Málfríður - 15.10.2005, Blaðsíða 19

Málfríður - 15.10.2005, Blaðsíða 19
MÁLFRÍÐUR 19 voru honum ekki í blóð bornir. Hann var, með öðrum orðum, aðkomumaður. Og ég ætla að halda því fram að þessa tilfinningu, að vera afglapi á torg- um, þekkjum við öll. (Eða réttara sagt: ef við þekkj- um ekki þessa tilfinningu, þá ættum við að drífa okkur af stað, leggja land undir fót og afla okkur þessarar reynslu.) Ég ætla líka að halda því fram að það sé á sérstaklega eindreginn hátt hlutskipti okkar Íslendinga, og hafi lengi verið, að ganga í gegnum þá reynslu að vera afglapar á torgum. Á vissan hátt er þetta óumflýjanlegt hlutskipti þeirra sem alast upp hér á þessari eyju með öllu sem því fylgir og þar er tungumálið, íslenskan, auðvitað fremst í flokki. Vissulega er þetta ekki auðvelt hlutskipti – en engu að síður held ég að við venjumst því allt frá blautu barnsbeini að þetta verkefni sé til að leysa það (sjálf- sagt kemur þar til sögunnar víkingaeðlið margfræga sem greiningardeildir hinna ýmsu banka hafa nú gert að einu helsta fræðahugtaki samtímans) og að það sé mikill kostur, að ég ekki segi mikil forrétt- indi, að vera í þeirri aðstöðu að þurfa að leysa þetta verkefni. Af hverju? Vegna þess að sá sem gengur í gegnum það að vera afglapi á torgum snýr ætíð heim að nýju – og með því orðalagi á ég við að hann hættir að vera aðkomumaður, hann kemst yfir það að vera afglapi og finnur sig að nýju. Að því gefnu að fósturjörðin reynist nógu aðlaðandi þegar til á að taka – eða, svo ég komi mér nú aðeins niður úr skýjunum, starfs- skilyrði séu fyrir hendi, aðstæður til að stofna til fjöl- skyldu og ala upp börn séu hagstæðar, menningarlíf sé fjölbreytt og líflegt – þá snýr afglapinn fyrrver- andi sjálfsagt heim. Og ef vel tekst til verður hann þar með, í sátt við land og þjóð, að skáldi í sínum Hallormsstaðaskóg. Þá segir hann eins og Laxness í kvæðinu: „ég býð þér dús, mín elskulega þjóð“.3 Gefum okkur sem sé að afglapinn okkar sé kom- inn heim, í sinn Hallormsstaðaskóg og að hann sé orðinn þar skáld; tekinn til við að yrkja tunguna, landið og þjóðina, hina „einu og sönnu þrenningu“, svo vitnað sé í Snorra Hjartarson. Sjálfsagt er rétt að taka fram að skáldið getur vel talist í flokki þeirra sem heita á íslensku athafnaskáld. Og ég ætla að halda því fram að sú reynsla skáldsins, að hafa áður verið afglapi á torgum, reynist honum nú, þar sem hann er tekinn til við að yrkja, afar dýrmæt. Skilningur hans á þörfum tungu lands og þjóðar og þekking hans á þeim gæðum og möguleikum sem í aðstæðunum búa, hvílir á þeirri reynslu sem hann hefur aflað sér erlendis. Er þetta ekki alveg augljóst? Án skálda sem lagt hafa á sig að búa nógu lengi erlendis, lifa sig inn í framandi menningu, sökkva sér ofan í önnur tungumál – eru framfarir og bættur hagur ekkert annað en orðin tóm. Auga hins fyrr- verandi afglapa – gestsauga þess sem séð hefur út fyrir landsteinana í annarri og dýpri merkingu en þeirri sem felst í einberum túrisma – er aflvaki þess að eitthvað gerist, eitthvað nýtt. Og þá er líklega kominn tími til að koma sér að efninu, svona rétt í lokin. Okkur er sagt að nú tíminn einkennist af hnattvæðingu. En hvað er þessi svo nefnda hnattvæðing? Á köflum er engu lík ara en henni sé eingöngu ætlað að sjá til þess að Vest urlandabúar geti verið eins og heima hjá sér hvar sem er, að þeir geti verið túristar hvar sem er á jarðarkringlunni – hinir einu sönnu afglapar á torgum sem ekki vilja tileinka sér neitt heldur bara kaupa það. Er þetta sú hnattvæðing sem við viljum sjá? Má ég þá heldur biðja um skáldið sem hefur skilið að það hlutskipti að vera afglapi á torgum er verkefni sem takast ber á við með opnum huga – og að úrlausn þessa verkefnis er ein besta menntun sem völ er á í samfélagi svokallaðrar hnattvæðingar. Tökum eftir því að gott skáld er oftar en ekki góður þýðandi – og það er hann einmitt í krafti þess að hafa gengið í gegnum afglapastigið. Og það sem við þurfum umfram allt nú í dag og á öldinni sem framundan er eru góðir þýðendur. Við þurfum fólk sem sýnir snemma áhuga á því að kynna sér fram- andi lönd, læra tungumál, kynna sér siði annarra þjóða, öðlast skilning á því að ekki eru allir eins og við. Að þessu unga fólki ber okkur að hlúa allt frá fyrstu stund; og þetta sjáum við án allra talnakúnsta, við þurfum bara að beita heilbrigðri skynsemi. Hlutskipti Íslendinga er að læra erlend tungumál. Spurningin snýst um það hvort við viljum leggja ofuráherslu á hið svokallaða alheimsmál, boðbera hinnar einsleitu hnattvæðingar, eða hvort við viljum rækta með okkur þá fjölbreytni sem skapar dýpri skilning á okkur sjálfum og heiminum öllum. Ég læt ykkur eftir, áheyrendur góðir, að leggja mat á þessa kosti – og svara þeirri spurningu, í hvorum hópum hinir sönnu afglapar standa. 3 Kvæðakver, s. 20. – Nú kynni að vísu einhver að segja að þetta sé eitthvað málum blandið og að jafnvel verði vart við hroka í þessum málflutningi skáldsins. Það er sem ég heyri fjallkonuna rísa upp úr fleti sínu og þruma við raust: „sá sem gerir sig breiðan við mig má éta það sem úti frýs“. En þar held ég einmitt að vinkonu minni skjátlist. Því að það eru sér í lagi þeir sem leyfa sér, til dæmis á yngri árum, að gera sig breiðan við fjallkon- una, sem sjá síðar til þess að lýðurinn sem landið byggir éti ekki bara það sem úti frýs..

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.