Feykir


Feykir - 12.01.2022, Blaðsíða 9

Feykir - 12.01.2022, Blaðsíða 9
Fjársjóður í fólki ÁSKORANDAPENNINN | palli@feykir.is Þegar Hulda Jónasar, Króksari og vinkona mín, sendi mér áskorandapennann þá hugsaði ég: „Já ég er Skagfirðingur, ekki bara Króksari“. Ræturnar liggja nefnilega víða um Skagafjörðinn. Ég var svo heppin að vera í sveit bæði í Neðra-Ási hjá föðurfjölskyldunni og á Þrastarstöðum hjá móðursystur minni og hennar fólki. Þar gekk lífið út á heyskap, fanga fiðrildi, veiða síli og fara í berjamó og svo að hafa gaman og hlæja heil ósköp. Í Neðra-Ási var svo farið á frjálsíþróttaæfingar niður við Hjaltadalsá, stórir sem smáir. Þá má ekki gleyma Róðhóli í Sléttuhlíð þar sem amma og afi bjuggu. Fátt er jafn fallegt og að horfa á sólarlagið við Málmey. Svo er það auðvitað Krókurinn með öllum ævintýrum æskunnar. Sjórinn og fjaran heillaði sem og Nafirnar og „Heita vatnið“. Veiðidellan greip mig svo hastarlega að ég steingleymdi einu sinni að mæta til að passa hana Guðrúnu frænku mína, enda var ég líklega ekki nema u.þ.b. 11 ára, en þá hafði ég gleymt mér með veiðistöngina niðri í fjöru. Allt þetta og svo miklu meira raðast í minningabankann og tengir mann sterkum böndum við heimahagana og fólkið sem maður hefur átt samleið með. Kannski var ég ekki áreiðanlegasta barnapían í bænum, en ég fékkst samt við ýmislegt á unga aldri á Króknum, mest við verslunarstörf. Að vera ráðin sem bensíntittur á Ábæ, þrettán ára, var mikil upphefð. Það var mikið líf og fjör á Ábæ enda lá rúnturinn þar í kring; nánast eins og félagsmiðstöð. Ég mætti á mína fyrstu vakt klukkan fjögur á erilsömum föstudegi. Planið fullt af bílum. Eiki Hilmis var að klára vaktina sína og sagði mér að dæla á vörubíl KS. Nú var úr vöndu að ráða; hvort átti ég nú að velja steinolíu eða dísel? Dælurnar voru hlið við hlið. Ég skaut á steinolíuna og byrjaði að dæla. Var örugglega búin að dæla 40-50 lítrum þegar bílstjórinn, Einar á Veðramóti, gekk til mín og sá hvað var í gangi. Hann leiðrétti mig vingjarnlega og sagði að reyndar hafi hann ætlað að láta setja dísel á bílinn, en þetta væri allt í lagi. Það væri nefnilega sett smá steinolía á veturna. Og ég slapp með skrekkinn. Seinna lærði ég allt um smurolíur og bremsuvökva, að mæla frostlög, fylla á gaskúta o.fl. Ingimar hafði gott lag á okkur krökkunum; okkur var treyst og fengum skýra starfslýsingu, hvenær átti að þurrka úr hillum, þvo planið, fylla á vörur o.s.frv. Þegar árin færast yfir áttar maður sig betur á þeim fjársjóði sem býr í samferðafólkinu. Frumbyggjarnir á Hólaveginum þar sem ég var alin upp til dæmis. Fólk sem hjálpaðist að við að byggja húsin sín, fór á kvenfélagsböll og þorrablót saman. Á síðustu æviárum foreldra minna var dýrmætt að upplifa alla þá umhyggju sem þetta fólk sýndi hvert öðru, og ekki síst foreldrum mínum og okkur systkinunum. Ekki eru síður dýrmætar mínar kæru æskuvinkonur af Króknum, árgangur 1963. Við höfum nokkrar verið í saumaklúbb í Reykjavík frá árinu 1995 og þar hafa myndast sterk bönd okkar á milli og við Skagafjörðinn. Það er reyndar efni í sér pistil. Ekki gleyma því góða fólki sem flyst á Krókinn og eflir bæði atvinnu- og mannlífið. Ný-Skagfirðingum, sem hafa komið með kraft og ferska sýn inn í samfélagið. Í starfi mínu hjá Íslandsstofu átti ég frábært samstarf við tvo snillinga við að kynna Skagafjörðinn og Landsmótið 2016, sem haldið var á Hólum, úti í Herning í Danmörku. Þetta voru þau Áskell Heiðar, sem enn stendur vaktina á Króknum með miklum glæsibrag, og Laufey, sem nú hefur flutt til Kóngsins Kaupmannahafnar. Við buðum upp á skagfirska stemningu, bökuðum pönnukökur ofan í gesti og gangandi og stóðum fyrir lifandi tónlist og söng. Við Laufey áttum áfram gott samstarf eftir ævintýrið í Herning við að kynna fisk og fiskafurðir í útlöndum. Það er því vel við hæfi að senda áskorandapennann til Kaupmannahafnar þar sem hún Laufey Kristín Skúladóttir býr nú og starfar. Guðný Káradóttir brottfluttur Skagfirðingur Guðný Kára. MYND AÐSEND FYRIRTÆKI Á NORÐURLANDI VESTRA Í FREMSTU RÖÐ! Við erum stolt af því að vera í hópi framúrskarandi fyrirtækja á Norðurlandi vestra samkvæmt útnefningu Creditinfo. 2021 Blönduósi www.isgel.is S: 451-2727 Kæli - hita gelpokar 02/2022 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.