Lesbók Morgunblaðsins - 05.01.2002, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 05.01.2002, Blaðsíða 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. JANÚAR 2002 9 Hún var töluð á Spáni og Ítalíu, í Frakklandi, Rúmeníu og Portúgal og víðar, samt veslast hún upp og deyr á vörum fólksins. Hún var kröfuhörð um framburð og málfræðin ströng og rökvís. Rétt eins og íslenzkan. En smám saman hættir fólk að nenna að bera hana fram og hún breytist með tímanum í mál- lýzkur svipað og skandnavísku málin; portú- gölsku, rúmönsku, frönsku, spænsku og síðast, en ekki sízt, ítölsku. Þá er komið langt fram á miðaldir. Enn er þessi forni arfur þó á tungu fólksins á Ítalíu, en ítalskan nær yfirhöndinni hægt og sígandi, hvað sem Virgil og öðrum snill- ingum líður. Og loks vinnur hún sína stóru sigra í verkum Dantes, Petrarka og Bokatsio. Latneska deyr á vörum fólksins og ítalska tekur við, þessi nýja hljómmikla tunga sem lifað hefur til okkar daga. Þetta voru eins konar myndhvörf; fiðrildið óx úr púpunni og skildi maðkinn eftir. Og svo er forsjóninni fyrir að þakka að fiðrildið flaug inn í framtíðina. En fyrra myndgervi lat- neskrar hámenningar dó á vörum fólksins sem hafði nægan annan lífsháska að glíma við en varðveizlu gamals tungumáls. Allt gerðist þetta eins og í andrá, samt var aðdragandinn langur og tvísýnn eins og tíminn. Með allt þetta í huga er meira en lítil ástæða til að hafa áhyggjur af íslenzkunni. Hvers vegna skyldi hún lifa af fyrst latínan, heimsmálið mikla og útbreidda, hið rökvísa mál kristni og kirkju, dó á vörum fólksins – og þá líklega einna helzt vegna þess að málfræðin og framburðurinn kröfðust þolinmæði sem mergðin, áhyggjulaus um hefð og arfleifð, á ekki til á slíkum vegamót- um. Einungis fáeinir svartmunkar í steingerðu umhverfi lokaðra klaustra. Ekki alls fyrir löngu var sagt við mig að íslingar mættu taka sig taki. Ég hrökk við. Íslingur, hvað var það? Og ég fór að hugsa málið. Og þá varð það augljóst að íslingar eru Íslend- ingar þegar framburðarþolinmæðina brestur! Og ég hugsaði með mér: Þetta er bara byrjunin. Svo kemur hitt á eftir. Og hvað svo? III Þurfum við að hafa áhyggjur af tungunni? Í harla athyglisverðri bók David Crystals, Language death, sem prentuð var árið 2000, fjallar hann um dauða tungumála og segir að samkvæmt Ethnology, febrúar 1999, sé gert ráð fyrir því að enn séu lifandi á sjöunda þúsund tungumála víðsvegar um jörðina en augljóst það séu aðeins nokkrar fjölmennustu þjóðir heims sem noti helztu tungumálin; alls tala 2,4 millj- arðar (af sex milljörðum) manna átta helztu tungumál jarðar. Um helmingur jarðarbúa talar tuttugu tungumál. Þannig tala 96% jarðarbúa að- eins 4% allra þeirra tungumála sem töluð eru. Færri en þúsund manns tala fjórðung tungna. Íslenzka er töluð af tæplega þrjú hundruð þús- und hræðum og er í flokki 795 tungumála sem eitthundrað þúsund til milljón manna í heiminum tala, eða 13,1 prósent. Höfundur segir að fjögur þúsund tungumál séu í útrýmingarhættu, ef gert sé ráð fyrir því, að þær tungur hverfi sem færri en tuttugu þúsund manns tali. Þegar úttektin var gerð talaði aðeins einn maður fimmtíu og eitt þessara tungumála. Eins og af þessu sést telur höfundur íslenzk- una ekki í hættu vegna þess fjölda sem talar hana, þótt hitt sé augljóst að ýmislegt annað get- ur komið til, þegar tungumál deyja út, eins og við höfum séð, bæði í Grikklandi og á Ítalíu. Tungan deyr hægt út, segir Crystal, og af þeim sökum gerir samfélagið sér ekki grein fyrir hættunni og þá venjulega of seint. Einangrun er góð vörn eins og við þekkjum, en hún er ekki lengur fyrir hendi í þeim heimi sem við nú byggjum. Unnt er að ná góðum árangri og viðhalda tungumáli með aðstoð fjölmiðla, ekki sízt ljós- vaka, og bendir Crystal á að welskan hafi t.a.m. hresstst við með þeim hætti. Við erum að því leyti vel á vegi stödd, bæði hvað varðar útvarp og sjónvarp, og því deginum ljósara, hve mikilvæg þessi tæki eru í málsmenn- ingarlegri lífsbaráttu okkar sem jaðrar nú – að ég hygg – við lífsháska – og þá ekki síður mik- ilvægt, hvernig þau eru notuð. Í þessum fjölmiðl- um þarf íslenzkan að vera hátt á hrygginn reist og má ekki láta undan síga í varnarbaráttunni. Enginn vafi er þó á því að enskan leikur lausum hala í sjónvörpum, þótt hitt sé mikilvægast að þar eru barnaefni, fréttir og samtalsþættir ým- iskonar á ylhýra málinu. Það var fyrst og síðast metnaðarmál þegar keflavíkursjónvarpið var að skjóta rótum, að við eignuðumst innlent sjónvarp og enginn vafi á því að kanasjónvarpið flýtti fyrir þeirri þróun, líklega um mörg ár. En mikið af því sem íslenzkar sjónvarpsstöðvar flytja nú er svip- að eða samskonar efni og tíðkaðist í keflavík- ursjónvarpinu. Að því leyti hefur metnaði okkar ekki verið fullnægt, nema síður sé. Nú getum við náð í fjölda erlendra stöðva og er það raunar í nokkru samræmi við tengsl okkar við samtímamenningu erlenda á öllum tímum. En fyrir bragðið þyrftu okkar stöðvar að vera sterkari en raun ber vitni. Það þætti nokkuð hjá- kátlegt, ef hluti af efni Morgunblaðsins, Frétta- blaðsins eða DV væri á ensku, samt eru tvítyngd blöð víða, t.a.m. í Færeyjum þar sem leyft hefur verið að prédika á dönsku öldum saman. Við þurftum ekki að ganga undir það jarðarmen og átti það áreiðanlega þátt í varðveizlu tungunnar. Við leyfðum ekki erlendar auglýsingar í Morg- unblaðinu, nema íslenzkur texti fylgdi, og ég þyk- ist vita að sá háttur er enn á hafður. Mér er til efs að keflavíkursjónvarpið hafi ver- ið nein þrautaganga málfarslega, þótt það væri eins og sandkorn í auga samtímakvikunnar, ef svo mætti segja, og því nauðsynlegt að íslenzkt sjónvarp tæki við, þótt útlent væri í aðra röndina. Það var þjóðernisleg nauðsyn. Þjóðrækniskvikan þoldi ekki þetta áreiti, metnaðinum var ofboðið. Allt var það gott og blessað, en útbreiðsla kana- sjónvarpsins var eins og engisprettufaraldur og því munaði litlu að of seint væri í rassinn gripið, þegar menn áttuðu sig. Þjóðarstoltið var á yztu nöf. Þeir sem höfðu kostað til keflavíkursjón- varpsins höfnuðu lokun, ef ekkert kæmi í staðinn. Íslenzkt sjónvarp var því lausnarorðið. En var hastarlega vegið að íslenzkri tungu með keflavíkursjónvarpinu? Ef svo hefur verið, þá hefur lítið breytzt í þeim efnum. Þá er hættan svipuð nú og áður var. Við eigum ekki völ á al- íslenzkum stöðvum. Mikill meirihluti efnis er á erlendum tungum, einkum ensku. Textun efnis er bitamunur en ekki fjár. Talsetning eina leiðin eins og tíðkast með stórþjóðum Evrópu, en þó telja margir að sú lausn sé óþolandi, m.a. vegna þess að gerilsneyddur vestri með John Wayne sé eins og hver annar brandari á vörum þýzks, fransks eða ítalsks leikara. Við ættum því að hafa sömu áhyggjur af ís- lenzkum sjónvarpsstöðvum nú eins og keflavík- ursjónvarpinu áður, svo efnislíkar sem þær eru kanasjónvarpinu að mörgu leyti og á ég þá að sjálfsögðu við þá flæðandi ensk-amerísku þætti sem einkenna dagskrána öllum stundum. En tal- sett barnaefni er þó til fyrirmyndar og gæti, ásamt þeim þáttum öðrum sem íslenzkir eru, ráð- ið úrslitum um þróun tungunnar. Þegar sænska skáldið Olof Lagercrantz, rit- stjóri Dagens Nyheter, kom hingað til lands 1965, sagði hann í samtali við Tímann að hann sem ritstjóri stórblaðs hefði „ekki verið fús til að viðurkenna að sjónvarpið hefði mikil áhrif á menninguna. Blaðið og bókin eru þau fjölmiðl- unartæki sem ég hef mest álit á“. Ég verð að viðurkenna að viðhorf mitt á þeim tíma var ekki með öllu ósvipað og hefur raunar ekki breytzt frá því Lagercrantz lét þessi um- mæli falla. En þar sem hann vitnaði í ummæli mín í þessu Tíma-samtali taldi ég mig knúinn til að skrifa grein um þetta viðkvæma mál og birti hana þetta sama ár í Morgunblaðinu undir fyr- irsögninni Sjónvarpsmál – og íslensk menning. Þar reyndi ritstjóri með fjöldann allan af stuðn- ingsfólki keflavíkursjónvarps að áskrifendum Moggans að fóta sig eins og steingeita er siður, en niðurstaðan var auðvitað sú að allir voru óánægðir með greinina, bæði fylgjendur og and- stæðingar kanasjónvarpsins. Lausnin var ekki í sjónmáli og allir héldu fast við sitt. Í greininni kom þetta m.a. fram: a) „Varla getur vakað fyrir neinum að knýja fram lausn, eins og þá að loka fyrir keflavíkur- sjónvarpið, ef sú lausn er þyrnir í augum þús- unda manna, sem telja sér frjálst að nota sjón- varpið sér til skemmtunar og dægrastyttingar.“ b) „Íslenzk menning [getur] ekki átt tilveru sína undir slysum eða óhöppum, eins og því þeg- ar sjónvarpinu var dengt inn á innlendan markað augsýnilega að mjög vanhugsuðu máli og einnig: Að það hlýtur að vera sjálfstæðri þjóð prinsipp- mál, að hún sjálf, að yfirveguðu máli – og engar tilviljanir – ráði því, hvaða sjónvarp eða önnur fjölmiðlunartæki séu alls ráðandi í landi hennar. Þar skilur milli feigs og ófeigs – milli okkar og Ísraelsmanna (sem áttu ekki heldur neitt eigið sjónvarp en reyndu að notast við sjónvarpssend- ingar arabaríkjanna og óvina sinna þar). ...ekki sé uppbyggilegt til frambúðar að láta keflavík- ursjónvarpið keppa við innlend menningarfyrir- tæki um okkar þrönga markað.“ En hver var niðurstaða greinarinnar? Hún var íslenzkt sjónvarp. En það var ekki í augsýn. Og flestir töldu að það yrði ekki að veru- leika fyrr en að mörgum árum liðnum. Þess vegna m.a. voru allir, að ég held, hundóánægðir með greinina – og niðurstöður hennar, t.a.m. gagnrýndi Bjarni Benediktsson, þáverandi for- sætisráðherra, greinina í samtali okkar, en ég hef eiginlega aldrei skilið af hverju. Hann vann að sjálfsögðu að lausn málsins sem var orðið óþol- andi sjálfskaparvíti á þeim tíma. Og lausnin var íslenzkt sjónvarp. Þótt ég tæki þessa afstöðu og markaði þannig þá stefnu Morgunblaðsins að íslenzkt sjónvarp væri lausnin, gerði ég mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því, að það gæti orðið mesta ógnin við blaðið á markaðnum og kveið mjög, þegar að því kom. Reyndi jafnvel að stinga höfðinu í sandinn og líta fram hjá því! En sem sagt, niðurstaðan: a) „Ég held því að einasta lausnin á þessu harla vafasama máli sé sú, að stofnað verði til íslenzks sjónvarps sem er sterkara og girnilegra til stund- argamans en það varnarliðssjónvarp sem nú er á boðstólum, mikill hluti íslenzkra hlustenda skilur ekki og er síður en svo nein andleg kjarnafæða, þótt maður hafi heyrt raddir í þá átt. Þótt ís- lenzkt sjónvarp verði kannski ekki fyrst í stað neinn Mímisbrunnur, hef ég trú á því að það eigi fremur auðvelt með að sigra í samkeppninni við keflavíkursjónvarpið.“ b) „En sem sagt: eina lausnin á þessu máli, sem ég eygi í bili, er sú, að íslenzka sjónvarpið taki við af því bandaríska – og það sem fyrst. Þó þeir sem af fákunnáttu eða klaufaskap leyfðu bandaríska sjónvarpinu að ná til íslenzkra heim- ila og áttu þar með drjúgan þátt í þeirri sjálf- heldu, sem málið er nú hafnað í, hafi ekki gert sér grein fyrir hvimleiðum eftirköstum sjónvarps- stríðsins, er hitt víst, að núverandi ástand, sem ég held að allir séu sammála um að sé óþolandi, sé bezta hvatning til átaka í sjónvarpsmálum okkar, þannig að við fáum eigið sjónvarp mörg- um árum áður en ella hefði orðið.“ Svo mörg voru þau orð. Og það leið ekki langur tími þar til íslenzkt sjónvarp sá dagsins ljós. Ég held ég halli ekki á nokkurn mann, þótt ég full- yrði, að þáverandi menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, átti meiri þátt í því en nokkur maður annar að losa okkur við kanasjónvarpið og efna til þess íslenzka sjónvarps sem síðan hefur a.m.k. fullnægt metnaði okkar og þjóðarstolti. En hefur metnaði okkar verið fullnægt að öllu leyti? Og er tungunni borgið? Um það má enda- laust deila. En meðan þetta viðkvæma efni kallar á umræður, er okkur sæmilega borgið; þ.e. með- an við velkjumst í vafa um ábyrgð okkar og fram- tíðarsýn og okkur er ekki sama um hvað verður. IV Í fyrrnefndu riti Crystals er vitnað í orð Mich- ael Karuss þess efnis, að á þessari öld verði níutíu prósent núlifandi tungumála annaðhvort dauð eða á síðasta snúningi. Foundation for Endang- ered Languages er sömu skoðunar: Meirihluti tungumála er í útrýmingarhættu og meira en helmingur tungumála ber dauðann í sér vegna þess að þeir sem eiga að skila arfleifðinni til næstu kynslóðar eru ekki nægilega í stakk búnir til þess. Á þetta við um okkar tungu? Að sjálfsögðu ekki. Það verða aðrir þættir – og ekki víst við þekkjum þá alla – að koma til, ef svo hörmulega færi fyrir ylhýra málinu. En af hverju ætti okkur ekki að vera sama? Ástæðurnar eru margar og við þekkjum þær flestar. Ræktun og samhengi menningar, arf- leifðin. Íslendingasagnalausir Íslingar væru eins og hver önnur skrýtla. Slík þjóð hefði ekki fengið fiskveiðilögsöguna, ekki handritin og sízt af öllu þá virðingu sem hún nýtur – þrátt fyrir allt. Við erum ekki orðin vulger eða gróf óþjóð eins og Auden sagði. En af raunsæi sem hljómar eins og áskorun bætti hann við: ...ekki enn! Íslingarnir þyrftu ekki endilega að búa á gamla Fróni, þeir gætu komið sér fyrir á alþjóða- markaðnum við Wall Street, einkennalausir áður en yfir lyki. Ekkert einkenni er eins sterkt og jafn mikið sameiningartákn og þjóðtungan. Þannig er ekk- ert sameiginingartákn jafn áhrifamikið. Það er auk þess aðalsmerki ræktaðrar þjóðar að muna. Geyma það sem hún á, rækta það og skila því til framtíðar. Ekki eins og hverjum öðrum arfa, heldur fagurlega ræktuðum bletti. Við ættum að hafa öll tök á því, svo sterkur sem bakhjarlinn er. Við ráðum okkur sjálf. Við getum sjálf stungið út kóssinn. Við þurfum engin fyrirmæli að utan. Það hefur engin Brussel tekið við af Kaupinhafn. Sið- menningarlegu gæðin eru í höndum okkar sjálfra. Blæbrigði tungumáls verða ekki þýdd. Ís- lenzkan er einhvers konar Graal sem enginn get- ur eignazt, nema við. Sérhvert tungumál er musteri, segir Oliver Wendell Holmes, þar sem sál þeirra sem tunguna tala er varðveitt. Crystal spyr hvar enskan væri án Shakespeares og ann- arra meistara hennar. Við getum spurt hvað ís- lenzkan væri án Snorra og Guðbrands byskups. Snorri lifir án norskunnar, en Norðmenn eru rót- lausir án hans. Samt skilja þeir hann ekki, ekki blæbrigðin. Þau hafa farið forgörðum í þýðing- unni. Út vil ek merkir annað í eyrum Íslendings en Norðmanns. En í eyrum Íslings mun það ekk- ert merkja. Crystal varpar fram þessari spurningu: Hví ætti okkur ekki að vera sama, þótt tungumál deyi? Og hann svarar með welskum málshætti: Cenedl heb iaith, cenedl heb galon; það merkir: Tungulaus þjóð er hjartalaus þjóð. Crystal bendir á að ekkert í umhverfi okkar varðveitist eins vel og í tungumálinu og nefnir dæmi þess. Tvær plöntur sem allir héldu að væru eins voru það ekki, þegar nánar var skoðað, þær voru með sitt hvoru laginu, sem tungan varð- veitti. Það kom í ljós þegar frumtunga íbúanna var könnuð. Þá sýndi hún framá einkenni sem öll- um hafði sézt yfir en varðveittust í blæbrigðum málsins. Crystal segir að tungumálið sameini allt, tengi arfleifð, reynslu og þekkingu við umhverfið og dreifi vitneskjunni um samfélagið. Tómas UNDI Morgunblaðið/Golli „Aðalatriðið er að kunna skil á því sem ég hef séð kallað siðmenningarleg gæði en þau eru inngróin arfleifðinni og hljóta að bera henni eitthvert vitni.“ Öll mikilvæg verðmæti eru hólmganga við tímann. Og tortíminguna. Sú þjóð sem ger- ir sér grein fyrir því er á réttri leið. Hún er ekki á villigötum. Eru Íslendingar slík þjóð? Mér er nær að halda að svo sé. Hún er ekki gróf eins og Auden sagði í frægu kvæði, ekki enn! 

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.