Fréttablaðið - 24.12.2004, Side 20

Fréttablaðið - 24.12.2004, Side 20
20 24. desember 2004 FÖSTUDAGUR Íslensk jól eru einstök á heims- vísu. Hvergi haldin eins hátíðleg; og hátíðleika jólanna fylgir ein- læg alvara. Hefðir eru sterkar og hvert einasta mannsbarn heldur í dýrmæta siði frá jólum barnæsk- unnar, svo lengi sem lifir. Það sem gerði jólin að hátíð voru vinalegt jólaskraut, töfrandi ilmur, árviss jólahreingerning, matarhefð mömmu og ómissandi fólk. Það er auðvelt að halda í jólaskrautið, ilminn, matinn og jólatiltektina, en þrautinni þyngri að halda áfram í fólkið sem tengdist jólunum, nema hve það lifir eilíft í hjartanu. Það eru einmitt jól bernskunn- ar og liðnar jólastundir með þeim sem voru ómissandi við jólaborð- ið sem hræra viðkvæm hjörtu Ís- lendinga um jól og áramót. Strax á Þorláksmessu er stefnan tekin að minnisvörðum þeirra sem þeg- ar eru farnir heim til Guðs og á aðfangadag jóla má segja að þorri þjóðarinnar eigi stefnumót við liðnar sálir í kirkjugörðum lands- ins. Þórsteinn Ragnarsson for- stjóri Kirkjugarða Reykjavíkur- prófastsdæma segir heimsókn að leiði ástvina sífellt viðameiri þátt í jólahaldi Íslendinga. Traffíkin sé látlaus frá Þorláksmessukvöldi til síðdegis á aðfangadag. „Fjölmargir koma á Þorláks- messu, en mesti straumurinn er á aðfangadag þegar hingað koma þúsundir gesta. Flestir stoppa í garðinum góða stund, ganga að leiðum ástvina og oft fleirum en einu. Fjölskyldan kemur saman og á hátíðlega stund við leiði hins látna; hugleiðir minningar um viðkomandi og segir gleðileg jól, um leið og lagt er friðarkerti og skreyttar grenigreinar á leiðið,“ segir Þórsteinn og bætir við að flestir rati um garðana, þótt starfsmenn kirkjugarðanna séu gestum innan handar og margir notfæri sér gardur.is til að finna númer legstæða. Hann segir hluta af jólastemn- ingu að leggja kerti á leiði ást- vina, auk þess sem raflýsing sé vaxandi þáttur í kirkjugörðum, en nú sé fimmti hluti grafa með raflýstum krossi. „Gufunes- kirkjugarður og nýrri hluti Foss- vogsins eru eitt ljósahaf í Gufu- nesinu í desember. Það er fagurt um að litast í kirkjugörðum um jólin og margir sem leggja jóla- pakka ofan á grafirnar, sem tákn um jólin. Þá sér maður leikföng; eins og dúkkur, bíla og álfa á gröf- um barna, en langflestir leggja skreytt greni við krossa og leg- steina.“ Kirkjugarðar Reykjavíkurpró- fastsdæma bjóða upp á þjónustu presta í Fossvogskirkju á að- fangadag, en þar þjóna Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Bára Friðriks- dóttir. Þórsteinn segir marga nýta sér þá þjónustu. „Fólki finnst gott að fara inn í kirkjuna; fá betri tíma, kveikja á kertum til minningar og ræða við Guð og prestana. Það ber ljóslega á því að fólk er viðkvæmt og í geðshræringu; ekki síst þegar stutt er frá ástvinamissi. Þess vegna eru prestar til staðar að okkar undirlagi; syrgjendum til huggunar.“ Séra Auður Eir segist ekki hafa annað hlutverk en að vera í Fossvogskirkju á aðfangadag. „Ég er þarna til halds og trausts. Býð kirkjugesti vel- komna, kveð þá og tala við þá sem á því þurfa að halda. Ég býð ekki upp á bænastund en viðveru allra sem sem vilja koma í hús Guðs. Inn í kirkjuna koma líka mjög margir. Fólk kemur til að rifja upp minningar og góðar stundir tengdar jólunum; en einnig til að tala við Guð og kveikja á kertum í minningu hinna látnu. Þá situr það eitt í kyrrðinni eða saman sem fjölskylda, og andrúmsloftið er hátíðlegt og kirkjan afskaplega falleg; ljósum prýdd.“ Og að sögn Auðar vilja margir tala við prest á aðfangadegi jóla. „Margir vilja segja mér frá fólk- inu sínu og sumir eru beygðir og þá faðma ég þá. Þetta eru yndis- legar stundir en skiljanlega er söknuður sár og mikill á þessum dögum og mörgum mjög erfiður. Á sama tíma upplifi ég þakklæti og fögnuð yfir lífinu og því að hafa átt hina látnu sem hluta af tilverunni áður, því Íslendingar trúa á upprisuna og vita að hinir látnu lifa, sem auðvitað er hugg- andi. Þannig segja margir upp- hátt gleðileg jól við leiði ástvina sinna, sem er yndislega fallegt og eðlilegt í ljósi okkar trúar.“ Á aðfangadegi jóla vill Þórsteinn ráðleggja fólki að stilla friðarkertum sem fjærst legsteinum og krossum þar sem kertavax slettist á minnisvarða í misjöfnu veðri og skemmir þá. Kirkjugarðarnir eyða miklum tíma og fjármunum í að hreinsa kertavax af legsteinum, sem og að hreinsa upp og farga jóla- skrauti og greni á nýju ári. Því eru vinsamleg tilmæli að fólk komi í garðana eftir jólin til að hreinsa jólaskraut og kertaum- búðir af leiðum ástvina. ■ Tími saknaðar Í dag er glatt í döprum hjörtum Sálmur 78. Eftir W.A. Mozart og Valdimar Briem Í dag er glatt í döprum hjörtum, því Drottins ljóma jól. Í niðamyrkrum nætur svörtum upp náðar rennur sól. Er vetrar geisar stormur stríður, þá stendur hjá oss friðarengill blíður, og þegar ljósið dagsins dvín, oss Drottins birta kringum skín. Oss Drottins birta kringum skín. Guðs lýður, vertu’ ei lengur hræddur og lát af harmi’ og sorg. Í dag er Kristur Drottinn fæddur í Davíðs helgu borg. Hann fjötrum reifa fast er vafinn, í frelsi barna Guðs svo þú sért hafinn. Hann þína tötra tók á sig, að tign Guðs dýrðar skrýði þig. Að tign Guðs dýrðar skrýði þig. Ó, helga nótt Eftir Adolphe Charles Adam og Sigurð Björnsson Ó, helga nótt, þín stjarnan blikar blíða þá barnið Jesús fæddist hér á jörð. Í dauðamyrkrum daprar þjóðir stríða, uns Drottinn birtist sinni barnahjörð. Nú glæstar vonir gleðja hrjáðar þjóðir því guðlegt ljós af háum himni skín. Föllum á kné. -Nú fagna himins englar! Frá barnsins jötu blessun streymir blítt og hljótt til þín. Ó, helga nótt, ó, heilaga nótt. Hátíð ljóssins er þrungin fögnuði, sorg og söknuði. Þess bera kirkjugarðar landsins merki með tindrandi kertaljósahafi á jólanótt; þykkum jólagreinum og einstaka leikfangabíl eða dúkku á leiðum látinna ástvina sem áður tengdust lífi og jólahaldi Íslendinga órjúfanlegum böndum. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir og Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari gengu um kirkjugarðana þegar jólin voru að koma. JÓLIN Í KIRKJUGÖRÐUNUM Íslendingar leggja sérstaka alúð við leiði ástvina yfir jólahátíðarnar og hjartnæmt að ganga um og skoða. ÁSTVINA SAKNAÐ Á jólum er liðnum sálum sem áður tilheyrðu jólahaldinu sárt saknað.

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.