Málfríður - 15.10.2005, Blaðsíða 31

Málfríður - 15.10.2005, Blaðsíða 31
MÁLFRÍÐUR 31 í paravinnu jafnt sem einstaklingsvinnu og á nám- skeiðinu fórum við í gegnum nokkrar skemmtilegar paraæfingar til að þjálfa ritun. Ein æfingin fólst til dæmis í því að skrifa samtal þar sem fyrsta línan innihélt 7 orð, sú næsta 6, þá 5 orð og svo koll af kolli þar til samtalinu lauk með einu orði. Önnur útfærsla af þessari æfingu er að byrja með 1 orð í línu, þá 2 o.s.frv. Einn þátttakandi í hópnum sagðist hafa prófað svona samtalsritun með nemendum til að ræða skáldsöguna Of Mice and Men. Þriðja æfingin af þessum toga var þannig að annar aðilinn byrjaði samtal með 10 orða setningu og skrifaði síðan tölu á bilinu 2–16 sem sagði mótaðilanum til um hversu mörg orð máttu vera í svari hans. Hópteikning sem hugmyndauppspretta ritunar Mario bað okkur um að teikna í sameiningu mynd á töfluna. Hver þátttakandi mátti aðeins teikna einn hlut í hvert sinn sem hann kom upp. Myndin verður að vera ein merkingarbær heild („the drawing must make visual sense“). Myndina má síðan nota sem hugmyndauppsprettu fyrir alls kyns ritunarverk- efni, s.s. lýsingu, sögu, samtöl, fréttafrásögn, bréf frá einhverjum í myndinni, orðaforðavinnu (nefna það sem er á myndinni), o. s. frv. Sem dæmi um það hversu óhefðbundinn Mario er í hugsun er að hann bað okkur um að skrifa samtal á milli eldfjalls og heysátu, en hvoru tveggja var að finna á myndinni sem við höfðum í sameiningu teiknað á töfluna. Önnur hugmynd sem hann kynnti fyrir okkur var að nemendur gætu skrifað frásögn af hugsunum sínum og tilfinningum meðan teikningin var í vinnslu. „A part writing to the whole (and vice versa)“ Það er um að gera að nota ímyndunaraflið þegar unnið er með ritun og ástæðulaust að skrifa aðeins sem mannvera. Þess í stað má ímynda sér að maður sé tré, laufblað, tá, fótur, pottur, bílvél eða hvað annað sem manni dettur í hug og skrifa út frá því, eins og næsta æfing gerði okkur ljóst. Mario talaði lítillega um tré og bað okkur um að tilgreina uppáhaldstréð okkar. Í umræðunni var rifjaður upp ýmiss orðaforði varðandi tré, s. s. heiti ýmissa trjá- tegunda o. þ. u. l. Síðan bað Mario okkur um að finna okkur félaga; annar aðilinn átti að vera tré en hinn lauf. Verkefnið fólst síðan í að skrifa bréf, annars vegar frá laufinu til trésins og hins vegar frá trénu til laufsins. Afraksturinn vakti talsverða kátínu enda nýstárlegt að setja sig í spor laufa/trjáa. Bréf trjánna áttu efalaust flest það sammerkt að vera föður-/móðurleg meðan laufin voru unggæðings- legri í tali. Mario kallaði þessi skrif „hlutur skrifar til heildar og heild skrifar til hlutar“ og kynnti fleiri hugmyndir sem mætti nýta í svipuðum tilgangi. Meðal þess má nefna: tree – leaf, school – playground; English language – English grammar; car – gear box; a drunk – his/her liver; brain – nerves; river – waterfall; Winnipeg – Icelandic minority; volcano – cald era; a teenager’s room – a teenager’s room’s door; house – cellar; Iceland – Húsavík; the US – California. Myndgerðar tilfinningar „Ímyndið ykkur að þið séuð hús“, sagði Mario. Síðan bað hann okkur (þ. e. húsin) að lýsa í ritun hvernig okkur væri innanbrjósts þá stundina og hvernig okkur liði bæði líkamlega og tilfinningalega. Útkoman var vitaskuld býsna brosleg en í gegnum lýsingar af mishrörlegum húsum mátti vitaskuld greina hvernig viðkomandi nemendum leið þá stund- ina. Mario benti á fleiri hliðstæðar myndhverfingar sem virka vel í þessum tilgangi, svo sem veðrið og landslag. Lýsing á eigin tilfinningum Vitaskuld þarf ekkert endilega að dylja tilfinningar sínar í formi myndhverfinga. Stundum getur verið ágætt að hefja kennslustund á því að biðja nem- endur að skrifa hvernig þeim líður nákvæmlega á því augnabliki, jafnt líkamlega sem tilfinningalega. Þetta getur verið leið til þess að kyrra hugann eða auka einbeitingu nemenda. Þessi æfing minnti óneit- anlega á jóga. Jógaritun! Að lokum ... Til viðbótar öllum þeim hugmyndum og aðferðum sem Mario kynnti á námskeiðinu, dreifði hann til okkar aragrúa af ljósrituðum greinum og kafla brot- um eftir hann sjálfan og aðra höfunda. Jafnframt hafði hann frammi sýnishorn af bókum eftir sjálfan sig og aðra. Þeim sem vilja fræðast nánar um þessar bækur, er bent á að skoða heimasíðu Pilgrims-stofn- unarinnar: www.pilgrims.co.uk, þar sem m. a. má finna lista yfir bækur eftir starfandi kennara. Mario ritstýrir auk þess veftímaritinu Humanising Language Teaching: http://www.hltmag.co.uk/ Námskeiðið, sem hér hefur verið lýst, skildi mikið eftir sig og fyllti mig löngun til að nota það sem ég hafði fengið að reyna. Það sem situr þó sterkast eftir er virðingin fyrir nemendum sem geislaði af Mario og viðleitni hans til að nálgast þá sem manneskjur. Með þetta veganesti var spennandi tilhugsun að hefja nýtt skólaár.

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.