Læknablaðið : fylgirit - 26.09.2014, Page 11
V . V Í S I N D A Þ I N G G E Ð L Æ K N A F É L A G S Í S L A N D S 2 0 1 4
F Y L G I R I T 8 0
12 LÆKNAblaðið 2014/100
25. Raförvun við alvarlegri þráhyggju-árátturöskun
Magnús Haraldsson1, Hjálmar Bjartmarz2,3
Geðsviði Landspítalans1, Taugaskurðlækningadeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð2,
Taugaskurðlækningadeild Landspítala3
Þráhyggju-árátturöskun er algeng og oft langvinn geðröskun sem leitt
getur til verulegrar skerðingar á starfsgetu og lífsgæðum. Einkenni
lýsa sér fyrst og fremst með óþægilegum kvíðavaldandi þráhyggju-
hugsunum og tímafrekum og hamlandi áráttum. Gagnreynd meðferð er
annars vegar með lyfjum sem hafa áhrif á serótónínboðefni heilans og
hins vegar ákveðnu afbrigði hugrænnar atferlismeðferðar sem nefnist
berskjöldun með svarhömlun. Þörf er á bættum meðferðarúrræðum þar
sem allt að helmingur einstaklinga svarar meðferð lítið eða ekki.
Í erindi þessu er lýst sjúkratilfelli konu sem árum saman hefur glímt
við alvarlega þráhyggju-árátturöskun sem valdið hefur gríðarlegri
skerðingu á lífsgæðum hennar. Í nokkur ár hefur verið reynd meðferð
með fjölda lyfja og einnig sálfræðimeðferð en með litlum sem engum
árangri. Því var ákveðið að reyna raförvun djúpt í heila (deep brain
stimulation) sem er meðferð sem beitt hefur verið í tilfellum alvarlegrar
þráhyggju-áráttu. Fór hún í aðgerð hjá sérhæfðum taugaskurðlækni sem
framkvæmdi þrívíddarísetningu rafskauta í svæfingu. Aðgerðin var
gerð á Landspítala í júlí 2014 og er þetta í fyrsta skipti sem slík aðgerð er
framkvæmd við geðsjúkdómi hér á landi. Í erindinu verður fjallað um
meðferð þráhyggju-árátturöskunar og sérstaklega fjallað um raförvun
þar sem aðgerðinni og meðferðinni er lýst í máli og myndum.
26. Notkun methýlfenídats í æð meðal íslenskra vímuefnaneytenda
Guðrún Dóra Bjarnadóttir1,2, Andrés Magnússon1,2, Bjarni Össurarson Rafnar1,2,
Engilbert Sigurðsson1,2, Steinn Steingrímsson2,3, Helena Bragadóttir1, Magnús
Jóhannsson2, Magnús Haraldsson1,2
1Geðsviði Landspítala, 2Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 3Sahlgrenska sjúkrahúsinu
Gautaborg
Inngangur: Notkun metýlfenídats (MPH) á Íslandi og víða erlendis
hefur aukist mikið undanfarin ár. Klínísk reynsla bendir til að samhliða
þessari aukningu hafa innlagnir og afeitranir vegna misnotkunar MPH
aukist.
Markmið: Að lýsa misnotkun MPH í æð hjá íslenskum vímuefnaneyt-
endum. Að skoða tíðni, umfang og einkenni neyslunnar, til dæmis hvort
ákveðin MPH efni eru frekar misnotuð en önnur og þá afhverju og er
mismunur á vímunni á meðal MPH efnanna.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er þversniðsrannsókn og er notast
við hálfstaðlað viðtal. Sprautunotendum, sem höfðu sprautað sig í æð
með einhverju vímuefni síðastliðna 30 daga og voru í meðferð var boðin
þátttaka. Gagnasöfnun stóð yfir í eitt ár og alls tóku 108 einstaklingar
þátt.
Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að misnotkun MPH í æð er verulegt
vandamál á Íslandi, eða 88% af þýðinu notaði MPH í æð undanfarna 30
daga. Sprautunotendur kusu og völdu MPH fram yfir önnur efni og er í
auknum mæli efni sem sprautunotendur nota í fyrsta skipti. Flestir kjósa
að nota Rítalín Uno® (79%) en fæstir Concerta® (3%).
Ályktanir: Neysla MPH er vaxandi vandamál á Íslandi og er orðið eitt
aðalefni sem misnotað er á Íslandi. Af MPH lyfjunum er Rítalín Uno®
það sem sprautunotendur kjósa að nota. Með aukinni notkun MPH er
þekking á misnotkun MPH bæði nauðsynleg fyrir Ísland sem og önnur
lönd.