Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1988, Page 69

Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1988, Page 69
RÆÐA FLUTT 30. NÓVEMBER 1985 69 „Þjóðarbókhlöðunni er . . . ætlað að verða einn af hornsteinum menningarinnar í landinu, þar sem sérstaklega sé hlynnt að þeim, sem vísindastörf leysa af hendi. Vissulega njóta Reykvíkingar Þjóðar- bókhlöðunnar meira en aðrir landsmenn. En þau fræðistörf, sem þar verða iðkuð, eru óumdeilanlega eign vor allra og andlegt forðabúr og fræðauppspretta, sem vér öll, hvar sem bústaður vor er, getum ausið af, og því snertir hagur þeirra og aðbúð oss öll.“ Steindór lýkur grein sinni með þessum orðum: „Þjóðarbókhlaða vor er að rísa af grunni. Þar verða fjársjóðir vorir geymdir um ókomin ár. Þangað munu menn af öllum stéttum sækja sér fróðleik og menntun. Þar sitja prófessorinn og fróðleiksfús alþýðumaður hlið við hlið, lesa og leita. Þar inni er kyrrð og friður frá skarkala borgarinnar. Þar er og verður menning vor geymd. Því ber oss að fagna af alhug, að sú framkvæmd er hafin.“ Ég hóf mál mitt á því að vitna til norska skáldsins Eyvindar skáldaspillis, en frá honum segir enn í síðasta kapítula Haralds sögu gráfeldar, er lýst hefur verið hallæri miklu, er varð í Noregi um daga Gunnhildarsona „og var því meira sem þeir höfðu lengr verit yfir landi“. „Eyvindr orti,“ segir Snorri, „drápu um alla íslendinga, en þeir launuðu svá, at hverr bóndi gaf honum skattpenning. Sá stóð þrjá penninga silfrs vegna ok hvítr í skor. En er silfrit kom fram á alþingi, þá réðu menn þat af at fá smiða til at skíra silfrit. Síðan var görr af feldardálkr [þ.e. eins konar næla höfð í feld], en þar af var greitt smíðarkaupit. Þá stóð dálkrinn fimm tigu marka. Hann sendu þeir Eyvindi, en Eyvindr lét höggva í sundr dálkinn ok keypti sér bú með.“ Þótt saga þessi sé um sumt nokkuð ótrúleg, er andi hennar góður, því að hún sannar, að íslendingar kunnu að meta skáldið og sýndu það í verki. Eigum við ekki að vona, að þessi gamli andi leynist enn með alþingi íslendinga og senn fari að rætast úr málum Þjóðarbókhlöðu. Og eigum við ekki jafnframt öll að rísa úr sætum og árna Bókavarðafélagi íslands heilla, um leið og við minnumst með þakklæti 25 ára starfs þess að málefnum íslénzkra bókasafna og bókavarða.

x

Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur
https://timarit.is/publication/280

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.