Reykjavík


Reykjavík - 07.12.2013, Blaðsíða 16

Reykjavík - 07.12.2013, Blaðsíða 16
16 7. DESEMBER 2013 Fólk með ólíkan bakgrunn eykur fjölbreytni í bókmenntum Reykjavíkurborg titlar sig sem bókmenntaborg og hefur áhersla verið lögð á að auka lestur barna. En forsenda þess að börn fái tækifæri til að lesa og njóta bókmennta er sú að barnabókaútgáfa í landinu sé blómleg og að út komi vandaðar bækur á íslensku. Einn afkastamesti barnabókahöfundur landsins er Huginn Þór Grétarsson, en hann er einnig í forsvari fyrir útgáfufyrirtækið Óðinsauga sem er nú leiðandi í útgáfu á íslensku efni fyrir börn- og unglinga. Það er komið fram yfir kvöldmat þegar ég renni upp að húsinu. Huginn Þór kemur til dyra og prinsessan hún Ísabella smeygir sér fram hjá pabba sínum til að sjá hver var að koma. Pr- insessan er jafnforvitin og ég. Hún vill vita allt um mig, en ég vil vita allt um pabba hennar, Huginn Þór. Þegar prinsessan er búin að svala forvitni sinni spyr ég Huginn Þór hvað hafi orðið til þess að hann fór út í bóka- útgáfu og valdi að skrifa bókmenntir fyrir börn? „Ég hef alltaf verið mikið fyrir að búa til eitthvað, með óstjórnlega sköpunar- gleði. Til dæmis gerði ég heimatilbúna bók fyrir litla bróður minn þegar ég var unglingur og skrifaði nokkrar sögur og ljóð á þeim tíma. Áfram hélt ég upp- teknum hætti og skrifaði mestmegnis mér sjálfum til yndis næstu árin. Þegar ég starfaði hjá prentsmiðjunni Odda sem markaðsstjóri kynnist ég fram- leiðslu bóka og hafði þá um nokkurt skeið unnið að tveimur verkum, skáld- sögu og ferðasögu. Þannig að úr varð að ég gaf út mína fyrstu bók árið 2006 sem var ferðasaga sem segir frá dvöl minni í Suður-Ameríku.“ Þá segir Huginn að í framhaldi af þessu hafi hann farið að draga fram gömul handrit að barnabókum og fullvinna þau. Strax árið 2008 gaf hann út, hvorki meira né minna en fimm barnabækur. Eina af þessum bókum hafði Huginn Þór skrifað rúmlega tíu árum áður. Eftir það var ekki aftur snúið, hann var kominn á skrið og hefur verið að síðan. Eftir smá vanga- veltur bætir Huginn því við að útgefnar bækur eftir hann séu orðnar vel á þriðja tug talsins og fleiri væntanlegar. Fékkstu einhverja ráðgjöf eða kennslu við skrifin eða ertu sjálfmenntaður á þessu sviði? spyr ég hann og virði fyrir mér skemmtilegu myndirnar úr barna- bókunum sem prýða veggina í holinu. „Ég nýtti mér samskiptavettvang á netinu sem heitir Rithringur.is. Þar eru ótal rithöfundar, bæði útgefnir og óútgefnir sem gefa hverjum öðrum endurgjöf á efnið sem verið er að vinna. Það er margt sem höfundar geta byggt á þegar kemur að skrifum. Það mikilvægasta er sennilega lífsreynsla. Svo er það líka menntun. En þó alls ekki eingöngu íslensku- og bók- menntafræði. Það væri of einhæft að mínu mati. Fólk með ólíkan bakgrunn eykur fjölbreytni í bókmenntum. Ég er viðskiptafræðingur að mennt, en ég legg mesta áherslu á uppfræðslu og að vekja börn til umhugsunar í mínum skrifum. Að skapa umræðu um ákveðin málefni sem skipta börn máli. Síðan reynir maður að styrkja góð gildi á sama tíma, án þess þó að þröngva þeim upp á nokkurt barn. En kannski það mikilvægasta burt séð frá þessu, er að bækurnar séu skemmtilegar. „ Í stuttu máli, hverskonar efni kemur út á vegum Óðinsauga? Spyr ég og renni yfir litríku barnabækurnar sem fylla út í hillurnar. „Við í útgáfunni höfum verið að sækja efnivið til íslensku þjóðsagn- anna. Búkolla kom út í nýrri útgáfu með skemmtilegum vatnslitamyndum. Bækur með boðskap, ein bók tekur á myrkfælni barna, önnur tekur á ein- elti o. s. frv. og bækur sem hafa upp- fræðslugildi. Kenna þeim um líkama þeirra og fleira í þeim dúr. Síðan eru bækur með meiri texta til að þjálfa lestur og þá er höfuðáherslan á að bækurnar séu skemmtilegar. Og grín, það má ekki gleyma því. Sumir krakkar eru tvístígandi þegar kemur að lestri og ég reyni líka að skrifa bækur sem eru gamansamar, geri gys að ýmsu sem börnin þekkja og reyni að fá þau til að hlæja. Það eykur líkurnar á því að þau nenni að lesa sem aftur eykur færni þeirra. Þá geta þau notið fjölbreyttari bókmennta. Bara síðast í dag var ég í símanum og ræddi við bókasafnsvörð sem sagði að hún reyndi ávallt að kaupa margar bækur eftir þennan „Huginn Þór“, því bækurnar hans væru svo skemmtilegar. Ég gleymdi greinilega að kynna mig en fannst gaman að heyra það sem ég hef séð undanfarin ár, að börn njóta þess að lesa bækurnar. Þær eru litríkar og efnið gamansamt. Þannig legg ég mitt að mörkum til að auka lestur barna.“ segir Huginn Þór kíminn og bætir við: „Við gáfum út um 25 verk í fyrra en við verðum með 35 verk í ár.“ Getur þú sagt okkur aðeins frá bók- unum sem koma út eftir þig í ár? „Ég er enn að dunda mér við að skrifa um jólasveinana. Það kemur út bók um hann Kertasníki, sem er fingralangur karlanginn, og honum verður á að setja logandi kerti inn á sig. Þá fuðra fötin upp og sveinninn stendur á nærbrókunum og á eftir að fara með dót í skóinn. Hann bjargar sér nú og allt endar vel. En ég er mikið í þjóðlegum ævintýrum í ár, endursegi Gilitrutt og gef út glænýtt ævintýri sem nefnist Fiðrildavængir. Þar kemur við sögu tröllskessa og náttúrutöfrar. Í bókinni Fiðrildavængir kem ég inn á mikilvægi hjálpsemi og að koma vel fram við fólk og dýr.“ segir rit- höfundurinn og ég finn vel að skrifin eru mikil ástríða hjá honum. Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér? „Það er vissulega draumur að geta gefið út 35 barnabækur á ári líkt og þetta árið, bæði innlent efni og þýddar bókmenntir. En íslenskar barnabækur eiga undir högg að sækja í samkeppni við ódýrt erlent efni. Íslenskir barnabókahöfundar hafa ekki staðið jafnfætis öðrum rit- höfundum hérlendis þegar kemur að úthlutunum listamannalauna og bókmenntasjóðir hérlendis virðast einnig líta barnabókmenntir öðrum augum en skáldsögur og annað efni ætlað fullorðnum. Þetta er vissulega alvarlegt mál og óskiljanlegt því það er alveg klárt mál að mikilvægustu bókmenntir þjóðarinnar eru þær sem kenna börnum að njóta lesturs. Án góðra barnabókmennta er hætt við því að börn alist upp við aðra afþreyingu og hafi lítinn áhuga á bókmenntum á fullorðinsárum.“ segir Huginn Þór ákveðinn og heldur áfram: „Óðinsauga útgáfa mun áfram leggja áherslu á barnabókaútgáfu, en útgáfan hefur einnig undanfarin ár gefið út skáldsögur fyrir fullorðna og það er að vænta fleiri nýjunga í ár. Meðal annars gefum við út bókina Heilsudrykkir Hildar, þar sem við reynum að fá landann til að njóta hollra drykkja og huga að heilsunni. Við lítum á það sem skyldu okkar að gefa nýjum efnilegum höfundum tækifæri til að koma góðu efni á fram- færi og ýta undir grósku í þessum geira. Það stefnir í að íslenskir höf- undar hjá útgáfunni verði orðnir 20 talsins í lok árs 2013. „ Viðtalið verður ekki lengra því að Ísabella er orðin þreytt og bíður eftir rithöfundinum föður sínum með bók í hönd til að lesa fyrir svefninn. Ég kveð Huginn Þór og fæ að skyggnast örlítið meira inn í framtíðina á leiðinni út þegar hann sýnir mér nokkrar af þeim bókum sem hann og aðrir höfundar eru að vinna að hjá útgáfunni. Það er óhætt að segja að börnin okkar geti hlakkað til komandi missera. En einfaldast er fyrir lesendur að fylgjast með útgefnu efni á www. facebook. com/ odinsauga og á vefsíðu útgáf- unnar www. odinsauga. com. Sirrý Sigurðardóttir Er bíllinn þinn klár fyrir veturinn? Rain-X býður upp á fullkomna yfirborðsvörn Rain-X verndar bílinn, eykur útsýni og öryggi Hreinn bíll eyðir allt að 7% minna eldsneyti Löður leggur mikið upp úr umhverfisþættinum og bíður upp á umhverfisvænann þvott. Við erum á sex stöðum á höfuðborgarsvæðinu www.lodur.is Löður kynnir

x

Reykjavík

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Reykjavík
https://timarit.is/publication/1086

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.