Feykir - 15.02.2023, Page 7
Nú er aðeins vika í fyrsta keppniskvöld
Meistaradeildar KS og áfram haldið
með kynningar liðanna sem taka þátt
hér í Feyki. Byrjað verður þann 22.
febrúar á gæðingalist, sem áður
kallaðist gæðingafimi, en þar eru sýndir
vel þjálfaðir gæðingar á listrænan hátt,
þar sem öll þjálfunarstigin eru sýnd.
Í reglum LH segir að knapi flétti saman
gangtegundum og æfingum og sýni í einni
heild, jafnvægi, þjálni, kraft og fimi
hestsins. „Nú er Gæðingalist orðin
keppnisgrein undir regluverki LH líkt og
hver önnur keppnisgrein og ljóst að keppni
í Gæðingalist er að fara vel af stað,“ segir í
frétt á lhhestar.is. Hér fyrir neðan eru lið
Íbishóls og Storm Rider.
Íbishóll
Fimmta liðið sem kynnt er til leiks er
sigurliðið frá árinu 2021, lið Íbishóls,
en það endaði 2. sætinu í fyrra með 385
stig. Fátt er reynslunni fróðara, segir
gamalt máltæki og á það vel við
liðsstjóra þessa liðs, Magnús Braga
Magnússon, hrossaræktanda á Íbishóli
á Langholti.
Með honum er sonur hans Guðmar
Freyr Magnússon nemandi á þriðja ári
við Háskólann á Hólum, en hann var
kjörinn knapi ársins 2022 hjá
hestamannafélaginu Skagfirðingi og árið
áður efnilegasti knapi ársins 2021 af
valnefnd Landssambands hestamanna.
Það eru engir aukvisar sem skipa önnur
sæti liðsins því þar eru einnig Védís Huld
Sigurðardóttir, þjálfari á Sunnuhvoli í
Ölfusi, Freyja Amble Gísladóttir, þjálfari
JF hesta, og ný inn í deildina kemur Árný
Oddbjörg Oddsdóttir, reiðkennari frá
Háskólanum á Hólum.
Storm Rider
Næsta lið sem kynnt er til leiks í
Meistaradeild KS þennan veturinn er
Storm Rider. Liðið er feiknasterkt og
hafnaði í 4. sæti eftir síðasta keppnis-
tímabil með 332 stig. Foringi liðsins er
Elvar Einarsson á Skörðugili en hann er
útskrifaður tamningamaður og
reiðkennari frá Hólaskóla. Þá má geta
þess svona til upplýsinga að hann er
einnig formaður hestamannafélagsins
Skagfirðings.
Með Elvari er Bjarni Jónasson, þjálfari
á Staðarhofi, hinu nýja í Staðarhreppi
hinum forna, og Weierholz í Sviss,
margreyndur keppnismaður og sýnandi.
Þá er sonur Bjarna, Finnbogi, einnig í
liðinu, útskrifaður reiðkennari frá
Háskólanum á Hólum og þjálfari á
Staðarhofi, Arndís Björk Brynjólfsdóttir
reiðkennari á hestabraut FNV og Ásdís
Ósk Elvarsdóttir nemandi á þriðja ári við
Háskólann á Hólum en hún hefur sýnt
það frá unga aldri að vera meðal bestu
knapa hverrar keppni sem hún tekur þátt
í. Stendur hún þétt við bakið á
liðsstjóranum sem er einmitt faðir
hennar.
Keppni í Meistaradeild KS í
hestaíþróttum hefst á gæðingalist þann
22. febrúar nk. í reiðhöllinni Svaðastaðir
á Sauðárkróki, þar sem allar keppnir
fara fram. Fjórgangur fer fram 8. mars;
fimmgangur 17. mars; slaktaumatölt 5.
apríl; 150m og gæðingaskeið
sumardaginn fyrsta 20. apríl og
lokakvöldið er svo 28. apríl þegar keppt
verður í tölti og flugskeiði. /PF
Meistaradeild KS í hestaíþróttum
Spennan magnast
Á Hólmagrundinni á Króknum býr
Jóna Katrín Eyjólfsdóttir ásamt
kærastanum sínum, Fannari Kára
Birgissyni, og eiga þau saman
tveggja ára dóttur, Valdísi Björgu, og
hundinn Mjölni.
Mjölnir er skemmtileg blanda
með ríkjandi Terrier gen en þeir voru
upphaflega ræktaðir til að veiða
meindýr. Flestir voru notaðir til veiða
á rottum, músum og öðrum
nagdýrum en aðrir í að veiða refi,
kanínur, minka og önnur stærri dýr.
Við veiðarnar grafa þeir sig niður í
jörðina og skríða inni í
neðanjarðarholum og göngum við
leit að bráð. Terrier hundar eru mjög
orkumiklir, fjörugir, aðlögunarhæfir
og útsjónasamir og elska að vera í
miklum hasar. Þeir henta almennt vel
á virkum heimilum því þeir þurfa
mikla hreyfingu og athygli og ef þeir
fá það ekki gætu þeir snúið hegðun
sinni í að eyðileggja hitt og þetta með
að grafa upp garða sér til skemmtunar,
naga það sem má ekki naga og jafnvel
gelta óspart til að ná athygli. Margar
undirtegundir eru til af Terrier
tegundinni og er hver og ein einstök á
sinn hátt. Feyki langaði til að kynnast
Mjölni aðeins betur og sendi Jónu
nokkrar spurningar.
Hvernig eignaðist þú Mjölni? Við
fengum hann árið 2018 úr
Borgarfirðinum. Sem er reynar mjög
fyndin saga því ég frétti af þessum
tilvonandi hvolpakaupum út af
óvæntu símtali við kvöldmatarborðið
einn daginn. Fannar svarar þá í
símann og segir ,,heyrðu já ég var að
pæla í einum hvolpi” og á þeim
tímapunkti vissi ég ekkert en var fljót
að samþykkja það.
Hvað er skemmtilegast við Mjölni?
Hann er algjört kúrudýr sem vill helst
liggja ofan á manni. Algjör frekjurófa
sem heimtar bæði klapp og nammi
og er mjög barngóður.
Hvað er erfiðast? Það hvað hann
getur verið afskaplega sjálfstæður.
Það hafa sjálfsagt flestir bæjarbúar
séð hann draga okkur (mig og
Fannar) um bæinn. Svo getur verið
einstaklega erfitt fyrir bæði hann og
okkur þegar það fer tík að lóða í
nálægt heimilinu okkur því þá fer
hann að spangóla og þá er nú eins
gott að hann sleppi ekki frá okkur.
Ertu með einhverja sniðuga eða
merkilega sögu af Mjölni? Við förum
oft í sumarbústaðinn hjá mömmu og
pabba (Ingibjörg Axelsdóttir og
Eyjólfur Sveinsson) með hann og þar
hefur hann gert mörg prakkarastrik.
Eitt sinn var mamma að græja
lambafille sem átti að fara á grillið.
Hún labbaði frá kjötinu í nokkar sek.
og þá var Mjölnir ekki lengi að grípa
tækifærið og nældi sér í eitt fille og át
það með bestu list. Þar fór dýr biti í
hundskjaft!
Jóna Katrín, Valdís Björg, Fannar Kári og Mjölnir. AÐSEND MYND
Hefur gert mörg
prakkarastrik
ÉG OG GÆLUDÝRIÐ | siggag@nyprent.is
Jóna Katrín og hundurinn Mjölnir
07/2023 7