Litli Bergþór - 01.06.2012, Blaðsíða 13

Litli Bergþór - 01.06.2012, Blaðsíða 13
Litli-Bergþór 13 en að hafna þessari rausnarlegu gjöf. Að vísu töldu þær rétt að bíða með það að reisa bygginguna þar til heimsstyrjöldinni lyki en hún geysaði grimmilega um þetta leyti. Lyktir fundarins urðu svo þær að talið var að hann væri of fámennur til að taka afstöðu til gjafarinnar. Ákveðið var að kalla saman annan fund og ganga þar frá málinu með löglegri atkvæðagreiðslu og stakk Vilhelmina upp á því að þær konur sem kæmust ekki á þann fund sendu inn skriflega umsögn sína varðandi málið. Kvenfélagskonurnar hittust næst tveimur og hálfum mánuði síðar á félagsfundi sem einnig var haldinn að Vatnsleysu. Mættar voru 13 konur og þar af gekk ein í félagið á fundinum. Auk þess sendi ótilgreindur fjöldi kvenna inn bréf þar sem þær skýrðu frá afstöðu sinni til landagjafarinnar. Sigurlaug Erlendsdóttir kvenfélagsformaður las upp bréf þessara kvenna í upphafi fundarins og urðu síðan nokkrar umræður um málið. Fram kemur að Kristín Sigurðardóttir á Vatns- leysu ásamt sumum kvenfélagskvenna úr Úthlíðar- og Haukadalssóknum eru eindregið á móti því að sam- komuhúsið sé fært en þá virðist Sigurlaug hafa lagt eftirfarandi tillögu fram: „Kvenfélagsfundur 23. mars samþykkir fyrir sitt leyti að þiggja gjöf þá er Þor- steinn Loftsson og kona hans hafa boðið, sem er blettur undir samkomuhús og hiti til upphitunar húsinu sem byggt yrði í framtíð eða þegar aðstæður leyfðu.“ Þegar hér er komið hefði mátt halda að tekist yrði á um tillögu Sigurlaugar í atkvæðagreiðslu en svo er að sjá sem að örlög tillögunnar hafi ráðist þegar Jónasína Sveinsdóttir í Holtakotum lét það álit sitt í ljósi að áhættulaust væri fyrir Kvenfélagið að þiggja þessa gjöf og samþykkja tillöguna, þar sem að hún fæli ekkert ákvæði í sér annað en bjóða Kvenfélaginu að vera meðeigandi í væntanlegu samkomuhúsi er þarna yrði reist. Jónasína lét ekki þar við sitja heldur minnti stallsystur sínar á hve erfitt það væri að fá að halda samkomur í húsi sem þær ættu ekkert í og vandaði þar að auki samkomuhúsinu á Vatnsleysu ekki kveðjurn- ar og kallaði það húshjall! Jónasína endar ræðu sína með því að brýna konurnar til dáða: „Myndi þá sá dómur upp yfir okkur kveðinn um ókominn tíma að með því að hafna þessu boði líti út yfir að við hefðum ekki gjört okkur ljósa grein fyrir því hvað hér er um að ræða, og einnig að við hefðum ekki kunnað gott að þiggja.“ Eftir þessa þrumuræðu var tillaga Sigurlaugar samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þrátt fyrir fyrri mótbárur sumra kvennanna. Gjafabréfsumræða Ungmennafélags Biskupstungna Töluvert kvað við annan tón á meðal félaga í Ungmennafélaginu. Á aðalfundi þess 2. júní 1941 í samkomuhúsinu á Vatnsleysu talaði Þorsteinn Sig- urðsson og greindi frá vinnu nefndar sem hafði verið skipuð til að fjalla um Gjafabréfamálið en það heiti gáfu ungmennafélagar gjöf Þorsteins og Vilhelminu. Því miður eru þetta fyrstu heimildir Ungmennafél- agsins sem geta þessa máls og raunar þær fyrstu í nýrri fundargerðarbók. Bókin þar á undan finnst ekki og því sést ekki hvaða viðtökur gjöf Vilhelminu og Þorsteins fær í upphafi og þær umræður sem hafa orðið á viðkomandi fundi. Fram kemur í máli Þorsteins að gjöf Þorsteins og Vilhelminu hefur verið skilyrt. Félögin hafa þurft að gefa svar hvort þau vildu þiggja eða hafna gjöfinni innan tiltekins tíma. Gjafabréfanefnd Ungmenna- félagsins reyndi allt hvað hún gat til þess að fram- lengja ákvörðunarfrestinn en þegar það fékkst ekki þá tók nefndin þá ákvörðun fyrir hönd félagsins að þiggja gjöfina. Síðar á fundinum eru störf nefndar- innar lofuð í hástert svo og ákvarðanir hennar svo að ljóst er að ungmennafélagar virðast ánægðir með væntanlega lóð í Reykholti. Svo er þó ekki þegar skyggnst er undir yfirborðið. Málsvari nefndarmanna, Þorsteinn Sigurðsson, gagn- rýnir raunar gjöf Vilhelminu og Þorsteins og segir hann sig hafa sannfærst um að ekki væri mögulegt að reisa þar samkomuhús nema að fá til viðbótar væna sneið af landi hreppsins. Með þessu hlýtur Þorsteinn að eiga við að hann teldi nauðsynlegt að fá einnig land sem næði í áttina að barnaskólanum, það er að segja núverandi leikskóla. Það má líka vera að Þor- steinn hafi haft í huga hve dýr bygging barnaskólans varð en hún fór langt fram úr kostnaðaráætlun. Helsta ástæða mikils kostnaðar var sú hve dýrt reyndist að byggja undir húsið í þessum halla. Þorsteinn segir nefndina hafa horft til þess að viðtaka gjafarinnar gæti orðið til þess að treysta samvinnu við hin félögin auk þess sem að ekki megi slá hendinni á móti neinu því sem gæfi einhver rétt- indi. Hann gagnrýnir þó nýlega stofnun stúkunnar Bláfells sem hann telur vera óþarfa og að hún muni einungis sundra starfskröftum í félagsmálum sveit- arinnar. Síðar gefa Erlendur Björnsson á Vatnsleysu og Tómas Tómasson í Helludal nánari upplýsingar um málið og bendir það til þess að þeir hafi verið í umræddri nefnd ásamt Þorsteini á Vatnsleysu. Í umræðum um málið ljúka menn á borð við Stefán Sigurðsson skólastjóra og Sigurgeir Kristjánsson á Felli, síðar alþingismaður, lofsorði á störf nefndar- innar. Talsverð umræða verður um málið og lýsir Þorsteinn því yfir að það sé persónuleg skoðun sín að þörfin fyrir nýtt samkomuhús sé ekki aðkallandi og nær væri að fegra og prýða samkomustaðinn að Vatnsleysu. Í fundargerð Ungmennafélagsins kemur fram að þeir Stefán og Sigurgeir taka undir með skoðun Þorsteins um að ekki sé tímabært að ráðast í húsbyggingu á þessum tímum. Að lokum er samþykkt að fela Gjafabréfanefndinni að hafa fram- kvæmd með málinu ef með þyrfti. Viðhorf félaga í stúkunni Bláfelli Öllu erfiðara var að komast að því hvaða viðhorf meðlimir stúkunnar Bláfells höfðu gagnvart land- gjöf hjónanna á Stóra-Fljóti. Eftir töluverða leit á skjalasöfnum og viðræður við fróða menn þá fundust

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.