Lögberg - 06.03.1952, Page 4

Lögberg - 06.03.1952, Page 4
4 LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 6. MARZ, 1952 iÖBtefg Gefi8 út hvern íimtudag af THE COLUMBIA PRESS LIMITED 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MANITOBA Utanáskrift ritatjórans: BDITOR LÖGBERG, 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MAN. PHONE 21 804 Rritstjóri: EINAR P. JÓNSSON Verð $5.00 um árið—Borgist fyriríram The "Lögberg” is prirtted and published by The Columbia Press Ltd. 6 95 Sargent Avenue, Winnipeg, Manitoba, Canada. Authorized tis Second Class Mail, Post Office Department, Ottawa Frá þjóðfundi íslendinga 1851 n Eftir Próf. FINNBOGA GUÐMUNDSSON Flutt á miðsvetrarmóti „Fróns" i Winnipcg, 18. febrúar 1952 Heiðraða samkoma: í sumar sem var voru liðin 100 ár frá Þjóðfundin- um, sem svo var nefndur. Þar sem hér er um að ræða stórmerkan atburð í sögu íslendinga, er jafnan mun til verða vitnað, þykir mér ekki úr vegi að rifja hann upp að nokkru. Prá honum sér bæði vítt og langt — og oss því hollt að staldra þar við og skyggnast um. En áður en ég sný mér að þjóðfundinum og hinni þjóðlegu vakningu, er varð með íslendingum á önd- verðri 19. öld, ætla ég að bregða upp mynd af ástandinu á þeim tíma, eins og það kom þá Jóni Hjaltalín, síðar landlækni, fyrir sjónir. Er hún tekin úr bréfi, sem Jón Hjaltalín skrifaði Jóni Sigurðssyni til Kaupmanna- hafnar og birt var í Nýjum Félagsritum 1853. Jón Hjaltalín hafði þá verið heima nokkura hríð eftir langa dvöl við nám og læknisstörf erlendis. Hann sér því glöggt muninn og svíður sárt, hvernig komið er hag og málum íslendinga. Ég gef Jóni nú orðið: „Áður en ég lýk bréfi þessu, þykir mér ekki óviður- kvæmilegt að segja þér meiningu mína um ástand lands vors, eins og það er núna og eins og það hefir útsjón til að verða fyrst um sinn, og vona ég þér blöskri ekki, þó ég sé berorður og tálgi ekki utan af orðunum, því mér þykir altént mest samboðið sannleikanum að nefna hvern hlut með sínu rétta nafni, en vera ekki að fitla við nöfnin og meiningarnar, eins og sumir gera, svo að lesendurnir geta naumast ráðið í, hvað rithöf- undurinn meinar. Ég þekki ekkert land í allri Norðurálfu heims, hvar ástand manna, í samanburði við þjóðarandann, er jafn aumlegt sem á íslandi. Skrælingjar eru kannske dálítið verr á sig komnir en vér, í ýmsum greinum, en þess er gætanda, að þeir finna minna til eymdar sinnar, þar sem þjóðarandi þeirra og upplýsing er enn þá skemmra komin en hjá oss. Vér höfum af forfeðrum vorum erft þjóðaranda og almenna upplýsingu, og það hafa menn ekki getað tekið frá okkur, þó að sumir hafi raunar viljað stela því í seinni tíð og bæla það niður á allan hátt. En við höfum misst það, sem hverri þjóð ríður hvað mest á, en það eru ráðin yfir okkar eigin efnum og ástandi, og því erum vér nú vesalingar og munum verða svo, á meðan hér er engin bót á ráðin. Það hefir nú í mörg undanfarin ár verið hin mesta árgæzka hjá oss, bæði á sjó og landi, en hvar eru ávextirnir eða ábat- inn af þessum góðu árum? Það er raunar satt, að við höfum máske fengið nokkur hundruð fleiri brennivíns- tunnur inn í landið en fyrrum, en ég kalla það nú rýran ábata og litla framför. Fólkshrunið hjá oss í þessum góðu árum gegnir furðu og er allt að helmingi meira en nokkurstaðar í allri Norðurálfunni, að Grænlandi einu undanteknu; þó skiptir enginn sér af þessu, og helztu menn okkar sjálfra hafa staðið á móti því með hönd- um og fótum, að sjúkrahúsi verði komið á í landinu. Þegar allt er lagt saman, þá nær fólk hjá oss ekki tví- tugs aldri að öllum jafnaði, og svo hefir dr. Schleisner sýnt og sannað, að af hverjum 1000 fæddum börnum hafa aðeins rúm 500 börn von um að ná fermingar- aldrinum, þar sem lík tala í öðrum löndum hefir, að öllum jafnaði, von um að ná fertugasta og jafnvel fimm- tugasta aldurs ári. Og síðar í bréfinu segir Jón Hjaltalín: Þó ísland bæri gull og gersemar í skauti sínu, þá mundi það, eins og nú er ástatt, að litlu gagni koma, þar sem landið er öldungis peningalaust að kalla má, svo að engu verður til leiðar komið fyrir peningaleys- inu. Það koma nú á ári hverju vart svo miklir peningar inn í landið, að nemi ríkisdal á mann, og getur hver einn lifandi maður séð, að með slíku verður engu til leiðar komið. Það er heldur ekki að hugsa til þess, að ríkismenn í öðrum löndum vilji hætta peningum sín- um inn í það land, hvar einokunarverzlunin ríkir ennþá í öllum blóma sínum og gjörir hverjum þeim, sem ein- hverju vill áfram koma, örðugleika á alla bóga. Ekns og nú á stendur hjá oss, og á meðan verzlanin ekki verður laus, þá get ég ekki séð, að íslendingar hafi fyrir neinu að vinna eða geti komið nokkru áfram með vinnu sinni nema aðeins því að halda við þessu vesæla lífi, er þeir nú lifa, og bera sig að deyja ekki út af í hungri. Eða hvað dugir það fyrir sjómanninn, þó hann sé að hætta sér út á sjóinn og bera sig að safna fiski, sem afgangs geti orðið, þegar kaupmenn gefa varla annað fyrir hann en kaffi og brennivín, en hinir, sem gætu og vildu borga hann almennilega, fá ekki að komast að? Jótar hafa nú á dögum ekkert meira sauð- fé en íslendingar, en sá er munurinn, að Jótar fá 18 ríkisdali í gulli eða silfri fyrir hverja kind, sem flutt er til Englands, þar sem íslendingar fá aðeins hér um bil 5 ríkisdali í brennivíni og öðru þess háttar fyrir beztu sauði sína, sem þó bera langt af öllu józku fé“. 1)1 erindi þessu hef ég a8 sjálfsögSu stuSzt viS ýmislegt, er um fundinn hefir veri8 ritaB, og skal einkum þrennt teki8 til: Alþingi ári8 1945 eftir Einar Arnórsson, Þj68fundurinn ári8 1851 eftir Hallgrím Hallgrímsson, hvort tveggja í Skírni 1930, og grein Sverris Kristjánssonar i Þjó8viljanum I ágöst 1951. Þessi mynd, sem hér hefur verið brugðið upp, er hvorki hugljúf né fögur, en hún er býsna sönn. Og hana verðum vér að hafa í huga, ef vér ætlum að átta oss á sjálfstæðisbaráttu ís- lendinga, fyrir hverju var bar- izt og til hvers var að vinna. Vér tókum eftir því, að Jón Hjaltalín sagðist ekkert land þekkja í allri Norðurálfu heims, hvar ástand manna, í saman- burði við þjóðarandann, væri jafn aumlegt og á íslandi. En hvar stæðum vér nú, ef þjóðarandanum hefði ekki verið haldið vakandi, ef vér hefðum látið kjörin smækka oss, skáldin ekki ort og engir leiðtogar kvatt sér hljóðs. Vér erum aldrei ofminnugir á hið liðna og það, sem vér eigum gengnum að gjalda. Því skulum vér nú snúa oss að þjóðfundin- um, segja frá honum sjálfum og aðdraganda hans. Alþingi Islendinga á Þingvelli við Öxará hafði verið lagt nið- ur með konungsúrskurði 6. júní árið 1800. Var hvort tveggja, að það var orðið svipur hjá sjón og aðstæður allar til þinghalds þar orðnar svo erfiðax, að til ein- hverra bragða varð að taka. Var nú stofnaður hinn svonefndi konunglegi landsyfirdómur, sem sitja skyldi í Reykjavík og taka við dómsstörfum lögréttu og yfirréttarins gamla og þinglýs- ingastörfum alþingis. Fólst í þessu mikil réttarbót, og veitti ekki af, því að réttarfarið í land- inu var um þessar mundir orðið mjög bágborið. Aðrar breytingar, sem urðu um svipað leyti, voru þær helzt- ar, að biskupsstólarnir gömlu voru lagðir niður og eins latínuskólarnir, er verið höfðu á biskupssetrunum, en í staðinn kom einn biskupsstóll og einn latínuskóli, með aðsetri í Reykja- vík. En erfiðir tímar fóru í hönd, harðæri heima fyrir og ófriður úti í löndum. Leið svo fram um 1830. Danmerkurríki var þá stór- um víðara en það er nú, þ. e. a. s. Danmörk sjálf, hertogadæmin Láenborg, Holstein og Slésvík, þá Færeyjar, ísland og Græn- land, með alls rúmar 2 milljónir íbúa. Hlutu af þessu að spretta ýmis vandamál. T. d. voru her- togadæmin Láenborg og Hol- stein alþýzk og því viðbúið, að þau mundu sameinast Þýzka- landi, jafnskjótt og það sjálft sameinaðist í samfellt ríki. Slés- vík hafði að vísu lotið Danakon- ungum um aldaraðir, en þýzka þjóðarbrotið þó stöðugt eflzt, og var nú svo komið, að tekið var að bæra þar á hreyfingu, er vildi sameina hertogadæmin Slésvík og Holstein og hefðu þau ekkert sameiginlegt við Dani nema konung og hervarnir. Fékk hreyfing þessi byr undir báða vængi, er öldur júlíbyltingar- innar á Frakklandi bárust yfir Þýzkaland norður á bóginn. Var þá ákveðið með tilskipun 28. maí 1831, að stofnuð skyldu 2 rágjafarþing í Danmörku auk annarra tveggja ráðgjafarþinga í hertogadæmunum. Annað þing- anna, sem Danmörku var ætlað, skyldu Norður-Jótar heyja í Vébjörgum, en hitt skyldi háð í Hróarskeldu með Eydönum og íslendingum. Árið 1829 hafði Baldvin Ein- arsson, sem þá var við nám í Kaupmannahöfn, hafið útgáfu Ármanns á alþingi, ársrits í sam- tals formi, þar sem rætt var um landsins gagn og nauðsynjar. Varð endurreisn alþingis að Þingvelli eitt af höfuðáhuga- málum Baldvins. Þegar því rætt var um dönsku ráðgjafarþingin og þátttöku íslendinga í þeim, lét hann ekki á sér standa, rit- aði um málið bæði á dönsku og íslenzku og hélt fram sérstöku ráðgjafarþingi til handa íslend- ingum. Studdi skáldið og dóm- arinn Bjarni Thorarensen hann manna bezt í þessum málum. En einmitt þegar mest á reið, að fylgt yrði eftir, fórst Baldvin af slysförum. Orti Bjarni þá vísu þessa, er hann spurði andlát hans: Isalands óhamingju verður allt að vopni! Eldur úr iðrum þess, ár úr fjöllum breiðum byggðum eyða. En Bjarni gerði meira en að yrkja. Hann hélt fram merki Baldvins og beitti sér fyrir bænarskrá til konungs 1837 um stofnun sérstaks ráðgjafarþings á íslandi. Varð konungur að vísu ekki við þeim tilmælum, en mælti svo fyrir, að nokkrir ís- lenzkir embættismenn skyldu koma saman annað hvert ár til álitsgerðar um mál, er stjórnin kynni að leggja fyrir þá. Var fyrsti fundurinn haldinn sumar- ið 1939 og fyrir hann lagt að gera tillögur um kosningu full- trúa á íslandi til Hróarskeldu- þings, en það hafði fyrst verið háð árið 1835 og þar þá setið 2 fulltrúar af Islendinga hálfu, til- nefndir af konungi. Hallaðist nefndin helzt að því, að konung- ur skyldi eftir sem áður nefna þessa fulltrúa. Rætt var um það í nefndinni að knýja enn á 1 í ráðgjafarþmgsmálinu, en menn urðu þar ekki á eitt sáttir. Skal hér nú horfið frá í bili og vikið að Fjölnismönnum, þeim Jónasi Hallgrímssyni og Tómasi Sæmundssyni, Konráði Gíslasyni og Brynjólfi Péturs- syni. Þeir hófu útgáfu Fjölnis 1835 og gerðu sér nytsemi, feg- urð og sannleik að einkunnar- orðum. Að lokinni greinargerð fyrir ritinu hefst kvæði Jónasar, ísland, og ætla ég að lesa það hér: Vér sjáum, hvað fyrir skáld- inu vakir: endurreisn alþingis á Þingvelli við Öxará. Aldrei fyrr hafði ísland verið ávarpað slík- um orðum: ísland! farsælda-frón og hag- sælda hrímhvíta móðir! né þjóðin verið eggjuð slíkri lögeggjan. Og þetta var aðeins upphafið. I kvæði sínu til Páls Gaimard, fluttu í samsæti ís- lendinga í Kaupmannahöfn, Páli til heiðurs í janúar 1839, segir Jónas m. a.: Þú komst á breiðan brunageim við bjarta vatnið fiskisæla, þar sem vér áður áttum hæla fólkstjórnarþingi fræga um heim. Nú er þar þrotin þyrping tjalda, þögult og dapurt hraunið kalda. Þótti þér ekki ísland þá, alþingi svipt, með hrellda brá? En Jónas hvatti menn ekki einungis í ljóði, heldur og með hverju öðru móti sem hann gat. Grein, sem hann ritar í 1. árg. Fjölnis og fjallar um hreppana á íslandi, lýkur hann með svo- felldum orðum: „Óskandi væri Islendingar færu að sjá, hvað félagsandinn er ómissandi til eflingar velgengn- inni í smáu og stóru og fylgdu í því dæmi annarra þjóða að fara að taka þátt í almennings hög- um, hver eftir sínum kjörum og stöðu í félaginu. Og enn segir hann: Óskandi væri Islendingar færu að sjá, að það er aumt líf og vesælt að sitja slnn í hverju horni og hugsa um ekkert nema sjálfan sig og slíta svo sundur félag sitt og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur — í stað þess að halda saman og draga allir einn taum og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins, sem öllum góðum Islendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi“. í árslok 1839 urðu konunga- skipti í Danmörku. Friðrik 6. andaðist, en við tók Kristján 8., sá konungur, er einna þarfastur hefur verið oss íslendingum. Skildi hann brátt, að leita varð einhverrar lausnar á þingmál- um íslendinga. Bauð hann því í úrskurði 20. maí 1840, að embættismannanefndin skyldi spurð að því á næsta fundi sín- um sumarið 1841, hvort eigi muni rétt að stofna sérstakt ráðgjafarþing á íslandi, skipað hæfilega mörgum þjóðkjörnum þingmönnum, auk nokkurra konungkj örinna manna, og um önnur þau efni, er þingið vörð- uðu, svo sem þingkostnað o. s. frv. Sérstaklega var vakin at- hygli á því, hvort ekki skyldi nefna þingið alþingi, eiga það á Þingvelli við Öxará og hafa það skipað sem líkast hinu forna alþingi. Var þessari fyrirspurn kon- ungs mjög fagnað, eins og vænta mátti, og þá orti Jónas Hall- grímsson kvæðið snjalla: Alþing hið nýja, er ég nú mun lesa: Hörðum höndum vinnur hölda kind ár og eindaga; siglir særokinn, sólbitinn slær, stjörnuskininn stritar. ísland! farsælda-frón og hagsælda hrímhvíta móðir! Hvar er þín fornaldar frægð, frelsið og manndáðin bezt? Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama lýsir, sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld. Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar, himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart. Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu austan um hyldýpis haf hingað í sælunnar reit. Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti, ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt. Hátt á eldhrauni upp, þar sem ennþá Öxará rennur ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð. Þar stóð hann Þorgeir á þingi, er við trúnni var tekið af lýði, þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll. Þá riðu hetjur um héruð, og skrautbúin skip fyrir landi flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim. Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið. Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur? Höfum við gengið til góðs götuna frameftir veg? Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar, himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart. En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut. Nú er hún Snorrabúð stekkur og lyngið á lögbergi helga blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik. . Ó, þér unglinga fjöld og ísiands fullorðnu synir! Svona er feðranna frægð fallin 1 gleymsku og dá! Traustir skulu hornsteinar hárra sala; í kili skal kjörviður; bóndi er bústólpi — bú er landstólpi — því skal hann virður vel. Fríður foringi stýri fræknu liði, þá fylgir sverði sigur; illu heilli fer að orustu sá, er ræður heimskum her. Sterkur fór um veg, þá var steini þungum lokuð leið fyrir; ráð-at hann kunni, þótt ríkur sé, og hefðu þrír um þokað. Bera bý bagga skoplítinn hvert að húsi heim; en þaðan koma ljós hin logaskæru á altari hins göfga guðs. Vissi það að fullu vísir hinn stórráði. Stóð hann upp af stóli studdist við gullsprota: „Frelsi vil eg sæma framgjarnan lýð, ættstóran kynstaf Isafoldar. Ríða skulu rekkar, ráðum land byggja, fólkdjarfir fyrðar til fundar sækja, snarorðir snillingar að stefnu sitja, þjóðkjörin prúðmenni þingsteinum á. Svo skal hinu unga alþingi skipað sem að sjálfir þeir sér munu kjósa. Gjöf hef eg gefið, gagni sú lengi foldu og fyrðum, sem eg fremst þeim ann“. Þögn varð á ráðstefnu, þótti ríkur mæla; fagureygur konungur við fólkstjórum horfði, stóð hann fyrir stóli, studdist við gullsprota; hvergi getur tignarmann tigulegri. Sól skín á tinda. Sofið hafa lengi dróttir og dvalið draumþingum á. Vaki vaskir menn! til vinnu kveður giftusamur konungur góða þegna. Embættismannanefndin kom saman öðru sinni sumarið 1841 og tók þegar til við alþingis- málið. Aðalumræðuefni voru hlutverk þingsins, tala fulltrúa, kosningarréttur og kjörgengi, hvort þingið skyldi háð í heyr- anda hljóði, og síðast, en ekki sízt, alþingisstaðurinn. Greindi menn mjög á um flest þessara atriða. Nefndarmenn flestir vildu sníða þingið sem mest eft- ir dönskum fyrirmyndum, en sættu fyrir það mjög harðri gagnrýni, einkum frá Tómasi Sæmundssyni, sem vildi hafa þingið sem líkast hinu forna al- þingi. En mestur varð þó styrinn um alþingisstaðinn. Vildu að vísu einungis 2 nefndarmenn af 10 hafa hann á Þingvelli, en þeir nutu í því stuðnings Fjöln- ismanna, er gert höfðu þetta að miklu tilfinningamáli með þjóð- inni og vitnuðu auk þess í þá fyrirspurn konungs, hvort ekki væri rétt að heyja hið fyrirhug- aða þing á Þingvelli. En ýmis rök hnigu hér á móti og þau þyngst, sem Jón Sigurðsson bar fram í skrifum sínum um al- þingismálið. Jón Sigurðsson var um þrí- tugt, þegar hér var komið sögu, hafði verið við nám og fræði- störf í Kaupmannahöfn um nokkurra ára skeið, en kom nú eins og hann væri kallaður til að fylgja fram málum íslend- inga. Þar bar allt að sama brunni: ótvíræðir forustuhæfi- leikar, víðtæk þekking og brennandi áhugi. Með útgáfu Nýrra Félagsrita 1841 hóf hann markvissa baráttu fyrir sjálf- stæði íslendinga, baráttu, sem linnti ekki, meðan hartn lífði. Hann sá jafnan, hvar þörfin var mest, að fyrst yrði að fræða þjóðina um málavöxtu og vekja áhuga hennar, en síðan sameina hana til átakanna. Hann tekur því fyrir hvert stórmálið af öðru, fyrst alþingismálið, þá skólana og verzlunarmálið, allt í fyrstu þremur árgöngum Nýrra Félagsrita. En í 4. árgangi fylgir hann þessum greinum eftir með Framhald á bls. 5

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.