Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 31

Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 31
IðjuþjálfInn 1/2011 • 31 að vera meiri þátttakendur í þjónustu við börnin sín. Við undirbúning innleiðingar var litið til Norðurlandanna og Kanada og höfð samvinna við fagfólk bæði hér á landi og erlendis. Rannsóknarmiðstöðin CanChild í Kanada hefur verið leiðandi í þróun og rannsóknum á fjölskyldumiðaðri þjónustu en samkvæmt þeirra skilgreiningu samanstendur hún af ákveðnum gildum, viðhorfum og aðstæðum sem hafa það að markmiði að þjónusta börn með sérþarfir og fjölskyldur þeirra. Í fjölskyldumiðaðri þjónustu er viðurkennt að hver fjölskylda sé einstök og alltaf til staðar í lífi barnsins. Að foreldrar þekki börn sín best og séu sérfræðingar í þeim. Í fjölskyldumiðaðri þjónustu er litið á styrk og þarfir allra fjölskyldumeðlima. Samfara innleiðingunni fór fram endurskipulagning á innra starfi Æfingastöðvarinnar. Mynduð voru tvö aldurstengd teymi sem í eru iðjuþjálfar og sjúkraþjálfarar. Yngra teymi sinnir börnum á aldrinum 0 – 5 ára og eldra teymi börnum á aldrinum 6 – 18 ára. Ef barn hefur þörf fyrir bæði iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun vinna þjálfarar saman að gerð markmiða með fjölskyldunni og öðrum þjónustuaðilum ef þess er óskað. Gæðastjórnun var efld til muna og útbúin var gæðahandbók þar sem gæðakerfi Æfingastöðvarinnar er lýst. Gæðaráð sinnir gæðaeftirliti með reglulegu millibili. Til að tryggja samræmd vinnubrögð voru öll ferli kortlögð og gerð markvissari. Með þessu er hægt að tryggja aukið gegnsæi í ferlum og skýrari ábyrgð. Markmiðið með gerð gæðakerfis er að unnið sé að stöðugum umbótum á starfsemi Æfingastöðvarinnar sem við teljum vera forsendu framþróunar. Úrræði á Æfingastöðinni eru margþætt og sveigjanleg allt eftir þörfum hvers og eins. Reynt er að mæta þörfum allra skjólstæðinga með einum eða öðrum þætti. Úrræðin geta verið í formi beinnar þjálfunar, fræðslu og ráðgjafar til barnsins, foreldra þess eða annarra sem annast það auk útvegun stoð­ og hjálpartækja. Algengasta form þjálfunar hefur verið einstaklingsþjálfun en með vaxandi þörf á félagsfærniþjálfun er í dag einnig boðið upp á fjölbreytta hópþjálfun með það að markmiði að efla félagsleg samskipti og þátttöku í hóp. Á Æfingastöðinni er enn fremur boðið upp á sundnámskeið og sjúkraþjálfun á hestbaki. Starf þjálfara þarf að þróast í takt við nýja þekkingu og breytilegar þarfir þjóðfélagsins Allar breytingar taka tíma og þurfa bæði starfsmenn og þjónustuþegar að venjast nýju vinnulagi en í þeim felast bæði tækifæri og ógnanir. Án efa hafa þessar breytingar aukið samstarf við fjöl skyldur barna með sérþarfir auk þess sem innra samstarf og samheldni meðal starfs manna er meira en áður. Það ber að hafa hugfast að fjölskyldan er þungamiðja þjónustunnar. Við sem fagmenn þurfum að koma til móts við þarfir hennar og taka tillit til þess að fjölskyldur eru afar ólíkar í eðli sínu og hafa mismunandi viðhorf og styrkleika til að takast á við lífið. Það er mikilvægt að fagleg þróun og framfarir séu stöðugt í gangi, skjólstæðingum og starfs mönnum Æfingastöðvarinnar til hagsbóta. S t y r k t a r l í n u r Sjúkrahúsið á akureyri ___________ Endurhæfingarstöð Sjálfsbjargar Bjargi Akureyri

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.