Norðurslóð - 23.07.2003, Blaðsíða 3

Norðurslóð - 23.07.2003, Blaðsíða 3
Norðurslóð - 3 Jóhann Antonsson: Drög að flugsögu Arngrímur Jóhannsson flugmaður sem kenndur er við Atlanta flugfélag- ið sýndi listir sína á lítilli flugvél hér á Dalvík eitt kvöldið í júní. Arngrímur hafði ætlað að koma á sjómannadaginn en af því gat ekki orðið svo fyrsta tækifærið var notað síðar. Arngrímur á ættir að rekja í Svarfaðardal. Faðir hans var Jóhann Sigurðs- son frá Göngustöðum, bróðir m.a. Jonna á Sigurhæðum og Páls málara. Allmargt fólk fylgd- ist með fluginu enda tilkomu- mikið. Arngrímur flaug einungis yfir því nú er engin aðstaða lengur til lendingar flugvéla. Áður voru flugbrautir austur á sandi, aust- an við áburðarskemmuna eða núverandi fiskeldishús. Það voru aldrei margar flugvélar sem lentu hér, einungis nokkrar á sumri. En hvenær var flugvöllur- inn gerður? Ég ákvað að reyna að draga upp mynd af því og hafði samband við tvo menn sem höfðu afnot af vellinum og þekkja sögu hans betur en flest- ir. Þetta eru þeir Jóhann Tryggvason frá Þórshamri, flug- maður hjá Flugleiðum og Jó- hann Tryggvason, Ásvegi á Dal- vík. I sameiningu rifjum við upp sögu vallarins og flugsins hér á Dalvík á árum áður. í Dalvíkursögu kemur fram að heimildir eru til um að sést hafi til flugvélar í Svarfaðardal 25. október 1930 og virðist það hafa verið í fyrsta sinn sem flug- vél sást hér. Agnar Kofoed- Hansen kom síðan hér 1938 og reyndi lendingarstaði. Einnig kom Agnar á sjóflugvél og lenti hér. Það virðist hafa verði Egill Júlíusson útgerðarmaður sem þá var formaður slysavarnadeildar- innar sem barðist fyrir því að hér yrði gerður sjúkraflugvöllur til að lenda á. Sjúkraflug var þá talsvert að ryðja sér til rúms og þótti mikið öryggisatriði að hafa flugvél og stað til að lenda henni á. Á Akureyri var staðsett flug- vél sem Jóhann Helgason rak og notuð var til sjúkraflugs. Jóhann hafði komið og lent í fjöruborð- inu og tekið sjúkling og flutt til Akureyrar. Það var svo líklega árið 1958 að merkt var austur- vestur braut til austurs frá áburðargeymslunni. Á því sumri og næsta unnu vörubílstjórar hér á Dalvík í sjálfboðavinnu við að keyra möl í brautina og með því móti og ýtum og öðrum tækjum tókst að búa út tvær flugbrautir, 450 metra austur-vesturbraut og 250 metra norður-suðurbraut sem náði nánast fram í fjöru og suður að ánni. Þar með var orð- inn til flugvöllur sem flugmála- stjórn samþykkti og settur var á skrá yfir flugvelli hér á landi. Á hverju vori þurfti að hreinsa rusl af vellinum og merkja hann upp. Vindpoki var við völlinn og þurfti að halda honum við. í framhaldi af hreinsun kom einhver frá flugmálastjórn til að líta eftir. Jóhann í Þórshamri byrjaði sitt flugnám 1956 og var farinn að fljúga talsvert þegar verið var að útbúa völlinn. Jóhann lenti talsvert á vellinum hér, sérstak- lega þegar hann starfaði á Akur- eyri á árunum 1961 til 1963. Hann starfaði á þeim árum með- al annars við síldarleit á flugvél. Nafni hans í Ásveginum var áhugamaður um flug og var tals- vert tengdur vellinum og hafði um tíma umsjón með brautinni. Hann tók sólópróf á Akureyri á þessum árum og flaug talsvert undir umsjá nafna síns. Ruslahaugar byggðarlagsins voru þarna austur á sandi við hliðina á brautinni og fauk oft rusl og drasl upp á brautina frá þeim. Auk þess komu brautirnar misjafnlega undan vetri ef svo má segja þannig að stundum þurfti að flytja möl í þær á vorin. Smátt og smátt hættu menn að halda vellinum við og hann hvarf af skrá yfir samþykkta flugvelli. Blómaskeið vallarins stóð lík- lega ekki nema svo sem í 5 ár, um og upp úr 1960. Eftir að völlurinn er tekinn af skrá var þó áfram lent á honum og voru slíkar lendingar skráðar sem lendingar utan vallar. Þann- ig var það þegar Jóhannes Tryggvi, sonur Svanhvítar systur Jóhanns í Ásveginum, var að læra flug. Þá kom hann æði oft hingað og lenti og tók frænda sinn með sér í flugið. Þetta var á árunum kringum 1970 og var þá talsvert um lendingar hér. Jó- hannes Tryggvi vann við flug- kennslu en hann fórst í flugslysi á Akrafjalli árið 1973 aðeins 24 ára gamall. Það voru auðvitað ekki til neinar upplýsingar um hve mik- ið flugvöllurinn var notaður og hvenær síðast var lent á honum en ég man eftir því að 1975 kom Kjartan Jóhannsson í Asíufélag- inu, eða Kjartan á Jaðri eins og margir hér um slóðir þekkja hann, með rækjukaupendur hingað í leiguflugi og lenti vélin hér á vellinum. Sú lending hefur vafalaust talist lending utan vall- ar. Nú er fátt sem minnir á að flugvöllur hafi verið á þessu svæði og ekki vitað til að mikið sé af myndum af flugvélum hér. Við birtum hér myndir sem eru til í fórum Jóhanns í Ásveginum en gaman væri ef fleiri eiga slík- ar myndir að fá þær til birtingar. Hrísey: Syðstabæjarhúsið verður hákarlasafn Um síðustu helgi var mikil hátíð í Hrísey. Ibúatala eyjarinnar margfaldaðist og þar var margt til gamans gert. Lýst hafði verið ytir sjálfstæði eyjarinnar þessa helgi og lýðveldi stofnað þannig að það þurfti vegabréf og vega- bréfsáritun til að komast þar í land. Eitt af því sem vakti athygli var að Syðstabæjarhúsið var op- ið fyrir gesti og gangandi. Á föstudagskvöldið kom fólk sam- an í húsinu til einskonar opnun- arhátíðar og gæddi sér meðal annars á hákarlaafurðum og við- eigandi veigum. Það var vel við hæfi að bjóða upp á hákarl í hús- inu því þarna er að verða til há- karlasafn. Hákarla-Jörundur reisti húsið og hóf byggingu þess 1884 og lauk 1886. Saga húsins er hin merkasta og byggingar- sagan allra merkilegust. Húsið var byggt úr timbri sem fengið var úr norskri skonnortu sem strandaði á eyjunni og Jörundur keypti og lét rífa skipskrokkinn planka fyrir planka. Haustið 1884, nánar til tekið 11. september, gerði afspyrnurok af suðvestri og fórust þá yfir þrjátíu skip hér á Eyjafirði. Þar af rak 19 skip upp í Hrísey. Flest skipanna voru norsk sfldveiði- skip. Þetta áhlaup hefur verið kallað Gjörningaveður eða Norðmannabylurinn og voru ýmsir, þar á meðal margir Norð- mennirnir, sem vildu kenna Galdra-Villa um veðurhaminn en Villi þessi hafði átt í útistöðum við Norðmennina. Þegar lægði og menn sáu afleiðingarnar vildu Norðmennirnir ná á Villa og láta hann standa ábyrgan fyrir gerðum sínum. Hríseyingar földu Villa og réru síðan með hann í skjóli nætur upp á Böggvisstaða- sand þar sem Svarfdælir tók við honum. Seinna gerðist Galdra- Villi bóndi á Bakka í Svarfaðar- dal þar sem afkomendur hans búa enn. Hákarla-Jörundur fékk timb- ur í húsið sitt og það ekki af verri endanum enda ber húsið þess merki enn og er þvísjálft merkar sögulegar minjar. Árið 1917 var byggt steinhús í Syðstabæ. Þá var húsið sem Jörundur byggði tekið af grunni og það flutt niður Hús Hákarla- Jörundar hefur sett svip ainn á þorpið í Hrísey um laitgan aldur og ná fœr það að njóta sín sem safn um sögu há- karlaveiða hér við land. brekkuna sem það stóð upp á og á þann stað sem það stendur nú. Vakti þessi flutningur athygli og þótti afrek. Húsið var síðan föl- býlishús og bjuggu þar margar fjölskyldur. Einnig var verslun í húsinu og var Páll Bergsson fyrsti verslunareigandinn. Síðar eignaðist KEA húsið og var þar með verslun og vörugeymslu. Árið 1994 afhenti Kaupfélag Eyfirðinga heimamönnum húsið en þeir höfðu stofnað áhuga- mannafélagið Hákarla-Jörund sem staðið hefur að gagngerum viðgerðum á húsinu um leið og það hefur verið fært í uppruna- lega mynd. Þessum endurbótum miðar vel þó ýmislegt sé eftir. Húsið mun þjóna íbúum og gest- um Hríseyjar í framtíðinni sem mennningarmiðstöð og mun Minjasafnið á Akureyri setja upp sýningar um sögu hússins og eyjarinnar, sérstaklega um há- karlaveiðar og sögu þeirra. Það er Ásgeir Halldórsson sem manna mest hefur unnið að framgangi málsins og er manna fróðastur um sögu hússins og hákarlaveiði hér um slóðir. JA

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.