Lögberg - 28.02.1952, Blaðsíða 6

Lögberg - 28.02.1952, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 28 FEBRÚAR, 1951 LANGT í BURTU frá Heimsku Mannanna Eftir THOMAS HARDY J. J. BILDFELL þýddi „Viltu gjöra svo vel og segja mér, ef að ég er á réttri leið til Warrens ölgerðarhússins?“ spurði Gabríel, bæði til þess að ganga úr skugga um, að hann væri á réttri leið og líka til að heyra meira af hljómfegurð málróms hennar. „Þú ert alveg á réttri leið, það er hérna undir hæðinni. En veist þú . . . .“ Stúlkan hik- aði við, en hélt svo áfram, „hve lengi að þeir halda Bucks Head gistihúsmu opnu?“ Hún sýndist hafa komist að einlægni Gabríels, eins og Gabríel hafði sýnst komast að málfegurð hennar. „Ég veit ekki einu sinni hvar Buck Head er. Ertu að hugsa um að fara þangað í kveld?“ „Já . . . .“ Hún þagnaði, eða hikaði aftur. Það var engin þörf á að halda samtalinu á- fram, og að hún gerði það virtist spretta frá óafvitandi þrá til að sýna, að ekkert sérstakt lægi henni á huga, með því að halda því áfram, sem oft ber á hjá opinskáu fólki, þegar það er að fremja eitthvert leyndarverk. „Þú átt ekki heima hér í Weatherbury“, sagði hún feimnis- lega. „Nei, ég á það ekki. Ég er fjárhirðir — ný- kominn“. „Fjárhirðir aðeins — þó sýnist þú í háttum þínum eins og að þú værir nærri bóndi“. „Aðeins fjárhirðir“, svaraði Gabríel dræmt en ákveðið. Hugur hans flaug til baka, en hann leit með augunum á fætur stúlkunnar; og sá þá að einhver böggull lá þar. Hún hefir máske tek- ið eftir augnaráði hans, því hún sagði í bænar- rómi: — „Þú getur ekki um það í sókninni, að þú hafir séð mig hér, ætlarðu? — að minsta kosti í einn eða tvo daga?“ . „Þakka þér innilega“, svaraði hún. „Ég er frekar fátæk, og vil ekki að fólk viti neitt um mig“. Svo þagnaði hún og fór að skjálfa. „Þú ættir að vera í kápu eins og kalt er í kveld“, sagði Gabríel. „Ég mundi ráðleggja þér að fara inn einhvers staðar“. Ó, nei! Viltu nú fara, og skilja við mig? Ég er þér þakklát fyrir upplýsingarnar“. „Ég skal halda áfram“, sagði hann, og bætti síðan við hikandi — „af því að þú ert fátæk, þá þiggur þú þetta lítilræði frá mér. Það er að- eins ein króna, en það er allt sem að ég get sparað“. „Já, ég skal þiggja hana“, sagði stúlkan þakklátlega. Hún rétti honum hendina, en dimmt var orðið af nóttu; svo þegar að Gabríel rétti henni krónuna snerti hann við úlnlið stúlkunnar og fann að lífæðin sló óvanalega hart. Hann hafði oft fundir lærtaugar í lömbum slá og titra þannig þegar þau höfðu verið rekin of hart. Það benti á að of miklu af lífsfjöri hennar hefði þegar verið sóað, og sem að úlit hennar bar vott um að væri á þrotum. „Hvað gengur að þér?“ „Ekkert“. „Jú, vissulega“. „Nei, nei, neí! Láttu engan vita að þú hafir séð mig!“ „Nú, jæja; ég skal ekki gjöra það. Góða nótt aftur“. „Góða nótt“. Unga stúlkan stóð hreyfingarlaus við tréð, en Gabríel hélt áfram inn í Weatherbury þorp- ið, eða Lower Long puddle (Neðri Langa poll) eins og það var stundum nefnt. Hann fann til þess, að hann hefði staðið í skugga sorgarinnar í návist þessarar stúlku. En spekin felst í jafn- vægi hugmyndanna, svo Gabríel reyndi að hugsa sem minnst um þetta. VIII. KAPÍTULI Ölhús Warrens var umkringt með gömlum múrvegg, sem var alþakinn vafningsviði, og þó að ekki væri hægt að gjöra sér glögga grein fyrir byggingunum um þetta leyti nætur, þá var hægt að sjá lögun og tilgang bygginganna nokkurn veginn glöggt, þar sem að þær bar við loft. Frá veggnum reis hallandi stráþak, sem kom saman í miðjunni, og uppi á toppnum á því var lítil viðarlukt ferköntuð og upp úr henni lagði reyk eða gufu. Enginn gluggi var á framhlið hússins, heldur ferkantað gat á hurðinni með einni glerrúðu í og það lagði bjartan ljósbjarma út um hana og á vafnings- viðinn á veggnum framundan húsinu. Inni heyrðist mannamál. Oak þreifaði um hurðina unz að hann fann leðuról, sem að hann tók í. Ólin var fest í klínku innan á hurðinni og dyrnar opnuðust. Herbergið fyrir innan var lýst upp með eldglóð frá eldstæði, sem lýsti beint út yfir gólfið, en framleiddi að ofan skuggamyndir í ótal óreglulegum stellingum af þeim sem að inni voru. Hellugólfið var sporslitið alla leið frá dyrunum og inn að eldstæðinu og með hol- um og lautum í allar áttir. Bogamynduð sæti úr óheflaðri eik voru meðfram annari hlið- inni, og í horninu sem fjærst var eldstæðinu var rúm og rúmstæði, sem að eigandinn svaf oft í. Sá gamli maður sat nú við eldinn, hár hans var hvítt og skeggið huldi mest af skorpnu andlitinu eins og grámosavaxið og lauflaust eplatré, og horfði stöðugt í eldinn. Lykt af nýju öli lagði á móti Gabríel þegar að hann kom inn. Þeir sem inni voru og virtust hafa verið að tala um eldsbrunann þögnuðu, og allir sem inni voru hnykluðu brýrnar og at- huguðu hann þegjandi og litu á hann píreygðir eins og að einhver ofbirta stafaði frá honum. Nokkrir þeirra sögðu eftir að þeir höfðu horft á hann: — „Ó, það er þá nýi fjármaðurinn, trúi ég“. „Okkur fannst að við heyrðum einhvern vera að fálma um hurðina eftir snerlinum, viss- um ekki annað en að það hefðu verið visin lauf, sem skrjáfuðu við hurðina“, sagði annar. — „Komdu inn, fjármaður; þú ert vissulega vel- kominn, þó að við vitum ekki hvað þú heitir“. „Gabríel Oak, er nafn mitt, nágrannar“. ' Gamli maðurinn við eldinn sneri sér við — eins og ryðguð tunna. „Það er þó aldrei sonar- sonur Gabríels í Norcombe, nei sjálfsagt ekki!“ sagði hann eins og inngang, sem ekki var ætlast til að menn tækju alvarlega. „Faðir minn og afi hétu báðir því nafni“, sagði fjárhirðirinn blátt áfram. „Hélt að ég hefði þekkt andlitið á mann- inum, þegar að ég sá hann upp á bólstranum — hélt að ég hefði gjört það! Og hvert ætlar þú nú að halda, fjárhirðir?“ „Ég er að hugsá um að ílendast hér“, svar- aði Oak. „Ég þekkti afa þinn til margra ára“, hélt gamli maðurinn áfram og orðin flutu fyrirhafn- arlaust af vörum hans, eins og að þau hefðu verið vakin af fyrri hreyfingum hans. „Ó — þú gjörðir það!“ „Þekkti ömmu þína“. Þekktir hana líka!“ „Föður þinn líka, þegar að hann var barn. Drengurinn minn, hann Jakob þarna Og hann voru svarnir fóstbræður — það voru þeir — voruð þið það ekki, Jakob?“ Jú, vissulega“, sagði sonur hans, ungur maður um sextíu og fimm ára, hálf sköllóttur og hafði eina tönn í efri tanngarðinum vinstra megin, sem að stóð út eins og hnýfill. „En það var Joe, sem mest hafði saman við hann að sælda. Samt sem áður þá hefir William sonur minn hlotið að þekkja manninn, sem var á und- an okkur, gerðirðu það ekki Billy, áður en að þú fórst frá Norcombe?“ Nei, það var hann Andrés“, sagði Billy Jakobsson, barn fertugt að aldri, eða í kringum það, sem var þeirri einkennlegu náðargáfu gæddur, að eiga glaða sál í væskilslegum lík- ama, og sem að skeggið á var farið að grána hér og þar. „Ég get munað eftir Andrew, sem var þar þegar að ég var lítill drengur“, sagði Oak. „Já ég var þar um daginn með yngstu dótt- ur minni, Lilly, þegar verið var að skíra sonar- son minn“, hélt Billy áfram. „Við vorum að tala um þessa sömu fjölskyldu, og það á sunnudag- inn var, rétt hérna í þessum virkileikans heimi, þegar að leiguféð er gefið til þeirra allra fá- tækustu, sem þú þekkir til, fjármaður, og ég man vel eftir deginum, því að þau þurftu öll að vappa inn í kór — já, hver einn og einasti í fjölskyldunni“. „Komdu, fjárhirðir og drekktu. Tíminn gengur mest í að geispa og svelgja dropa af einhverju, sem er þó ekki mikils virði“, sagði gamli maðurinn og tók augun, sem voru orðin blóðrauð og dauf, af eldinum sem að hann var búinn að horfa í, í svo mörg ár. „Taktu upp, guð — fyrirgefðu mér Jakob. Sjáðu ef það er orðið volgt, Jakob“. Jakob beygði sig ofan að guð fyrirgefðu mér, sem var stór kanna með tveimur höldum á, er stóð á gólfinu sprungin og sviðin af hita: hún var dálítið gárótt af utan að komandi efn- um sérstaklega í höldukverkunum, þar sem aska vætt með öli sem í ógáti heltist utan á könnuna hafði setið og bakast í mörg ár, en til þess tók enginn skynsamur drykkjumaður, því kannan var óneitanlega hrein að innan og á börmunum. Það má taka fram, að slíkar könnur, eða krukkur, eru kallaðar guð fyrir- gefðu mér í Weatherbury og nágrenninu, fyrir vafasama ástæðu, máske að stærðin á henni komi þeim sem að úr henni drekka til að skammast sín, þegar þeir hafa drukkið úr henni og sjá í botninn. Jakob hlýddi skipuninni, en til þess að vita, hvort ölið væri orðið nógu volgt dýfði hann fingrinum ofan í könnuna eins og hitamæli, og eftir að hafa gengið úr skugga um að það væri um það bil mátulega volgt tók hann upp könnuna þurkaði með sloppnum sínum af botn- inum á henni, sökum þess að Oak fjármaður var ókunnugur. „Hreinan bolla handa fjárhirðinum“, sagði gamli maðurinn mynduglega. „Nei — nei, aldeilis ekki“, sagði Gabríel í ávítunarróm, sem var sprottinn af hugsunar- semi. „Ég fjasa aldrei út af skít sem er hreinn, og þegar að ég veit hverrar tegundar að hann er“. Hann tók við könnunni og drakk svo sem þumlungs borð á hana og rétti hana svo til þess, sem að næstur var. „Mér mundi ekki koma til hugar að auka nágrönnum mínum erfiði með aukaþvotti, þegar svo mikið annríki er í heim- inum þegar“, hélt Oak áfram í mildari tón eftir andarteppuna, sem fylgir því að teyga úr stórri könnu. , „Mjög skynsamlega talað“, sagði Jakob. „Satt, satt, á móti því er ekki hægt að bera“, sagði fjörlegur ungur maður — Mark Clark að nafni, glaður og viðkunnanlegur herramaður, sem að mæta, var sama og að þekkja, að þekkja sama og að drekka með, að drekka með sama og að borga. „Og hérna er biti af brauði og fleski, sem að ungfrúin hefir sent, fjárhirðir. Ölið rennur betur niður með matarbita. En tyggðu ekki of fljótt, fjármaður, því að fleskið datt hjá mér á brautina og það getur verið sandkorn í því. En það er hreinn sandur, og við vitum allir hvað það er, eins og að þú segir, og þú ert ekki hótvandur maður, fjárhirðir“. „Satt, satt — aldeilis ekki“, sagði' Oak vin- gjarnlega. „Láttu tennurnar ekki koma saman og þá verður þú ekki var við sandinn. Ó, það er undur- samlegt hvað hægt er að gera með hugvitinu!“ „Það er nú einmitt það sem að ég segi, nágranni“. „Ó, já, hann er sonarsonur afa síns — afi hans var sami geðþekki óvandfýsni maðurinn“, sagði gamli maðurinn — ölbruggarinn. „Drekktu, Henry Fray — drekktu!“ sagði Jan Coggan góðlátlega, maður sem, eins og hinn heilagi Símon, áleit að skipta ætti bróðurlega,* að minsta kosti þegar um vínföng var að ræða, þegar að ölkannan var á leiðinni til hans, eftir hinni vanalegu umferð á meðal þeirra. Henry, sem hafði verið að góna upp í loft- ið, sló ekki hendinni á móti ölinu. Hann var meira en miðaldra maður með augnabrýrnar ofarlega á enninu, sem hélt því fram, að verald- arlögin væru slæm, og hafði sú sannfæring sett langvarandi angistarsvip á andlit hans. Hann skrifaði nafn sitt alltaf Henery og gekk ríkt eftir að það væri stafsett þannig og ef einhver skólakennari var á ferðinni, og varð á að láta í ljósi að seinna e-ið væri óþarft og gamaldags, þá fékk hann það svar, að hann hefði verið skírður H-e-n-e-r-y og því nafni ætlaði hann sér að halda — í rómi sem að gaf til kynna, að mismunurinn á stafsetningunni væri honum karakters spursmál. Jan Coggan, sem rétt hafði Henery ölkönn- una, var maður með rautt og stórt andlit og týru-augu, sem voru sérkennileg fyrir hann. Nafn hans stóð víða í kirkjubókum í Weather- bury þorpinu og söfnuðunum í kring, sem fyrsta aðstoðarmanns og vitnis við ótal giftingar á undanförnum tuttugu árum, hann var og tíðum aðal-guðfaðir við skírnir af vafasamri kátínu- tegund. „Komdu Mark Clark — komdu. Það er mikið meira í tunnunni“, sagði Jan. „Já — það skal ekki standa'á mér; það er eini læknirinn minn“, svaraði hr. Clark, sem var tuttugu árum yngri en Jan Coggan, en var og hrærðist í sama andrúmslofti. Hann fól glað- lyndi sitt, til að geta sýnt það í ríkari mæli á þjóðlegum opinberum samkomum. „Þú, Joseph Poorgrass, þú hefir ekki fengið dropa ennþá!“ sagði hr. Coggan við sérgóðan mann, sem dróg sig eins og út úr, og rétti könnuna í áttina til hans. „Hann er svo hógvær“, sagði Jakob Small- bury. „Þú, Joseph Poorgrass, hefir ekki haft hugrekki til að líta framan í hana húsmóður þína, að minsta kosti er mér sagt það, Joseph“. > Það litu allir til Joseph Poorgrass ásakandi vorkunaraugum. „Nei, ég hefi varla litið á hana“, nöldraði Joseph og eins og drógst allur saman auðsjáan- lega af lítilmensku kend. „Og í þessi tvö skipti, sem að ég sá hana, þá stokkroðnaði ég út að eyrum“. „Vesalings maðurinn“, ,sagði hr. Clark. „Það er einkennilegt manneðli“, sagði Jan Coggan. „Já“, hélt Joseph Poorgrass áfram — feimni hans sem var svo tilfinnanlegur galli, snerist upp í hógværa ánægjukend nú þegar að hún var orðin að áhuga umræðuefni. *Það var ekk- ert nema kinnroði, kinnroði, kinnroði fyrir. mig allan tímann sem að hún var að tala við mig“. „Ég trúi því, Joseph Poorgrass, því við vit- um að þú ert uppburðalítill maður“. „Það er óskaplegt ástand fyrir mann að vera í, vesalingur“, sagði ölbruggarinn. „Og havð lengi hefir þú kvalist af þessu, Joseph?“ „Alltaf síðan að ég var drengur. Móðir mín var í öngum sínum út af þessu — já, það var hún. En það kom allt fyrir ekkert“. „Hefurður nokkurn tíma farið út í heiminn til að reyna að losna við þetta, Joseph?“ Ó, já, reynt allslags félagsskap. Þau tóku mig á sýninguna í Greenhill og inn á stórt og mikið sýningarsvæði, þar sem að „Jerry-go- Nimble“-hjól gekk allt í kring, og á hestunum stóðu konur með ekkert á sér nema þunna lérefts hússloppa, en það hjálpaði ekkert. Svo var ég sendur sem vikamaður í „Women’s Skittle Alley“ (bakgötu, þar sem konur léku að kúlum) sem var rétt á bak við Taylors Arm í Casterbridge. Það var nú ljóta atvinnan, og einkennilegt pláss til að senda góðan og heið- arlegan mann í. Ég varð að standa þar frá morgni til kvelds og horfa á vændiskonur; en það hafði ekkert upp á sig — ég var eins slæm- ur eftir það allt. Feimni og kinnroði hafa fylgt fjölskyldunni í mannsaldra. Það er mesta mildi, að ég skuli ekki vera verri en að ég er, og fyrir það er ég þakklátur“. „Satt“, sagði Jakob Smallbury, og mál- efnið þyngdi enn á huga hans. „Það er umhugs- unarefni, að þú gast orðið enn verri, en að þú ert, það eru ljótu bágindin fyrir þig, Joseph. Því að þú skilur, fjárhirðir, þó að þetta geti verið gott og blessað fyrir konu, þá getur það verið skrambi óþægilegt fyrir mann eins og hann, vesalinginn“, og hann leit tilfinningaraugum til hjarðmannsins. „Það er — það er“, sagði Gabríel, sem eins og vaknaði af þungum þönkum. „Já, mjög ó- þægilegt fyrir manninn“. „Já, og hann er mjög óframfærinn líka“, sagði Jan Coggan. „Einu sinni var hann seint við vinnu í Yalbury Bottom og hafði fengið sér dropa að drekka, og viltist á leiðinni heim í gegnum Yalbury-skóginn, er það ekki satt, Master Poorgrass?“ „Nei, nei, segðu ekki þá sögu“, sagði hóg- væri maðurinn og hló, til að hylja óróann í geði sínu. — „Svo að hann viltist“, hélt hr. Coggan áfram með mesta alvörusvip, eins og að hann vildi gefa til kynna, að sönn saga yrði að renna sitt skeið, eins og tíminn, hvað svo sem að hver segði. „Hann var að brjótast áfram um miðja nótt, lafhræddur og vissi ekkert hvert að hann fór, svo að hann hrópaði: „Týndur maður!“ Það vildi svo til að ugla, sem þar sat í tré, var að ýlfra ,,vú-vú-vú!“ eins og uglur gjöra, eins og að þú veist, fjármaður (Gabríel kinkaði kolli) og Joseph, skjálfandi eins og hrísla, sagði: „Joseph Poorgrass frá Weather- bury, herra!“ „Nei, nei, þetta er of langt gengið!“ sagði óframfærni maðurinn, og það var eins og að honum yxi móður. „Ég sagði ekki herra; og ég skal leggja eið út á að ég sagði ekki, Joseph Poorgrass frá Weatherbury, herra! Nei, nei, það sem rétt er, er rétt og ég sagði aldrei herra við fuglinn, því að ég vissi vel, að enginn maður í heldri manna tölu mundi vera að hrópa í skóginum um þann tíma nætur. Joseph Poor- grass frá Weatherbury var allt sem að ég sagði, og ég hefði ekki sagt það, ef það hefði ekki ver- ið fyrir meðulin frá Day ölhússtjóra. — En það var heppilegt að ekkert varð meira úr því en varð“. Spursmálið um, hvað væri rétt eða rangt var sett til síðu, en Jan hélt áfram hugsandi: — „Og hann er sá óttalegasti maður, ertu ekki, Joseph? Þú týndist einu sinni áður hjá Lamb- ing-Down Gate, gjörðirðu ekki, Josep?“ „Jú, það var um miðja nótt líka“. „Hann gat ekki opnað hliðið, hvernig sem að hann reyndi og vissi að djöfullinn var þar með í leik, svo að hann kraup niður“. „Já“, sagði Joseph, sem nú hafði sótt dá- lítið í sig veðrið í hlýjunni, ölinu og væntanlegra áhrifa af sögunni. „Hjartað í mér hætti að slá þá, en ég kraup niður og las Faðirvorið og svo trúarj átninguna alla, næst boðorðin í sínum bænaranda. Þegar hliðið opnaðist ekki, þá hélt ég áfram með Elskanlegu bræður og minntist þess að það var fjórða bænin, og það var allt sem að ég kunni úr bókinni, og ef að það dygði ekki, að þá dygði ekkert og að ég væri þá gjör- samlega tapaður maður. Ég reis á fætur og fann að ég gat opnað hliðið^ — já, bræður, ég opnaði það alveg eins og vant var“. Allir fóru að hugsa um hina auðsæju kjarna þessarar sögu, og á meðan að mennirnir gjörðu það horfðu þeir allir í eldinn, sem að glóði eins og sandauðn í óbyggðum, er miðjarðarsólin hellir geislum sínum á um hádegisskeið, sem gerði augun í þeim löng og augnalokin hrukk- ótt, sem stafaði sumpart frá birtunni og sum- part frá hugsanaþunga þeirra út af umtals- efninu.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.