Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 8

Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 8
8 • IðjuþjálfInn 1/2011 Guðrún Heiða Kristjánsdóttir Deildarstjóri og iðjuþjálfi Dagþjónustu aldraðra, Víðilundi 22, Akureyri. Akureyrarbær rekur líflegt og fjöl­breytt starf í Þjónustu­ og félags mið­ stöðvunum í Víðilundi 22 og Bugðusíðu 1. Boðið er upp á ýmiss konar námskeið, handverk, uppákomur, afþreyingu, hreyf­ ingu og þjónustu. Í Víðilundi er einnig rekin dagþjónusta alla virka daga fyrir einstaklinga 67 ára og eldri, þar sem hægt er að taka á móti 16 dagþjónustugestum í einu. Dagþjónustan er ætluð einstaklingum sem búa í heimahúsum en þurfa á stuðningi að halda með það að markmiði að þeir geti búið sem lengst heima. Öll dagskrá félagsmiðstöðvarinnar stendur þeim til boða en hins vegar geta sumir ekki nýtt sér það vegna líkamlegra eða vitrænna færniskerðinga. Endurminningastarf (reminiscence) er því vænlegur kostur þar sem það hentar öllum einstaklingum sem áhuga hafa á að rifja upp gamla tíð. Styrkleiki margra aldraðra felst meðal annars í mikilli þekkingu og reynslu sem þeir hafa aflað úr skóla lífsins. Einnig eykst þörf einstaklinga til þess að segja ævisögu sína og öðlast skilning á lífinu þegar aldurinn færist yfir. Sú tilfinning að lífshlaupið hafi uppfyllt persónulegar og samfélagslegar væntingar getur veitt einstaklingnum mikla lífsfyllingu og ánægju (Kielhofner, 2002). Síðastliðin þrjú ár hefur gestum dagþjónustunnar staðið til boða að taka þátt í hópastarfi af ýmsu tagi. Á haust­ og vorönn hefur árstíðabundin endurminningavinna verið í aðalhlutverki. Stundum hefur hún verið brotin upp með ýmiss konar virkni eins og t.d. vöfflubakstri, spurningaleikjum, laufabrauðsgerð og kaffiuppáhellingu á gamla mátann. Á vorin hefst svo garðyrkja sem snýst aðallega um kartöflu­ og jarðarberjaræktun ásamt útiveru yfir sumarið þegar veður leyfir. Endurminningavinna byggir á þeirri hugmyndafræði að nýta megi minningar aldraðra sem styrkleika, uppsprettu sáttar og sjálfstyrkingar. Markmið hópastarfsins Er að hvetja til samskipta og félagsskapar dagþjónustugesta, skapa tilbreytingu og gefa þeim færi á að vera veitendur fremur en þiggjendur. Með þátttöku er einnig ætlað að stuðla að auknu frumkvæði og trú á eigin áhrifamátt. Síðast en ekki síst að gera líf þeirra innihaldsríkara og að auka lífsgæðin. Uppbygging endurminningavinnu Tekið er fyrir eitt þema í hvert skipti og þátttakendur eru hvattir til þess að koma með tillögur að efni. Leitast er við að hafa viðfangsefnin fjölbreytt, árstíðatengd, svæðisbundin og þau snúast jafnvel um atvik sem áttu sér stað í nærumhverfi dagþjónustugesta. Dagþjónustugestir eru hvattir til þess að segja frá eigin reynslu og koma með innlegg í hópastarfið. Kveikjur að umræðum geta falist í upplestri á sagnfræðilegum heimildum, ljóðum, vísum, frásögnum, ýmiss konar fróðleik og sýningu á ljósmyndum. Einnig hafa gamlir munir verið fengnir að láni frá Minjasafni Akureyrar og gömul föt hjá Leikfélagi Akureyrar. Rætt hefur verið um hernámsárin á Akureyri, gamla tímann þar og gömul hús í innbænum. Vetraríþróttir hafa verið á dagskrá, skauta­ og skíðaiðkun, umfjöllun um ýmsa hátíðisdaga eins og páska, jól, sumardaginn fyrsta, öskudag og aðra merkisdaga. Haustverkunum eru gerð skil og skömmtunarárin hafa verið rifjuð upp ásamt því að taka fyrir ævi og störf ýmissa skálda frá Akureyri. Garðyrkja og sumarstarf Tvö síðast liðin sumur hefur verið stunduð garð yrkjurækt með dagþjónustugestum þar sem ræktaðar voru kartöflur og jarðarber í fiskikörum. Þetta hefur vakið mikla lukku og gleði, einkum á meðal karlmannanna. Margir dagþjónustugesta hafa í gegnum tíðina ræktað kartöflur en hafa þurft að hætta því þar sem hún reynist mörgum líkam lega erfið. Hugmyndin var því sú að gera dagþjónustugestum kleift að stunda garðræktun á auðveldan hátt með því að bæta aðgengi að ræktunarkössunum. Fólk sem notar göngugrindur eða er í hjóla­ stólum á auðvelt með að komast að vegna þess að kössunum er lyft upp á bekki. Undirrituð hefur verið svo lán­ söm að hafa haft umsjón með endur­ minningavinnu í hartnær þrjú ár og kynnst af eigin raun hve miklir visku­ brunnar aldraðir eru. Hægt er að læra svo ótalmargt af öldruðum og fá aukna innsýn í sögu okkar lands og uppruna. Endurminningavinna er kjörinn vett­ vangur til að koma menningararfi eldri kynslóðarinnar til skila til þeirrar yngri. Hlutverk aldraðra í gegnum tíðina Á síðari hluta nýliðinnar aldar varð mikil breyting á lífi og högum aldraðra á Íslandi og ekki síst á viðhorfi til þeirra í samfélaginu. Í kyrrstæða bændasamfélaginu naut aldrað fólk ákveðinnar virðingar vegna víðtækrar þekkingar og reynslu. Aldraðir höfðu hlutverki að gegna svo lengi sem þeir gátu sinnt verki. Það er einkum tvennt sem leiddi til þess að breyting varð á Aldraðir – vannýttur mannauður Hópastarf og þróunarvinna í Dagþjónustu aldraðra Víðilundi 22

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.