Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 29

Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 29
IðjuþjálfInn 1/2011 • 29 Þórsteina Sigurbjörnsdóttir iðjuþjálfi Áður en ég hóf störf hjá Vest manna­eyjabæ var enginn iðjuþjálfi starfandi í bæjarfélaginu, þannig að ég var fyrsti iðju þjálfinn þar. Hrefna Óskarsdóttir fylgdi svo í kjölfarið og starfar hún hjá Starfsorku starfs endurhæfingu Vestmannaeyja ásamt því að tvær eru að ljúka þriðja árinu í fjar námi. Sumarið 2008 útskrifaðist ég frá Háskólanum á Akureyri og leiðin lá að sjálfsögðu beint heim að vinna. Þetta var spennandi tækifæri en jafnframt ógn vekjandi tilfinning að vera nýútskrifaður og fljúga úr því örugga umhverfi sem háskólinn er, hvað þá að reyna nýju hluti á nýjum og ótroðnum slóðum. Í upphafi vann ég í sex vikur með börnum með fatlanir þar sem boðið var upp á sumarúrræði fyrir þau. Mjög skemmtilegt, gefandi og krefjandi starf. Eftir að sumarúrræðinu lauk tók ég við sem atvinnuráðgjafi fatlaðra í 50% starfi, þar sem hugmyndafræði Atvinnu með stuðningi (AMS) er notuð. AMS felur í sér heildrænni aðstoð þar sem allir þættir í umhverfi einstaklingsins eru skoðaðir og aðstoð veitt þar sem þess er talin þörf, hvað atvinnu varðar. Unnið er út frá styrkleikum einstaklingsins og starfsgetu en ekki fötlun hans. Ásamt starfi mínu hjá AMS sá ég um félagslega liðveislu í 50% starfi. Markmiðið með félagslegri liðveislu er að efla viðkomandi til sjálfshjálpar, veita honum persónulegan stuðning og aðstoð sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun og auka félagsfærni, t.d. aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Þar tók ég við umsóknum um félagslega liðveislu og reyndi að finna einstakling sem gæti aðstoðað viðkomandi að rjúfa félagslega einangrun. Í febrúar 2009 hóf Hamar hæfingarstöð starfsemi þar sem ég var í 50% starfi ásamt 50% starfi sem atvinnuráðgjafi fatlaðra. Opnun hæfingarstöðvar hafði verið í burðarliðnum um nokkurt skeið enda gera lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992 ráð fyrir að starfræktar séu hæfingastöðvar fyrir fatlaða. Áður en Hamar hæfingarstöð var stofnuð fór fram hæfing að nokkru leyti á vernduðum vinnustað en það hentaði ekki nægilega vel fyrir fólk með litla starfsgetu sökum fötlunar. Hæfingarstöðin í Vestmannaeyjum er því góð viðbót við þau atvinnuúrræði sem nú þegar eru fyrir hendi. Markmiðið með Hamri hæfingarstöð er að mæta betur þörfum þessa hóps sem vonandi leiðir til aukinna lífsgæða. Hlutverk Hamars er að veita dagþjónustu, hæfingu og/eða starfsþjálfun eftir þörfum og óskum hvers einstaklings með það að leiðarljósi að draga úr áhrifum fötlunar og auka færni til starfa og þátttöku í daglegu lífi. Markhópur Hamars er einstaklingar á aldrinum 18­67 ára sem sökum fötlunar geta ekki unnið á almenna vinnumarkaðnum eða á vernduðum vinnustað. Verkefni á Hamri eru margvísleg, þar er t.d. unnið að vinnutengdum verkefnum í samvinnu við ýmsa aðila, s.s. Heimaey kertaverksmiðju, en jafnframt því starfa nokkrir skjólstæðingar Hamars þar árstíðabundið. Samstarf er við Bókasafn Vestmannaeyja og er unnið að verkefnum fyrir safnið. Hamar á einnig í góðu samstarfi við atvinnuráðgjafa fatlaðra þar sem leitað er atvinnu fyrir skjólstæðinga Hamars á almennum vinnumarkaði eftir því sem þörf er á. Auk vinnutengdra verkefna er unnið ýmiss konar handverk sem selt er á staðnum. Jafnframt því er unnið með þætti eins og persónulega umhirðu, heimilishald, félagslega þætti, hreyfingu, tómstundir og afþreyingu. Starfstími skjólstæðinganna er sveigjanlegur eftir óskum og þörfum hvers og eins. Hver og einn skjólstæðingur vinnur eftir áætlun sem sett er upp í samráði við viðkomandi og er leitast við að verkefnin séu í takt við áhuga og óskir einstaklingsins. Áætlanir eru árstíðabundnar, skiptast í vetraráætlun, sumaráætlun og haustáætlun, og geta verkefni verið breytileg eftir árstíma. Á Hamri starfa sex einstaklingar og er hæfingarstöðin opin frá kl. 9­15 alla virka daga. Yfirmaður Hamars er Jóhanna Hauksdóttir þroskaþjálfi. Undirrituð sér svo um skipulag á innra starfi ásamt Berglindi Bergsveinsdóttur þroskaþjálfa og vinnum við í hlutastarfi móts við hvor aðra. Einnig starfa hér tveir leiðbeinendur í hlutastarfi. Í Vestmannaeyjum hefur verið framþróun í atvinnumálum fatlaðra sem er mjög jákvætt en betur má ef duga skal segir orðatiltækið og erum við stöðugt að reyna að gera góða vinnu enn betri. Gleðilegt sumar! Hamar Hæfingarstöð í Vestmannaeyjum

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.