Margt smátt - 01.08.2024, Blaðsíða 4

Margt smátt - 01.08.2024, Blaðsíða 4
4 Fréttabréf Hjálparstarfs kirkjunnar mars / 2024 „Nú þarf að klára málið með því að öll börn og ungmenni fái að stunda sinn skóla án þess að fjölskyldur þeirra þurfi að bera af því kostnað,“ segir Vilborg og vísar til þess að fjölskyldur 16 til 18 ára barna bera kostnað sem réttmætt má telja að væri greiddur eins og í tilfelli yngri barna. Sérstaklega er þetta mikilvægt þar sem þessi aldurshópur krefst ýmiss kostnaðar sem fellur ekki til hjá fyrr á ævinni og öll eru þau ekki svo heppin að komast í uppgrip í sumarvinnu. Þá er brottfall úr skóla áhyggjuefni sem mikið er rætt og aðgerð sem þessi getur unnið gegn því að ungmenni flosni upp úr skóla, að mati Vilborgar og vísar til reynslu sinnar í viðtölum við fjölskyldufólk í störfum sínum sem félagsráðgjafi um langt árabil. Um 300 börn fengu aðstoð í fyrra Þegar grunnskólinn var að byrja haustið 2022 leituðu 160 fjölskyldur með yfir 300 börn til Hjálparstarfsins. Aldrei hafa jafn margir sótt um aðstoð til Hjálparstarfsins vegna skólabyrjunar en til samanburðar sótti 81 fjölskylda yfir 200 barna um sambærilega aðstoð haustið 2021. Aðstæður haustið 2022 voru sérstakar vegna stríðsins sem þá var nýhafið í Úkraínu og flóttamenn þaðan þurftu stuðning. Það vekur því athygli að þrátt fyrir að aðstæður hafi verið sérstakar 2022 þá voru börnin sem fengu aðstoð í fyrrahaust litlu færri. „Það er hópur einstaklinga sem á ekki fyrir skólatösku, útifötum og öðru slíku sem þarf þegar skólinn er að byrja. Þetta sjáum við skýrt en aðsókn eftir aðstoð til að kosta tómstundir barna og unglinga hefur líka verið að aukast og fyrir því liggja ýmsar ástæður. Þegar haustið kemur þá eru allir búnir með frístundastyrkinn sinn. Þá gerist það oft að krakkar hætta í íþrótta- eða tómstundastarfi, allt þar til það kemur nýr frístundastyrkur. Þess vegna erum við að safna fjármagni til að hjálpa fólki til að greiða haustgjöldin,“ segir Vilborg sem gaf dæmi í útvarpsviðtali á Rúv í fyrrahaust en komið hefur fram að í tilfellum meira en þúsund barna í Reykjavík er frístundakort þeirra nýtt til að greiða fyrir Frístundaheimili og í tilfelli 150 barna er frístundastyrkur þeirra notaður til að greiða fyrir íslenskukennslu. Krakkar heltast úr lestinni „Það sem ég er að sjá er að börnin byrja í janúar í íþrótta- eða tómstundastarfi en um leið og það fara að koma keppnisferðir þá heltast krakkarnir úr lestinni – segja að þetta sé ömurlegt að vera t.d. í fótbolta og nota það sem afsökun fyrir því að hætta, í stað þess að segja að það séu ekki til peningar á heimilinu og þau komist ekki með. Ég veit að það eru félög sem eru með félagslega styrki en kynna það ekki nægilega vel fyrir foreldrum, sem mörgum finnst erfitt að fara þess á leit að fá slíka styrki eða niðurfellingu á gjöldum. Svo eru það sumarferðirnar. Það kom til mín faðir með fjögur börn; þrír í fótbolta og einn í handbolta. Hann spurði: „Hvernig á ég að fara að þessu. Einn er að fara til Svíþjóðar, einn norður á Akureyri og sá þriðji til Vestmannaeyja. Ég þarf að taka lán fyrir þessu. Kostnaðurinn hleypur á hundruðum þúsunda.“ Öll börn þurfa að hafa vissa hluti hjá sér þegar skólastarf hefst. Afar mikilvægt er að öll börn standi jafnfætis jafnöldrum sínum á þessum mikilvæga tíma í lífi okkar allra. Stundum þarf svo lítið til. Áföll sem í margra augum eru smávægileg geta haft alvarlegar afleiðingar á þessum viðkvæma tíma í lífi hvers barns. Þess vegna er afar mikilvægt að lágmarka hættuna á því að börnin sjái skólann í neikvæðu ljósi í upphafi skólagöngu. Það getur haft mikil áhrif síðar á ævinni.

x

Margt smátt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Margt smátt
https://timarit.is/publication/1939

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.