Reykjavík


Reykjavík - 07.12.2013, Blaðsíða 18

Reykjavík - 07.12.2013, Blaðsíða 18
18 7. DESEMBER 2013 Lífið er ævintýraferð Rögnvaldur Ólafsson forstöðu-maður Stofnunar rannsókna-setra Háskóla Íslands var þann 21. nóvember heiðraður af rektor Háskóla Íslands fyrir framlag sitt til vísinda og nýsköpunar og fór vel á því að við sama tækifæri voru afhent hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands. Rögnvaldur fer á eftirlaun frá störfum í HÍ um áramótin. Rögnvaldur nam eðlisfræði við St. Andrew‘s háskólann í Skotlandi og lauk doktorsnámi þar 1971. Stundaði síðan rannsóknir við háskólann í Edmonton í Kanada, en hann sneri heim aftur eftir nám 1973 og réðst þá til kennslu og rannsóknastarfa hjá Háskóla Íslands. Í námi sínu sérhæfði hann sig á mæl- ingum á rafmagnseiginleikum efna við mjög lágt hitastig. Rögnvaldur er giftur Sigríði Júlíusdóttur og eiga þau þrjú uppkomin börn og 6 barnabörn. Í ræðu sem Rögnvaldur hélt í tilefni viðurkenningarinnar sagði hann frá hjólaferð sem hann fór nýverið í til Marokkó. Þar hjólaði hann um Atlas- fjöllin, samtals 470 km í 10 daga ferð. Hann líkti ferðinni sem hann ákvað að fara í með litlum sem engum fyr- irvara við þau verkefni sem hann hefur valið að taka sér fyrir hendur í lífinu. Lífið væri fullt af óvissu og erfiðum brekkum sem sjaldnast væru fyrirséðar. Þrátt fyrir að hætta störfum hjá Háskóla Íslands nú um áramótin þá hefur hann í nógu að snúast en Rögnvaldur er formaður stjórnar Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Kötlu jarðvangs auk þess að sitja í stjórnum Byggðastofnunar, Háskóla- félags Suðurlands, Austurbrúar, Vaxt- arsamninga Suður- og Austurlands, Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands og Landsbókasafns-Háskólabókasafns. Ritstjóri mælti sér mót við Rögnvald í Norræna Húsinu í vikunni. Í ræðu þinni í HÍ talaðir þú um ævintýri þín í lífinu hvað vakti áhuga þinn á þeim? Þegar ég kom heim úr námi 1973 var ekki mikið um vísindastarfsemi á Íslandi og erfitt að fjármagna rann- sóknir sem varð til þess að ég ákvað að nýta þekkingu mína til að vinna að þróun ýmiskonar tækja sem byggðu á sjálfvirkum stafrænum mælingum sem var ný tækni á þeim tíma en ég hafði nýtt í rannsóknum mínum í Kanada. Fyrstu tækin sem ég vann að voru til jarðeðlisfræðimælinga auk þess sem ég vann t. d. að þróun umferðatelj- ara fyrir Vegagerðina. Það var síðan tilviljun sem réði því að ég og mágur minn, Þórður heitinn Vigfússon, sem þá var framkvæmdastjóri fiskvinnslu Þormóðs Ramma á Siglufirði vorum í jólaboði á annan í jólum að velta fyrir okkur tækifærum tengdri sjálfvirkum vogum og mælitækjum í fiskvinnslu. Í kjölfarið unnum við skýrslu um þessi tækifæri og kynntum fyrir lykilaðilum í greininni, m. a. fyrir Sigurði heitnum Markússyni sem var yfir Sjávarafurða- deild Sambandsins sem á þessum tíma var að kaupa upp frystihús um land allt og vildi nútímavæða þau, en góð mælitæki geta bætt nýtingu og aukið gæði. Í framhaldinu komst á samstarf Sjávarafurðadeildar Sambandsins og Raunvísindastofnunar. Ég réð unga nýútskrifaða verkfræðinga til að þróa kerfið og frumgerðir voru smíðaðar inni á Raunvísindastofnun. Þær voru síðan prófaðar í samstarfi við nokkur frystihús, einkum þó Fiskiðjusamlagið á Húsavík sem Tryggvi Finnsson stýrði og þar sem Hallgrímur Valdimarsson var framleiðslustjóri. Sjávarafurða- deildin hafði á þessum tíma sett upp hagræðingardeild og þar starfaði Gylfi Aðalsteinsson, hagfræðingur og hann leiddi samstarfið fyrir Sambandið. Þróunin var fjármögnuð með því að frystihúsin keyptu af okkur frumgerð- irnar því styrkir til slíks þróunarstarfs voru ekki miklir á þessum tíma. Strax í upphafi var hugað fyrir útflutningi og ég vann að þróun og prófunum tækja í frystihúsi í Finnmörku í Noregi í eitt ár frá 1981-82. Eftir 4-5 ára þróunarstarf var síðan Marel hf. stofnað 1983. Gylfi var framkvæmdastjóri en ég tækni- legur framkvæmdastjóri. Á þessum tíma vann ég að þróun voganna og stýribúnaðarins en jafnframt að upp- byggingu fyrirtækisins á mörkuðum í Noregi og Kanada. Árið 1986 hvarf ég aftur til fyrri starfa við Háskóla Ís- lands. Þá fór ég í ýmis verkefni sam- hliða kennslu og verkefnum á sviði tækniþróunar og nýsköpunar, t. d. að byggja upp Tæknigarð. Ég vann áfram í tengslum við sjávarútveginn m. a. að þróun tækni til gæðamats á fiski með Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Leiðin lá síðan til Danmarks Tekniske Universitet (DTU) í Kaupmannahöfn þar sem ég vann í eitt ár að verkefnum tengdum gæðamálum í fiskiðnaði á vegum danska sjávarútvegsráðuneyt- isins. Um 1992-93 varð Ísland hluti af Evrópska efnahagssvæðinu og þá fengu íslenskir vísindamenn aðgang að rann- sókna- og þróunarsjóðum Evrópusam- bandsins sem varð til þess að ég gerðist vísindafulltrúi menntamálaráðuneyt- isins í sendiráðinu í Brussel haustið 1994 og var þar til 1997. Þar sat ég í ýmsum tækni- og vísindanefndum ESB og tók þátt í ýmiskonar fundum og stefnumótun auk þess að hvetja og styðja Íslendinga til að sækja um og taka þátt í evrópskum verkefnum. Ég lærði mikið af dvölinni í Brussel en það sem var nýtt fyrir mér var að Evrópu- sambandið var að reyna að hugsa heildrænt um vísindin og styðja við verkefni sem væru í senn þverfagleg og lausnamiðuð, þar sem rannsóknirnar studdu við tæknina sem studdi síðan við samfélagsþróun með því að leysa hversdagsleg vandamál. Þá kynntist ég mörgum, lærði og upplifði hvað er mikilvægt að hafa í huga í alþjóðlegu samstarfi og að það sem virkar í einu landi virkar e. t. v. ekki í öðru landi, diplómasía skiptir máli og það að skilja menningu ólíkra þjóða. Eftir að ég kom heim frá Brussel 1997 vann ég auk kennslu að ýmsum verkefnum fyrir Háskólann og menntamálaráðuneytið, var for- maður úthlutunarnefndar Tæknisjóðs Rannsóknarráðs Íslands og vann að ýmsum verkefnum tengdum nýsköpun og þróun. Sveinbjörn Björnsson sem þá var rektor fól mér m. a. að vinna fyrir hönd skólans að undirbúningi Nýheima á Höfn í Hornafirði. Byggða- málin urðu mér fljótt hugleikin og ég hef verið viðloðandi þau með einum eða öðrum hætti síðan. Í kjölfar Ný- heimaverkefnisins var farið að vinna markvisst með rannsóknasetur Há- skóla Íslands víða um land og 2003 var sett á laggirnar Stofnun fræðasetra HÍ sem nú heitir Stofnun rannsókna- setra sem samanstendur af rannsókna- setrum HÍ á ýmsum stöðum á landinu. Eitt af lykilmarkmiðunum með upp- byggingu setranna á landsbyggðinni var að breyta þeim hugsunarhætti að rannsóknir ætti bara á stunda í há- skólum. Það hefði aldrei tekist að koma rannsóknasetrunum upp nema vegna áhuga og stuðnings sveitastjórna og fjárlagagnefndar Alþingis. Á þessum tíma voru að verða umtalsverðar breytingar á atvinnuháttum á lands- byggðinni, kvótakerfið farið að hafa áhrif og heimamenn farnir að sjá að það þurfti að auka fjölbreytni í at- vinnulífinu til að svæði væru aðlaðandi t. d. fyrir ungt fólk, auk þess sem það er mikilvægt að gefa fólki, sérstaklega ungu fólki, í dreifbýli innsýn í heim vísindanna. Björn Bjarnason þáverandi mennta- málaráðherra hafði mikinn áhuga á tölvutækni og hafði áhyggjur af því hvað yrði um íslenskuna á tækniöld þar sem hætt væri við að allar tölvur töluðu ensku. Hann stóð fyrir því að settar voru 105 milljónir króna í verk- efni tengd tungutækni og fékk mig til að stýra því verkefni en ég hafði nokkra reynslu af svipuðum verkefnum m. a. frá starfi mínu í Brussel. Ég stýrði verkefninu og vann m. a. með Eiríki Rögnvaldssyni hjá Málvísindastofnun HÍ að því að byggja upp gagnabanka og talgervla sem væri hægt að nota í mismunandi tækni. Auk rannsóknasetrana hafði ég mikinn áhuga á fræðslumálunum og sat m. a. í norrænni nefnd í kringum 1990 sem var að skoða almennings- fræðslu, hugmyndir sem þá var ekki farið að huga mikið að á Íslandi. Páll Skúlason rektor var mikill áhugamaður um þróun fjarnáms frá Háskóla Ís- lands og að hans tilstuðlan stýrði ég tilraunum með fjarkennslu sem hófust fyrir alvöru í kringum 1998. Upp úr því veitti menntamálaráðuneytið fjármagn til að byggja upp Kennslu- miðstöð Háskóla Íslands sem heldur utan um fjarnám og styður við þróun kennsluhátta í fjar- og dreifnámi. Þar sem ég hef setið í stjórn frá upphafi. Ferðamálin eru það nýjasta sem ég hef verið að fást við. Einhverju sinni þegar ég velti fyrir mér hvað ég gæti lagt af mörkum til að efla rann- sóknir í ferðamálum rifjaði ég upp að ég stóð fyrir þróun á bílateljurum Vegagerðarinnar og sá að ég gæti gert gagn með því að telja ferðamenn á helstu ferðamannastöðum því þær tölur liggja ekki fyrir. Ég hef verið að fást við þetta síðan 2009 og talið á ýmsum stöðum á hálendinu og í Vatnajökulsþjóðgarði. Núna er ég formaður stjórnar Rannsóknarmið- stöðvar ferðamála sem er samstarfs- og rannsóknavettvangur þriggja háskóla og atvinnugreinarinnar, en markmið stofnunarinnar er að nýta sem best þekkingu og rannsóknir háskólasam- félagsins í þágu atvinnugreinarinnar. Nú er Rannsóknamiðstöðin m. a. með rannsóknir á efnahagslegum áhrifum greinarinnar á þjóðarbúskapinn og rannsókn á áhrifum ferðaþjónustu á atvinnulíf á Norðausturlandi. Þegar þú lítur yfir farin veg, hvað er það sem stendur þér næst í dag? Byggðaþróun er það sem stendur mér næst þ. e. að byggja upp fjöl- breytt atvinnulíf um allt land. Unga menntaða fólkið flýr ekki einungis úr dreifbýlinu heldur líka frá Íslandi ef atvinna er ekki boði samanber flótta heilbrigðisstarfsmanna frá landinu þessa daga. Ungt fólk er tilbúið að fara frá Íslandi til útlanda líkt og fólk er tilbúið að fara frá Kópaskeri til höf- uðborgarinnar. Mér finnst mikilvægt að öflugt menntastarf sé um allt land, endurmenntun og símenntun, að ung- lingar geti stundað framhaldsskólanám í heimabyggð og að allir landsmenn hafi aðgang að háskólanámi m. a. gegnum fjarkennslu. Framhald á bls. 22

x

Reykjavík

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Reykjavík
https://timarit.is/publication/1086

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.