Skólavarðan - 01.09.2007, Blaðsíða 14

Skólavarðan - 01.09.2007, Blaðsíða 14
14 NÁMSMAT Í FRAMHALDSSKÓLUM SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 7. ÁRG. 2007 Samtök áhugafólks um skólaþróun stóðu fyrir fjölmennri ráðstefnu í Flensborgarskóla í Hafnarfirði 14. september sl. Á meðal fyrirlesara var Ingólfur Gíslason stærðfræðikennari í Verzlunarskóla Íslands sem hélt erindið Hvernig prófar kennari sem vill ekki prófa? „Kennarar eru í klípu,“ sagði Ingólfur meðal annars og tók dæmi af eigin aðstöðu: „Ég er þvingaður af menntamálayfirvöldum til að nota aðferðir sem ég trúi ekki á og tel að vinni gegn mínum markmiðum.“ Ingólfur er víðlesinn og hefur kynnt sér fjölmargar rannsóknir um gildi prófa, þ.á.m. rannsóknir Butler og Nisan, Harter, Kage og fleiri sem unnar hafa verið á undanförnum þremur áratugum. Ingólfur sagði þær leiða í ljós að nemendur víða um heim sýna minni áhuga á að læra ef þeir fá einkunnir. Einkunnagjöf leiðir til að þeir vilja síður glíma við krefjandi verkefni og hún rýrir hugsun nemenda, ef þeir vita fyrirfram að þeir muni fá einkunnir þá standa þeir sig verr þar sem krafist er skapandi hugsunar. „Próf eru skemmandi og gera ekkert gagn,“ sagði Ingólfur. „Alfie Kohn (www. alfiekohn.org, innskot keg) og margir fleiri eru sammála mér um þetta.“ Ingólfur taldi þessu næst upp nokkur atriði sem einkenna einkunnir að mati hans og ýmissa annarra: Þær eru ekki marktækar, áreiðanlegar eða hlutlægar. Þær hafa stýr- andi áhrif á námsefni, fyrir valinu verður auðprófanlegt kennsluefni en öðru er ýtt til hliðar. Þær sóa tíma og orku nemenda og kennara og leiða til svindls. Þær hafa slæm áhrif á tengsl nemenda innbyrðis og á sjálfsmynd allra nemenda,líka þeirra sem fá háar einkunnir. Þeir verða gjarnan háðir þeim, ofurviðkvæmir og brotna niður ef það bregst að einkunnin sé há. Loks vinna einkunnir gegn því að nemandi þrói með sér námsvitund, beri ábyrgð á eigin námi. Ingólfur spurði samkennara sína hvers vegna þeir notuðu próf. Hann fékk m.a. þessi svör: Til þess að fá tíma hjá nemendum, ef einn prófar ekki þá lærir nemandinn ekkert hjá honum - bara hinum sem prófa. Til að nemandinn sjái stöðu sína og kennarinn hvernig honum gangi að kenna. Til að æfa nemandann í að taka próf. Af því að sú krafa er gerð að próf séu lögð fyrir. Svo var að heyra á Ingólfi að honum fyndist gagnleysi prófa ef til vill ekki þurfa frekar vitnanna við. „Hvað segir einkunn okkur?“ spurði hann. „Er það fólkið sem fær hæstu einkunn sem á framtíðina fyrir sér? Er það markmið okkar að flokka fólk í hæfa og óhæfa? Ágreiningur okkar um próf er ekkert smáatriði. Þetta er djúpstæður ágreiningur um nám og hvað er þess virði að læra. En það er erfitt að ræða þessi mál vegna þess að fólk er svo fast í núverandi kerfi.“ Að sögn Ingólfs á nám að veita nemendum verðuga reynslu, krefjandi verkefni. Þeir verða auðvitað að vita hvar þeir standa en það þarf enga einkunn til þess, einungis kennara sem fylgist með og lætur vita þegar á þarf að halda. „Áhrifaríkasta leiðin til að búa nemendur undir venjuleg próf er að kenna mjög illa,“ sagði Ingólfur. „Hver mínúta sem varið er í slíkt er mínúta sem glatast enda er þá ekki stutt við skapandi og greinandi hugsun.“ Ingólfur hefur gert tilraunir með annars konar námsmat og meðal annars lét hann nemendur í tveimur námshópum vinna verkefni sem ekki voru gefnar einkunnir fyrir heldur umsögn og nemendum gefinn kostur á að bæta verkefnin eftir leiðsögnina. Nemendur voru að sögn Ingólfs reiðubúnir til að beita sér í meira krefjandi verkefnum en ella með þessu vinnulagi og þeir sjálfir og kennari höfðu góða vitneskju um hvar þeir stóðu. Tilraunin heppnaðist betur í þeim námshópi sem var í meira krefjandi áfanga. Þær breytingar hafa verið gerðar á námsmatsreglum í Verzló nýverið að 20% námsmats skal vera samræmt á milli bekkja í hverjum áfanga fyrir sig. Þetta gerir það að verkum að tilraunir á borð við þá sem hér var lýst eru fyrir bí. „Mér finnst þetta líka snúast um gildi sem við höfum gleymt í daglegu lífi,“ sagði Ingólfur. „Hvernig fólk viiljum við útskrifa? Sjálfstætt, skapandi, gott og hamingjusamt ... eða er það ekkert á okkar sviði? Hvað geri ég sem kennari í þessari aðstöðu?“ Klípa Ingólfs er ekki leyst en hann reynir að tryggja námsmat sem hann er sáttari við með ýmsum hætti svo sem að ljósrita lausnir nemenda, geyma þær af því hann getur frekar nýtt þær en staka tölu sem hann hefur skráð, og skila þeim svo aftur í áfangalok með leiðbeiningum. Ingólfur nefndi líka tilraunir sínar til að semja gagnlegar prófspurningar og tók nokkur dæmi, svo sem: „Leystu dæmið og fjallaðu svo um það: hverju má breyta og hvernig, þannig að þú getir engu að síður leyst það“ og: „Nefndu það sem vakti mestan áhuga hjá þér í stærðfræðinni í vikunni/vetur.“ Aðrir fyrirlesarar stóðu líka undir væntingum á þessari stórgóðu ráðstefnu. Þeir voru Jón Torfi Jónasson, prófessor í Háskóla Íslands, með erindið Er tími formlegs námsmats liðinn?, Rósa Maggý Grétarsdóttir, kennari við Menntaskólann við Hamrahlíð, sem gerði grein fyrir rannsóknum sínum á námsmatsaðferðum í framhaldsskólum í erindinu Hverjum þjónar námsmat? og Einar Steingrímsson, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, með erindið Námsmat - mæling eða kennslu- tæki? Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og erindin eru á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun, www.skolathroun.is keg Er tími formlegs námsmats liðinn? Framhaldsskólakennarar vildu ekki láta trufla sig á meðan þeir hlýddu á Ingólf Gíslason talaði af mikilli rökvísi gegn prófum og einkunnagjöf. Ágreiningur okkar um próf er ekkert smáatriði. Þetta er djúpstæður ágreiningur um nám og hvað er þess virði að læra. En það er erfitt að ræða þessi mál vegna þess að fólk er svo fast í núverandi kerfi. Áleitnar spurningar á nýlegri ráðstefnu um námsmat í framhaldsskólum Ljósmynd: keg

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.