is/publication/1112

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.