Lesbók Morgunblaðsins - 05.01.2002, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 05.01.2002, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. JANÚAR 2002 13 LISTASÖFN og gallerí Lund- únaborgar munu hýsa óvenju- gott úrval áhugaverðra sýninga næsta árið og því ekki úr vegi fyrir íslenska list- og menningar- unnendur að kíkja á einhverjar þessara sýninga í heimsóknum sínum til borgarinnar. Í janúar ber þar fyrst að nefna yfirlitssýningu á verkum Paul Klee í Hayward Gallerí. Royal Academy of Arts hýsir í sama mánuði París: Höfuðborg listanna 1900–1968. Vart þarf að taka fram að þar er að finna verk listamanna á borð við Picasso, Miro, Leger og Matisse. Í nóv- embermánuði hýsir akademían síðan stórsýninguna Stórveldi Asteka, þar sem listasaga þjóð- arinnar er rakin frá 1427 allt að því að þeir lúta í lægra haldi fyr- ir Spánverjum 1521. Verk úr turkíssteinum, gulli, fjaðragripir og keramíkmunir verða á sýn- ingunni ásamt minnisvörðum sem ekki hafa verið sýndir utan Mexíkó áður. Verkin einkennast mörg hver, að sögn breska dag- blaðsins Daily Telegraph, af grimmd og hörku og eru jafnvel ógnandi en ómögulegt er engu að síður að horfa fram hjá sjón- rænum áhrifum þeirra. Victoria & Albert-safnið býður síðan í mars upp á sýninguna Jörð og eldur: Ítalskir leir- skúlptúrar frá Donatello til Can- ova. „Bozetti“-leirskissurnar teljast víst svo áhrifamiklar að jafnvel þær einar sér eru heim- sóknarinnar virði. Í maí verður opnuð ný sýning- araðstaða við Buckingham-höll og af því tilefni verða dregnir fram margir verðmestu listmun- ir krúnunnar, s.s. portrett Van Dyck af Karli I. Í sama mánuði hefst síðan yfirlitssýning á verk- um þeirra Matisse og Picasso í Tate-nútímalistasafninu, en frá febrúarmánuði verða verk bandaríska popplistamannsins Andy Warhol þar til sýnis. Mat- isse-Picasso-sýningin beinir at- hyglinni að því hversu háðir listamennirnir hafi í raun verið hvor öðrum og samkeppninni sem ríkti þeirra á milli. Daily Telegraph mælir með að bóka miða langt fram í tímann þar sem búast má við að erfitt verði að fá miða. National Gallery býður í júní upp á sýninguna Efnissýn: Klæði og vefnaðarvara í málverkum og er fatnaði í listum þar velt upp. Með haustinu tekur síðan við sýningin Madame Pompadour: Myndir hjákonu, þar sem sýnd verða verk eftir listamenn á borð við Nattier, Boucher, Carle Van Loo og Greuze. Pompadour þótti glöggur safnari og átti fleira fal- legra muna en nokkur sam- tímakona hennar og mun sýn- ingin því einnig geyma húsgögn og postulínsmuni úr hennar eigu. Júní ætti að verða líflegur safnamánuður því þá hefst einn- ig sýning British Museum, Drottningin af Sheba: Fjársjóðir frá Jemen til forna þar sem sjá má list konungdæma Suður- Arabíu. Yfirlitssýning á verkum Lucien Frauds verður þá í Tate- safninu í sama mánuði. En í októ- ber víkur hann fyrir stórsýningu á verkum hins breska Gains- borough, þar sem saman verða komin fleiri verk listamannsins en áður hefur gerst. Árinu lýkur síðan í British Museum þar sem Snilli Dürer: Grafísk verk og áhrif verða á boðstólum í desember. Sú sýning er sú fyrsta í ein þrjátíu ár þar sem athyglinni er beint að áhrif- um Dürers á þróun grafískra lista. Lifandi listaár í Lundúnum ERLENT ÍSLENSKA óperan teflir framungum söngvurum á nýárstón-leikum í dag kl. 16.00. Þeir Dav-íð Ólafsson bassi og Tomislav Mužek tenór munu syngja aríur og dúetta eftir Strauss, Mozart, Pucc- ini, Verdi, Rossini og fleiri, auk þess sem þeir sækja í sjóð vinsælla söngleikja og ítalskra ástarljóða. Tenorsöngvarinn Tomislav Muž- ek er aðeins 25 ára gamall, en er strax að verða þekktur í óperu- heiminum. Hann er Króati, en nam sönglistina í Vínarborg, þar sem hann kynntist Davíð Ólafssyni. Þeir lærðu hjá sama söngkennara og vinátta þeirra hefur haldist eftir að skóla lauk. „Strax eftir námið var ég ráðinn til að syngja lítil ten- órhlutverk við Ríkisóperuna í Vín, en eftir ár þar fór ég til óperunnar í Bremen í Þýskalandi þar sem ég syng aðalhlutverk fyrir lýrískan tenór. Inn á milli hef ég verið að syngja hér og þar, mest í Bologna þar sem ég söng nýlega dúetta með Kötju Ricciarelli fyrir ítalska sjón- varpið og á tónleikum með Danielu Dessi.“ Þær Dessi og Ricciarelli eru báðar miklar stjörnur og mjög sérstakt að þær syngi með svo ung- um söngvara. Í Vínaróperunni söng Tomislav með öllum þeim fræga söngvarafans sem þar stígur á svið. Söngkennari og umboðsmaður Tomislavs í dag er tenórsöngvarinn Ernesto Palacio sem er einnig al- þjóðlegt nafn í óperunni og lengi best þekkti Rossinitenor Ítala. Afþakkaði heim- boð Pavarottis Allt virðist þetta lofa góðu um framtíð þessa unga og ofurefnilega Króata. Þó er hann tilneyddur til að draga sig í hlé frá söngnum í hálfsárstíma eða svo á næstunni, því hann þarf að gegna herþjón- ustu í heimalandi sínu. Hann er þó hvergi banginn um framhaldið í söngnum og víst er að næg tæki- færi bíða hans þegar herskyldu lýkur. Á árinu sem hann starfaði við Vínaróperuna söng hann um áttatíu sýningar og var daglega í tengslum við stóru nöfnin eins og Placido Domingo, Agnesi Baltsa, Editu Grúberóvu, Bernd Weikl og aðra fræga. „Ég var auðvitað feim- inn og skítnervus til að byrja með, og þorði varla að hreyfa mig. Smám saman sér maður að þetta fólk er ósköp venjulegt og feimnin rennur af manni. Bernd Weikl var sérstaklega vinsamlegur. Hann átti sumarbústað í Króatíu og gat spjallað við mig um allt sem hon- um þótti gott þar – vínin og veðrið. Maður er eins og svampur innan um þetta frábæra söngfólk, og sýgur í sig hvert smáatriði í fasi þess og hreyfingu, hvern tón og hvert orð sem sagt er. Þetta er gíf- urlega góð reynsla fyrir ungan söngvara.“ Tomislav segir ekki hægt að nefna einn uppáhalds- söngvara – hann eigi til dæmis þrjá uppáhaldstenóra. „Pavarotti er náttúrlega efstur á blaði. Hann bauð mér að koma til sín og syngja fyrir sig, en þegar ég áttaði mig á því hve stóra hirð af fólki hann hefur í kringum sig, leist mér ekk- ert á að fara – ég sá að það myndi verða erfitt að ná til hans sjálfs, þannig að ég afþakkaði boðið. Ég sagði honum þó að ég hefði góða rödd. Hann fór bara að hlæja, og fólkið í kringum hann hló með, þar til hann hætti og sagði: „Hvers vegna eruð þið að hlæja, hann er með góða rödd!“ Ég er með létta lýríska rödd og aðrir uppáhalds- tenórar mínir í þeim flokki eru Nikolai Gedda og Alfredo Kraus. Enginn þessara söngvara er full- kominn og hver og einn hefur sinn hátt á söngnum, en ef það væri hægt að blanda því besta frá öllum þrem saman, yrði það mikil snilld – kannski bara hinn fullkomni ten- ór. Þess vegna reyni ég að leggja mig eftir því besta í hverjum þeirra fyrir sig.“ Fastráðinn við Íslensku óperuna Það var sagt frá því í blaðinu í gær að Davíð Ólafsson kæmi senn til starfa við Íslensku óperuna. Hann hefur verið fastráðinn við óperuna í Lübeck í tvö ár, en stendur nú á tímamótum. „Ég hef náð að þroskast mjög vel í Lübeck. Ég byrjaði í litlum hlutverkum, en nú syng ég bara aðalhlutverk. Mér finnst ég þó hafa þurft langan tíma til að ná þessum þroska. Núna fyrst er mér farið að líða eins og atvinnumanni í söngnum. Það ger- ir reynslan. Það er kannski öfug- mæli að það var akkúrat þegar þessum áfanga var náð að ég fann mig knúinn til að segja upp í Lübeck. Ég hef fengið mjög góð viðbrögð frá umboðsmönnum og öðrum óperuhúsum í Þýskalandi, og hef þegar verið ráðinn til að syngja á sumarhátíðinni í Merzig. En ég ákvað að koma heim en nota tímann milli sýninga hér til að heimsækja kennara og skjótast í sýningar úti. Óperan í Lübeck er þegar farin að bíða eftir að vita um frídagana mína við óperuna hér heima, því þeir vilja geta notað mig þann tíma sem ekkert er í gangi hér. Íslenska óperan vill gefa söngvurum sínum tækifæri til að gera þetta, því sú reynsla er dýrmæt bæði fyrir söngvarann og Íslensku óperuna. Í Lübeck hef ég ekki haft mikið svigrúm til að gera aðra hluti, og þessi vika hér heima núna, er eina fríið mitt á árinu. Það er svo strangt að til þess að yfirgefa borgina þarf maður fjórar undirskriftir; frá óperustjóranum, frá hljómsveitarstjóranum, frá skrifstofustjóranum og frá yfir- píanóleikaranum. Maður er mjög bundinn á svona samningi, en hann hefur þó bæði kosti og galla. En ég hlakka bara mjög til að koma heim og mér finnst það frá- bært framtak hjá íslenska ríkinu að vilja þakka fyrir sig eins og ég vil orða það, með því að styrkja Óperuna til þess að geta gefið ís- lenskum söngvurum kost á vinnu hér heima.“ Gamansamur gamanbassi Fyrsta hlutverk Davíðs hér verður verður hlutverk doktors Bartolos í Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini, en Davíð segir það einmitt draum sinn að fást við gamanbassahlutverk eins og eru svo mörg í óperum Rossinis. „Allt hefur þetta sinn tíma. Eftir tvö ár í stífri atvinnumennsku úti veit ég hvar mín takmörk liggja, og veit líka að þær hugmyndir sem maður hafði um sjálfan sig þegar maður kom úr skóla voru allar rangar.“ Það er stutt í húmorinn hjá Davíð Ólafssyni og það á við um sönginn líka. Hann hefur þótt fara á kost- um í þeim hlutverkum þar sem krafist er mikils leiks, ekki síst gamanleiks, og í Þýskalandi á hann enn trygga atvinnumögu- leika, ekki síst á þessu sviði. „Ég er ekki orðinn þekktur ennþá, en þetta hefur verið að vinda utan á sig upp á síðkastið. Það fer líka svo gott orð af íslenskum söngv- urum í Þýskalandi. Þeir þykja mjög þægilegir og vingjarnlegir í samvinnu og eru eftirsóttir. Ég hef sungið með ótal söngvurum alls staðar að, og allir þekkja Ís- lendingana í þessum bransa.“ Raddirnar passa vel saman Um samvinnuna við Tomislav Mužek segir Davíð að hún hafi varað lengi. „Það var ein jólin úti að við höfðum hvorugur neitt sér- stakt að gera og ég sagði við hann: „Jæja, hér er ég með ágætis kred- itkort – ég kaupi handa okkur flugmiða heim til Íslands og við höldum tónleika.“ Þetta var fyrir þremur árum, og tónleikarnir gengu svo vel að við komum aftur með hóp af fólki páskana eftir og efndum til samsöngstónleika í Salnum. Við vorum þrjú ár saman í Vín. Ég fékk svo vinnu í Lübeck og bjó mig undir að kveðja alla mína góðu vini í Vín, en þá gerðist það nokkrum vikum seinna að hann fékk samning í Bremen, og aftur orðið stutt á milli okkar, þannig að við höfum tækifæri til að rækta vináttuna. Svo passa raddir okkar líka svo vel saman í dúettum, og það er ekki verra. Hann er að koma hingað í þriðja sinn og líkar vel hérna. Hann er bráðgreindur og fljótur að ná hlut- unum hvort sem það er í söngnum eða að bölva á íslensku.“ Á síðasta ári hreppti Davíð söngstyrk Karlakórs Reykjavíkur og var boðið að halda tónleika í Ými. „Þetta var í fyrsta sinn sem ein- hver bað mig um að syngja og fyrsti styrkurinn sem ég fékk, sem ég hafði ekki sótt um sjálfur. Það fannst mér mikilsverð viðurkenn- ing og mér hlýnaði mjög um hjartarætur. Þetta kom mér á óvart.“ Píanóleikari á tónleikunum er Ólafur Vignir Albertsson og kynn- ir verður Ólafur Kjartan Sigurð- arson óperusöngvari. „Þær hugmyndir sem maður hafði um sjálfan sig voru allar rangar“ Morgunblaðið/Kristinn Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari og söngvararnir Davíð Ólafsson bassi og Tomislav Mužek tenór.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.