Lesbók Morgunblaðsins - 05.01.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 05.01.2002, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. JANÚAR 2002 5 leik lífi. Það er svo einskonar bónus eða auka- geta að sú veröld sem hann dregur upp í stóru sem smáu er horfin, þurrkuð út, ekki bara af því að fólkið er gengið um garð heldur af því að lifnaðarhættirnir hafa máðst burtu ennþá gagngerar en órað var fyrir jafnvel á skrifandi stundu og lýsingin öðlast þar með einstakt þjóðhátta- og þjóðfræðagildi til viðbótar við list- og skemmtigildi. Ef Í Suðursveit væri kennd í skólum og við gerðum ráð fyrir því að nemendur myndu tileinka sér hana, hefðu þeir innsýn í veruleika sem íslenskt mál og hugar- heimur eru að stórum hluta sprottin úr. Suð- ursveitarbálkurinn væri þá önnur Edda Þór- bergs Þórðarsonar, ekki sú Edda sem hann kallaði svo og hafði að geyma ljóð hans með skýringum á tilefni þeirra og tilurð, heldur Edda í merkingu Snorra Sturlusonar sem gerði sér grein fyrir því að hve miklu leyti ís- lenskt skáldamál væri sprottið úr jarðvegi heiðninnar sem þá var óðum að sópast burt og tók sér fyrir hendur að framkalla þessa veröld sem var á skinn svo síðari tíma menn gætu haldið lifandi sambandi við uppruna sinn. Það sem gerir lýsingu Þórbergs óviðjafnan- lega er hæfileiki hans til að persónugera alla skapaða hluti. Allt lifnar fyrir sjónum hans: vasahnífur, lampi, rúmfótur, hvað þá dýrin sem fá um sig langa palladóma og sálarlífslýsingar. Hér kemur líka til sú list Þórbergs að blanda saman stóru og smáu, háu og lágu og upphefja skilin þar á milli og stundum hefur verið haft um þetta tískuorð úr bókmenntafræðunum og kallað karnevalismi í ætt við kjötkveðjuhátíð miðalda sem iðkaði endaskipti á hlutunum. Gott dæmi er kaflinn um kamarinn sem að sjálfsögðu fær vandlega úttekt og sálarlíf kam- arsins útmálað. En að lokum játar Þórbergur: „Ég var ekki mikill kamarmaður. Ég man ekki til ég færi þangað oftar en einu sinni. Mér fannst lífshættulegt að húka yfir gatinu því að það var nokkuð vítt og hátt niður og svo var lyktin ekki viðfelldin því að hlemmur var þarna enginn yfir. Minn kamar var með grænmáluðu gólfi og blámáluðu lofti yfir. Mér var samt ekki illa við kamarinn. Ég vor- kenndi honum þegar dimmt var á kvöldin. Mér fannst hann svo mikill einstæðingur. Mér fannst hann hlyti að vera myrkhræddur að norpa þarna aleinn svona langt frá hinum hús- unum sem hjúfruðu sig hvert upp að öðru hlið við hlið eins og hjónafólk. En svo komu önnur kvöld sem voru öðruvísi. Það var þegar tunglið skein úr austri. Þá stóð kamarþilið í björtum ljóma og út um rúðuna lagði hvítan glampa eins og einhverjar dular- verur hefðu kveikt ljós þar inni. Þá var gaman að líta út í baðstofugluggann eða standa hjá einhverjum úti á stéttinni og horfa á þetta fal- lega skáldverk sem alltaf skín fyrir innri aug- um mínum þegar ég heyri nefnda Tunglsskins- sónötu eftir Beethoven“.4 IV Frá húsakynnum og innbyggjurum þeirra heldur Þórbergur út undir bert loft og þaðan smátt og smátt út í ómælisvíðáttur rúmsins: fjöllin hverfa upp í himininn og hafið tekur eng- an endi. Aðferð barnsins til að ná haldi í þessu ómæli er mælingin. Bergur á Hala er snemma haldinn þessari óviðráðanlegu ástríðu að mæla allt: lengdir, breiddir, hæð og dýpt, fjarlægðir og miða út áttir. Agndofa horfir fólkið á þetta við- undur stika og klofa um tún og garða og það er bara tvennt til: annað hvort er hann kjáni eða ofviti. Þessi viðbrögð umheimsins áttu eftir að fylgja honum æ síðan, mælingartól hans vöktu furðu, aðhlátur, tortryggni. En hér virðist um hvöt að ræða ættaða úr einhverju alveg frum- lægu í eðli mannsins, hins fyrsta manns, land- námsmannsins. Þörfin að staðsetja sig í gím- aldi veraldarinnar, koma einhverju sköpulagi á óskapnaðinn, komast í lifandi samband við náttúruna. Einar Pálsson hefur sýnt fram á hve forfeður okkar skipuðu hvers konar mæl- ingum og útreikningum háan sess og heilu sið- menningarnar í árdaga risu á stærðfræði og mælingum. Hinn tækjavæddi borgarbúi hefur gleymt þessu eða beint því í annan farveg. Kannski stöðugt ráp á milli útvarps- og sjón- varpsrása, flakk á netinu og farsímafitl komi að einhverju leyti í staðinn. Þórbergur aftur á móti sagði aldrei skilið við þessa mælingarástríðu, hann flutti hana með sér í bæinn og gerði hana að aðalsmerki sér- visku sinnar. Stöðugar hitamælingar, skrefa- mælingar, hæðamælingar og áttavísanir urðu með nokkrum hætti uppistaðan í lífi hans, a.m.k. dagbókarskrifum sem stundum eru lítið annað en dagsetning, veðurlýsing og mæling. Og meira en hálfri öld síðar en Bergur litli á Hala hóf mælingar í Suðursveit sat Þórbergur í flugvél á leið til Kína og hafði kompás spenntan um úlnliðinn og hæðarmæli í kjöltunni. „Það rís gegn einhverju í hugskotsholi mínu“ skrifaði hann, „að ferðast einsog skynlaus skepna sem ekkert mælir og aldrei setur nokkur mið“.5 Í kjölfar mælingarástríðunnar kemur skrif- sýkin: að setja á blað niðurstöður mælinganna. Eini tekjustofn barnsins eru hagalagðar: upp- tíningur sem hann leggur inn í kaupstað á haustin og tekur út penna, blöð og blek. Fljót- lega grípur hann óviðráðanleg ástríða að draga upp kort af landinu – landabréf – og sú bók sem honum er hjartfólgnust á Hala er Alþýðubók Þórarins Böðvarssonar og þar eru það landa- kortin sem taka hug hans fanginn og hann byrjar að herma eftir með sínum frumstæðu tækjum. Seinna áskotnast honum sjókort úr bresku togarastrandi sem opnar honum nýja sýn til landsins með nákvæmum mælikvörðum og áttavísunum. Sveinsstykki Þórbergs unglings er svo Evr- ópukort sem hann dregur upp og litar. Vandinn að Suðursveit átti ekki nema einn lit og hann var blár. Ekki fyrr en honum hugkvæmdist að verða sér úti um rauðan með því að leggja um- búðir utan af exportkaffi í bleyti. Þá var komið rautt og blátt – ólitað gegnir hlutverki hins hvíta. Þetta kort vakti athygli gestkomandi þar sem það hékk uppi á vegg á Hala uns það tætt- ist sundur í ofviðri sem rauf þekjuna og setti allt á tjá og tundur. En það hafði þjónað til- gangi sínum: að vekja skyldulið Þórbergs til umhugsunar um að vettvangur ofvitans væri ekki í Suðursveit heldur ætti hann að leita burt til mennta. „... móðir mín fór að víkja að því að ég þyrfti að komast til mennta. Faðir minn hafði ekkert á móti því. En það var alveg óhugsandi að ég kæmist til mennta. Faðir minn var búinn að láta í burtu eina gullpeninginn sem hann átti til þess að þurfa ekki að forskrifa sig Andskot- anum. Mig langaði ekki heldur til neinna bann- settra mennta. Það var einkennilegt með mig að ég hafði ógeð á menntamönnum. Mér fannst þeir hafa orðið einhvernveginn viðskila við náttúrlega lífið. Ég var alltaf náttúrlegur og vildi alltaf vera á Hala.“ 6 Bernskumenntun Þórbergs var ekki frá- brugðin því sem tíðkaðist á ofanverðri nítjándu öld. Skólaganga var engin en móðir hans kenn- ir honum að lesa og draga til stafs strax á barnsaldri, en þá þegar er hann búinn að læra ókjör af kvæðum og heyra sögur bæði mæltar af munni fram og lesnar upphátt á vökunni. Ís- lendingasögurnar aftur á bak og áfram, guðs- orð og hugvekjur. En það sem auðvitað ræður úrslitum er sú menning sem er samgróin fólkinu og flyst frá einni kynslóð til annarrar. Það er ótrúlegt að virða fyrir sér húsakynnin eins og þau hafa varðveist á ljósmyndum: lágreistar moldar- hrúgur með einhverju spýtnabraki í bland við grjót. Og líf fólksins svo skorið við nögl, býlin svo lítil að aldrei mátti slaka á til að vera rétt- um megin við sultarmörkin. En menntun barnanna felst ekki síst í að herma í leikjum sínum eftir hinum stóra heimi fullorðna fólksins. Í Rökkuróperunni lýsir Þór- bergur kerfisbundið öllum þeim leikjum sem börnin iðkuðu. Leikjaveröld barnanna er heim- ur hinna fullorðnu í smækkaðri mynd. Það er kvikfjárrækt með leggjum og kjúkum, sjávar- útvegur með heimasmíðuðum bátum, styrjald- ir með spýtuköllum. Veröld sem lifnar um leið og kveikt er á kvöldin. Á meðan fullorðna fólkið fleygir sér í rökkrinu bregða börnin á leik í hugarveröld sinni sem þau innrétta úti og inni. Bærinn á Hala er í hverfi með Breiðabólstað og Gerði og þaðan koma krakkar til útileikja sem verða æ flóknari uns þau á endanum eru búin að skapa heilt ríki með þjóðfélagi, framleiðslu, fjármagni, stéttaskiptingu, lögum, refsingum, póstsamgöngum, blaðaútgáfu, stjórnarand- stöðu, uppreisnum... Þórbergur er potturinn og pannan í félagsskapnum og sjálfskipaður landshöfðingi og kemur á óvart í íhaldssömu landsföðurhlutverki með stjórn á myntsláttu, verðlagi, vöruframboði og niðurbælingu á stjórnarandstöðunni. „Ríkið var stórkostlegur gamanleikur sem blés fjöri og spennu í lífið á bæjunum og gerði dagana viðburðaríka og næturnar bjartar af tilhlökkun, og efa ég að önnur meiri kómedía hafi verið leikin hér á landi. En það var ekki eintómt gaman. Ríkið þjálf- aði líka þanka þegnanna á alvarlegri hátt. Það neyddi þá til að hugsa og leggjast stundum djúpt. Það örvaði ímyndunarafl þeirra og skók upp í undirsátunum róttækni í andanum. Það gaf þeim innsýn í klæki peningaþjóðfélags og opnaði fyrir þeim í smáum mælikvarða ýmsa kynlega leyndardóma hinna stærri mannfélaga sem þeir stóðu frammi fyrir seinna á ævinni.“7 En þótt Þórbergur hafi gegnt hinu æðsta embætti í samfélagi barnanna þá brást hann við hart þegar hann stóð andspænis fulltrúa al- vöruþjóðfélagsins þar sem hann birtist honum í mynd „Kversins“ sem hann átti nú að fara að læra til fermingarundirbúnings. Viðbrögð drengsins eru ofboðsleg: „Einn dag á hausti kom lítil bók að Hala. Það var ekki stór bók, en það var vond bók. Hún hefur annaðhvort komið austan af Höfn eða frá Ara Hálfdánarsyni bóksala á Fagurhólsmýri. Ég var staddur í leikjum með krökkum niður við Lónið þegar einhver sagði mér að hún væri komin. Þetta var Helgakver. Það dró svart ský yfir framtíð mína. Ég vissi að nú átti ég að fara að setjast við að læra þessa skruddu orðrétt ut- anbókar. Ég var ekki sérlega duglegur í utan- bókarlærdómi og kveið mikið fyrir að binda mig yfir kverlærdómi. Ég hafði rótgróið ógeð á fermingunni sem Guðný amma mín kallaði konfirmasjón. Mér fannst hún heimskuleg og hræðilega væmin... Þessi kverlærdómur þótti mér svo leiðinlegur að ég finn engin orð í mál- inu til að lýsa þeim ófögnuði... ég fékk klígju hvenær sem ég reyndi að festa augun við þetta...“8 V Hin afkróaða veröld Suðursveitar með öllu sínu fásinni opnaðist í eina átt – suður til hafs- ins. Og á hafinu birtast fyrirburðir komnir alla leið frá Frakklandi; skúturnar. Oft á öllum stigum ritferils síns stakk Þórbergur niður penna til að lýsa hvílíkum tökum þessi sýn greip barnshugann: „Sjórinn er hvítur af logni og himinninn hvelfdist yfir honum fagurheiður og eilítið dimmblár. Þetta var áreiðanlega einmánaðar- himinn. Það var þó ekki hann sem ég góndi á og ekki heldur sjórinn. Það var frönsk skonnorta. Ég man ennþá eftir henni eins og ég sé að horfa á hana núna. Hún var skammt fyrir utan fjör- urnar og hér um bil út af Gerði. Hún snöri framstafninum að landi, og hún var að fiska því að hún hafði aðeins stórseglið uppi. Hún var hvítmáluð og skipshliðin og seglið voru svo mjallahvít, svo skínandi björt, svo yfirnáttúr- lega fögur í kvöldskininu og í hvert sinn sem bárurnar vögguðu þessum undursamlega lík- ama frá sólu, brá fyrir leiftrandi glampa á skipshliðinni og þá var eins og eitthvað vaknaði blíðlega innan í mér sem var hafið yfir alla jarð- neska hluti. Mikil lifandisósköp var þetta fal- legt. Ég mændi á það eins og upphafinn... Þetta er eitt af því fáa í endurminning minni sem ryk tímans hefur aldrei fallið á...“9 Og þessi mynd verður örlagavaldur hans, það er hún sem rýfur hina lokuðu, sjálfnægu Suðursveit og seiðir hann á brott, vekur þrá í brjósti hans sem fær ekki svölun heima. Í þessum punkti mætast þeir samtíðarmenn- irnir Kjarval og Þórbergur því að Kjarval svar- aði einatt aðspurður um frumorsök listsköp- unar sinnar: Skútur á haffleti. Meistari íslensks ritmáls og meistari íslensks myndmáls eiga þessa uppsprettu listar sinnar sameigin- lega. Frönsku skúturnar eru ævintýri fyrir fleiri en Þórberg. Þær eru ekki bara heillandi lista- verk úti á haffletinum. Í augum Suðursveitar tákna þær allsnægtir. Bændurnir róa út í þær og versla. Skipta á vettlingum og matföngum fyrir veiðarfæri, franskt brauð, kökur, vín. Með Frakklandi og Suðursveit takast kynni og að- spurður hvort ekki hefði verið skemmtilegt þegar þeir voru að róa í frönsku duggurnar svaraði mætur bóndi: „Síðan hefur maður aldrei séð glaðan dag.“10 Heimur skútunnar var einskonar æðra svið með lúxus sínum, barómeti og áttavita. Þar veit skipstjórinn ekki með göldrum heldur vísdómi hvaða veður er í vændum og ratar þótt taki fyr- ir skyggni. Þó kemur fyrir að skúturnar stranda og lífvana skipsskrokkarnir breytast í allsnægtaborð: veiðarfæri, afli, verkfæri, mjöl, korn, brauð, vín, segl, málmar, kjörviður, koníak – allt verður þetta eign Suðursveitar og deilist á milli heimilanna. Steinarnir tala hefj- ast einmitt á tvöföldu strandi strandvorið mikla og tilheyrandi auðsæld í matföngum og víni. Og Steinn afi, sem heldur brúðkaupsveisluna frægu þegar foreldrar Þórbergs ganga að eig- ast, flaggar franska fánanum og lætur sér í léttu rúmi liggja þegar fulltrúi danskra yfir- valda gerir athugasemd við að byltingarveifan franska skuli blakta við hún. Og strandaglóparnir blanda geði við íbúana, já blóði. Sérstakt látæði þeirra vekur athygli, óðamála talandi og handapat. Og þegar börnin í leikjum sínum vilja í hetju- og ævintýramóð leysa landfestar heimamálsins – bregða þau fyrir sig frönsku babbli og Frakkland er vett- vangur fjölmargra leikja þeirra. Útlönd eru Frakkland og óvíða hafa frönsk áhrif verið jafnbein á Íslandi og í Suðursveit ofanverðrar nítjándu og öndverðrar tuttugustu aldar. VI Eitt einkennilegasta dæmi um animisma Þórbergs eða hæfileika til að lifa sig inn í dauða hluti er samband hans við steina. Það er engin tilviljun að fyrsta bókin heitir Steinarnir tala og raunar skipa steinar sérkennilega veglegan sess í Suðursveit. Það eru ekki bara örnefnin: Steinafjall, Steinasandur, Steinafjara, Steina- vötn, o.s.frv. – heldur er annar hver maður með stein í nafninu: Steinar, Steinn, Steingrímur, Steinþór, Steinunn, Steingerður – og sjálfur Þór bergur náttúrlega. Þjóðsagan rakti upphaf Steinsnafnsins í Suðursveit til konu sem hafði orðið léttari undir steini og skírði barnið Stein í höfuðið á steininum. En svo hét föðurafi barns- ins víst líka Steinn! Um steina hefur Þórbergi á löngum ferli orð- ið tíðrætt. Alveg frá steinunum í bæjarhellunni sem vöktu hluttekningu hans til steinanna uppi í fjallshlíðinni sem virðast hafa verið ígildi sjón- varps barnanna í dag. Á þessa steina gat hann glápt tímunum saman, skuggana sem lagði af þeim og hvernig þeir breyttust í breytilegu sól- skini. Um þá náttúru sína að sjá líf í hverjum hlut segir hann: „Ég vissi aldrei hvort það var nokkuð skrýtið að mér fannst allir hlutir vera með lífi og ein- hverju viti. Ég vissi ekki hvernig á því stóð að mér fannst þetta. En það var svo náttúrulegt í mér að mér kom aldrei til hugar að brjóta neitt heilann um það. Það kom aldrei annað í þanka minn en að þetta fyndist öllum. Ég heyrði samt engan segja það. Alveg öfugt. Ég heyrði allt kallað dauða náttúru sem ekki þyrfti að éta. Steinarnir, járnið, blikkið, blýið, eirinn, kop- arinn, látúnið, sinkið, böndin og spýturnar, þetta var alltaf kallað dauð náttúra í Suðursveit af því að það þurfti ekki að éta og allt sem búið var til úr þessu var sagt að væri dautt. Grösin og hríslurnar voru einhvers staðar á milli lífs og dauða, kannski aðeins nær lífinu. En það sat fast í mér frá því að ég mundi eftir mér að allt væri lifandi og með vissu viti. Ég þekkti enga ástæðu fyrir því og ég hafði hvergi lesið það og aldrei heyrt aðra lesa um það. Það var eins og þetta væri meðfædd þekking í mér, alveg ómótmælanleg eins og andardrátturinn... Af öllum „dauðum hlutum“ fannst mér stein- arnir vera mest lifandi … “11 Það sem sker úr um aðdráttarafl steinanna er aldur þeirra. Hvað þeir hafa búið lengi á jörðinni og orðið vitni að mörgu og hvað þeir búa yfir miklum fróðleik. Kúnstin að tala við steina er þá fólgin í því að kunna að taka á móti þessari vitneskju allri og lífsreynslu. Það er svo margt í dulhyggju Þórbergs og hún er svo heilsteypt og sjálfri sér samkvæm en samt svo yfirnáttúrleg og óvænt að það kæmi ekki á óvart þótt Þórbergur ætti eftir að verða trúarbragðahöfundur þegar stundir líða fram, að einhver taki sig til og safni þessum trúarjátningum hans í kerfi og hugsjón um líf- ið. Það er ekki einasta að hann trúi á líf sálar- innar að loknu jarðlífi heldur trúir hann að hlutirnir eigi líka sitt andlega líf, hús búa yfir sál, tóttir líka og löngu eftir að þær hafa máðst af yfirborði jarðar er sál þeirra á sveimi. Breiðamerkursandur sem einu sinni var blóm- leg sveit með fjölda bæja en nú eyðimörk, þetta fyrra líf er enn á sveimi á sandinum og bara sljóleiki skilningarvita okkar að nema það ekki. Og skilningarvit mannanna verða æ sljórri eft- ir því sem tækninni fer fram og með útvarps- garginu og vélarskröltinu taldi Þórbergur illa horfa um móttökuskilyrði sálarinnar. Allt er lifandi alltaf, menn, dýr og hlutir eru á sveimi löngu eftir að þau eru ekki lengur og það sem meira er: atburðir. Atburðir halda áfram eftir að þeir gerast. Staðir búa yfir minni og at- burðarásin er alltaf í gangi eins og stöðug út- sending sem þarf rétt móttökutæki til að nema. Hér erum við komin að mikilsverðum punkti í því markmiði sem Þórbergur setur skáld- skap sínum: að varðveita frá gleymsku það Bærinn á Hala árið 1913. F.v. smiðja, stofuhús, baðstofa og fjós. Steinunn, kona Steinþórs, úti á stétt, jurtagarður í forgrunni. Myndin er úr Ljóra sálar minnar í útgáfu Helga M. Sigurðssonar. 

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.