Læknablaðið : fylgirit - 26.09.2014, Side 5
6 LÆKNAblaðið 2014/100
V . V Í S I N D A Þ I N G G E Ð L Æ K N A F É L A G S Í S L A N D S 2 0 1 4
F Y L G I R I T 8 0
1. ADHD-teymi Landspítala. Úttekt á starfseminni
fyrstu 18 mánuðina
Halldóra Ólafsdóttir
Geðsviði Landspítala
Inngangur: ADHD-teymi Landspítalans var stofnað þann 22.01.2013
sem tilraunaverkefni innan geðsviðs Landspítala með sérstakri fjár-
veitingu frá velferðarráðuneytinu. Tilgangur með stofnun teymisins
var að stuðla að markvissari greiningum og meðferð fullorðinna með
ADHD á Íslandi og vera opinberum stofnunum til ráðgjafar varðandi
þennan málaflokk.
Markmið: Markmið þess verkefnis sem hér er kynnt er að meta þörfina
fyrir starfsemi af þessu tagi og þarfir þeirra sem vísað er til greiningar.
Fjallað er um uppruna tilvísana, fjölda þeirra og dreifingu yfir tímabilið.
Gerð er lýsandi úttekt á þeim hópi sem teymið hefur fjallað um, bæði
þeim sem fengu ADHD-greiningu og hinum sem ekki fengu hana. Lýst
er kynskiptingu og aldursdreifingu, undirflokkum ADHD-greininga og
hliðargreiningum, sem og greiningum þeirra sem ekki reyndust með
ADHD. Hluti þeirra sem greinast með ADHD fær lyfjameðferð við
ADHD hjá læknum teymisins. Lýst er lengd meðferðar og tegundum
lyfja. Einng er fjallað um hlutverk ADHD-teymisins í samskiptum
við heilbrigðisyfirvöld og opinberar stofnanir. Að lokum lýst fáeinum
sjúkratilvikum.
Niðurstöður: Fjöldi tilvísana og fjöldi þeirra sem greinst hafa bendir
til þess að ríkuleg þörf sé fyrir starfsemina. Heilbrigðisyfirvöld þurfa á
næstunni að meta hvort starfsemi ADHD-teymisins eigi rétt á sér og ef
svo hvort staðsetja eigi innan Landspítala.
Ályktun: Móta þarf stefnu varðandi ADHD-greiningar og meðferð hér á
landi og tryggja aðgengi og samfellu í þjónstunni.
2. Notkun heilarita til greiningar á ADHD hjá fullorðnum
Halla Helgadóttir taugasálfræðingur1, Páll Magnússon2
1Mentis Cura, 2Geðsviði Landspítala
Talið er að allt að 5% fólks á fullorðinsaldri falli undir skilgreiningar á at-
hyglisbresti með/án ofvirkni (ADHD). Í dag er þessi taugaþroskaröskun
greind með hefðbundnum klínískum aðferðum, greiningarviðtölum,
matskvörðum og þroska-, félags- og sjúkrasögu. Rannsóknir sýna að
röskunina megi rekja til lífeðlisfræðilegra þátta. Markmið verkefnisins
er að þróa lífeðlisfræðilega aðferð til greiningar ADHD hjá fullorðnum
og að fylgjast með áhrifum lyfjameðferðar.
Hvatinn að þessu verkefni er stofnun teymis á Geðsviði Landspítala
til að greina ADHD hjá fullorðnum. Teymið hefur hannað greiningarferli
fyrir ADHD sem er í samræmi við verklagsreglur landlæknis. Staðlaðar
greiningaraðferðir af þessu tagi skapa ný tækifæri til þess að stunda
rannsóknir samhliða greiningar- og meðferðarvinnu. Mentis Cura er
rannsóknar- og þróunarfyrirtæki sem hefur þróað aðferðir til að greina
sjúkdóma í miðtaugakerfinu með heilariti. Rannsóknir Mentis Cura í
samvinnu við BUGL hafa sýnt að heilarit getur greint á milli barna sem
greinst hafa með ADHD og viðmiðunarhóps með 84% nákvæmni. Ef
svipaðar niðurstöður fást þegar heilarit fullorðinna eru skoðuð mætti
þróa aðferð við að mæla þá lífeðlisfræðilegu þætti sem einkenna ADHD
hjá fullorðnum og gera þá tækni aðgengilega læknum og öðrum grein-
ingaraðilum. Slík greiningaraðferð er ekki til í dag og því um nýjung að
ræða sem gæti bætt hlutlægum þætti inn í greiningarferlið og þar með
bætt greininguna. ADHD-teymið og Mentis Cura hafa nú hafið söfnun
heilarita í gagnagrunn til greiningar á ADHD hjá fullorðnum og kynna
fyrstu niðurstöður á þinginu. Verkefnið var styrkt af Vísindasjóði LSH.
3. Sjúkraskrár á 21. öldinni
Hjalti Már Björnsson
Bráðasviði Landspítala
Starfsumhverfi lækna hefur breyst hratt á undanförnum árum.
Sjúklingar hafa fengið aukið aðgengi að sjúkraskrám og rafræn skráning
læknis í rauntíma er orðin möguleg. Einnig hefur „neytendavitund“
sjúklinga farið vaxandi, þeir gera auknar kröfur um gæði þjónustunnar
og skráningu hennar.
Þegar sjúklingar eru ósáttir við þjónustu læknis hefur það
einnig orðið algengara að þeir leiti réttar síns í gegnum hefðbundið
kvörtunarferli eða réttarkerfi, en einnig að þjónusta heilbrigðiskerfisins
sé rædd í fjölmiðlum eða opinskátt á samfélagsmiðlum.
4. Læknir í meira en 40 ár „Hvað er svo merkilegt við það?“
Tómas Zoëga
Geðsviði Landspítala
Töluverður tími líður frá læknaprófi þar til sérfræðiviðurkenning er
fengin. Ýmsir atburðir gerast á þeirri leið.
Gerð verður tilraun til þess að lýsa geðlækningum í rúman aldar-
þriðjung.
Læknapólitík er á köflum mjög hörð og óvægin, hið sama má segja
um átök við spítalastjórn. Fjallað verður stuttlega um sjónarhorn undir-
ritaðs.
Framtíðin er óræð, en er að verulegu leyti í okkar höndum.
5. Geðlyfjanotkun karla og kvenna á árunum 2004-2013 með
samanburði við bólgueyðandi lyf (NSAID) og magalyf (PPI og H2
blokkar)
Bjarni Sigurðsson1, Sigurður Páll Pálsson2, Magnús Jóhannsson1
1Háskóla Íslands, rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, 2Geðsviði Landspítala
Bakgrunnur: Kynjamunur í tíðni geðgreininga, sérstaklega með tilliti til
lyndisraskana, er vel þekktur en geðlyfjanotkun eftir kyni hefur verið
minna rannsökuð.
Markmið: Að kanna hvort kynjamunur reynist í notkun geðlyfja í heild
en einnig með tilliti til aldurs og undirlyfjaflokka og bera saman við
notkun á magalyfjum og bólgueyðandi lyfjum.
Niðurstöður: Fengin voru gögn úr lyfjagagnagrunni landlæknis á
tímabilinu 2004-2013. Fjöldi einstaklinga sem notaði geðlyf, þar með
talið svefn- og róandi lyf, fór úr 20,7% þjóðarinnar í 23,4% á tímabilinu.
Hlutfall kvenna á móti körlum (F/M) var 1,50 árið 2004 og 1,48 árið 2013.
Til samanburðar var hlutfall kynja í magalyfjanotkun 1,32 á tímabilinu
ÚTDRÆTTIR ERINDA