Lögberg - 03.07.1952, Síða 4
4
LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 3. JÚLÍ, 1952
Lögberg
Gefi8 út hvern fimtudag af
THE COLUMBIA PRESS LIMITED
695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MANITOBA
Utanáskrift ritstjórans:
EDITOR LÖGBERG, 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MAN.
PHONE 21804
Ritstjóri: EINAR P. JÓNSSON
Verð $5.00 um árið — Borgist fyrirfram
The "Lögberg” is printed arfd published by The Columbia Prese Ltd.
695 Sargent Avenue, Wlnnipeg, Manitoba, Canada
Authorized as Second Class Mail, Post Office Department, Ottawa
Landnáms- og landnemaminni
Eftir prófessor RICHARD BECK
Flutt á Landnámshátíð Nýja-íslands að Iðavelli
við Hnausa, 1. júlí 1952
Nýja-ísland! Fagurt og hreimmikið er það nafn í
eyrum ailra íslendinga, og að sama skapi þrungið djúp-
stæðri merkingu. Þetta svipmikla landnámsheiti berg-
málar annars vegar djarfa drauma og bjartar fram-
tíðarvonir þeira útsæknu manna og kvenna íslenzkra,
sem hér lentu við strönd og námu land; á hinn bóginn
lýsir þetta fagra nafn nýbyggðar þeirra órofa tryggð
þeirra og traustum ættar- og menningarböndum við
móðurjörðina. Hér skyldi nýtt ísland befjast til vegs og
velsældar; ekkert minna dreymdi þá um, frumherjana
íslenzku á þessum slóðum. Og þó að sá djarfi draumur
þeirra rættist bæði seinna og um margt með öðrum
bætti en þá dreymdi um, þá lifir hér enn óneitanlega,
að ýmsu leyti, glatt í þeim eldum, sem landnemarnir
fluttu með sér heiman um haf, jafnframt því sem af-
komendur frumberjanna njóta nú ávaxtanna af braut-
ryðjendastríði þeirra og fórnfærzlu og búa við almenna
velmegun innan nýlendunnar.
Margt fleira en landnámsheitið eitt minnir bér á
ísland og íslenzkar erfiðir. Enn rennur íslendingafljót
fram í fangvítt og fiskisælt vatnið, sem verið hefir bæði
baráttuvöllur og auðlind, já, ósjaldan lífgjafi, landnem-
anna og afkomenda þeirra, rétt eins og hafið hefir verið
löndum okkar heima á ættjörðinni. Hér í nýlendunni
eru Möðruvellir og Grund, og fjöldi annarra íslenzkra
bæja- og staðarnafna, er eiga sér fornfræga sögu og
miklar minningar eru tengdar við — nöfn, sem vert er
að rifja upp og muna, því að Stephan G. Stephansson
hafði rétt að mæla í hinu kjarnmikla kvæði sínu
„Gróðabrögð“:
Að skreyta sig glingri frá erlendum álfum
er örvasans fávit, en týna sér hálfum.
Því tap er hvert góðyrði gleymt.
E)n manndáð sú hagsælir heimili og nágrennd,
sem hnoss sín fékk geymt.
Þá er eigi óíslenzkara eða ósögulegra heitið á
höfuðstað þessa landnáms — Gimli. Hann hefir bæði
verið handgenginn íslenzkum fornbókmenntum og vit-
að hvað hann fór landneminn, sem valdi þessum fyrsta
íslenzka bæ í Vesturheimi það sögufræga heiti úr nor-
rænni goðafræði, en staðnum, sem það bar, er lýst í
Snorra-Eddu á þessa leið: „Á sunnanverðum himinsins
enda er sá salur, er allra ér fegurstur og bjartari en
sólin, er Gimlé heitir. Hann skal standa, þá er bæði
himinn og jörð hefir farizt, og byggja þann stað góðir
menn og réttlátir of allar aldir.“
Hér speglast trú norrænna manna á bjartari og
betri framtíð að lokum, eilífðartrú þeirra. í hinni sögu-
legu nafngift Gimlibæjar speglast einnig djarfar fram-
tíðarvonir íslenzku landnemanna, vonir, sem voru um
annað fram bundnar við hagsæld niðja þeirra á kom-
andi tíð, því að afkomendanna vegna sérstaklega rifu
menn og konur sig upp með rótum úr móðurmold sinni
og aldagömlum menningarjarðvegi og lögðu á breitt
og úfið úthafið áleiðis til ókunna landsins í vestrinu.
Þeim grundvallarsannleika, þeirri örlagaríku staðreynd,
mega niðjar íslenzkra landnema í þessari nýlendu, né
heldur annars staðar í nýbyggðum okkar í Vestur-
heimi, aldrei gleyma; geri þeir það, eru þeir að menn
minni, og drjúgjum snauðari, menningarlega talað.
Einnig mun mega segja, að hið sögufræga nafn
þess staðar, er vér nú stöndum á, Iðavöllur, spegli enn-
fremur framtíðarvonir landnemanna afkomendum
þeirra til handa, enda var Iðavöllur hinn forni nátengd-
ur Gimli í norrænum átrúnaði. Á Iðavelli hittast hinir
fornu guðir að lokinni úrslitaorustunni miklu milli hinna
illu og góðu afla í tilverunni, og hefja guðirnir þar á
nýrri jörð, þar sem akrar vaxa ósánir, nýtt gullaldar-
líf friðar og hamingju; þar finnast einnig aftur hinar
fornu gulltöflur í grasi. í norrænni trúarsögu hvílir því
mikil helgi yfir þeim stað. Og hvað merkir svo orðið
Iðavöllur? Um það hafa komið fram ýmsar getgátur.
Einn merkur fræðimaður taldi, að nafnið væri sama og
starfsvöllur; annar segir, að það sé völlurinn, sem
endururnýjast og yngist af sjálfu sér; þriðja skýringin
er sú, að Iðavöllur sé hinn græni völlur. Hverja skýr-
inguna, sem menn aðhyllast, þá er eitt víst, að heiti
þessa sviphýra samkomustaðar er bæði fornfrægt og
fagurt, og bendir um leið fram á við, minnir á landnáms-
menn og landnámskonur, sem í þessari nýbyggð hlúðu
hörðum höndum að grænum gróðri, er endurnýjast með
hverju vori; en spaklega fórust Stephani G. orð sem
oftar, er hann sagði:
Vors ei leynast letruð orð
ljóst á grein og móa:
Sæla reynast sönn á storð
sú mun ein, að gróa.
Þann sannleika höfðu landnemarnir tileinkað sér
öðrum betur; þeir voru samferðamenn gróandans, fast-
trúaðir á mátt hans bæði í lífi og lundu, og sýndu þá
gróðrar og framfaratrú sína í verki; þess vegna er bjart
um þá í minningu þeirra, sem fylgt hafa þeim í spor,
og þess vegna helgum við landnemunum einnig þenn-
an hátíðardag. Hefi ég af ásettu ráði dvalið við nokkur
hinna sögulegu heita landnámsins til þess að minna á
það, hve landnemarnir stóðu djúpum rótum í menning-
arlegum jarðvegi heimalands síns og hve sterkum
böndum þessi fagra og söguríka nýlenda er tengd ís-
landi, þó eigi sé litið nema á nafngiftirnar einar saman.
En hverfum nú að landnámi Nýja-íslandg og land-
nemum þess sjálfum. Þegar við, af sjónarhóli þessa há-
tíðahalds,-rennum augum yfir farinn veg fullra 75 ára
og minnumst landnámstíðarinnar og frumbyggjanna,
megum við afdráttarlaust taka undir þessi sönnu orð
Þorsteins Erlingssonar:
Og munið, að ekki var urðin sú greið
til áfangast, þar sem við stöndum,
því mörgum á förinni fóturinn sveið, —
Þau orð eiga heima um landnám allra íslenzkra
nýbyggða vestan hafs, en hvergi fremur en um þessa
nýlendu, er ber hið stolta nafn Nýja-ísland. Hvergi í
íslenzkum byggðum í landi hér var háð harðari eða ör-
lagaþyngri brautryðjendabarátta heldúr en í landnámi
íslendinga á þessum slóðum. Megi með sanni segja, að
nokkurt landnám hér í álfu hafi verið keypt við dýru
verði „svita, blóðs og tára“ íslenzkra manna og kvenna,
þá er það vissulega þessi víðlenda og sVipfagra nýlenda,
sem landnemarnir, þrátt fyrir hina köldu aðkomu
hingað og hörmungar hinna fyrstu ára, gáfu nafn sinn-
ar hjartfólgnu móðurmoldar, og tengdu við það heiti
bjartar framtíðarvonir sínar.
Hér hefir steinninn mannamál
og moldin sál,
segir Davíð Stefánsson réttilega og fagurlega um helgi-
stað heimaþjóðar okkar, Þingvelli við Öxará, í stór-
brotnum Alþingishátíðarljóðum sínum. Við getum sagt
svipað um dýrkeyptar stöðvar þessa íslenzka landnáms.
Hér má heyra í lofti vængjaþyt sögunnar; hér á moldin
mál, og segir þeim, er skynja og leggja hlustir við, hjart-
næmar harmsögur úr lífi og stríði frumherjanna. Skáld-
sonur þessa landnáms, Guttormur J. Guttormsson,
fann þeim röddum áhrifamikinn búning í þessum ljóð-
línum í snilldarkvæði sínu „Sandy Bar“:
Að mér sóttu þeirra þrautir.
Þar um espihól og lautir,
fann ég enda brenndar brautir.
Beðið hafði dauðinn þar.
Þegar elding loftið lýsti,
leiði margt ég sá, er hýsti
landnámsmanns og landnámskonu
lík — í jörð á Sandy Bar,
menn, sem lífið launað engu
létu fyrr á Sandy Bar.
Annars staðar hefir skáldið, sem sjálft er barn
hinna fyrstu landnámsára á þessum slóðum, lýst á
minnisstæðan hátt í kvæðum sínum þrautum frumherj-
anna, harðvítugri baráttu þeirra við Bóluna, og við á-
sækin og óvæg náttúruöflin, vatnsflóðin og skógareld-
ana, að ógleymdri harðsóttri glímunni við að nema
landið sjálft, ryðja skóginn og ræsa fram fenin, og
breyta með þeim hætti óbyggðinni í akurlendi.
En gróðurgrænir akrarnir og blómlegar byggðirn-
ar, sem nú blasa okkur hér við sjónum, og margvísleg
mannvirki, bera því órækastan vottinn, að raunasaga
frumbyggjanna varð að lokum sigursaga; framtíðar-
vonir þeirra létu sér ekki í lengdinni til skammar verða;
skáldið hefir rétt að mæla, er hann segir í fyrrnefndu
kvæði sínu, að frumherjarnir hafi að fullu efnt það heit:
að marka og ryðja braut til sigurs út frá Sandy Bar.
Það er hinn ódauðlegi hróður þeirra; þeir lifa í sigur-
vinningum afkomenda sinna, og þau sigurlaun hefðu
landnámsfeður og mæður þessara byggða einnig talið
sitt ákjósanlegasta og mesta ríkidæmi.
Þrátt fyrir hin andvígu kjör, komu menningarlegur
áhugi og framsóknarhugur landnema þessarar nýlendu
fram með ýmsum hætti þegar snemma á árum, svo
sem með stofnun Framfara, fyrsta íslenzka blaðsins í
Vesturheimi, og þá eigi síður með samningu og sam-
þykkt stjórnarlaga Nýja-íslands, sem gerði nýlenduna
sjálfstætt „ríki í ríkinu“ um tólf ára skeið, og jafnframt
að því leyti algerlega einstæða í sögu íslendinga vestan
hafs. Lýsir lagaskipun þessi ágætlega og eftirminnilega
sjálfstæðisanda landnemanna, sem þeim var í blóð bor-
inn, arfur frá forfeðrunum, þeim „frumherjum frelsis,“
er Ísland námu. Hafði sá frelsishugur ávalt lifað með
íslenzku.þjóðinni, stundum að vísu sem falinn eldur,
en blossað upp og orðið að brennandi báli, þegar henni
mest á reið.
Saga Nýja-íslands er áð vísu, eins og þegar er sagt,
framan af árum skráð blóði og tárum, en hún er jafn-
framt frá fyrstu tíð og fram á þennan dag rituð afrek-
um handa og anda. Hér hafa verið og eru enn athafna-
menn miklir á mörgum sviðum; héðan hefir komið f jöldi
námsfólks, og andans menn, sem borið hafa á þeim
vettvangi merki íslenzks atgervis fram til nýrra sigra;
og svo traustan grundvöll lögðu landnemarnir, svö vel
bjuggu þeir í hendur afkomendanna, að þessi nýlenda
er nú með réttu almennt talin einhver allra farsælasta
íslendingabyggð hér í álfu. Eiga hér við markviss orð
úr einu af hinum snjöllu kvæðum Þorsteins Þ. Þorsteins-
sonar rithöfundar:
Landnemar í stríði og striti,
studdir feðra hyggjuviti
sýndu forna festu og seiglu
fastast þegar að þeim svarf.
Kóngsríkið þótt ynnist eigi
enn þá fram að þessum degi,
sigruð lönd og byggða bæi >
börnum sínum gáfu í arf.
Liggur þá beint við að svara ítárlegar eftirfarandi
spurningu: Með hvaða vopnum sigruðust íslenzkir land-
nemar í þessari nýlendu á hinum frámunalega andvígu
kjörum, sem þeir áttu við að búa framan af árum? Þeir
sigruðu með þrotlausu líkamlegu erfiði og ódrepandi
þrautseigju, en þó öllu fremur með vopnum andans. Þeir
báru í brjósti djúpa og sterka guðstrú, samhliða bjarg-
fastri framtíðartrú, trúnni á hið nýja land sitt. Einar P.
Jónsson ritstjóri hitti áreiðanlega ágætlega í mark, er
hann komst þannig að orði í hinum prýðisfögru „Land-
nemaljóðum“ sínum að Gimli 1935, að hann, „sem að
stjórnar himni og jörð“, hafi verið hvorttveggja í senn
„lífæð landnemans og leiðarstjarna á vegi hans.“ Hvað,
sem annars má segja um trúmáladeilurnar í þessari ný-
lendu á landnámsárunum, þá lýsa þær að minnsta kosti
djúpstæðum trúaráhuga.
Landnemarnir íslenzku á þessum slóðum höfðu
einnig á þrenginga- og baráttuárum sínum hitann úr
hinum íslenzku menningarerfðum sínum. íslenzkar bók-
menntir og saga íslenzku þjóðarinnar urðu þeim, eins og
löndum þeirra heimafyrir, eggjan til dáða og vængur
til flugs yfir torfærurnar. Guðsorðabækurnar, Passíu-
sálmarnir, íslendingasögur og rímurnar, urðu samferða
vestur um hafið í bókakosti landnemanna, og við elda
þeirra rita allra ornuðu þeir sér, þegar kaldast næddi
um þekju og hvassast blés í móti í baráttunni. Vafalaust
mátti um marga.landnemana segja það, sem Guðmund-
ur O. Einarsson segir nýlega í eínkar hlýrri kveðju til
eins þeirra:
En íslenzkar hetjur þú elskaðir mest,
og íslenzkar ferskeytlur hljómuðu bezt.
Þú kvaðst þær á köldustu stundum;
þú sagðir, þér fyndist þær hefðu það hljóð,
sem hitaði bezt okkar norræna blóð
og geymdu það gull, sem við fundum.
Enn svífur sá andi landnámsfeðranna og mæðr-
anna yfir þessum byggðum; hér eiga íslenzkt mál og
aðrar íslenzkar erfiðir sér enn griðland; hér eru enn
ort íslenzk kvæði og kastað fram léttfleygum stökum;
hér kunna menn meira að segja enn að kveða rímur á
hressilega íslenzka vísu, eða svo fannst okkur, þegar
við núna í júníbyrjun heyrðum hann Tímóteus Böðvars-
son kveða af mikilli prýði á „Fróns“-samkomunni í
Winnipeg.
Landar góðir! Haldið áfram varðveizlu hinna ís-
lenzku menningarerfða, sem feður ykkar og mæður
eða afar og ömmur fluttu hingað heiman um haf, og
þeim reyndust uppspretta orku og yndis í stríði og striti,
þegar hröttust brekka erfiðleikanna lagðist þeim í fang.
Það er enn lífsvatn nóg í brunninum þeim, ylur, sem
hitar um hjartarætur, í þeim gömlu glæðum, ef ég má
breyta til um líkinguna. Og varðveizla þeirrar menning-
ararfleifðar í lengstu lög er jafnframt hollur trúnaður
við hið lífrænasta í þjóðareðlinu og hin fegursta rækt-
arsemi við minningu landnemanna, sem voru bæði
tryggir sínu heimalandi og dyggir þegnar kjörlandsins,
og fyrir það betri menn og meiri.
Látum svo í anda endurborið ísland hið gamla og
ísland hið nýja hér á vesturvegum, heimaland og fóstur-
land landnemanna, taka höndum saman yfir hið breiða
haf, eins og Guttormur skáld lætur, í einu kvæða sinna,
bjarkirnar teygja saman arma sína yfir íslendingafljót:
Bakka sína bjarkir þessar prýði,
bol þeirra’ enginn telgi í nýja smíði,
enginn sferi rót né raski grunni,
renni að þeim vatn úr lífsins brunni!
Andi þeirra ilmi loftið blandi.
Áfram renni fljót, en bakkar standi.
Sterkar greinar haldist fast í hendur,
handabandi saman tengi strendur!
Höldum áfram að byggja sem traustasta brú rækt-
arseminnar og samvinnunnar milli íslendinga austan
hafs og vestan, báðum aðilum til ómetanlegs gagns og
gleðiauka. Gerum sem tíðastar gagnkvæmar heimsókn-
ir milli þeirra yfir hafið, hvort heldur er sjóleiðina eða
um loftin blá, því að ekkert treystir betur ættarböndin
heldur en slík kynni á báðar hliðar. Hins vegar sannast
það í þessum efnum, eins og fornkveðið er, að sá vegur,
sem enginn treður, vex hrísi og háu grasi; týnist, með
öðrum orðum, og gleymist. Sú vanræksla má aldrei
gerast í þjóðræknislegum og menningarlegum sam-
skiptum milli íslendinga yfir hafið, því að það væri báð-
um óbætanlegt tjón.
Lifi minning landnemanna íslenzku, manndómur
þeirra og norrænn hetjuandi! Blessist og blómgist þetta
landnám þeirra, Nýja-ísland, og beri með sóma um ó-
komin ár hið fagra og svipmikla nafn sitt!
KAUPENDUR LÖGBERGS
Á ÍSLANDI
Gerið svo vel að senda mér sem fyrst greiðslu fyrir
yfirstandandi árgang Lögbergs, kr. 75.00. Dragið
ekki að greiða andvirðið. Það léttir innheimtuna.
Æskilegt að gjaldið sé sent í póstávísun. Þeir sem
eiga ógreidda eldri árganga, eru vinsamlega beðnir
að snúa sér til mín.
BJÖRN GUÐMU N DSSON
FREYJUGATA 34 . REYKJAVÍK
____