Margt smátt - 01.08.2024, Page 13

Margt smátt - 01.08.2024, Page 13
13 „Við vorum öll veikburða og í áfalli yfir stöðu okkar. Við vorum matarlaus. Áttum ekki föt til skiptanna og því síður peninga til að kaupa nauðsynjar. Ég bað ferðafélaga okkar um aðstoð við að halda á móður minni þar sem hún var örmagna. Enginn gat hjálpað okkur,“ segir Ibrahim en fjölskyldan náði loksins til bæjarins Metema í Amharafylki í Eþíópíu sem liggur nærri landamærum landsins við Súdan, en þaðan er aðeins um einn og hálfur kílómetri til súdanska bæjarins Gallabar. Þar hverfist mannlífið um lítið annað en fólkið sem flýr borgarastyrjöldina. Súdanir eru margir í þeim hópi en þangað koma einnig Eþíópar sem nú snúa heim á flótta undan stríðsvélunum – en höfðu áður flúið af sömu ástæðum þegar stríðsherrar bárust á banaspjótum í heimalandinu Eþíópíu, sem nú, þó öfugsnúið sé, er þeirra eina skjól. Kumer flóttamannabúðirnar í Eþíópíu eru nú samastaður Ibrahim og fjölskyldu hans ásamt þúsundum annarra flóttamanna. Búðirnar voru settar upp um miðjan júní í fyrra eða stuttu áður en fjölskyldan kom þangað. Þar hafast við hátt um tíu þúsund flóttamenn en fjölmargir aðrir dvelja þar og bíða þess að vera vísað annað. Í Kumer flóttamannabúðunum er skortur á öllu sem nafni tjáir að nefna, að því er Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur greint frá. Þröngur kostur í flóttamannabúðum Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, sem samhæfir aðgerðir kirkjutengdra hjálparstofnana um heim allan, sendu í júní 2023 út neyðarbeiðni til aðildarsamtaka um fjármagn til hjálparstarfs í Súdan og í nágrannaríkjum, þar með talið í Eþíópíu. Hjálparstarf kirkjunnar sendi í því ljósi 16,5 milljónir króna til Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu sem aðstoðar flóttafólk frá Súdan. Áætlað er að veita 18.000 manns aðstoð, meðal annars með matargjöfum, reiðufé og bættu aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu. Sérstaklega verður hugað að því að vernda konur og börn sem eru útsett fyrir ofbeldi sem flóttafólk. Framlagi Hjálparstarfsins er einmitt varið til uppbyggingar í Kumer flóttamannabúðunum þar sem Ibrahim og fjölskylda hans dvelur nú. Það hefur ekki gengið vandræðalaust að koma einstökum verkefnum á koppinn og fyrir því liggja ýmsar ástæður. Samstarfsaðilar Hjálparstarfsins einbeita sér nú að því að koma á fót hreinlætisaðstöðu fyrir þær þúsundir sem þar hafast við. Vart þarf að ítreka mikilvægi þessa en ýmsir sjúkdómar geta náð bólfestu þar sem hreinlæti er ábótavant. Fjárhagslegur stuðningur er jafnframt nauðsynlegur. Áður en stríðið braust út unnu Ibrahim og fjölskylda hans fyrir sér með smákaupmennsku. Þau höfðu efni á helstu nauðsynjum án stuðnings en líf þeirra hefur nú gjörbreyst. Fjölskyldan er að öllu leyti öðrum háð. Ekkert öryggi „ Lífið í Kumer flóttamannabúðunum er afar erfitt,“ segir Ibrahim. „Hér er öryggið ekkert, fólki er rænt, við fáum ekki nægan mat eða hreint vatn auk þess sem hreinlæti er mjög ábótavant. Hér er heldur engin heilsugæsla og allir eiga við fjárhagsvanda að stríða. Það er erfitt að kaupa nauðsynjar því allt sem við þurfum er rándýrt. Ef ekki væri fyrir fjárhagsaðstoð frá hjálparsamtökum þá myndum við líða algjöran skort, og útilokað að kaupa mat og lífsnauðsynleg lyf.“ Milljónir á vergangi Hörð átök milli súdanska stjórnarhersins (SAF) og sveita uppreisnarhersins Rapid Support Forces (RSF) hafa nú varað í Súdan í á annað ár. Átökin eiga rætur sínar að rekja til valdabaráttu tveggja hershöfðingja sem stóðu sameiginlega að valdaráni í landinu árið 2019 þegar fyrrverandi forseta landsins var steypt af stóli en hann hafði þá setið í embætti í tæpa þrjá áratugi. Herstjórn hershöfðingjanna tveggja tók við en spenna þeirra á milli hafði farið stigvaxandi þar sem þeir deildu um innleiðingu nýs stjórnarfars í landinu og aðlögun RSF sveitanna að stjórnarhernum. Frá því átökin hófust þann 15. apríl 2023 er talið að hátt í 20.000 hafi fallið í átökunum og tugir þúsunda hafi særst. Þó skal tekið fram að tala fallinna og særðra er mjög reiki. Vitað er til að rúmlega sjö milljónir íbúa hafi neyðst til að yfirgefa heimkynni sín og eru á vergangi innan landamæra Súdan en 2,1 milljónir manna hafa flúið til nágrannaríkja; Mið-Afríkulýðveldisins, Chad, Egyptalands, Suður-Súdan og Eþíópíu. Allt þetta fólk er í brýnni þörf fyrir aðstoð hvort sem það hefst að hjá ættingjum innanlands eða í yfirfullum flóttamannabúðum í nágrannaríkjum. Hér þarf að hafa hugfast að áður en átökin hófust voru þrjár milljónir Súdana flóttamenn í eigin landi vegna átaka í landinu á fyrri tíð.

x

Margt smátt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Margt smátt
https://timarit.is/publication/1939

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.