Morgunblaðið - 06.12.2002, Blaðsíða 3

Morgunblaðið - 06.12.2002, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. DESEMBER 2002 B 3 við yngstu kynslóðina með endur- sögðum og myndskreyttum útgáfum af Íslendingasögunum er hætt við að meginþorri þjóðarinnar glati með tímanum tengslum við sögurnar.“ Sumir halda því fram að endur- sagðar útgáfur minnki áhuga barna og unglinga á því að lesa lengri útgáfurnar. „Þvert á móti held ég að þessi innsýn í sögurnar auki áhuga yngstu kynslóðarinnar á að lesa lengri útgáfurnar. Ég get nefnt að Bretar hafa langa reynslu af því að endursegja miðaldabókmennt- ir, t.d. frásagnir af Artúri konungi. Þeir líta ekki á þessar sögur eins og guðspjöllin, eins og mér hefur stundum fundist bregða við gagn- vart Íslendingasögunum á Ís- landi, og reynslan hefur sýnt að þessar nýju útgáfur hafa haldið sögunum lifandi kynslóð fram af kynslóð,“ segir hún og játar því að hafa áhuga á að fleiri end- ursagnir af Íslendingasögunum verði gefnar út. „Ég þykist vita að bæði Brynhildur og Sigþrúður Gunnarsdóttir, barnabókaritstjóri Máls og menningar, eru sama sinnis. Forsendan fyrir því hlýtur þó alltaf að vera að þessi fyrsta saga hljóti hljómgrunn meðal þjóðarinnar.“ Skemmtilegast að fletta gömlum albúmum „Hérna er líka verið að taka af vissan hátíðleika,“ segir Margrét og er komin með nýja bók í hendurnar. Kápan er tvílit, neðri hlutinn rauður og efri hlutinn hvítur. Framarlega á rauða hlutanum horfist bjartleitur hnokki í augu við lesandur. Aftar heldur spekingslegur ungur maður með lonníettur á penna í hægri hendi. Upp úr skilunum hægra meg- in á myndfletinum gýtur svo Halldór Laxness á fullorðinsárum augunum á titilinn fyrir ofan, „Skrýtnastur er maður sjálfur“. „Við skemmtum okkur rosalega vel við að hanna kápuna,“ segir Mar- grét brosleit. „Já, reyndar fannst mér alveg sérstaklega gaman að allri vinnunni í kringum útlit þessarar bókar. Fjölskyldunni fannst líka skemmtilegt að við frænkurnar og barnabörn Halldórs Laxness værum að vinna að bókinni saman. Vinna mín fólst í því að ég tók við textanum af Auði og velti því upp hvaða leiðir væru hugsanlegar við uppsetn- inguna, t.d. átti ég hugmyndina að því að stuttu textarnir væru í öðrum lit og utan um myndirnar væri hvítur rammi rétt eins og verið væri að fletta í gegnum gamalt myndaalbúm. Skemmtilegasti hlutinn var einmitt að fletta í gegnum gömul myndaal- búm til að velja myndirnar. Ég og Sigþrúður völdum myndirnar með Auði og lögðum áherslu á að birta frekar nýjar en þekktari myndir af Halldóri á ýmsum æviskeiðum. Þess vegna eru frekar fáar uppstilltar myndir af honum í bókinni. Þó voru nokkrar myndirnar teknar við hátíðleg tækifæri, t.d. birtum við myndir af því þegar hann tek- ur við Nóbelsverðlaununum úr hendi Gústafs Adolfs Svíakon- ungs, þeim Auði við verðlaunaaf- hendinguna og honum á tali við Jóhannes Pál páfa af því að krökkum finnst svo gaman að kóngafólki og öðru fyrirfólki.“ „Afi þinn er kommúnisti“ Komst þú eitthvað að texta- vinnunni? „Nei, nei, ég passaði mig á því að vera ekkert að skipta mér af textanum. Ég veit að Auður bar hann undir nokkra ættingja okkar og fannst algjör óþarfi að allir væru með puttana í hennar verki. Annars finnst mér henni hafa tekist afskaplega vel upp í bókinni, bæði við að lýsa Halldóri sem barni og sem afa og tíð- arandanum hverju sinni. Hann upp- lifði náttúrlega ótrúlegar breytingar því að hann lifði nánast alla 20. öld- ina,“ segir Margrét og bætir við að eflaust eigi ekki bara börn heldur líka fullorðnir aðdáendur Halldór Laxness eftir að hafa gaman af bók- inni. „Þess vegna er alveg kjörið að fullorðnir lesi bókina með börnum sínum.“ Margrét segir að frænkurnar hafi örugglega upplifað Halldór afa sinn á ólíkan máta. „Auður átti örugglega í nánara sambandi við hann en ég. Hún átti heima í nágrenninu og um- gekkst hann töluvert, því að þegar hún var lítil stelpa var hann sestur í helgan stein og var meira heima við. Ekki má heldur gleyma því að á þeim tíma var liðið að lokum kalda stríðs- ins og Halldór því ekki eins umdeild- ur og þegar ég var stelpa á sjöunda áratugnum. Ég man að oftar en einu sinni var kallað á eftir mér: „Afi þinn er kommúnisti“ og fleira í svipuðum dúr. Á þessum tíma var mikið um að vera hjá honum. Hann var sífellt í út- löndum, á fundum og ráðstefnum. Við systkinin vorum yfirleitt dubbuð upp til að fara í jólaboð og þvíumlíkt upp að Gljúfrasteini og stundum fór- um við uppeftir til að fara í sundlaug- ina á sumrin.“ „… skautaði yfir pólitíkina“ Þú sagðir áðan að hann hefði ekki verið neinn sei, sei-afi. Hvað áttirðu við með því? „Jú,“ segir Margrét. „Hann var ekkert mikið fyrir að klappa mann eða kjassa. Þótt hann væri hlýr var hann alltaf í dálítilli fjarlægð. Við litum upp til hans og þótti alltaf gaman að koma í heim- sókn. Þegar ég varð eldri fór mér líka að þykja gaman hvað oft var mikið af merkilegu fólki hjá honum, t.d. Svavar Guðnason og fleira merk- isfólk. Þá lagði ég við hlustir og mátti ekki missa af einu einasta orði.“ Fórstu snemma að lesa sögurnar hans? „Ef mig misminnir ekki var ég 12 eða 13 ára þegar ég las Sölku Völku. Ég las reyndar bara ástar- söguna, skautaði algjörlega yfir póli- tíkina, staðráðin í að láta hana ekki eyðileggja neitt fyrir mér. Eftir Sölku las ég hverja skáldsöguna á eftir annarri og var að ég held búin með flestar um tvítugt. Eins og gengur brann ýmislegt á mér eftir lesturinn. Ég lagði samt aldrei í að ræða sögurnar við afa heldur leitaði til pabba (Einars Lax- ness sagnfræðings). Hann var alltaf tilbúinn til að tala við okkur um verk afa og reyndar voru þau talsvert til umræðu inni á heimilinu.“ Datt þér einhvern tíma sjálfri í hug að verða rithöfundur. „Nei, ég ákvað snemma að verða ekki rithöf- undur. Samanburðurinn væri ein- faldlega alltof erfiður. Enda þótt ég hafi haft sérstaka ánægju af því að vinna við barnabækur í gegnum tíð- ina hef ég nánast alfarið haldið mig við myndrænu hliðina, þ.e. ef frá er talin myndabókin Orðabusl þar sem textinn er reyndar afar takmarkað- ur,“ segir Margrét og er spurð að því hvort einhver spennandi verkefni bíði hennar á næstunni. „Já, í byrjun næsta árs bíður mín stórt verkefni í einkalífinu,“ segir hún og strýkur hlýlega yfir kviðinn. „Á myndskreytingarsviðinu er ekkert ákveðið sem ég get sagt frá núna. Tíminn verður bara að leiða í ljós hvaða verkefni verða að veru- leika. Ég á rosalega erfitt með að segja nei þegar leitað er til mín vegna myndskreytinga, jafnvel þó að ég hafi oft lítinn tíma aflögu. Hver bók er skemmtileg ögrun og heltek- ur mig meðan á vinnunni stendur, t.d. sat ég tíma í Njálu hjá Jóni Böðv- arssyni á meðan ég vann að mynd- skreytingunum í Njálu í vetur. Þótt lítið fari fyrir umfjöllun um hönnun og myndskreytingar í jólabókaflóð- inu kitlar óneitanlega líka svolítið hégómagirndina að líta yfir bóka- staflana í bókabúðum eins og Máls og menningar og eiga jafnmikið í tveimur bókum fyrir jólin og ég núna.“ ago@mbl.is Morgunblaðið/Kristinn Ein af myndum Margrétar í Njálu sýnir konur hella mysu á eldinn á Bergþórshvoli. Ef ekki er komið til móts við ungu kynslóðina með endursögðum og myndskreyttum útgáfum af Ís- lendingasögunum er hætt við að meginþorri þjóðarinnar glati með tímanum tengslum við sögurnar DAGLEGT LÍF

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.