Morgunblaðið - 15.04.1983, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 15.04.1983, Blaðsíða 26
26 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 15. APRÍL 1983 Anna G. Kristjáns- dóttir — Minning Fædd 17. júlí 1900 Dáin 9. aprfl 1983 Látin er í Reykjavík frú Anna Guðrún Kristjánsdóttir, sem eldri Reykvíkingum var að góðu kunn og lengi bjó að Sóleyjargötu 5 hér í borg. Þessi merka kona var borin og barnfædd Reykvíkingur, nánar tiltekið í Vesturbænum, dóttir hjónanna Kristjáns Bjarnasonar, skipstjóra, og Jóhönnu Gestsdótt- ur, sem andaðist í hárri elli hjá syni sínum, Kristjáni Péturssyni, skipstjóra, og fjölskyldu hans að Stýrimannastíg 7. Albræður önnu voru tveir, Bjarni, fv. skipstjóri, sem enn er á lífi og býr í Halifax í Kanada, og Markús, tónskáld, sem andaðist ungur að árum. Hálf- systkini Önnu voru tvð, Ásta Pét- ursdóttir, sem nú er látin og gift var Birni ólafssyni fyrrum ráð- herra, og Kristján Pétursson, skipstjóri, sem lifir systur sína. Að hætti ungra stúlkna um og eftir aldamótin fór Anna í Kvennaskóiann í Reykjavík og bjó sig undir lifsstarfið, en árið 1923 giftist hún Gunnlaugi Einarssyni, háls-, nef- og eyrnalækni, og eign- aðist með honum tvö börn, Krist- ján, tannlæknir, sem kvæntur var Helgu Þórðardóttur, en Kristján andaðist eftir stutta legu á sjúkra- húsi árið 1971, og Unni Dóru Hag- an, sem giftist Eiríki Hagan, for- stjóra, og búa þau hjón í Toronto í Kanada. Eru niðjar frú önnu orðnir 10 talsins. Gunnlaugur læknir andaðist árið 1944. Á heim- iU þeirra hjóna ólust einnig upp bróðurdóttir Gunnlaugs, Steinunn Vilhjálmsdóttir Snædal, sem and- aðist árið 1974, og bróðursonur hans, Gunnlaugur Snædal yfir- læknir. Litu hjónin á þau sem sín eigin börn. Verða nú þáttaskil í lífi frú Önnu, er hún giftist sr. Ragnari öfeigssyni á Fellsmúla og flyst þangað vorið 1948. Var sr. öfeigur prófastur orðinn ekkjumaður, en frá því er frú ólafía dó, höfðu feðgarnir notið þjónustu aldraðr- ar konu, Ingigerðar Brynjólfs- dóttur, sem þjónað hafði heimil- inu af einstakri samviskusemi í 50 ár. Hélt hún starfi sínu áfram fyrir heimilið, þó að ný húsmóðir væri tekin við, og vann Fellsmúla- heimilinu, þar til sr. Ragnar and- aðist. Er skemmst frá því að segja, að þau átta ár, sem frú Ánna átti heima hér austan fjalls, ávann hún sér virðingu og þökk sóknar- barna sr. Ragnars fyrir þokkafulla framkomu, alúð og hjartahlýju, sem henni var bæði eiginleg og eðlileg. Frú Anna var sérstaklega fríð sýnum og bar mikla persónu. Hún var fíngerð kona og fegurð- ardýrkandi. Og þó að hún hefði aldrei fyrr búið í sveit eða komið nálægt búpeningi, hikaði hún ekki við að vinna hin grófari störf, ef nauðsyn krafði. Var hún einkar natin við lambær um sauðburð á vorin og gætti þess að koma lömb- um á spena eða bjarga þeim úr hraungjótum ef þess var þörf. Frú Anna kom eins og sólar- geisli inn í líf sr. Ragnars og bar birtu með sér inn á heimili sókn- arbarnanna. Hún var boðberi þeirrar menningar, sem hún ólst upp við frá barnæsku og hafði m.a. kynnst bæði innan lands og utan. Hún var tungumálamann- eskja og talaði auk norðurlanda- málanna bæði ensku og þýsku reiprennandi. Á yngri árum sínum fór hún margar ferðir til útlanda með fyrri manni sínum og komst þá í snertingu við það besta í menningu Norðurlanda og Evr- ópu. Er auðskilið, að slfkar ferðir hafi ekki látið hana ósnortna, svo listelsk kona, sem frú Ánna var. Hún var unnandi fagurrar tónlist- ar og lék ágætlega á píanó. En fyrst og fremst voru hannyrðir hennar hrein snilldarverk. Prýddi hún heimili s(n með útsaumuðum veggteppum og dúkum, sem hún gaf börnum sínum. Voru verk þessi annáluð fyrir fagurt hand- bragð. Eitt sinn, er hún var stödd hjá dóttur sinni í Kanada, var hún tvívegis beðin að sýna verk sín í sjónvarpi og sýndi hún þá m.a. Maríudúk, þar sem saga Maríu Guðsmóður er sögð í myndum, og Marteinsdúk, sem lýsir ævi heil- ags Marteins frá Tour, en af hon- um voru gerð jólakort fyrir þrem árum og seld til ágóða fyrir barna- spítala-sjóð Hringsins. Saumaði frú Anna þennan Marteinsdúk í minningu seinni manns sins, en sr. Ragnar andaðist árið 1955. Vöktu þessi verk hennar verðskuldaða athygli og fékk hún mörg álitleg tilboð í þau, en verk hennar voru ekki föl fyrir peninga. Á prestsfrúarárum sínum hér fyrir austan gekk hún i kvenfélag sveitarinnar og leitaðist við að til- einka kvenfélagskonum eitthvað af þekkingu sinni. Var það þakk- samlega þegið og munu kvenfé- lagskonur ávallt minnast heiðurs- félaga síns með virðingu og þökk. Hugljúfar persónulegar minn- ingar geymast mér um frú önnu. I þau 28 ár, sem ég hef verið þjón- andi prestur á Fellsmúla, hefur hún á hverjum jólum sent mér jólakerti til þess að jólaljósin mættu loga á heimili minu, og gilti þá einu, hvort hún var heima í Reykjavík eða erlendis. Síðasta koma frú önnu i Landsveit var á 50 ára vigsluafmæli Skarðskirkju í september 1981. Eftir andlát seinni manns síns, flutti frú Anna til Reykjavikur. Tók hún þar þátt i margvíslegu félagsstarfi, því að starfsþrek hennar var með ólíkindum og iðju- laus gat hún ekki verið. Starfaði hún m.a. í kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar, Co-frimúrara- reglunni og Golfklúbbi Reykjavík- ur. Hafði fyrri maður hennar, Gunnlaugur læknir, verið einn af stofnendum klúbbsins. Náði frú Anna mikilli leikni í golfi og fór nokkrar ferðir til Skotlands til að leika þá list, sem fulltrúi íslands. Þessi er í stórum dráttum hin ytri ævi- og lífsreynslusaga frú Önnu G. Kristjánsdóttur. Hún er saga mikilhæfrar mannkostakonu, sem tókst á við lifið með djörfung í bjartsýnni trú og lét aldrei bug- ast, þó að hún fengi oft á tíðum storminn í fangið. Ung hafði hún orðið að sjá á bak föður sínum og bróður, tveim eiginmönnum og einkasyni. Er mér minnisstæður sálarstyrkur hennar, þegar hún varð að sjá á bak Kristjáni syni sínum í blóma lifsins. Þá sagði hún við mig: „í lífi minu gerist alltaf eitthvað þessu líkt um pásk- ana.“ Hún hafði rétt að mæla. Nánustu ástvinir hennar dóu allir í apríl um páskaleytið. Sjálf fékk hún heilablóðfall á páskadag og lést tæpri viku síðar. Ég sakna frú önnu, en gleðst í þeirri trú, að hún hafi nú fengið að hverfa inn i páskabirtuna, þar sem hinn upp- risni frelsari er allt í öllu. Ég flyt kveðju og þakkir safnaðarfólksins i Fellsmúlaprestakalli og votta vandamönnum frú önnu innilega samúð. Ég samgleðst þeim öllum að hafa átt hana að ættingja og ástvini. Blessuð sé minning henn- ar. Hannes Guðmundsson, Fellsmúla. Laugardaginn 9. apríl sl. lézt i Landspítalanum merkiskonan Anna Kristjánsdóttir, áður til heimilis að Sóleyjargötu 5 hér í borg. Anna var móðir Kristjáns Gunnlaugssonar, tannlæknis, skólafélaga mins og æskuvinar. Ég kom fyrst á heimili önnu 1935, þegar við Kristján vorum saman í Miðbæjarskólanum, en verulegur samgangur var ekki fyrr en 1941, þegar við Kristján voru bekkjarfé- íagar í menntaskóla og hélzt alla tíð. Vinátta við heimili önnu var mér mikils virði í uppvextinum. Anna var glæsileg kona, glað- vær, listfeng og dugmikil, sem með móðurlegri umhyggju sýndi fyrirferðarmiklum táningum um- burðarlyndi og skilning. Anna og Gunnlaugur Einarsson, læknir, fluttu að Sóleyjargötu 5 um áramótin 1927—28 og bjó hún þar til 1971, er Kristján sonur hennar lézt. Dr. Gunnlaugur lézt árið 1944 af afleiðingum bifreiðaslyss er hann lenti i ári áður, og hafði það eðli- lega mikil áhrif á heimilið að Sól- eyjargötu 5. Þrátt fyrir áfallið hélt Anna ávallt reisn sinni, enda starfaði hún mikið í andlegum félagsmál- um. Þann 4. apríl sl. hafði hún verið 50 ár co-frimúrari og einnig meðlimur i stúkunni Septimu i Guðspekifélaginu, og á báðum þessum stöðum lék hún oft á orgel eða pianó á samkomum. Hún var ritari í stjórn Reykjavikurfélags- ins í mörg ár og starfaði í Kirkju- nefnd kvenna í Dómkirkjunni í 22 ár. Listrænir hæfileikar önnu komu meðal annars fram i út- saumi á trúarlegum listaverkum frá miðöldum, t.d. Marteinsdúkn- um frá Cluny-safninu i Paris og Mariudúknum á safni i Kaup- mannahöfn. Árið 1934 var dr. Gunnlaugur einn af hvatamönnum og stofn- endum Golfklúbbs Reykjavíkur og tók Anna strax virkan þátt í fé- lagsstarfinu og lék hún golf þar til fyrir ári. Hún vann oft til verð- launa og var t.d. kvennameistari þegar hún var komin að sjötugu. Hún ferðaðist í mörg ár til Skotlands með hópi íslenzkra kylf- inga til lítils þorps, North Berwich í East Lothian. Góður vinur minn í hópnum sagði að Anna hefði ver- ið, þegar hún var tvítug, i eitt ár á skosku heimili i næsta nágrenni við þennan fallega stað. Anna fór margar ferðir til Kanada, þar sem búa dóttir henn- ar Unnur Dóra og maður hennar, Eiríkur Hagan, og var þar oft langdvölum á sumrin. Ég votta Unni Dóru, Helgu, barnabörnum og öðrum aðstand- endum samúð mína. Að lokum kveð ég aldinn vin og óska henni fararheilla með sitt góða andlega veganesti. Guðmundur Einarsson Haustið 1937 kom ég fyrst til langdvalar að Sóleyjargötu 5, i Reykjavík. Gunnlaugur Einars- son, læknir, föðurbróðir minn og Anna Kristjánsdóttir kona hans, buðu mér til sín er fyrirhugað var að ég settist á skólabekk í Reykja- vik. Þau höfðu fáum árum áður boðið til dvalar Steinunni Vil- hjálmsdóttur, bróðurdóttur Gunn- laugs. Dvaldist hún þar sin kvennaskólaár og um nokkurra ára bil eftir þau, er hún starfaði sem aðstoðarstúlka á lækninga- stofu hans. Dvöl min hjá þeim hjónum varaði alls 7 ár, en Gunn- laugur lézt vorið 1944. Það voru daprir aprildagar þetta vor. Þessi atvik eru nú rifjuð upp þegar Anna er til grafar borin á sinu 83. aldursári. Fleiri svipmyndir koma i hug- ann frá Sóleyjargötunni. Gesta- gangur var mikill, bæði voru þau hjónin vinamörg og löðuðu að sér gesti, bæði erlenda og innlenda, víðsvegar af landinu og dvöldu sumir um lengri tíma. Mikil glaðværð ríkti, enda létt yfir húsráðendum. Anna var t.d. mjög músikölsk eins og margir í hennar ætt, og spilaði vel á pianó. Við dvöl þeirra í Vínarborg, en þar stundaði Gunnlaugur m.a. fram- haldsnám sitt i háls-, nef- og eyrnalækningum, kynntust þau einmitt mörgum hljómlistar- mönnum er svip settu & músiklíf landsins á þessum árum sem enn þann dag í dag. Voru þeir oft gest- ir á heimili þeirra og þá leikin klassísk músik og Vínarsöngvar. Önnu var margt annað til lista lagt. Hún var vel að sér í erlendum málum og afar næm á réttan framburð á þeim 4—5 tungumál- um sem hún kunni vel. Þau hjónin höfðu oft dvalið erlendis og kynnst fólki víða um Evrópu. Var því viss heimsborgarablær yfir heimilinu. Þetta allt hafði mikil áhrif á þá er í kringum þau voru bæði heima fyrir og í þeim fjölmörgu félögum er þau störfuðu i og ekki verða rakin nánar hér. Eins og getið er af öðrum var Anna listakona á sviði hannyrða. Hún týndi ýmsar jurtir úti í nátt- úrunni og bjó sjálf til þá liti er hún notaði við litun á garni til hannyrða. Dugnaður hennar var einstakur. Hún var fljót að tileinka sér nýj- ungar og leggja á nýjar leiðir. Þetta kom einmitt vel i ljós er hún giftist siðari manni sínum, séra Ragnari ófeigssyni i Fellsmúla. Hún var mjög áhugasöm um að læra fljótt hin margvislegustu störf er tilheyra húsmóðurstörf- um í sveit og vel er lýst af séra Hannesi Guðmundssyni í minn- ingargrein hans. Þvi miður átti hún ekki því láni að fagna að njóta samvista við séra Ragnar nema fá ár. Anna bar aldurinn vel. Allt fram á sl. ár tók hún þátt i marg- vislegum félagsstörfum t.d. i þágu aldraðra. Hún fór árlega til sumardvalar til dóttur sinnar og tengdasonar i Kanada. Á sl. sumri er hún var stödd vestanhafs, fékk hún fyrstu aðkenningu að heilablóðfalli. Eftir það gekk hún ekki heil til skógar en dvaldi lengst af á sjúkrahúsi, en þó andlega hress allt fram i byrjun þessa mánaðar. Lífsstarfi merkrar konu er lok- ið. Hún hafði mikið til brunns að bera og miðlaði öðrum af örlæti. Það eru margir sem minnast hennar með þakklæti i huga. Blessuð sé minning hennar. Gunnlaugur Snædal Sveinn Gunnar Gylfason — Kveðja Kveðja frá skákfélögum Á páskadagskvöld barst okkur sú frétt að Sveinn félagi okkar væri alvarlega veikur, og á miðj- um næsta degi barst harmafregn- in um andlát hans. Nóbelsverðlaunaskáldið Marqu- es sagði i sjónvarpsviðtali i vetur að það óréttlátasta í þessum heimi væri dauðinn. Aldrei er hann óréttlátari en þegar hann ber að dyrum hjá æskufólki í blóma lffs- ins. Snemma hneigöist hugur Sveins að skákiþróttinni, og fann hann hugsun sinni fljótlega farveg í þeirri íþrótt. Móðir hans, Guðrún Jónsdóttir, fóstra og kennari, kenndi honum að tefla er hann var 6 ára gamall, en 8 ára hóf hann feril sinn í Skákfélagi Keflavíkur. Oft var hann þá í fylgd með afa sfnum, Jóni Sæmundssyni, og at- hygli vakti hve vel fór á með þeim frændum. Sveinn vann sér oft titilinn Unglingameistari Keflavíkur, og var honum snemma leyft að keppa með sterkustu skákmönnum Suð- urnesja. Ekki lét hann á sig fá þótt róðurinn væri þungur, en stórstfgar hafa framfarirnar orðið þvi hann varð í 1.—2. sæti i Hraðskákmóti Suðurnesja 1978. Var hann þá 11 ára gamall. Það ár flutti hann til Danmerkur með foreldrum sinum, Gylfa Guð- mundssyni, núverandi skólastjóra Grunnskóla Keflavikur, og áður- nefndri móður sinni. Settust þau að í Kaupmannahöfn og var eitt fyrsta verk Sveins að leita uppi skákfélag. Inngöngu fékk hann í skákfélag sem hét Odysseifur. Eftir að hafa sigrað í fyrsta móti sínu í því félagi var hann tekinn i meistaraflokk Gladsaxe-félagsins, en þar tefldu aðeins fullorðnir menn. Mesta athygli vakti Sveinn er hann hlaut Amtsmeistaratitil Kaupmannahafnar 1978. í mótinu tóku þátt fulltrúar allra hverfa Stór-Kaupmannahafnar í hans aldursflokki. Var það enginn ann- ar en Bent Larsen sem afhenti honum verðlaunin. Sveinn tefldi það ár í deildarkeppni með félög- um sinum i Gladsaxe, og sýnir það hve mikils hann hefur verið met- inn. Ári seinna er hann kominn heim og tefldi í Unglingameist- aramóti íslands, en þar mega tefla þeir sem yngri eru en 20 ára. Með- al þátttakenda voru þekktir skákmenn: Lárus Jóhannesson, Guðmundur Gfslason o.fl. Sveinn sigraði í þvi móti aðeins 14 ára gamall. Skáksamband íslands heiðraði Svein með því að senda hann í skákskóla i Fredrikstad í Noregi 1981. Fór hann einn í það ferðalag, og brást sú aðstoð er skákmenn i Osló höfðu lofað að veita honum til þess að komast f áfangastað. Ber sú ferð vitni um dug Sveins og æðruleysi sem ein- kenndu hann alla tíð. Þau ár sem Sveinn var með okkur tefldi hann i flestum deild- arkeppnum, og til hinstu stundar var hann trúr áhugamáli sínu. Hann hóf keppni í Skákþingi ís- lands nú um páskana er kallið kom svo óvænt. Nú á kveðjustundinni kemur í hugann vísan góða úr Hávamál- um: Deyr fé deyja frændr, deyr sjálfr it ninii, en orðstírr deyr aldregi hveim er sér góóan getr. Við færum foreldrum, systkin- um og öllum vandamönnum Sveins einlægustu samúðarkveðj- ur okkar, og alúðarkveðju vorum við beðnir að flytja frá stjórn Skáksambands íslands. Félagar úr Skákfélagi Keflavíkur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.