Pressan - 25.10.1990, Blaðsíða 16

Pressan - 25.10.1990, Blaðsíða 16
16 FIMMTUDAGUR PRESSAN 25. OKTÓBER Andrea Qylfadóttir söngkona Sambland af lafði og lltilli stúlku Andrea Gylfadóttir stendur í flutningum þessa dagana, auk þess sem hún þenur raddböndin á öldurhúsum bœj- arins með Blúsmönnum Andreu, Vinum Dóra og hljóm- sveitinni Todmobile. Hún er í grœnni flauelskápu alsettri speglum þegar við hittumst ímiðborgReykjavíkur; klœðnaðisem leiðir hug- ann að hippatímabilinu margrómaða. Klœðaburðurinn villir þó nánast á henni heimildir; þetta er gamaldags hefðarmœr í framkomu, afskaplega yfirveguð í tali, vandar orðaval, talar hœgt og situr settlega. „Ég veit ekki hvort ég er stórskrítin eða telst eðlileg," segir hún og bœtir við að sér finnist ekki endilega eftirsóknarvert að vera eðlileg. „Eg reyni að vera sjálfri mér samkvœm en hefaldrei lagt mig eftir því að líkjast öðrum eða apa eftir einhverri fyrirmynd." Tríóið Todmobile vakti fyrst at- hygli fyrir sérstakan stíl, í senn ögr- andi og rómantískan. Eins og al- gengt er hjá íslenskum hljómsveit- um í dag e allt efni Todmobile frum- samið aí meðlimum hljómsveitar- innar og er mestöll textagerð í höndum Andreu. Auk hennar skipa tríóið Eyþór Arnalds og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Todmobile gef- ur út plötu á haustmánuðum og heldur í því tilefni útgáfutónleika í íslensku óperunni í desember. LÍF, DAUÐI OG SKRAUTLEG ÆVINTÝRI „Á Todmobile-tónleikum er fólk í raun og veru að koma til að hlýða á live-flutning á plötu, ekki einhverjar trillur spilaðar af fingrum fram. Undanfarið hef ég reynt að koma fram í sem flestum búningum með- an á tónleikunum stendur; ekki það að tónlistin ein og sér nægi ekki, heldur er þetta tilbreyting sem mér finnst hæfa vel þvi sem við erum að gera. Bæði er mikið drama í sumum lögum okkar, við erum að fást við ei- lífðarspurningarnar, lífið og dauð- ann og allt þar á milli; og svo aftur ævintýrin, sem oft eru nú æði skrautleg í huga manns. í textum mínum felst gjarnan smáþraut og ef maður hefur ímynd- unarafl og áhuga á að rýna í þá er hægt að heyra orðaleiki og tvíeggj- aðar setningar. Stundum flæki ég kannski textann um of, en flækjan getur oft verið skemmtileg líka. Hljómsveitin Todmobile erum við þrjú og það sem við höfum fram að færa. Þegar við komum fyrst fram lögðu fjölmiðlar ofuráherslu á klass- íska menntun okkar og það kom út eins og við værum að hefja okkur yfir eitthvað annað eða teldum okk- ur flytja æðri tónlist. Þetta var hins vegar alger misskilningur, því það vorum ekki við sem vildum koma þessu á framfæri heldur virtist fjöl- miðlum finnast menntun okkar eitt- hvað sérstök og vildu hamra á henni.“ .. GÓÐAR MÆÐUR GERA EKKI SLÍKT“ Andrea á einn son, Bjart, 8 ára, en hann býr nú með föður sínum. Hvernig var að verða móðir nítján ára? „Eg er elst sjö systkina og eins og oft er um elstu telpu sá ég um að gæta systkina minna þegar við vor- um að alast upp á Akranesi, svo ég hafði heilmikið komið nálægt börn- um. Mér leið mjög vel með að vera orðin mamma og gat leyft mér að vera heima með syni mínum þar til hann varð fjögurra ára, sem ég álít mikil forréttindi. Þegar ég svo skildi við barnsföður minn var afráðið að Bjartur yrði eft- ir hjá honum. Ef miklar gagnrýnis- raddir eru uppi um að „góðar mæð- ur geri ekki slíkt“, þá fer sú gagnrýni mest fram á bak við mig. Eg veit af slíkri gagnrýni en það þora fáir að koma beint framan að mér með hana, enda er þetta okkar mál og ekki annarra. Faðir drengsins fór fram á að hafa hann en vitanlega var það afar erfið ákvörðun. Það er í rauninni fyrst núna sem ég er farin að sætta mig við þetta en ég hef Bjart hjá mér aðra hverja helgi og í fríum. Hann finnur að við foreldrar hans erum sátt hvort við annað, sem er áreiðanlega ákjósanlegra en að búa hjá báðum foreldrum og finna að allt er í upplausn. Það er aldrei talað um hvað þau börn eiga erfitt." RÖDD SEM BRÝTUR GLER Átta ára var kennaradótturinni Andreu boðið að hefja tónlistarnám og hún lærði fyrst á píanó og fiðlu en fór síðan yfir á selló eilefu ára gömul. „Það var að tilstuðlan for- eldra minna að ég byrjaði. Við starf- ræktum strengjakvartett sem börn, nokkur úr skólanum, og ég var í þjóðlagahljómsveit sem hét Brotnir bogar eftir lýðháskólanám í Noregi. En það er ekki hægt að vera að ein- hverju fikti endalaust ef maður gef- ur sig út fyrir að vera tónlistarmað- ur. Umhverfið gerir þær kröfur að fólk hafi „standard". Svo verður maður sjálfur að taka einhverja stefnu, það er varla hægt að standa sig á öllum vígstöðvum til frambúð- ar.“ Árið 1985 smellti Andrea sér í Söngskólann í Reykjavík og lauk honum á tveimur árum undir hand- leiðslu Guðmundu Elíasdóttur. Þar uppgötvaðist einstök rödd hennar, rödd sem brýtur gler. „Þeg- ar ég byrjaði var mér sagt að ég væri kóloratúr, en ég veit ekki hvað ég er orðin núna. Þó mér lægi svona S.ÞÓR /#Ég er kannski eitthyad eldri en árin segja til um því reynsluheimur minn er stærri en hjá mörgum á þessum aldri" á að Ijúka söngskólanum hef ég ekki áhuga á að leggja klassískan söng fyrir mig á næstunni, því þá gæti ég sennilega ekki sungið neitt annað með. Ég hafði kannski röddina og tæknina en fannst það ekki eiga við persónuleika minn að fara inn í hinn agaða heim óperusöngvarans." Hvernig er heimur blússöngkonu á íslandi? „Það er að skapast mikil blússtemmning í Reykjavík þessa dagana,“ segir Andrea. „Heilir hóp- ar fólks mæta á hverja einustu tón- leika sem við höldum og við fáum jafnvel inn fólk sem aldrei hefur hlustað á blús og er hálfhissa á hve vel því líður með þessari tegund tón- listar.“ BLÚSINN SNERTIR TILFINNINGARNAR Hvað er það svo við blús sem hríf- ur fólk? „Textarnir hrífa fólk gjarnan með og svo frjálsræðið innan forms- ins. Blúsinn kemur við mannlegar tilfinningar, túlkar gleði og trega og segir einhverja sögu sem allir geta kannast við.“ Er einhver Billie Holliday-stíll á lífi blússöngkonu, með ólögleg efni upp um alla veggi og hinu Ijúfa lífi lifað í botn? „Ég held að slíkt líferni sé hrein- lega úrelt innan „bransans“,“ segir Andrea. „Einstaka sinnum stendur eitthvað til eftir tónleika, en þá eru engin önnur efni en áfengi höfð við hönd.“ EINS OG RÚLLANDISNJÓBOLTI Hver er Andrea Gylfadóttir? „Ég held að hún sé sambland af lafði og lítilli stelpu," segir Andrea eftir langa umhugsun og þá athugasemd að þetta sé erfið spurning. „Ég er mikil félagsvera og þarf á því að halda að vera innan um fólk," segir hún. „Tónlistarmaður starfar oftast í hóp og svo koma allir þessir áheyrendur, sem viss tengsl mynd- ast líka við. 28 ár eru ekki langur lífsferill, en ég hef kynnst mjög breiðum hópi fólks og séð og upplif- að ýmislegt. Ég er kannski eitthvað eldri en árin segja til um, því reynsluheimur minn er stærri en hjá mörgum á þessum aldri. Bæði sam- skipti við annað fólk og það sem ég hef gert sjálf er svo mikill skóli að ég á ekki eftir að melta það fyrr en eftir fjöldamörg ár. Ég mætti sjálfsagt hafa bæði meira sjálfstraust og meiri kjark; þá getur vel verið að ég væri komin lengra. En einhvern veginn í ósköp- unum er ég hér komin og að gera það sem ég er að gera án þess að hafa í rauninni keppt að því. Ferill minn hefur rúllað eins og snjóbolti —niður hlíð, en ég er þó kröfuhörð á sjálfa mig og hef einhverja full- komnunarþörf. Mér finnst alltaf að ég hljóti að geta gert betur." Þórdís Bachmann

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.