Lesbók Morgunblaðsins - 13.07.1996, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 13.07.1996, Blaðsíða 3
1,1'SIÍOK MOIH.l Mil AI)SI\S ~ MEMMING/LISTIR 26. TÖLUBIAÐ — 71. ÁRGANGUR EFNI GUÐMUNDUR BÖÐVARSSON Strandir eru heiilandi iandsvæði og hugsa margir landsmenn gott til þess að komast þangað í gönguferðir í sumarleyfinu. Meðal áhugaverðra staða þar er Reykjarfjörður, sem afmarkast af Geirólfsnúp og Hánesi og er nokkurn veginn miðja vegu frá Trékyllisvík og nyrst á Hornstrandir. Um sumarleyfi í Reykjarfirði skrifar Tómas Einarsson, kunnur ferðagarpur. Klassísk tónlist er alls staðar, í útvarpi, lyftum, veitingahúsum og á hótelum. Þrátt fyrir það eiga stóru útgáfurnar í vandræðum vegna samdráttar. Árni Matthíasson ræddi við þýska útgefandann Klaus Hey- mann sem hefur lagt sitt af mörkum til að hnekkja veldi risanna með fyrirtæki sínu Naxos, sem státar af því að selja geisladiska á lægra verði en flestir aðrir. Forsíðan Myndin er innan úr Hnitbjörgum, Lista- sadFni Einars Jónssonar, sem er eitt af þeim húsum sem danskir arkitektar völdu til sýningar á úrvali úr íslenzkri bygging- arlist, sem fram fór í Árósum 1994. Nú er sýningin komin í Tjarnarsal Ráðhússins og er forvitnilegt að sjá hvernig fagmenn líta íslenzka húsagerð með gests augum. Greinina skrifar Gísli Sigurðsson og birtar eru myndir á bls 8-10 af nokkrum þeirra húsa sem Danirnir völdu. Ljósmynd á forsíðu: Golli. Hildigunnur Rúnarsdóttir tónskáld verður í brenni- depli á Sumartónleikum í Skálholtskirkju um helgina en sönghópurinn Hljómeyki mun þá frumflylja eftir hana nýtt kór- verk, Þrjá Daviðssálma. Jafnframt verða flutt eldri verk eftir Hildigunni, auk þess sem Hljómeyki, sem kemur nú fram á Sumartónleikum tíunda árið í röð, flytur verk eftir Bach, Britten Og Mendelsohn á síðari laugardagstónleikunum og syng- ur við messu á morgun. ÍVOR / nótt urðu allar grundir grænar í dalnum, því gróðursins drottinn kom sunnan af hafi og hafði um langvegu sótt. Og fljótið stauk boganum blítt yfir fiðlustrenginn og bláar dúnmjúkar skúrir liðu yfir engin í nótt. Ó, böm, mælti jörðin, á svifi í sumarsins skýjum, nú fer sólin að skína, ó, munið að vera ekki deilu- og drottnunargjörn. Hver kenndi yður, smávinir, misskipting mömmunnar gjafa og að metast til dauða um þvern blett minna landa og hafa? ó, börn! Þann draum hef ég elskað að varðveita böm mín og blómstur í blessun og friði, stutt augnablik þeirra við eilífðarhafsins straum með jafn-háum rétti til vaxtar í vorinu bjarta, frá vöggu til moldar ég gaf hverju óspilltu hjarta þann draum. Svo góð er sú móðir hins skammvinna lífs er vér lifum í Ijósi og skugga. í perludúk gróðursins þerrar hún barnanna blóð ógæfusömust af öllum himinsins stjörnum, en aldrei var samt nokkur móðir jafn frávita börnum svo góð. í dag strauk hún enn yfir enni mitt blæmjúkri hendi, í ástúð og trega, og rödd hennar var eins og hljóðlátt og huggandi lag: Vertu rólegur, drengur minn, dagur og nótt skulu mætast, því draumar þíns hjarta í nótt, ð, þeir skulu rætast í dag. Þetta Ijóð eftir Guðmund Böðvarsson, skáld og bónda á Kirkjubóli í Hvítársíðu, birtist i síðustu Lesbók, en aðeins að hluta. Ekki var ætlunin að birta brot úr Ijóðinu eins og stundum er gert, heldur féll síðari hluti þess niður fyrir mistök sem lesendur eru beðnir velvirðingar á. TVÖ KJÖRTÍMABIL AÐ HÁMARKI RABB Oft hefur það hvarflað að mér í gegnum árin, hvort það væri eðlileg tilhögun í okkar litla landi, að kjörinn forseti ís- lands geti setið á forsetastól eins lengi og honum/henni sýnist. Ég hef hug- leitt, hvort ekki væri skynsamlegt, að lög- gjafinn tæki sér fyrir hendur að breyta lög- um um forsetaembættið, til dæmis í þá veru, að enginn geti setið á forsetastól leng- ur en tvö kjörtímabil. Þannig hafa til að mynda Bandaríkja- menn það með forsetaembætti Bandaríkj- anna, sem er jú valdamesta embætti verald- ar, en ekki „valdalaus tignarstaða" eins og svo margir hafa gjarnan kosið að skilgreina forsetaembættið hér á landi. Ég minnist þess fyrir 16 árum, að ég hugleiddi, að það væri nú tími til kominn, að ég fengi að velja mér forseta í fyrsta sinn, en þá var ég 27 ára gömul og hafði haft kosningarétt í rúm sjö ár. Ekki var það svo, að ég hefði neitt yfir- gengilegan áhuga á forsetakjörinu, en mér fannst þó tímabært að fá að neyta atkvæð- isréttar míns í slíku kjöri og lagði á mig allnokkurt ferðalag í Bayern i Suður-Þýska- landi til að geta kosið hjá íslenska konsúln- um í Miinchen. Það var kannski ekki síst fyrir þá sök, að 12 árum áður, þegar þeir Kristján Eldjárn og Gunnar Thoroddsen tókust á í harðri kosningabaráttu, fylgdist ég með þeirri baráttu af miklum áhuga. Ég dvaldist sumarlangt í uppsveitum Borgarfjarðar þetta kosningasumar 1968, og mér verður ávallt minnisstæð nóttin, þegar úrslitin í kjörinu lágu fyrir. Það kvöld var eitt af þessum makalaust skemmtilegu sveitaböllum h^ldið í Hreðavatnsskála í Norðurárdal og þangað var ég mætt ásamt stöllum mínum, þótt engin okkar hefði bein- línis aldur til - aldurstakmarkið var sextán ár, en það skorti svo lítið upp á, að við komumst upp með ballveruna. Miklar og heitar umræður voru um for- setakjörið þetta fallega kvöld í Borgarfirði og þar eins og á landsvísu, virtust fleiri vera á bandi Kristjáns. Þegar svo úrslitin voru tilkynnt brutust út heilmikil fagnað- arlæti og ég var i hópi þeirra sem fögnuðu. í minningunni er það svo, að ég tel líkleg- ustu skýringuna á fögnuði fimmtán ára unglingsins vera þá, að ég hafði þá um vorið farið með það veganesti að heiman, að „við styddum Kristján". Fögnuður minn stóð þó ekki lengi, því ég var stödd á miðju dansgólfi Hreðavatns- skálans gamla (sem nú stendur ekki leng- ur) o g hafði nýlokið nokkuð innilegum dansi við ungan svein. Hann reiddist svo stór- sigri Kristjáns og fögnuði mínum, að hann rak mér einn á lúðurinn, rétt si svona, snér- ist svo á hæl og strunsaði á brott. Var þar skjótur endir bundinn á skammvinn, en nokkuð hlýleg kynni! Þótt Kristján sæti síðan á forsetastól í þrjú kjörtímabil, eðatil ársins 1980, þá hugleiddi ég ekki mikið á þessum tíma, að það væri of löng seta, enda óvíst að svo hafi verið. Kristján var heldur ekki í sviðsljósi fjöl- miðla sí og æ, enda návígi fjölmiðla við embættið ekki orðið það sem það er nú og hefur verið undanfarin ár. Það var sam- kvæmt mínu jminni, fremur fátítt, að Krist- ján kæmi opinberlega fram, flytti ræður og ávörp í nafni embættis forseta íslands, opnaði sýningar og svo framvegis. Einna helst minnist ég hans í hlutverki forseta í árlegu ávarpi hans til þjóðarinnar á nýárs- dag. Annars man ég hann í fjölmiðlum, miklu fremur í tengslum við fræðimennsku hans, fornleifafræðina. Ástæða þess að ég hef hugleitt þessi mál oftar síðustu ár, en ég gerði áður, er ugglaust sú, að þjóðfélagið hefur tekið geysilegum breytingum, þau sextán ár sem frú Vigdís hefur setið á forsetastól. Segja má, að hún taki við embætti, þegar hér er að eiga sér stað ákveðin fjölmiðlabylting, þar sem návígi fjölmiðla við umfjöllunarefni sitt, hvort sem um stjórnmálamenn, emb- ættismenn eða viðskiptalífsmenn ræddi, jókst svo, að við stökkbreytingu en ekki stigbreytingu má líkja. Frú Vigdís, var einnig áhugaverðara fjölmiðlaefni, bæði fyrir innlenda fjölmiðla og erlenda, en aðrir forsetar lýðveldisins höfðu verið, einfaldlega fyrir þær sakir, að hún var kona og sú fyrsta í heiminum, sem kjörin hafði verið þjóðhöfðingi i lýðræðisleg- um kosningum. En öllu má ofgera. Við höfum nú mátt hlýða á efnislega sömu ræðuna hjá frú Vigdísi, við svo fjölmörg tækifæri í sextán ár, að vart hefur nokkur tölu þar á. Inntak- ið í ræðu forsetans hefur verið, að hún hafi eftir mætti stuðlað að ræktun lands og lýðs. Hún hafi leitast við að treysta tengsl forsetaembættisins við íslenska þjóð og láta gott af því leiða á sem flestum sviðum þjóð- lífsins. Hún hafi hafi reynt að hlú að dýr- mætum arfi okkar, íslenskri tungu og menningu og hvatt unga sem aldna til þess að horfa björtum augum fram á veg. Enginn, hvorki forseti né annar, getur staðist nærgöngult og rýnið auga fjölmiðla, í svo langan tíma, án þess að sýna ákveðin merki endurtekningar og þreytu. Það sem hljómaði áður ferskt og nýtt í máli Vigdís- ar, hefur fyrir sakir endurtekningarinnar, misst sína innri dýpt og merkingu. Það er orðið sjálfsagt mál, þegar fráfarandi for- seti tekur til máls á opinberum vettvangi, að inntak ræðunnar fjalli um ræktun lands og þjóðar, varðveislu menningararfleifðar okkar og tungu. Ef marka má innihald þeirra tveggja tækifærisræðna sem nýkjörinn forseti, Ólaf- ur Ragnar Grímsson hefur flutt frá því hann var kjörinn, þá mun hann ekki flytja margar slíkar, áður en þjóðin verður farin að óska þess, að hann finni sér eitthvert annað viðfangsefni. í fyrri ræðu sinnij aðf- ararnótt sunnudagsins 30. júní sagði Ólafur Ragnar m.a.: „Það er með hrærðum hug sem við Guðrún Katrín komum hér aftur til ykkar í kvöld....Þessi sigur er ekki að- eins okkar hjónanna, hann er ykkar og þjóð- arinnar allrar.“ Hvers eiga þau 60% þjóðar- innar sem ekki kusu Ólaf Ragnar að gjalda, að hann skuli halda því fram að kosninga- sigur hans, skuli hafa verið sigur „þjóðar- innar allrar“? Og ekki var mærðin minni í seinni ræðu hins nýkjörna forseta, sem hann flutti af svölum heimilis síns tæpum sólarhring síðar þegar hann sagði m.a.: „Þetta hefur verið dýrðlegur dagur, sólin heilsaði okkur í morgun og ég var þakklát- ur fyrir það tákn sem mér fannst hún gefa sjálfum mér og vonandi þjóðinni allri.“ Forseta, er samkvæmt íslensku stjórn- arskránni, ekki ætlað pólitískt hlutverk. Hann/hún á ekki að hafa skoðanir á þjóð- málum, þar sem taumur annars er dreginn, þá náttúrlega gegn hinum. Hann/hún á einfaldlega að vera hafinn yfir dægurþras. Þannig er forsetanum ærið þröngt stakkur sniðinn, að því er varðar umræðuefni í opin- berum ræðum. Af því leiðir, að forseti íslands ætti í raun og veru að vera mjög vandfýsinn í vali sínu á því við hvaða tilefni hann/hún kemur opinberlega fram og veitir viðtöl og flytur ræður eða ávörp. Þannig gétur for- seti stuðlað að því, að hann/hún haldi leng- ur ferskri og jafnvel frumlegri ímynd í hugum landsmanna. Það væri ofurmannlegt að rísa undir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra sem í sviðsljósi fjölmiðlanna standa áratugum saman, án þess að missa í einhveiju það fríska yfirbragð sem viðkomandi ættu að státa af, við upphaf ferils síns. Því tel ég að það gæti verið lausn fyrir alla, bæði forsetann og þjóðina, að einfaldlega yrði kveðið á um það í lögum, að forseti geti aðeins setið í tvö kjörtímabil. AGNES BRAGADÓTTIR. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 13. JÚLÍ 1996 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.