Fréttablaðið - 30.09.2008, Blaðsíða 16

Fréttablaðið - 30.09.2008, Blaðsíða 16
16 30. september 2008 ÞRIÐJUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík SÍMI: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir arndis@frettabladid.is, Kristján Hjálmarsson, kristjan@frettabladid.is Trausti Hafliðason trausti@frettabladid.is og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál) hdm@frettabladid.is MENNING: Páll Baldvin Baldvinsson fulltrúi ritstjóra pbb@frettabladid.is VIÐSKIPTARITSTJÓRAR: Björn Ingi Hrafnsson bih@markadurinn.is og Óli Kr. Ármannsson olikr@markadurinn.is HELGAREFNI: Anna Margrét Björnsson amb@frettabladid.is og Sigríður Björg Tómasdóttir sigridur@frettabladid.is ALLT OG SÉRBLÖÐ: Emilía Örlygsdóttir emilia@frettabladid.is og Roald Eyvindsson roald@frettabladid.is ÍÞRÓTTIR: Henry Birgir Gunnarsson henry@frettabladid.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Kolbrún Ingibergsdóttir kolbrun@frettabladid.is ÚTGÁFUFÉLAG: 365 RITSTJÓRAR: Jón Kaldal jk@frettabladid.is og Þorsteinn Pálsson thorsteinn@frettabladid.is AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir steinunn@frettabladid.is. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. Issn 1670-3871 Það er ekki án tilefnis sem efnahagsmál eru mál málanna nú um stundir, bæði hér heima og erlendis. Eftir blússandi ferð í eðalvagni á hraðbrautum heimsins komum við að hraða- hindrun sem við áttum hreint ekki von á. Handan við hana er ekki malbik heldur malarvegur og ekki undan því vikist að hægja ferðina. Ráðamenn leita leiða til að komast aftur á malbikið en allt bendir til að það geti tekið tíma. Ekki eru allir á einu máli um leiðir að því markmiði en margir leggja til ráð. Undrum sætir hvað við erum rík af ráðhollu fólki. Á bloggsíðum, í spjallþáttum og á síðum dagblaða birtast vitring- ar í efnahagsúrræðum sem maður hafði enga hugmynd um. Almenningur finnur harkalega fyrir stöðunni á öllum vígstöðv- um og sýnir þessum umræðum að vonum athygli. En á þessu er líka önnur hlið. Vikum saman hafa hrakspár og vond tíðindi blasað við fólki á hverjum morgni þegar það les dagblöðin. Unga fólkið sem er á leið með börnin sín í dagvist eða skóla, miðaldra fólkið sem hefur staðið í þeirri meiningu að það væri loks komið á örugga hillu í lífinu, eldra fólk sem er kannski það sem fyrst er látið fara þegar þrengir að hjá fyrirtækjum, sjúklingar og veikburða fólk sem má ekki við miklu, smám saman læsist um margt af þessu fólki kvíði og vonleysi. Gert er ráð fyrir gjaldþrotum í stórum stíl og risafyrirsagnir um uppsagnir vekja mikinn ugg. Nú er það að sjálfsögðu helsta hlutverk fréttamiðla að skrifa og segja fréttir og lýsa stöðunni eins og hún er, og ögrandi stórfyrir- sagnir eru ekki síst vísbending um alvöru málsins. Það breytir ekki því að fréttamenn bera mikla ábyrgð þó að þeir séu ekki valdir af almenningi. Atvinnuleysi Árið 1993 bjó ég í nokkra mánuði í Danmörku ásamt fjölskyldu minni og var þá áskrifandi að tveimur dönskum dagblöðum, Berlingske Tidende og Jyllands- posten. Ég las þessi blöð mér til ánægju og fróðleiks í a.m.k tvær klukku- stundir á hverjum morgni til að komast í snertingu við það sem var að gerast í landinu. Atvinnu- leysi var meiri vandi á þessum tíma en ég hafði áður áttað mig á. Mér er minnistæð aðsend grein frá manni á miðjum aldri sem hafði misst vinnuna vegna breytinga í fyrirtækinu sem hann vann hjá. Hann kvaðst hafa tekið þá ákvörðun að láta þessar aðstæður ekki buga sig og lifa lífinu eins hann var vanur, eftir því sem kostur væri. Viðbrögð annarra komu honum mjög á óvart. Hann kvaðst til dæmis hafa hitt góða vini á brautarstöðinni og eftir glaðvært spjall var spurt hvað hann væri að gera þessa dagana. Þegar hann sagðist vera atvinnulaus, gjörbreyttist svipur og fas vinanna. Spurt var hvernig hann gæti verið svona líflegur og látið eins og ekkert væri í svona aðstæðum. Þegar hann gerði grein fyrir því horfðu þau hann eins og hann væri veikur. Greinarhöfundurinn kvaðst hvarvetna mæta viðbrögðum af þessu tagi og sumt fólk forðaðist að hitta hann. Greinina skrifaði hann til að lýsa undrun sinni á almennri hneigð til að bogna við andstreymi og líta á það sem dyggð. Við lægi að hann væri hrakinn í eymdina. Auðugt menningarlíf Þrátt fyrir yfirstandandi dýrtíð og erfiðleika, glímum við ekki við atvinnuleysisdrauginn hér á Íslandi. Ekki enn að minnsta kosti. Menningarlífið er fjöl- breyttara og líflegra en nokkru sinni og uppselt á fjölmargar sýningar og menningarviðburði. Íþróttafólkið okkar á öllum aldri og báðum kynjum er að spjara sig. Þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífi, lækkandi krónu og síhækkandi vaxtakostnað höfum við það harla gott á mörgum sviðum. Flest bendir einnig til að við náum vopnum okkar á einu til tveimur árum. Þangað til lærum við smám saman að meta það sem við höfum og skilja hvað skiptir máli. Það er nauðsynlegt að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru, en kannski óþarfi að baða sig í vandamálunum. Af malbiki á malarveg Efnahagsmál JÓNÍNA MICHAELSDÓTTIR Í DAG | Greinina skrifaði hann til að lýsa undrun sinni á almennri hneigð til að bogna við and- streymi og líta á það sem dyggð. UMRÆÐAN Dagný Jónsdóttir skrifar um Evrópu- mál Framsóknarflokkurinn hefur lengi verið í fararbroddi íslenskra stjórn- málaflokka þegar kemur að málefnalegri og yfirvegaðri umræðu um stöðu Íslands og framtíðarhagsmuni í alþjóðlegu samstarfi. Innan raða flokksins hafa tvær Evrópunefndir unnið og sérstök gjaldmið- ilsnefnd hefur skilað skýrslu. Nú síðast leggja þrír reynslumiklir einstaklingar úr yngri kynslóð framsóknarmanna fram djarfar tillögur þess efnis að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildar- viðræður við Evrópusambandið verði haldin ekki síðar en í maí 2009. Málefnaleg og opinská umræða af þessum hlýtur að vera hverjum stjórnmálaflokki mikill styrkur. Allir gera sér grein fyrir því að umræðan um hugsanlega aðild Íslands að ESB og upptaka evru í kjölfarið er ekki lausn á þeim vandamálum sem íslenskt efnahagslíf glímir nú við. Hinu verður ekki horft fram hjá að hin smáa íslenska króna, miklar sveiflur á gengi hennar og sú óvissa sem þær skapa í rekstri fyrirtækja, er vandamál sem menn hljóta að leitast við að vinna bug á. Hafi stjórnmálamenn ekki dug til ná sátt um niðurstöðu er líklegast að sú þróun haldi áfram sem þegar er hafin í þá átt að fólk og fyrirtæki taki upp aðra gjald- miðla. Innan Framsóknarflokksins eru, líkt og meðal annarra stjórnmálaflokka, skiptar skoðanir um hvernig framtíðarhagsmun- um þjóðarinnar er best borgið. Mismun- andi sjónarmiðum er hins vegar gert hátt undir höfði innan Framsóknarflokksins. Þar hefur jafnframt verið lögð fram sú lýðræðislega sáttaleið að þjóðin sjálf úrskurði um hvort ganga skuli til aðildarviðræðna við Evrópu- sambandið. Slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram óháð öðrum kosningum. Ég fagna frumkvæði hinna þriggja forystu- manna af yngri kynslóð framsóknarmanna sem lagt hafa til að þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál fari fram ekki síðar en í vor. Tillagan er skynsamleg enda brýnt að þjóðin komi sér saman á hvaða grundvelli unnið verði að frekari eflingu lífskjara og velferð hér á landi. Höfundur er félagi í Framsóknarflokknum. Þjóðin hafi úrslitavald DAGNÝ JÓNSDÓTTIR Hallgrímur reiður Bréf eftir Hallgrím Helgason rithöf- und fór eins og eldur í sinu á netinu í gær. Í því lýsti Hallgrímur yfir vand- lætingu sinni með atburði gær- dagsins og telur þá til marks um að hér starfi hvorki þing né ríkisstjórn, heldur hafi Davíð Oddsson seðlabankastjóri bæði tögl og hagldir. Hallgrím- ur finnur óánægju sinni útrás víðar, til dæmis á samskiptavefnum Face- book, þar sem hann skrifaði í gær: „Lárus Welding fékk 300 millj- ónir fyrir að byrja hjá Glitni. Í dag fékk hann 84 milljarða fyrir að halda áfram.“ Björk brjáluð Hallgrímur er augljóslega ekki einn um að blöskra atburðir gærdagsins. Sama er að segja um Björk Vilhelms- dóttur, borgarfulltrúa Samfylking- arinnar, sem skrifaði eftirfarandi athugasemd við færslu Hallgríms á Facebook: „Mér finnst að það eigi að afhausa bankastjóra- mafíuna.“ Alltaf traust- vekjandi þegar kjörnir fulltrúar tala svona. Önnur yfirskrift Þrátt fyrir andstreymi heldur starf- semi Glitnis áfram af krafti. Strax á morgun heldur bankinn til dæmis opinn fund um fjármál heimilanna undir yfirskriftinni: „Þarf ég að hafa áhyggjur?“ Athygli vekur að þangað til í gær var yfirskriftin á fundinum önnur, eða: „Hvernig næ ég tökum á fjármálunum?“ Ekki liggur fyrir hvers vegna yfirskriftinni var breytt. Kannski hafa þeir hjá Glitni metið það sem svo – svona í ljósi nýjustu atburða – að þeir væru ef til vill ekki best til þess fallnir, að ráðleggja öðrum hvernig eigi að ná tökum á fjár- málunum. bergsteinn@frettabladid.isÁ kvörðun ríkisstjórnarinnar um að þjóðnýta Glitni er söguleg hvort heldur litið er á atburðinn af sjónarhóli markaðarins eða stjórnmálanna. Þetta er stærsta ein- staka ráðstöfun fjármuna sem tekin hefur verið. Aldrei hafa jafn margar krónur verið færðar til á jafn fáum klukkutímum. Segja má að þessi mikla ákvörðun geri tvennt í senn: Annars vegar sendir hún skýr skilaboð út á markaðinn sem eru til þess fallin að auka trú og traust á efnahagskerfið. Á hinn bóginn vekur hún gamlar og nýjar spurningar um peningastefnuna. Allt frá því að óróleika fór að gæta á erlendum fjármálamörkuð- um hafa íslensk stjórnvöld fullyrt að ríkið stæði að baki íslensku fjármálafyrirtækjunum. Þjóðnýting Glitnis í tímabundinni láns- fjárkreppu sýnir með ríkum áhrifum bæði hér heima og erlendis að við þær yfirlýsingar er staðið. Viðbrögðin eru fumlaus. Engu er líkara en þau ráðist af fyrirframgerðri viðbragðsáætlun. Öllum má vera ljóst að stöðvun bankans við þessar aðstæður hefði haft mun dýpri og þyngri áhrif bæði á viðskiptalífið og heim- ilin í landinu. Að þessu leyti er engum vafa undirorpið að betra var að aðhafast en láta skeika að sköpuðu. Seðlabankinn var sýnilega við stýrið en ábyrgðin hvílir á ríkisstjórninni. Við aðstæður eins og þessar vaknar eðlilega sú spurning hvers vegna þjóðnýtingarleiðin var valin. Rétt er að í því felst vörn fyrir skattborgarana. En þegar þessi spurning er sett fram verður að horfa til þess að bæði Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa sætt gagn- rýni fyrir tvennt: Annars vegar fyrir að láta undir höfuð leggjast að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega og hins vegar fyrir að sinna ekki í sama mæli og seðlabankar annarra Norðurlanda því viðfangsefni að gera gjaldeyrisskiptasamninga. Stjórnarþingmennirnir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnars- son settu fyrr á þessu ári fram sjónarmið um mikilvægi þess að Seðlabankinn gerði ráðstafanir til að auðvelda bönkunum að veita eðlilegu súrefni inn í atvinnulífið. Gagnrýni bæði atvinnulífsins og samtaka launafólks hefur beinst að þessu sama á undanförnum mánuðum. Bankastjórn Seðlabankans hefur talið þessa gagnrýni léttvæga. Í gær kom fram af hálfu bankastjórnarinnar að hún hefði fyllsta traust á stjórnendum Glitnis, eiginfjárstaða hans væri afar sterk og allt útlit væri fyrir að ríkissjóður geti selt hlut sinn með góðum hagnaði á næstu misserum. Þessar yfirlýsingar benda til þess að slæmur rekstur hafi ekki verið orsök þess að bankinn komst í hann krappan heldur tímabundnir erfiðleikar við fjármögnun. Í þessu ljósi er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ekki var talið rétt að Seðlabankinn kæmi fram sem lánveitandi til þrautavara við þessar aðstæður. Miðað við sveigjanleg viðbrögð erlendra seðla- banka við aðstæður líkar þessum er þörf á að skýra þessa atburði betur og þá grundvallarstefnu sem að baki býr. Verður sömu ráðum fylgt ef frekari aðstoðar verður þörf á fjármálamarkaði? Dagurinn í gær var ekki lokadagur umbrota í þjóðarbúskapnum. Þó að þessi umfangsmikla þjóðnýting hafi vissulega svarað kalli um öryggi á fjármálamarkaðnum gerir hún, hvað sem því líður, spurningar um peningastefnuna og krónuna enn áleitnari en fyrr. Spurningar um peningastefnuna verða áleitnari Þjóðnýting Glitnis ÞORSTEINN PÁLSSON SKRIFAR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.