Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 22

Iðjuþjálfinn - 01.08.2011, Blaðsíða 22
22 • IðjuþjálfInn 1/2011 Sigþrúður Loftsdóttir Iðjuþjálfi, Landspítala Grensási. Íslenskan er auðugt mál, rík af málsháttum sem tengjast munni og höndum, s.s. að eiga til munns og handa, veldur hver er á heldur, og að taka til handa og fóta. Handarlaus maður getur gert margt ef hann hefur rétta aðstöðu til þess. Það var þetta sem vakti athygli mína og ég sannfærðist endanlega þegar ég var við kvöldverð með manni sem fæddist án handleggja. Þennan kvöldverð eldaði hann og framreiddi án utanaðkomandi aðstoðar. Við iðjuþjálfar notum gjarnan handverk í sínum víðasta skilningi til að endurhæfa skjólstæðinga okkar aftur til daglegs lífs. Það er ögrandi verkefni að standa frammi fyrir því að finna „handverk“ fyrir einstakling með enga hreyfigetu í höndum eða handleggjum. Ég hef á síðustu árum fengið tækifæri til að vinna með tveimur konum sem báðar misstu allan mátt í handleggjum og urðu ófærar um að nota þær. Báðar höfðu þær áhuga á myndlist. Önnur hafði stundað listmálun áður en hún missti handarfærnina en hin hafði ekki lagt stund á myndlist. Báðar ákváðu þær að reyna hvernig væri að halda á pensli í munninum og mála á þann hátt. Árangurinn hefur verið stórkostlegur og fyrir mig sem fagmann í endurhæfingu er það mikil upplifun að sjá hvað myndlistin hefur breytt lífi þessara kvenna til góðs. Í kjölfar vinnu minnar með þessum konum fór ég að skoða betur myndlist sem ég hafði litla þekkingu á og hef komist að þeirri niðurstöðu að þar er að finna stórkostleg verkfæri fyrir einstaklinga með skerta handarfærni. Orðin myndlist og listsköpun geta ef til vill haft fælandi áhrif á marga. Hversu oft hef ég ekki heyrt fólk segja „ég kann ekkert að teikna eða mála.“ Sjálf hef ég verið í þessum hópi en veit núna að það geta allir teiknað – líka ég. Myndlistin er í mínum huga að leyfa sér að láta hug og „hönd“ leika sér með pensilinn og sjá hvað myndast á blaðinu. Útkoman þarf ekki endilega að vera gjaldgeng á Kjarvalsstaði, aðalmálið er að leika sér og njóta þess. ALLIR geta nýtt sér verkfæri mynd­ listarinnar, líka þeir sem eru með verulega skerta handarfærni og jafnvel enga. Það er ástæða þess að ég fór að skrifa niður þessar hugsanir mínar. Ég vildi benda lesendum Iðjuþjálfans á tækifæri til listsköpunar sem bjóðast einstaklingum með skerta handarfærni. Association of Mouth and Foot Painting Artists (AMFPA) eru alheimssamtök munn­ og fótmálara sem eiga sér yfir 50 ára sögu og eru með höfuðstöðvar í Liechtenstein. Samkvæmt heimasíðu þeirra nær félagið nú til 74 landa með 726 listamenn innan sinna vébanda. Félagsmenn geta fengið styrk frá samtökunum til að fjármagna listsköpun sína og nám. Í stað þess fá samtökin að nýta verk þeirra til að prenta á dagatöl, kort og fleira sem selt er til fjáröflunar. Það vakti athygli mína hvað félagsmenn eru búsettir víða í heiminum og margir í vanþróaðri ríkjum þar sem heilbrigðisþjónusta er langt frá því eins öflug og á Vesturlöndum. Eitt af markmiðum samtakanna er einmitt að efla einstaklinga til að nýta listina til framfærslu. Dæmi eru um einstaklinga sem ekki bara framfleyta sjálfum sér heldur eru einnig með fjölskyldu á framfæri og kosta sína heilbrigðisþjónustu og hjálpartæki sjálfir með myndlist sinni. Í dag er ein íslensk kona með nemaaðild að samtökunum og er meðal annars væntanlegur til sölu varningur með myndum hennar. Upplýsingar um samtökin má finna á heimasíðu þeirra www.vdmfk.com. Í haust fékk ég sjálf tækifæri til að kynnast félagi breskra munn­ og fótmálara, Mouth and Foot Painting Artists (MFPA). Breska félagið sem er aðili að heimssamtökunum er mjög öflugt. Meðal annars hefur félagið rekið útgáfustarfsemi frá árinu 1956. Bækur, dagatöl og eftirprentanir af verkum félagsmanna er meðal þess sem gefið er út. Einnig á félagið gallerí sem staðsett er í smábænum Selborne í Hampshire. Það er auðvelt að láta tímann líða þar við að skoða verkin og gera góð kaup. Á ferðalagi mínu í Bretlandi var ég svo heppin að búa hjá einum af forkólfum félagsins, Tom Yendell, sem er hvorutveggja munn­ og fótmálari enda fæddur án handleggja. Ég fékk að ferðast með honum og tók meðal annars þátt í að aðstoða nýjan félagsmann við að koma sér upp vinnuaðstöðu. Einnig var ég viðstödd opnun málverkasýningar í húsakynnum Deutsche Bank í London. Þar gaf að líta verk eftir breska munn­ og fótmálara auk nokkurra verka frá listamönnum utan Bretlands. Áður hafði farið fram samkeppni meðal bresku listamannanna og voru afhentar viðurkenningar fyrir verk þeirra listamanna sem urðu hlutskarpastir í samkeppninni. Ferðina til Bretlands fór ég í þeim tilgangi að afla mér meiri þekkingar á listsköpun hreyfihamlaðra til að geta betur aðstoðað áhugasamt fólk hér heima. Það var fyrir styrk úr Listasjóði Ólafar sem ég fékk þetta tækifæri. Listasjóður Ólafar var stofnaður í minningu Ólafar Pétursdóttur dómsstjóra sem lést 20. mars 2008. Hún hafði 18 „Til munns og handa“ Hugleiðing um listsköpun hreyfihamlaðra

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.