Skólavarðan - 01.09.2007, Blaðsíða 30

Skólavarðan - 01.09.2007, Blaðsíða 30
30 SMIÐSHÖGGIÐ SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 7. ÁRG. 2007 Jón Árni Friðjónsson og Jens Benedikt Baldursson lýstu eftir umræðu um fjarkennslu í Skólavörðunni í mars sl. í grein sinni „Fjarkennsla, fjarnám eða einingasala?“ Steinunn H. Hafstað svaraði þeim félögum í Skólavörðunni í maímánuði með greininni „Sleggju- dómum um fjarnám svarað“. Jón Árni og Jens Benedikt hafa engan veginn tæmt viðfangsefnið, þeir segja nauðsynlegt að rjúfa skarð í þá friðhelgi sem virðist hvíla yfir fjarkennslu og eru höfundar þess sem ritað er hér að neðan. Sum orð eru lausnarorð; sum hugtök eru friðhelg. Sumar nýjungar verða vinsælli og virðingarverðari en aðrar, það myndast óskráð samkomulag meðal þeirra sem um þær sýsla að það sé rangt að gagnrýna þær. Hinir taka þá gjarnan þann kost að þegja til að verða ekki grunaðir um algera forpokun. Þannig finnst trúlega ýmsum að það sé ekki í anda pólitískrar rétthugsunar að birta á prenti efasemdir sínar um að vinsæla lausn á borð við fjarkennslu. Það getur verið áhættusamt að tala ógætilega um heilagar kýr, sérstaklega ef þær eru nytháar! Þetta vissum við allt, þess vegna áttum við hálft í hvoru von á harkalegum viðbrögðum frá forgöngumönnum fjar- kennslu í íslenskum framhaldsskólum þegar við birtum nokkur gagnrýnisorð um hana í vorblaði Skólavörðunnar. Nokkrir kennarar og stjórnendur hafa tekið óopin- berlega undir með okkur en fyrir utan eitt föðurlega ávítandi tölvubréf frá gömlum félaga, sem nú er kominn á hærra þrep í skólasamfélaginu, höfum við ekki fengið önnur andmæli en þau sem forstöðu- maður fjarkennslu í Ármúlaskóla, Steinunn Hafstað, sendi okkur í Skólavörðunni. Í tilefni þeirra skrifa viljum við taka fram eftirfarandi: Af grein Steinunnar virðist mega ráða að fjarkennslan hafi verið fundin upp í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og skeytum okkar sé beint þangað. Fleiri skólar gætu vafalaust gert tilkall til að eiga eitthvað í þessum heiðri og þó það sé raunar algert aukaatriði skal tekið fram að orðum okkar var ekki beint sérstaklega að Ármúlaskóla. Í öðru lagi lætur Steinunn að því liggja að við höfum ekkert vit á þessu málefni og hefðum náttúrulega átt að fara í heimsókn í Ármúlann til að fá að vita hvernig þetta allt virkar. Við þessu eru eftirfarandi svör: Við höfum báðir nokkra persónulega reynslu af fjarkennslu og af afgreiðslu nemenda sem stundað hafa slíkt nám. Auk þess má geta að við erum í rauninni alveg sæmilega netfróðir og höfum, eins og aðrir, aðgang að því sem skólarnir birta á vefjum sínum. Öll dæmi okkar í greininni eru raunveruleg, byggð á viðtölum við nemendur eða aðstandendur þeirra svo og á upplýsingum frá öðrum skólum. Í þriðja lagi staðfestir Steinunn að fyrirkomulag fjarkennslu í íþróttum við Ármúlaskólann sé jafnarfavitlaust og við héldum fram! Til hvers ættu íslenskir fram- haldsskólar yfirleitt að hafa menntaða íþróttakennara á sínum snærum ef þeir geta notast við stimpil afgreiðslumanns í líkamsræktarstöð? Þeir ættu allavega að hætta að heimta íþróttahús! Fer annars ekki að styttast í að það að hafa bókasafnskort veiti fólki einingar í íslensku? Látum útrætt um Ármúlaskólann. Meginerindi okkar var að benda á að skólasamfélagið þarf að koma sér saman um skynsamlegar leikreglur þegar um er að ræða svo ört vaxandi þátt í námsframboði skólanna. Ef ekkert verður gert á því sviði mun ekki líða á löngu þar til krafan um samræmd próf í framhaldsskólum verður sett fram aftur og af meiri þunga og með gildari rökum en áður. Við erum sannfærðir um að fjar- kennsla geti verið mikilvæg viðbót við hina íslensku framhaldsskólaflóru, það sé hins vegar fráleitt að ljá umræðuefninu slíka friðhelgi að ekki sé hægt að ræða hvað beri að varast á því sviði. Menn verða líka að gera sér grein fyrir því að sumt verður hreinlega ekki kennt í fjarnámi, t.d. hljóðfæraleikur eða listdans, munnleg tjáskipti á erlendu tungumáli eða íþróttir. Grunnáfangi í námshagfræði Kannski má segja að helsti vandinn sé fólginn í þeirri áráttu samtímans að vilja hlutgera menntun í formi „áþreifanlegra“ fyrirbæra á borð við einingar og versla með þær eins og hverja aðra vörutegund. Við erum ekki sannfærðir um ágæti þeirrar aðferðafræði. Í allri þeirri hagfræði sem snýst um vörur, framleiðslu þeirra og sölu skiptir jafnan höfuðmáli að hafa framleiðslukostnað sem lægstan. Hagfræði kaupandans hlýtur hins vegar alltaf að snúast um að fá sem mest fyrir sem minnst. Af þessum sökum er þeim vandi á höndum sem vilja „selja“ einingar á heiðarlegan hátt. Menntamálaráðuneytið á verulegan hlut að þessu máli því það greiðir sömu upphæð fyrir fjarkennsluáfanga og fyrir áfanga sem kenndir eru í dagskóla með miklu meiri tilkostnaði. Auk þess hefur það lagt að framhaldsskólunum að viðurkenna allt nám úr öðrum skólum, m.a. fjarkennsluáfanga. Óhjákvæmilega leiðir þetta til þess að menn reyna að haga kennslunni á sem „hagkvæmastan“ hátt. Fjarkennsla kostar skólastofnanir - og þar með eigendur þeirra - miklu minna en kennsla þar sem nemendur mæta í tíma í dýrt húsnæði. Kröfur um hópastærðir gera það að verkum að minni skólar þurfa í vaxandi mæli að vísa nemendum í fjarnám; er ekki eðlilegt að skólasamfélagið ræði þá þróun? Hvað verður annars um þann félagslega þátt í uppeldi unglinga sem hlýtur að láta undan þegar fjarnám tekur yfir? Væntanlega ætlar enginn að halda því fram að það hafi ekki menntunarlegt gildi að þurfa að skila sér á tiltekinn stað á tilteknum tíma og taka þátt í starfi með öðru fólki? Á því leikur lítill vafi að áfangakerfið var nauðsynlegt til að hægt væri að byggja upp nýtt framhaldsskólakerfi á Íslandi og einingakerfið sjálft var órjúfanlega tengt því. En efnishyggja samtímans leitast sem fyrr sagði við að gera alla hluti að verslunarvöru, líka þá táknmynd menntunar sem menn nefndu einingu; ef menntunin hefði ekki auðskilið talnagildi og jafnframt e.k. skiptigildi á vinnu- og skólamarkaði þá væri hún líklega ekki til! Þess vegna er framhaldsskólanám nú í huga margra orðið að e.k. innkaupaferð; menn safna einingum í poka og geta farið með þær „á kassann“ þegar þær eru orðnar 140, sumir fara í margar búðir og gefa sér góðan tíma og nú virðist jafnvel vera hægt að skreppa á útsölur. Því sýnist rétt að minna á að það er í rauninni eldri hefð fyrir því að hugsa sér menntun sem þroskaferli fremur en innkaupaferð. Höfundar einingakerfisins vissu það og þess vegna settu þeir t.d. undanfarareglur, sem sé fyrirmæli um það í hvaða röð námseiningum skyldi lokið. Þeir settu líka saman reglur um hámarksfjölda þeirra eininga sem nemandur gætu lokið á önn og hversu frjálslegt val þeirra gæti orðið, með það í huga að nemendur ættu ekki að geta sneitt hjá öllum „erfiðum“ áföngum. Nú geta slíkar reglur auðvitað aldrei orðið algildar eða eilífar en svo virðist sem þær séu í reynd orðnar nokkuð marklausar núorðið, án þess að nokkur skipuleg umræða hafi átt sér stað um málið. En það eru margar hliðar á þessu máli og hér eru kannski fleiri sóknarfæri. Á sviði verslunar og þjónustu gilda almennt ákveðin lög, t.d. samkeppnislög og reglur sem eiga að tryggja kaupendur / neytendur fyrir vörusvikum. Ef framhaldsskólakerfið breytist í opinn einingamarkað geta vafalaust myndast ýmis tækifæri fyrir nýjan eftirlitsiðnað. Jón Árni Friðjónsson og Jens Benedikt Baldursson Höfundar eru starfsmenn við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Jens Benedikt er áfangastjóri og Jón Árni er kennari. Fjarkennslumarkaðurinn Jón Árni Friðjónsson og Jens Benedikt Baldursson.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.