Tíminn - 23.01.1983, Blaðsíða 14

Tíminn - 23.01.1983, Blaðsíða 14
14 SUNNUDAGUR 23. JANÚAR 1983 SUN'NUDAGUR 23. JANÚAR 1983 Wívrnm 10 ár liðin frá gosinu í Heimaey ■ Maftur og eldur. ■ í byrjun goss. Austurbserinn er að sökkva í ösku og vikur. ■ Hópur björgunarmanna stendur álengdar og horiir á byggingar verfta eldi aft bráft. - Myndir: Tíminn-Gunnar. Fólk horfði á eldinn koma upp úr jörðinni ■ Á morgun verða liðin 10 ár frá því að gosið í Heimaey hófst. Það var um kl. hálf tvö eftir miðnætti, aðfaranótt þriðjudagsins 23. janúar, sem Vestmannaey- ingum varð ljóst hver ósköp voru að gerast, jarðskjálftar höfðu fundist skömmu áður og kl. hálf tvö byrjaði sjálft gosið. Það er raunar eitt af fáum eldgosum, ef ekki hið eina, sem vitað er um.sem fólk hefur hreinlega horft á koma upp úr jörðinni. Fyrst var eins og eldur logaði í sinu augnablik og síðan tók jörðin að rifna og eldstólpamir að stíga upp mót himninum. Á hádegi daginn fyrir gosið hafði gert afspyrnurok úr austri og suð-austri og stóð fram yfir kvöldmat, en þá lægði. Floti Eyjamanna lá mest allur bundinn í höfn. Sprungan sem opnaðist á örfáum mínútum varð um einn og hálfur kílómetri að lengd og í henni voru tugir gígaugna, svo að við gosiö myndaðist eins og eldveggur austan við byggðina. Austustu húsin, hin svokölluðu Kirkju- bæjarhús stóðu mjög nálægt eldinum og lýstust þau og túnin í kring upp af eldinum. Öll þau hús urðu fljótt eldi að bráð og hurfu síðan undir ösku og hraun. Allmargir höfðu vaknað við jarðhrær- ingar rétt áður en gosið hófst en eftir að það var hafið tóku mcnn að hringja til vina og skyldmenna á eyjunni og eftir skamma stund var brunalúður settur í gang og lögreglubílar og slökkvibílar óku um bæinn með vælandi sírenur til að vekja þa sem enn kynnu að vera sofandi. Öllum sem um þessa atburði hafa skrifað ber saman um að fólk hafi sýnt ótrúlega rósemi við þær hræðilegu aðstæður sem skapast höfðu. Fólk klæddi sig upp í skyndingu og tók það smálegt með sér sem það máíti síst án vera, bjó börn sín svo vel sem verða mátti og hélt niður til hafnarinnar. Þar stóð fólk æðrulaust og beið þess að röðin kæmi að því að komast um borð í bát og til lands. Ótrúlega skammur tími leið frá því að vart varð við gosið þar til fyrstu bátarnir lögðu úr höfn með fólk áleiðis til Þorlákshafnar. „Enginn heyrð- ist heimta að fá að fara með fyrsta bátnum, allir hjálpuðust að og smátt og smátt fækkaði þeim sem við höfnina stóðu,“ segir Árni Gunnarsson f bók sinni um gosið. Bæjarstjórn Vestmannaeyja kom saman um nóttina svo fljótt sem unnt var eftir að ljóst var hverjir atburðir voru að gerast. Hún tók þá ákvörðun að flytja skyldi alla burt ur eyjunum, nema þá sem þar hefðu nauðsynlegum störfum að gegna við björgunar og hjálparstörf, eða stjórnunarstörf. Var þegar hafist handa um að búa til ferðar sjúklinga og aldraða, og aðra sem ekki gátu búist til ferðar hjálparlaust. Gott flugveður var til Eyja þessa nótt og ekki leið á löngu þar til komin var á loftbrú milli lands og Eyja. Ræstar voru út flestar þær vélar sem gátu losað sig frá jörðu og lögðu þar sitt af mörkum bæði innlendu flugfélögin og varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Talsvert á fimmta þúsund manns voru fluttir frá Eyjunum fyrstu gosnóttina, eftir voru 3-4(H) manns. Tíminn segir frá því miðvikudaginn 24. janúar að allt þetta fólk hafi fengið gistingu á heimilum Reykvíkinga. Þegar flutningarnir voru yfirstaðnir og menn fóru að fá yfirsýn yfir það sem gerst hafði var mörgum ofarlega í huga að röð tilviljana hefði komið til leiðar miklu láni í öllu óláninu. Undirbúningur undir vetrarvertíð stóð sem hæst þegar gosið braust út og í rauninni má telja það með ólíkindum að þegar ósköpin dundu yfir skyldi það tvennt haldast í hendur að floti Eyjamanna lá nær allur í höfn auk margra aðkomubáta og jafnframt að veður skyldi vera svo skaplegt sem raun bar vitni. Eins og áður greindi hafði verið aftakarok daginn fyrir gosið, en lægt með kvöldinu svo að þolanlegt var í sjó milli Eyja og lands og þótt mikill fjöldi fólks, einkum kvenna og barna hafði orðið sjóveikt, skapaði það ekki það vandamál sem búast hefði mátt við ef óveðrið hefði haldið áfram. Um daginn var innsigling- in til Þorlákshafnar lokuð vegna veðurs, en var greið þegar Vestmannaeyingar komu um ncttina. Enn má bæta því við að flugveður, sem oft er svikult þegar Vestmannaeyjar eru annars vegar var all gott gosnóttina og því ekki miklum vandkvæðum bundið að mynda loftbrú milli Eyja og lands. Hélst það að mestu fyrstu daga gossins. Eins og áður sagði fór fólkið í land með aðeins það allra nauðsynlegasta af farangri. Heimilistæki og bílar urðu eftir í Eyjum. Fyrstu dagana eftir gos var gerð gangskör að því að bjarga þessum hlutum í land. En hvort allt komst til réttra eigenda er annað mál. Margt heimilistækja fór í skip ómerkt; ísskáp- ar, frystikistur, þvottavélar og upp- þvottavélar. Þegar haft er í huga að gos í Heimaey var ekki meðal þess sem talið var að þyrfti að hafa í huga við skipulag almannavarna, verður að teljast undra- vert hversu hjálparstarfiðgekkgreiðlega fyrir sig þegar til lands var komið. Strætisvagnar Reykjavíkur voru sendir til Þorlákshafnar til að sækja fólk jafnóðum og það kom í land og síðan var fólkinu til bráðabirgða dreift niður á allmarga skóla í borginni, Austurbæj- arskólann, Árbæjarskólann, Sjó- mannaskólann, Hamrahlíðarskólann, Melaskólann og Vogaskólann. Slökkvi- liðið sá um að dreifa dýnum og teppum í þessa skóla og sömuleiðis var þar skipulögð matseld, en hitann og þung- ann af fyrstu móttöku fólksins báru Rauðakross konur í Reykjavík. Fjöl- margir Vestmannaeyingar hurfu heim til ættingja sinna búsettra í Reykjavík og jafnframt streymdi að fólk sem bauð fram húsnæði til handa heimilislausu fólki. Brátt komu boð frá öðrum kaupstöðum Iandsins, Akranesi, Akur- eyri, Keflavík, Grindavík, Þorlákshöfn og fleiri stöðum. Alþýðusamband ís- lands bauð fram Ölfusborgir. Það má hafa til dæmis um hve samhent einstak- lingar og fyrirtæki voru um að leysa sem fljótast og best vanda Vestmannaeyinga að IBM fyrirtækið bauðst til að tölvu- vinna allar ppplýsingar sem vélritunar- stúlkur frá borginni og Seðlabankanum höfðu vélritað upp um nöfn og dvalar- staði hinna nýju íbúa Reykjavíkur. Nær öll fyrirtæki sem aðstöðu höfðu til að gata tölvuspjöld komu til aðstoðar. Á fimmtudagsmorgun, rúmum tveimsólar- hringum eftir að gosið hófst voru tilbúnar tölvuskrár í þrem útgáfum yfir alla íbúa Vestmannaeyja, ein útgáfan sagði til um fyrrverandi dvalarstað í Vestmannaeyjum, önnur um dvalarstað á meginlandinu, þriðja var listi yfir alla íbúa eyjanna í stafrófsröð. Þeir sem skipulögðu hjálparstarfið í landi voru sammála um að þetta hefði mjög létt undir, fólk sem leitaði ættingja sinna og vina fundu dvalarstaði þeirra greiðlega og þegar kom að lánafyrirgreiðslu og bótagreiðslum vegna tjóna reyndist þessi skrá ómetanleg aðstoð. Fyrstu dagana eftir gos var reynt að reisa varnargarð til að hindra að hraunið rynni yfir byggðina. Sú viðleitni kom fyrir lítið. Þegar gosið hafði staðið í viku voru yfir 80 hús komin í kaf í gjall, vikur og ösku. Flokkar manna fóru til hjálpar björgunarmönnum út í Eyjar úr landi og reyndu að hreinsa öskuna af þökum húsa og stórvirkar vinnuvélar voru settar upp á þak sjúkrahússins til hreinsunar. Þegar leið að miðjum febrúar tóku menn að óttast fyrir alvöru um höfnina, ef hraunstraumurinn fyllti hana þá var úti um það að Vestmannaeyjar myndu nokkru sinni byggjast á ný. Þann 11. febrúar samþykkti bæjarráð Vestmann- aeyja að hefja skipulegan brottflutning véla og tækja frá fiskvinnslufyrirtækjum bæjarins, öðrum en loðnubræðslunni. Þar með voru orðnar að engu vonir, sem ýmsir höfðu alið í brjósti þrátt fyrir dökkt útlit að fiskvinnsla gæti farið fram um veturinn í Eyjum. í fyrsta sinn síðan á landnámstíð barst enginn bolfiskur á land yfir vetrarvertíð í Eyjum. Flugvélar frá varnarliðinu og Fraktflugi h.f. sáu um þessa flutninga. Flugvél fraktflugs fór 30 ferðir til Eyja á tímabilinu 27. janúar til 22. febrúar þrátt fyrir afar erfið skilyrði og flutti yfir 300 tonn af tækjum til lands. Þegar hér var komið sögu hafði hlaðist upp mikið fell í kringum eldstöðvarnar. Margir óttuðust að þetta fell kynni að skríða fram yfir bæinn og valda gífurlegri eyðileggingu. Þetta kom á daginn. Þann 19. febrúar stuttu fyrir miðnætti. Skreið vesturbarmur gígsins af stað í átt til bæjarins. Þegar birti af degi blasti við viðurstyggð eyðileggingarinnar. Fjallið í kringum gosstövðarnar sem hafði verið keilulaga hafði lækkað um á að giska 70 metra, flast út og grafið undir sér fjöldann allan af húsum. Þótt vonleysi kunni að hafa gripið um sig hjá ýmsum við að sjá stóran hluta bæjarins hverfa í einu vetfangi þá var ekki látið á neinu bera. „Þetta venst,“ sögðu menn hver við annan og áfram var björgunarstarf- inu haldið. Það var rétt um þetta leyti sem loðnuiöndun hófst í Vestmannaeyjum. 24. febrúar lönduðu 6 Vestmannaeyja- bátar loðnu. Og hjól fiskimjölsverk- smiðjunnar tóku að snúast. Reykurinn úr bræðslunni varð eins og tákn fyrir baráttuna fyrir að halda velli, mitt í allri eyðingunni. Loðnubræðslan hafði mikla ■ Hlerar negldir fyrir glugga. þýðingu fyrir sjómenn úr Eyjum því að nú þurftu þeirekki að treysta einvörðugu á löndunaraðstöðu á Suðurnesjaver- stöðvunum, fjarri miðunum við Eyjar. Loðnubræðslan hélt áfram í Eyjum allt til 11. apríl og höfðu verið framleidd þama í skugga náttúruhamfaranna 3.500 tonn af mjöli og 750 tonn af lýsi. Sú hugmynd að stöðva eða breyta rennsli hrauns með snöggri vatnskælingu — ótrúleg samstaða Islendinga + a úrslitastundu var ekki ný þegar Vestmannaeyjagosið hófst, en hafði aldrei verið reynd í framkvæmd. í fljótu bragði virðist hún ltka út í hött, hvemig ætti að vera hægt að stöðva margra milljón tonna hraun- massa með vatnsdælum einum saman? Eftir á að hyggja munu flestir sem tii þekkja reiðubúnir til að fullyrða að vatnskælingin hafi bjargað höfninni, lífæð Vestmannaeyja frá eyðileggingu, og þar með að líkindum byggð í eyjunum. Úndirbúningsrannsóknit voru frani- kvæmdar af þeim Þorbirni Sigurgeirssy.ni prófessor í eðlisfræði og Þorleifi Einars- syni prófessor í jarðfræði. Og að kvöldi hins fyrsta mars var dæluskipið Sandey komið til Vestmannaeyja og hóf að dæla sjó upp á hraunjaðarinn austur af hafnargarðinum. Sama gerðu hafnsögu- báturinn Lóðsinn frá Vestmannaeyjum og sanddæluskipið Vestmannaey. Síðar komu til skjalanna afar kraftmiklar dælur frá Bandaríkjunum. Þeim var komið fyrir á svonefndri Básaskers- bryggju og dælt þaðan sjó upp á hraunjaðarinn. Þannig var unnt að dæla 1200 lítrum á sekúndu, sem er þrefalt rennsli Elliðaánna. Það kom í Ijós að skrið hraunmassans stöðvaðist, ef hraði hans var ekki því meiri fyrir. Þannig var unnt að bjarga höfninni, en kælingin ko.n ekki í \eg fyrir gífurlegt tjón af völdum hraunsins uppi í kaupstaðnum. Gosið færðist mjög í aukana upp úr miðjum mánuðinum og það sem eftir lifði af marsmánuði varð gífurlegt tjón á byggðinni í Eyjum. Hraunið streymdi áfram á stundum með hraða gangandi manns og hús sem fyrir urðu molnuðu niður eins og spilaborgir og gilti einu úr hverju þau voru byggð . Gegn þessum ofurmætti dugði hvorki mannlegurkraft- ur né hugvit. 10 götur hurfu með öllu undir hraun. Meðal þess sem hvarf undir hraunið var rafstöðin, hús Útvegsbank- ans. Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, Godtháb, gamalt hús reist um 1830, Kornloftið elsta hús eyjanna og Austur- búðin, sérkennilegt hús byggt úr til- höggnu grjóti úr Heimakletti árið 1880. Hraunstraumurinn stöðvaðist loks 31. mars og lá þá fast upp við mjölskemmu í eigu Fiskimjölsverksmiðju Einars Sig- urðssonar. Þessi hrina var sú síðasta og mesta í Eyjagosinu. í aprílmánuði komu nokkr- ar hrinur og hraunjaðarinn stóð rauð- glóandi fyrir ofan bæinn og menn biðu þess með skelfingu að hann skriði fram og eyðilegði það sem eftir var. En það gerðist ekki. í máímánuði dró jafnt og þétt úr gosinu og í júnímánuði mældist ekkert hraunstreymi frá gígnum. Þess er áður getið að Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðiprófessor var einn af heilunum á bak við vatnskæl- inguna á hrauninu, sem talið er að hafi bjargað höfninni. Hann var vitaskuld ekki einn um það, honum til fulltingis voru m.a. Þorleifur Einarsson. Valdimar Kr. Jónsson prófessor og Sveinn Eiríks- son slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflug- velli. Það var hins vegar Þorbjörn Sigur- geirsson, sem hafði þá ánægju 2. júlí 1973 að síga niður í eldgíginn ásamt nokkrum Vestmannaeyingum sem við kunnum ekki að nafngreina. Þeir höll- uðu sér makindalega út af í skálinni þarsem áður höfðu staðið eldur og eimyrja upp úr. Daginn eftir var því opinberlega lýst yfir að gosinu í Heimaey, afdrifaríkustu náttúruhamförum seinni tíma á landinu væri lokið. Fáum getum skal að því leitt hér I hvaða tilfinningar kviknuðu í brjóstum | þeirra sem málið varðaði mest við þessi tíðindi. Einn niaður hafði farist í Heimaey af völdum gaseitrunar. íjöi- margii iiöfðu misst hús sín ogeigui allar, sumir séð allt ævistarf sitt hverfa undir hraun og ösku í einu vetfangi. Fólk sem vant var allsnægtum varð að ganga í gegnum þá raun að lifa á bónbjörgum. En líklega hefur sú tilfinning sem efst var í huga Vestmannaeyinga að ham- förunum loknum verið þakklæti fyrir að ekki fór verr. Allt sumarið 1973 var starfað að hreinsun og uppbyggingu Vestmanna- eyjakaupstaðar. Sjó var dælt á nýja hraunið til frekari kælingar og lauk dælingunni 10. júlí. 200 menn unnu við hreinsun og var unnið á þrískiptum vöktum. I lok ágúst hafði mikill hluti bæjarins verið hreinsaður að fullu og um miðjan spetember var áætlað að 800 þúsund smálestum hefði verið ekið af götum bæjarins. Samhliða þessu unnu flokkar iðnaðarmanna að viðgerðum á þeim mannvirkjum sem ennþá voru uppistandandi. I ágústmánuði tóku fjölskyldur Eyja - skeggja að flytja heim á ný. Þessar fjölskyldur höfðu verið dreifðar um landið, sumar tvístraðar og náðu nú að sameinast á ný. Um haustið voru skólar settir í Eyjum eins og endranær. Á þriðja hundrað nemendur voru innritað- ir í Barnaskóla Vestmannaeyja og 80-90 nemendur í Gagnfræðaskólann. Lífið í Eyjum var að byrja að taka á sig eðlilega mynd, en ekkert var þó eins og áður. Gömul hús og götur oft tengd nöfnum kunnra Vestmannaeyinga voru horfin og voru aðeins til í minningunni. Eyjarnar höfðu fengið nýtt yfirbragð. Hlutskipti Vestmannaeyinganna sem fluttu til eyjanna á ný var að nokkru leyti hlutskipti landnemans, svo framandi var margt í hinu nýja umhverfi. Allmargir rótgrónir Vestmannaeying- ar munu hafa ílenst uppi á landi af þeim sökum að þeir gátu ekki sætt sig við hinar nýju Vestmannaeyjar. Gosið í Heimaey varð fréttaefni í öllum nálægum löndum og vakti mikla athygli. Einkum brugðust Norðurlanda- þjóðirnar þannig við að það verður lengi í minnum haft. Frá Færeyingum, lög- þingi og einstaklingum bárust hvorki meira né minna en 30 milljónir króna, en þá voru Færeyingar um 40 þúsund. Rausn og samhugur Færeyinga var með ölíkindum. Þingfulltrúará þingi Norðurlandaráðs samþykktu 20. fcbrúar 1973 að Norður- landaþjóðirnar skyldu í sameiningu leggja fram I(K) milljónir króna danskar í Viðlagasjóð. Þegar tillagan var borin upp risu þingfulltrúar úr sætum sínum til samþykkis og í samúðarskyni. Fyrir utan þetta fóru fram almennar safnanir á Norðurlöndunum og þannig safnaðist stórfé. Bæjarstjórnir ýmissa bæja á Norðurlöndunum sendu umtals- vert fé. Frá löndum utan Norðurlandanna barst einnig giafafé, það voru þá yíirleitt einstaklingar sem gáfu fé beint og milliliðalaust án þess að söfnun hefði áft sér stað. Þó fóru víða fram safnanir svo sem í Sviss og Þýskalandi. Innanlands brást fólk einnig rausnar- legavið. Fyrirutanþæraukaálögur sem á fólk voru lagðar safnaðist mikið fé. Allir vildu lcggja sitt af mörkum. Vestmannaeyjagosið var án efa mikil raun fyrir Vestmannaeyinga. Allmikið mun hafa verið um það að fjölskyldur tvístruðust og náðu ckki að sameinast aftur. Sumir gátu ekki hugsað sér að ílendast uppi á landi, öðrurn hraus hugur við því að flytja aftur í Eyjarnar, svo að segja um lcið og síðasti eldurinn var kulnaður, minnugir þess að eldar lágu niðri svo mánuðum skipti en komu upp aftur í Surtseyjareldum. Mörgum þótti því ganga vitfirringu næst að flytja svo snemma í eyjarnar á ný, í stað þess að bíða a.m.k. næsta vetur til að sjá hvetju fram yndi. En meirihluti Eyja- manna vildi heim, - og það strax. En hvað sem öllum áföllum líður þá urðu lyktirnar betri en jafnvel bjartsýn- ustu menn hefðu þorað að láta í Ijós vonir um, þegar útlitið var sem dekkst. Tekift saman með hliðsjón af bókunum „Byggft og eldgos", eftir Guðjón Armann Eyjólfs- son og „Eldgos í Eyjum“, eftir Árna Gunnarsson. — JGK.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.