Morgunblaðið - 31.10.1982, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 31.10.1982, Blaðsíða 10
58 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 31. OKTÓBER 1982 l»að verður frumsýnd ný íslensk kvikmynd í febrúar á næsta ári. I»að er kannski ekki nein stórfrétt í sjálfu sér. Aðrar íslenskar myndir verða frumsýndar fyrr og enn aðrar nokkru síðar. I»essi umrædda mynd hefur þó sérstöðu að einu leyti. Fram að þessu hefur nefnilega nánast ekkert verið látið uppi um efni hennar og ekki einu sinni greint frá því hvað hún muni heita. Hún hefur í blöðum verið kölluð „Trúnaðarmál44, en raun- verulegt nafn hennar er allt annað, en ennþá telja aðstandendur myndarinnar ekki tímabært að frá því sé skýrt, enda hefur enn ekki verið alveg endanlega ákveðið hvert það verði. l»eir sem hafa mestan veg og vanda af gerð þessarar myndar eru fjórir menn og tvö fyrirtæki þeirra. Mennirnir eru Björn Björnsson og Egill Eðvarðsson í Hugmynd og Jón I»ór Hannesson og Snorri l»órisson í Saga-film, en síðarnefnda fyrirtækið framleiðir kvikmyndina. Þetta var dálítið eins og fundur í leynifélagi á bernskuárunum. Nú, eins og þá, var ekki beint gert ráð fyrir niðurstöðum og nú, eins og þá, var umræðuefnið leyndarmál. Eða í þessu tilfelli orðað á fullorðinslegri hátt: „Trúnaðarmál". Mér átti að hlotnast hlutdeild í leyndarmáli og síðan var hlutverk mitt að ýja að þessu leyndarmáli við þjóðina án þess þó að láta of mikið uppskátt. Það þarf því engan að undra, að andrúmsloftið á fundinum var hlaðið spennu. Hann fór fram í ótilgreindu skrifstofuhúsnæöi í austurborginni. Klukkan nákvæmlega fjórtán tíu tilkynnti ég komu mína og eftir andartak var mér vísað inn í bjart herbergi, þar sem fyrir voru þrír menn. Það voru þeir Björn, Egill og Snorri, en Jón Þór var í Svíþjóð og hringdi reyndar þaðan á meðan á fundinum stóð. Við settumst við fundarborð og helltum kaffi í þar til gerð mál og borðuðum kex og piparkökur á milli þess sem við ræddum um leyndar- málið. Ég spurði brátt hvaðan þetta nafn, „Trúnaðarmál", væri komið. „Þetta Trúnaðarmálsnafn er þannig til komið, að við sendum umsókn til kvikmyndasjóðs, þar sem allt annaö nafn var gefið upp, en sjóðsstjórnin hins vegar beðin að nefna það alls ekki, enda voru öll okkar plögg merkt: „Trúnaðarmál". Bentum við á að nota mætti það sem eins konar vinnuheiti, ef þessi mynd kæmist einhvers staðar á blað. Allir þeir sem unnu við mynd- ina voru bundnir þagnarheiti, því efni hennar er þess eðlis að það eyðileggur ánægjuna fyrir væntan- legum bíógestum ef greint er frá því í smáatriðum fyrirfram. Við skulum gá að því, að við erum ekki bara kvikmyndagerðarmenn, við er- um 1 íka miðasalar. Efnið er að ýmsu leyti viðkvæmt, þar eð það tengist dulrænum fyrir- bærum, miðilsfundum, sambandi við framliðna og fleiru af því tagi. Þetta er því efni sem að vissu leyti er trúarlegs eðlis og slíkt er ávallt viðkvæmt. Við tökum enga afstöðu til þess í myndinni hvort fyrrnefnd fyrir- bæri séu til eða ekki. Við erum bara að segja ákveðna sögu.“ í þessari sögu segir frá ungu pari sem af hendingu fær að búa um skeið í gömlu, stóru húsi í höfuð- borginni. Konan, Björg (Lilja Þór- isdóttir), verður brátt vör við dul- úðuga hluti og atburði í húsinu og tekur að grennslast fyrir um sögu þess, en gengur ekki of vel, enda virðast allir sem hún leitar til kepp- ast við að leyna sem mestu. Maður hennar, Pétur (Jóhann Sigurðsson), verður ekki var við neitt annarlegt í húsinu og einbeitir sér að eigin ferli og frama, en hann er tónlistarmað- ur. Er því lýst í myndinni hvað Björg verður vör við í húsinu og hvernig henni tekst smátt og smátt að komast til botns í því, hvað er raunverulega á seyði og kemur í ljós að ... Réðu okkur frá því Og hér eru mörkin. Meira má ekki segja. En ég spyr þremenn- ingana hvort þessi saga eigi sér ein- hverja fyrirmynd í veruleikanum. „Það má segja sem svo að við vit- um af ákveðnum atburðum sem áttu sér í raun og veru stað í Reykjavík fyrir mörgum árum og mikið var fjallað um á sinum tíma, en okkar saga er alls ekki á nokk- urn hátt byggð á þeim atburðum. Það er einungis um vissar hliðstæð- ur að ræða. Allmikill hluti myndar- innar gerist fyrir þrjátíu árum og er þar um að ræða atriði úr fortíð hússins. Þar er meðal annars lýst samkomum sem þar hafa farið fram og tengjast dulrænum fyrir- bærum. Þess má geta í því sambandi, að við leituðum til ýmissa aðila til að fá upplýsingar um slíka hluti og brugðust flestir vel við, en þó var Agli hreinlega hótað." „Já, það vofði yfir mér hótun. Maður nokkur, sem þekktur er fyrir störf sín á þessu sviði, sagði mér hreinlega að ég myndi ekki komast lifandi frá því að gera þessa mynd, þegar ég hafði lýst fyrir honum efni hennar. Fleiri réðu okkur frá því að vera að fjalla um þessi mál. Allir vita jú að þetta er viðkvæmt, en við áttum nú tæpast von á þessu. Flest- ir hafa lent í einhverju sérkenni- legu sem þeir eiga bágt með að út- skýra og við tökum sem sagt enga afstöðu með eða á móti, en samt. Fólki leist ekkert á þetta. Aukaatriði að hún er íslensk — En hvar er myndin stödd í vinnslu núna? „Nú er öllum tökum lokið. Síð- ustu tökurnar fóru fram í Vínar- borg nú fyrir skemmstu, en Pétur fer þangað undir lok myndarinnar. Nú er hafin klipping og miðar henni vel. Við hófum tökur þann 24. maí í sumar og unnum sleitulaust í átta vikur, en geymdum síðan eina töku- viku fram á haustið til að taka fá- ein atriði hér heima og atriðin í Vínarborg. Það má segja ýmislegt um vinn- una við þetta. Við höldum að hún sé í veigamiklum atriðum ólík því sem tíðkast hefur í íslenskri kvik- myndagerð til þessa. Við ákváðum sem sé strax í upphafi að vinna þetta á algerum atvinnumanna- grundvelli og kosta þá því sem til þyrfti til að skapa okkur aðstæður til þess. Við vildum gera kvikmynd sem væri fyllilega sambærileg við myndir sem venjulega eru sýndar í kvikmyndahúsum hér á landi. Við teljum að allar kvikmyndir verði að vera sambærilegar við það besta sem sést hefur, en ekki eigi að gera einhverjar aðrar kröfur til mynda, af því að þáer séu íslenskar og kannski gerðar af litlum efnum og með takmörkuðum tækjakosti. Það er frumskilyrði að kvikmynd stand- ist almenn lögmál kvikmyndalistar- innar. Þegar þú sest í bíósainum áttu að geta borið þá mynd sem þú ætlar að sjá saman við allar þær sem þú hefur séð fram að því, án nokkurs fyrirvara. Við höfum óneitanlega spurt okkur þess, þegar við höfum iesið ýmsar yfirlýsingar hérlendra manna um íslenskar kvikmyndir, hvort þetta fólk hafi aldrei farið í bíó. Hvort það hafi aldrei séð raunverulega góðar kvikmyndir. ís- lenskri kvikmyndagerð er enginn greiði gerður með því að vera að hefja allar afurðir hennar til skýj- anna. Ef við lítum á þá lofsamlegu dóma sem íslenskar myndir hafa fengið til þessa, getum við velt því fyrir okkur hvort þeir hefðu verið svona hástemmdir, ef framleiðslu- landið hefði ekki verið ísland, held- ur til dæmis Svíþjóð, Bandaríkin eða England. Við erum fyrst og fremst að búa til kvikmynd, það að hún er íslensk, er algert aukaat- riði.“ Tveggja hæöa hús í upptökusal — Hverjar voru þær helstar, þess- ar nýjungar sem þið nýttuð við gerð þessarar myndar? „Eitt var það, að við tókum allt saman upp á VHS-myndband um leið og við filmuðum, er þetta gert með sérstökum útbúnaði sem tengdur er sjálfri kvikmyndatöku- vélinni og er myndin sem fer inn á myndbandið nákvæmlega sú sama og sú sem fer inn á filmuna, enda tekin í gegnum sömu linsu. Þetta þýddi að við þurftum ekki að bíða á meðan filmurnar voru í framköllun, heldur gátum séð jafn- harðan hvernig til hafði tekist í hvert skipti. Er þetta geysilegt hag- ræði fyrir leikstjórann og ákaflega mikilvægt til að gera sér grein fyrir samhengi á milli „skota" innan sama atriðis. Annað var, að við keyptum nokk- urs konar krana á hjólum undir myndavélina til að geta hreyft hana meira, bæði lárétt og lóðrétt. Keyptur var fullkominn ljósa- búnaður og sömuleiðis fullkomin aðstaöa til klippingar, en sennilega vegur þó þyngst, að við byggðum innviði tveggja hæða húss inni í upptökusal til að geta stjórnaö al- gerlega öllum aðstæðum. Þetta var fyrirtæki upp á um 600 þúsund krónur, en það er þó aðeins rúmur sjöundi hluti af heildarkostnaðin- um við gerð myndarinnar, en hann er nærri 3,5 milljónir króna. Við höldum að þetta sé í fyrsta skipti sem þær aðstæður eru skap- aðar í kringum nútímamynd hér, að hægt er að fara að gefa leikurunum verulegan gaum. Þetta er ekki leng- ur bara spurning um að ná inn ein- hverju efni. Það er svo algengt að erfiðar aðstæður verða kvikmynda- gerðarmönnum óþægur ljár í þúfu og gera það að verkum að útkoman verður ekki eins vönduð og hún ætti að vera, af því menn eru að flýta sér að ná einhverju inn, eða eitthvað. Við þurftum ekkert að vera að velta slíku fyrir okkur og gátum einbeitt okkur algerlega að því að gera það sem best úr garði sem færi inn á filmuna. Það hefur viljað brenna við í islenskum kvikmyndum að sjálf kvikmyndagerðin hefur borið efnið algerlega ofurliði. Það hefur kannski verið sögð einhver saga, en þá engin persónusköpun verið að heitið geti, engin tilfinning, engin stemmning. Með því að taka upp í upptökusal með fullkomnum ljósabúnaði, gát- um við búið til nákvæmlega það andrúmsloft, sem við vildum hafa í hverju atriði fyrir sig. Án þess þó að við færum út í einhver ævintýri á því sviði. í atriðum, sem áttu að gerast að degi til, lýstum við alla leikmyndina utanfrá, en í kvöldat- riðum með venjulegum heimilis- ljósgjöfum auk dálítils aukabúnað- Það sést ekki á filmunni í þessu hringir síminn og er það Jón Þór Hannesson sem er að hringja frá Svíþjóð með þær góðu fréttir að myndirnar frá Vín virðist hafa heppnast vel. Gleðjast þre- menningarnir að vonum. „Já, við erum ánægðir. Allt hefur gengið samkvæmt áætlun, upp á dag. Við erum ánægðir með það sem við erum með í höndunum og höldum að við getum unnið úr því góða kvikmynd, sem standist sam- anburð við hvaða myndir sem er, en þannig verða jú allar myndir að vera. Það er mikið atriði að Vínartök- urnar hafa komið vel út, því það var auðvitað nokkuð dýrt fyrirtæki að halda þangað með fimm manna hóp og dvelja í nokkra daga. Fararstjór- inn okkar, Sverrir Hermannsson, var okkur óskaplega hjálplegur. Hann opnaði okkur allar dyr. Einn- ig eiga Flugleiöir þakkir skildar fyrir velvild í okkar garð. Þessi Vín- aratriði eru ekki stór hluti myndar- innar, en okkur þótti samt annað ófært en að gera þau algerlega fals- laus. Ef þú ætlar að gera miklar kröfur til þess sem þú ert að búa til, verð- urðu að halda þeirri kröfuhörku allt til enda. Því var það að það varð eins konar viðkvæði allan tökutím- ann í sumar, ef einhver fór að kvarta undan því að honum væri kalt, eða hann væri illa sofinn og vildi slaka eitthvað á, að sagt var: — Það sést ekki á filmunni. Þótt kvikmyndatökumaðurinn sé orðinn krókloppinn og kvefaður, þá sést það hvergi. Það má ekki sjást. Þótt Björn væri búinn að vaka heila nótt við að smíða ákveðna leikmynd, sem hinum féll síðan ekki við þegar til kom, þá var honum líka sagt, ef hann maldaði i móinn, að þessi smíðanótt sæist hvergi í myndinni og hann yrði bara að gera svo vel að vinna þetta upp á nýtt, næstu nótt. Við gerðum miklar kröfur hver til annars, hver og einn okkar varö að standa sig eins vel og frekast var unnt. Egill við leikstjórnina, Snorri

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.