Bændablaðið - 09.01.2014, Blaðsíða 23

Bændablaðið - 09.01.2014, Blaðsíða 23
23 nda laðð     tudagur   an ar     Um áramót fluttust verkefni búfjár eftirlitsmanna til Matvæla stofnunar. Samhliða breytingunni ákvað Alþingi að draga úr fjár framlögum til mála flokksins. Áætluð stöðu- gildi búfjáreftirlitsmanna sem störfuðu hjá sveitar félögunum voru 10–12, en fjár heimildir Alþingis gera Matvæla stofnun aðeins kleift að ráða í sex stöðu- gildi. Fjár heimildin felur að mestu í sér að Matvæla stofnun er ætlað að afla eigin tekna, þ.e. að innheimta gjald fyrir framkvæmt eftirlit. Fram til þessa hafa sum sveitarfélög innheimt gjald fyrir búfjáreftirlitið en önnur ekki og því kann mörgum bændum að bregða við að fá reikning frá Matvælastofnun í kjölfar heimsóknar. Ljóst er að mun færra fólk mun framkvæma eftirlitið núna en hingað til, en tæplega 40 búfjáreftirlitsmenn, flestir í hlutastörfum, sinntu þessu eftirliti áður. Þessi fækkun kallar á uppstokkun eftirlitsins fyrr en til stóð, en ætlunin hafði verið að ráða menn í verktöku (fyrrverandi búfjáreftirlitsmenn) til að sinna hluta eftirlitsins 2014, sem bændur þekkja undir heitinu „vorskoðun“. Þessir sex nýju starfsmenn Matvælastofnunar eru allir með menntun í búvísindum og flestir með mikla reynslu á sviði hefðbundins búskapar, úrvals fólk og enginn vafi á að muni vinna gott starf, bændum til framdráttar. Þeir munu vinna undir stjórn héraðsdýralæknis, en á þremur svæðum starfa auk þeirra eftirlits dýralæknar. Stefnt er að því að aðeins einn eftirlitsmaður komi að jafnaði frá stofnuninni til að sinna öllu eftirliti í hverri heimsókn, misjafnt verður þá hvort eftirlitsmaðurinn er dýralæknir eða búvísindamaður að mennt, allt eftir því hvað til stendur að skoða hverju sinni. Eftirlit Matvælastofnunar með dýrahaldi og matvæla framleiðslu á frumframleiðslustað (sveita- bæjum) nær yfir eftirfarandi þætti: Heilnæmi fóðurs, heilbrigði og líðan dýra, hollustuhætti í matvælaframleiðslu, notkun lyfja, merkingar dýra, fóður- birgðir og gripafjölda, auk gæða stýringar í sauðfjárrækt. Í framtíðinni verður allt eftirlit byggt á áhættu flokkun, þ.e. allar tegundir dýrahalds verða flokkaðar eftir áhættu sem af dýrahaldinu kann að stafa, hvort heldur það snýst um áhættu sem kann að stafa af neyslu afurða viðkomandi dýra eða áhættu sem dýrin sjálf kunna að verða fyrir, s.s. aukinnar hættu á sjúkdómum eða slæmri meðferð tengdu viðkomandi dýrahaldi. Áhættuflokkun þessi verður unnin hjá Matvælastofnun á árinu og til stendur að skipuleggja eftirlitið 2015 á þeirri áhættuflokkun. Í ár mun stofnunin hins vegar forgangsraða eftirlitsstöðum og eftirlitsþáttum á annan hátt, fjármunir og mannskapur til eftirlits eru af skornum skammti og því ríður á að nýta starfskraftana þar sem þeirra er mest þörfin. Við ákvörðun um hvað verður skoðað og hvaða staðir verða heimsóttir verður litið til þekktrar sögu viðkomandi dýrahalds, stærð búa auk þess sem hluti eftirlitsstaða mun byggjast á slembiúrtaki í hverju umdæmi. Auk eftirlitsþáttanna sem taldir eru upp hér að framan þarf að bregðast við öllum ábendingum um illa meðferð á dýrum. Á síðasta ári barst 371 ábending til Matvælastofnunar, þar af 215 vegna illrar meðferðar búfjár. Slíkum ábendingum hefur fjölgað mikið milli ára, sem líklega má rekja til aukinnar meðvitundar almennings og að auðvelt er að koma ábendingum á framfæri, en flestir tilkynna í gegnum heimasíðu Matvæla- stofnunar með því að smella á táknið „Ábendingar“. Lögum samkvæmt skal opin bert eftirlit að jafnaði fram- kvæmt án boðunar og því kann mörgum bændum að bregða við ef eftirlitsmaður birtist á bæjarhlaðinu. Ég bið bændur að taka það ekki óstinnt upp banki eftirlitsmaður óvænt upp á, það er ekki við hann að sakast, en auðvitað getur sú staða komið upp að illa standi á hjá einhverjum og þá taka menn einfaldlega á því í sameiningu og leita lausna. Mér er kunnugt um að sumum bændum finnst óboðað eftirlit hinn argasti dónaskapur, það sé íslensk kurteisi að boða komu sína, en svona eru reglurnar sem samfélagið setur okkur. Alþingi setur lög, ráðuneytið setur reglugerðir og hlutverk Matvælastofnunar er að hafa eftirlit með að þeir sem halda dýr og framleiða matvæli fari eftir settum lögum og reglum. Í næsta pistli verður fjallað um framkvæmd eftirlitsins, skoðunar skýrslurnar, andmæla- réttinn og afleiðingar þess þegar frávik eða alvarleg frávik finnast við dýrahaldið, þ.e. frávik frá ákvæðum laga eða reglugerða. Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir Eftirlit með dýrahaldi ...frá heilbrigði til hollustu Leikfélagið Skagaleikflokkurinn: „Sagnakonan... móðir Snorra” ratar að nýju í sviðsljósið – ... dálítið kvenréttindastykki frá miðöldum í leikstjórn Jakobs S. Jónssonar Leikfélagið Skagaleikflokkurinn æfir nú leikverkið „Sagnakonan ... móðir Snorra“, en sýningar hefjast á ný eftir nokkurt hlé. „Sagnakonan“ var frumsýnd í lok nóvember á síðasta ári og var sýnt alls sex sinnum áður en gert var hlé á sýningum vegna jóla og áramóta. „Sagnakonunni“ var feikivel tekið, segir Guðbjörg Árnadóttir, rit- ari leikfélagsins, sem auk þess leikur titilhlutverkið, sjálfa sagnakonuna Guðnýju Böðvarsdóttur. Það var þess vegna engin spurning að sýningum yrði haldið áfram eftir áramót, enda var nær uppselt á allar sýningarnar fyrir jól. „Sagnakonan ... móðir Snorra“ er tæplega klukkustundar löng sýning og er handritið skrifað af Óskari Guðmundssyni sagnfræðingi, en leikstjóri er Jakob S. Jónsson. Fjórar leikkonur stíga á svið í sýningunni, þær Guðbjörg Árnadóttir í hlutverki Guðnýjar og Erla Gunnarsdóttir, Þórdís Ingibjartsdóttir og Lilja Rut Bjarnadóttir í öðrum hlutverk- um. Lýsing er í höndum Ingþórs Bergmanns Þórhallssonar, en leik- myndin er unnin af leikstjóra og leikhópi. En hvað kom til að Leikfélagið Skagaleikflokkurinn ákvað að setja upp leiksýningu um sagnakonuna Guðnýju Böðvarsdóttur? Hver var eiginlega sú mæta kona? Óskar Guðmundsson, höfundur handrits og sagnfræðingur, verður fyrir svörum: „Sagnakonan og móðir Snorra Sturlusonar hét Guðný Böðvarsdóttir og var fædd og uppalin á Görðum á Akranesi. Hún var sumsé Skagakona að uppruna til. Auðvitað hafði ég velt þessari konu mjög fyrir mér er ég var við rannsóknir og ritun á sögu Snorra Sturlusonar sem kom út árið 2009. Það er kannski ekki mikið vitað með vissu um Guðnýju Böðvarsdóttur en það sem við þykjumst vita gefur tilefni til að álykta um spennandi manneskju og dramatískt líf hennar.“ Meðal fræðimanna hafa verið nokkuð deildar meiningar um Guðnýju, sumir þeirra talið að erindi hennar á blöð sögunnar sé nánast nafnið eitt og að hafa fætt synina þrjá sem áttu senuna á Sturlungaöld, Þórð, Sighvat og Snorra Sturluson. En Óskar kveðst álykta öðruvísi út frá þeim heimildum sem þó eru til: „Ég tel að hún hafi sjálf verið virkur þátttakandi í framvindu sögunnar, gerandi og skapandi sögupersóna. Sömuleiðis þykist ég geta fært góð rök fyrir því að hún hafi verið sagnameistari – og heimildarmaður skrifandi ættmenna sinna, svo sem álykta má af Sturlu- sögu, Landnámu, Eyrbyggju og Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar.“ Samkvæmt Óskari, sem hefur rannsakað þetta tímabil Íslands- sögunnar betur en margur, er óhætt að segja að Guðný Böðvarsdóttir hafi verið skapandi í sögunni. Hún var heldur ekkert máttlaust verkfæri í höndum karla. Í hjónabandinu með Hvamm-Sturlu tók hún stundum til sinna ráða og var á öðru máli en bóndinn. Í ekkjudómi tók hún sér kærasta og fór í siglingu til Noregs – og eyddi þar föðurarfi Snorra sonar síns. Heim komin var hún hæstráðandi innan ættar og tók í hnakkadrambið á sonum sínum og öðrum óþekkum. Síðar meir var hún fyrir húsum hjá Snorra syni sínum í Reykholti – og þar hefur hún, að sögn Óskars, áreiðanlega verið drjúg sagnalind skrifandi mönnum á staðnum. „Guðný Böðvarsdóttir var samferðamaður margra annarra spennandi kvenna,“ segir Óskar, „og í leikritinu reyni ég að gera mér mat úr þeim líka. Ég reyni sumsé að draga fram styrkleika og dramatík í lífi nokkurra kvenna á tólftu og þrettándu öld. Frá minni hendi varð þetta dálítið kvenréttindastykki frá miðöldum. Þetta varð þrungið margs konar fróðleik og helst til efnismikið – og átti eftir að taka töluverðum breytingum þegar það komst í hendurnar á konunum í Skagaleikflokknum og Jakobi S. Jónssyni leikstjóra. Þau bjuggu þetta svo í dálítið annan búning,“ segir Óskar að lokum. Leikstjórinn, Jakob S. Jónsson, tekur undir þetta: „Já, mér fannst skipta máli að tengja Guðnýju við okkur nútímafólk, þannig að bæði ungir sem aldnir gætu tekið sögu hennar til sín. Þetta er mikil sagnfræði og mikill fróðleikur, og það getur stundum verið ærið mál að melta það allt í einni leiksýningu. En við settum sögusviðið í nútíma og leikum okkur síðan í sýningunni þannig að sagan verður eins konar tímavél. Ég vona að fróðleikurinn haldi sér eins og spennan – því sagan er hvort tveggja, fróðleg og spennandi.“ Guðbjörg Árnadóttir hjá Leikfélaginu Skagaleikflokknum horfir til framtíðar: „Kannski verður þessi sýning upphafið að því að við segjum sögu Akraness og nágrennis í formi leiksýninga. Það væri verðugt verkefni að færa ungum sem öldnum söguna og skoða hana í ljósi okkar tíma. Það væri gaman ef leikfélagið okkar gæti átt þátt í því og væri viðeigandi í ljósi þess að félagið hlaut styrk til þessarar sýningar hjá Menningarráði Vesturlands.“ Sýningar á „Sagnakonunni ... móður Snorra“ hefjast að nýju á föstudaginn og verða síðan sem hér segir: Sunnudaginn 12. janúar Þriðjudaginn 14. janúar Fimmtudaginn 16. janúar Föstudaginn 17. janúar Sunnudaginn 19. janúar Leikið er í Safnaskálanum að Görðum á Akranesi og hefjast sýningar kl. 20.00. Miða er hægt að panta í síma 773–8511. Nánari upplýsingar veita Guðbjörg Árnadóttir í síma 899–7336 og Jakob S. Jónsson í síma 862–8624. Höfundur, leikarar og leikstjóri. Talið frá vinstri: Óskar Guðmundsson, höfundur handrits, Þórdís Ingibjartsdóttir leikkona, Erla Gunnarsdóttir leikkona, Guðbjörg Árnadóttir leikkona, Lilja Rut Bjarnadóttir leikkona og Jakob S. Jónsson leikstjóri. Myndir / Mikael Felsing Erla Gunnarsdóttir, Þórdís Ingibjartsdóttir og Guðbjörg Árnadóttir í hlut- verkum sínum. Lilja Rut Bjarnadóttir á sviðinu með Guðbjörgu og Þórdísi.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.