Lögberg - 11.12.1952, Blaðsíða 6

Lögberg - 11.12.1952, Blaðsíða 6
LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 11. DESEMBER, 1952 fi LANGT í Burtu frá Heimsku Mannanna Eftir THOMAS HARDY J. J. BÍLDFELL þýddi Bathsheba komst að þeirri niðurstöðu sér til mikils angurs, að þessi gamli aldavinur hennar væri í þann veginn að yfirgefa hana og snúa við henni bakfnu. Hann, sem að hafði treyst henni og haldið uppi heiðri hennar, þegar allir aðrir höfðu snúið við henni baki — hafði að síðustu, eins og aðrir, þreytzt á því og var að yfirgefa hana og láta hana sjá um sig sjálfa. — Þrjár vikur liðu og enn a ný varð hún vör við kæruleysi hans í sinn garð. Hún tók eftir því, að i staðmn fyrir að koma sjálfur á skrifstofuna, þar sem að reikningar búsins voru haldnir, eins og hann hafði alltaf gjört og bíða eftir henni, þá kom hann þar nú aldrei þegar hún var líkleg til að vera þar, heldur kom þar þegar minnstar líkur voru til að hún mundi vera þar. Þegar hann þurfti að fá úr- skurð hennar viðvíkjandi verkum eða málum kom hann aldrei sjálfur heldur sendi mann með skriflega fyrirspurn, sem að hún varð að svara skriflega. Vesalings Bathsheba fór að kveljast af hugarangri vegna þeirrar tilfinn- ingar að hún væri fyrirlitin. Haustið leið seint og lamandi, og iólin komu aftur, og var þá liðið eitt ár af ekkjulífi Bath- shebu frá laganna sjónarmiði, en tvö ár og þrír mánuðir af einstæðingslífi hennar. Þegar hún athugaði tilfinningar sínar, má það virð- ast meira en einkennilegt að atburðurinn, sem kom fyrir í húsi Boldwoods og að jólin, sem fyrir hendi voru, voru líkleg til að minna á, átti lítið ítak í huga hennar, en í stað þess var þar skerandi fullvissa um að allir fyrir- litu sig — ástæðurnar fyrir því vissi hún ekki — og því síður að Oak væri potturinn og pannan í því öllu saman. Þegar hún kom út úr kirkj- unni þann sama dag, leit hún við í þeirri von, að hún sæji Oak, því að hún hafði heyrt bassa- rödd hans hljóma í sqngloftinu rólega og há- tíðlega, og að hann mundi hinkra við, eins og hann hafði verið vanur að gjöra. Jú, þarna var hann, eins og að hann var vanur — kom eftir stígnum á eftir henni. En undir eins og Bathsheba leit við, leit hann undan, og þegar hann var kóminn út úr hliðinu greip hann fyrsta tækifæri sem bauðst og hvarf. Daginn eftir reið höggið; hún var búin að búast við því lengi. Það var formleg tilkynning frá Oak þess efnis að hann ætlaði sér ekki að endur- nýja ráðningu sína hjá henni eftir 25. marz. Bathsheba las bréfið og grét yfir því. Það hryggði hana og móðgaði að hin vonlausa tryggð, sem að Gabríel hafði borið til hennar og hún áleit að sér bæri fyrir lífstíð, skyldi alt í einu vera rofin á þennan hátt. Og í tilbót var hún í ráðaleysi út af því, að þurfa nú aftur að reiða sig á sjálfa sig; henni fannst að hana skorti þrek til þess að annast kaup, sölu og vöruskipti, sem að Oak hafði séð um að öllu leyti eftir dauða Tray. Hvað átti hún nú að gjöra? Líf hennar var að verða háð auðn og erfiðleikum. Magnleysið og kvíðinn lagðist Svo þungt á hana þetta kveld, að hana htmgraði og þyrsti eftir samhygð og hluttekningu og henni fannst eins og að hún hefði fyrirgert þeirri einu sönnu vináttu, sem að hún hafði nokkurn tíma eign- ast, svo að hún tók hatt sinn og yfirhöfn og gekk heim til Oaks rétt eftir sólarlagið. Hún sá í gegnum gluggann að það logaði eldur á arni í stofunni, en engan mann sá hún þar inni. Hún drap hálf hikandi á dyrnar, því að hún var aldeilis ekki viss um, að það væri rétt samkvæmt siðferðisreglunum, að kona heimsækti ógiftan mann um þetta leyti dags, jafnvel þó að um ráðsmann hennar væri að ræða, og hægt væri að segja, að hún væri í við- skiptaerindum með nokkrum rétti. Gabríel opnaði dyrnar og birta frá tunglinu, sem var nýkomið upp, skein framan í hann. „Herra Oak,“ sagði Bathsheba lágt. „Já, ég er hr. Oak,“ sagði Gabríel. „Hver heiðrar mig. — Ó, hvaða heimskingi get ég verið að þekkja ekki húsmóðurina!" „Ég verð nú líklega ekki húsmóðir þín mikið lengur,“ sagði hún mæðulega. „Nei, ég á ekki von á því — en gjörðu svo vel að koma inn, frú. Og ég skal ná í ljós,“ sagði Oak hálfvandræðalega. „Nei, ekki handa mér.“ „Það er svo sjaldgæft, að konur komi að heimsækja mig, að ég er hræddur um að við- tökurnar verði ekki eins fullkomnar og þær ættu að vera. Viltu gjöra svo vel og setjast niður. Hérna er stóll, og þarna er annar líka. Mér þykir fyrir, að allir stólarnir eru með tré- sætum og að það er nokkuð hart að sitja á þeim — ég var að hugsa um að fá mér nokkra nýja stóla.“ „Þeir eru nógu þægilegir fyrir mig.“ Þau settust bæði niður og bjarminn frá eldstæðinu lék um andlitin á þeim og um hús- munma gömlu, sem að inni í stofunni voru. Það var meira en lítið einkennilegt, að þessar persónur, sem að þekktust svo vel, skyldu vera svo til baka haldandi 'og vandræðalegar, þó að þær hittust á þessum óvanalega stað. Þegar þau hittust á akrinum eða heima hjá henni, hafði aldrei borið á neinni feimni eða vand- ræðum þeirra á milli. En nú þegar Oak var orðinn gestgjafinn, þá var eins og að þau hefðu bæði færzt aftur í tímann, áður en þau þekktust. „Þér finnst víst einkennilegt, að ég skyldi koma, en . . . . .“ „Ónei, alls ekki.“ „En ég hélt, Gabríel; ég hefi verið svo óró- leg með sjálfri mér út af því, að mér finnst eins og ég hafi móðgað þig, og að það væri þess vegna að þú færir. Það lá mér þungt á hjarta og ég gat ekki annað en komið.“ „Móðgað mig! Eins og að það væri mögu- legt fyrir þig Bathsheba!“ „Hefi-ég ekki gjört það?“ spurði hún glað- lega. „En hvað er það annað, sem að rekur þig í burtu?“ „Ég ætla ekki að flytja úr landi, ég vissi ekki að það var á móti vilja þínum að ég gerði það, þegar ég sagði þér frá því, ef ég hefði vitað það þá hefði mér ekki komið það til hugar. Ég hefi gert ráðstafanir til að taka litlu Weath- erbury-landareignina á leigu og verður þeim samningum lokið á boðunardag Maríu. Þú veist að ég hefi haft dálítinn hlut í búinu um nokkurn tíma. En það kæmi ekki í veg fyrir að ég gæti litið til með þér, eins og að undan- förnu, ef að það hefði ekki verið fyrir það, sem sagt hefir verið um okkur.“ „Hvað er það?“ spurði Bathsheba hissa. „Sagt um þig og mig! Hvað er það, sem að sagt hefir verið?“ „Það get ég ekki sagt þér.“ „Ég held, að það væri viturlegra af þér að gjöra það. Þú heíir margsinnis verið ráðu- nautur minn og ég sé ekki hvers vegna að þú ættir að koma þér undan að vear það nú.“ „Það er ekki í sambandi við neitt, sem að þú hefir aðhafst í þetta sinn. Mergur málsins er þessi — að ég sé að snuðra hér í kring og bíða eftir að krækja í bújörðina hans vesalings Baldwoods með það fyrir augum að ná í þig einhverntíma.“ Ná í mig! Hvað meinar það?“ „Giftast þér, á algengu og almennu ensku máli. Þú baðst mig um að segja þér þetta, svo að þú getur ekki ásakað mig.“ Bathsheba varð ekki alveg eins æf út af þessum fréttum, eins og að Oak hélt að hún mundi verða. — „Giftast mér! Ég vissi ekki, að það var það, sem þú meintir,“ sagði hún ró- lega og blátt áfram. „Slít er óhugsanlegt — of fljótt að hugsa um það — allt of fljótt.“ „Já, vissulega er það óhugsanlegt. Ég sæk- ist ekki eftir neinu sliku og ég held, að öllum ætti að vera orðið það ljóst nú. Svo sannarlega værir þú síðasta konan, sem að mér mundi koma til hugar að giftast. Það er óhugsanlegt, eins og þú segir.“ „Of — fljótt,“ sagði ég. ;/Þú fyrirgefur, þó ég leiðrétti þig, en þú sagðir: óhugsanlegt, og sama segi ég.“ „Ég bið þig líka að fyrirgefa," sagði hún með tárvot augu. „Of fljótt, var það sem að ég sagði. En það gjörir ekkert til, ekki hið allra minnsta það, sem ég meinti var „of fljótt." Ég meinti það áreiðanlega, hr. Oak, og þú verð- ur að trúa mér!“ Gabríel horfði lengi á hana, en birtan frá arninum var dauf svo að hann sá ekki mikið. „Bathsheba,“ sagði hann þýðlega og undrandi og færði sig nær henni. „Ef að ég aðeins vissi eitt —hvort að þú vildir leyfa mér að unna þér, vinna tiltrú þína og traust og giftast mér eftir allt. Ef að ég aðeins vissi það!“ „En þú færð aldrei að vita það.“ „Vegna hvers?“ „Vegna þess, að þú spyrð aldrei að því.“ — ó!“ sagði Gabríel og hló glaðlega. — „Mín eigin kæra .... .“ „Þú hefðir ekki átt að senda mér þetta stranga bréf í morgun,“ tók hún fram í. „Það sýndi, að þér var alveg sama um mig, og þú varst reiðubúinn að yfirgefa mig, eins og allir hinir! Það var miskunnarlaust af þér, þegar tekið er til greina, að ég var fyrsta unnustan þín, og þú fyrsti unnustinn minn, og því mun ég seint gleyma!“ „Þetta er nú óþarfa glettni,“ sagði Gabríel og hló. „Þú vissir að það var eingöngu það, að ég, sem var ógiftur maður, stóð í útréttingum fyrir þig, girnilega unga konu, átti erfiðu við- fangsefni að gegna — sérstaklega þegar fólk vissi, að ég bar frekar hlýjan hug til þín; og mér fannst eftir því, sem um okkur var talað, að það gæti varpað skugga á nafn þitt. Enginn veit hvað mikla skapraun það hefir vakið mér.“ „Og var það þá allt?“ „Já, allt.“ „Ég er sannarlega glöð yfir að ég skyldi koma!“ sagði hún þakklátlega um leið og hún stóð upp. „Ég hefi hugsað svo miklu meira um þig síðan að þú virtist ekki vilja hafa meira saman við mig að sælda. En nú verð ég að fara, eða að mín verður saknað. En, Gabríel,“ sagði hún, er þau gengu til dyranna; „það er alveg eins og að ég hafi komið til að dufla við þig — er það ekki skammarlegt!" „Og það er nú einmitt það, sem þú hefir verið að gjöra,“ sagði Oak. „Ég hefi dansað við hæla þér, Bathsheba mín, margar langar mílur og marga langa daga, og mér finnst það ósann- gjarnt að telja þessa heimsókn þína eftir.“ Oak gekk með Bathshebu upp hæðina og sagði henni frá samningunum í sambandi við land Boldwoods. Þau töluðu fátt um eigin mál sín; glitrandi setningar og eldheit orð voru máske ónauðsynleg og óþörf á milli þessara langreyndu vina. Hinn þróttmikli hlýhugur, sem vaknar (ef að nokkur slíkur innileiki vaknar nokkurn tíma) þegar persónurnar, sem draga sig saman læra að þekkja hinar hrjúfari hliðar hvers annars fyrst, en hinar hugljúfu ekki fyrr en síðar, og að tilhugalífið þroskast við margbreytileg, hrein, hörð og óbundin lífs- skilyrði. Slík vinátta — samfélag — sem vana- lega er að finna hjá fólki, sem á við svipuð lífskjör að búa, en því miður sjaldan höfuð- þátturinn í ást á milli konu og manns, því að menn og konur sameinast ekki í vinnunni, — heldur í skemmtunum aðeins. En þegar að kringumstæðurnar leyfa slíkan þroska, þá er hið sameiginlega afl hans sú eina ást, sem er sterkari en dauðinn — sá kærleikur, sem afl ótal vatna fær ekki drekkt og ekki heldur neitt flóð fært í kaf, og í samanburði við það er hin vanalega kærleikshneigð manna eða það, sem svo hefir verið nefnt, eins og skuggi eða reykur. LVII. KAPÍTULI i „Ég vil að gifting okkar verði sú yfirlætis- minsta, leynilegasta og íburðarminsta, sem, unnt er að fá,“ sagði Bathsheba við Oak kveld eitt nokkru eftir að samræðurnar, sem sagt er frtí í síðasta kapítula, áttu sér stað. Það tók Oak heilan klukkutíma að komast að því, hvernig að hann ætti að uppfylla ósk hennar út í yztu æsar. „Leyfisbréf — já, auðvitað verður það að vera leyfisbréf,“ sagði hann við sjálfan sig. „Jæja þá, fyrst leyfisbréfið.“ Nokkrum dögum seinna, eftir að dimmt var orðið af nótt, sást Oak koma út úr ráðhús- inu í Casterbridge. Á leiðinni heim varð hann var við mann á veginum á undan sér, og þegar að Oak gekk fram á hann sá hann að þetta var Coggan. Þeir urðu samferða inn í Weatherbury þorpið, unz þeir komu að stuttri bakgötu á bak við kirkjuna, þar sem að hús Laban Tall stóð, en hann hafði nýlega verið kosinn skrif- ari safnaðarins, og var enn dauðhræddur við kirkju á sunnudögum þegar að hann var að lesa pistlana. „Gott kveld, Coggan,“ sagði Oak; „ég ætla að fara þessa leið.“ „Nú!“ sagði Coggan hissa; „hvað er um að vera í kveld, ef ég má gjörast svo djarfur að spyrja, hr. Oak?“ Það virtist vera ósanngjarnt undir kring- umstæðunum að segja ekki Coggan eins og var, ekki sízt þar sem hann hafði reynzt Gabríel ágætlaga vel í sambandi við raunir hans út af Bathshebu. „Geturðu þagað yfir leyndarmáli, Caggan?“ „Þú hefir reynt mig, og þú veist það.“ „Já, ég veit það, og ég hefi reynt það. Jæja þá, húsmóðirin og ég ætlum að gifta okkur í fyrramálið." „Herra minn hár! Mér hefir verið að detta þetta í hug af og til; svei mér ef það er ekki satt. En aldrei minnst á það með einu orði! En þetta kemur mér ekki við, ég óska þér til lukku með hana.“ „Þakka þér fyrir, Caggan. En ég fullvissa þig um, að þessi leynd er hvorki að minu skapi né heldur hennar og hefði ekki átt sér stað, ef að það væri ekki fyrir vissa viðburði, sem gerðu viðhafnargiftingu óviðeigandi. Bath- sheba vill ekki fyrir nokkurn mun að allur söfnuðurinn sé í kirkjunni til að glápa á hana — hún er eins og hálffeimin, svo að ég ætla að láta það eftir henni.“ „Ég skil, og það er rétt af þér líka, býst ég við, að minnsta kosti held ég það. Þú ætlar nú að fara og finna skrásetjara safnaðarins.“ „Já, og þú mátt eins vel koma með mér.“ „Ég er hræddur um að áform þitt um að halda þessu leyndu verði árangurslaust,“ sagði Coggan, er þeir gengu heim til skrásetjarans. „Það verður ekki liðinn hálfur klukkutími áður en frú Laban verður búin að breiða það út um allt í söfnuðinum.“ „Hún er viss með að gjöra það; ég hugsaði nú ekki út í það,“ sagði Oak, en ég verð að segja honum frá þessu í kveld, því að hann vinnur svo langt í burtu og fer svo snemma af stað á morgun að heiman.“ „Ég skal segja þér hvernig við skulum hafa þetta,“ sagði Coggan. „Ég skal fara og berja að dyrum og biðja Laban að koma út og tala við mig, en þú stendur þarna fyrir handan, þegar a ðhann kemur út, og þá geur þú talað við hann. Henni getur aldrei dottið í hug til hvers að ég vildi fá hann til að koma út, og ég skal minnast eitthvað á landvinnu til að villa sjónar.“ Þeim fannst þetta ráð hið bezta; og Coggan gekk hnakkakertur að dyrunum og drap á þær. Frú Tall opnaði dyrnar sjálf. „Ég þarf að tala nokkur orð við Laban.“ „Hann er ekki heima og verður það ekki fyrr en eftir klukkan ellefu. Hann þurfti að fara til Yalbury eftir vinnu. Þú getur eins vel talað við mig.“ „Ég er nú ekki viss um það. Bíddu í mín- útu;“ og Coggan gekk fyrir hornið á húsinu til að tala við Oak. „Hver er með þér?“ spurði frú Tall. „Kunningi minn,“ sagði Coggan. „Segðu henni, að Tall eigi að koma til móts við húsmóðurina klukkan tíu í fyrramálið hjá kirkjunni, að hann megi ekki láta það bregðast og að hann skuli véra í beztu fötunum sínum,“ sagði Gabríel. „Fötin eru það, sem koma okkur áreiðan- lega í vanda,“ sagði Coggan. „Hjá því er ekki hægt að komast,“ sagði Oak. „Sefðu henni það.“ Coggan gjörði eins og að honum var sagt, og bætti við: „Hvort sem að veðrið er vott eða þurrt, rok eða snjór, þá verður hann að koma. Það er mjög áríðandi. Sannleikurinn er sá, að hann á að vottfesta einhverja löglega land- samninga, sem að húsmóðirin hefir gjört fyrir langan tíma. Það er nú erindið, og nú hefir þú lokkað það út úr mér, frú Tall, þó að ég hefði alls ekki átt að segja þér frá því og hefði aldeilis ekki gjört það, ef mér þætti ekki eins vænt um þig og raun ber vitni.“ Coggan fór áður en hún gat spurt hann meira. Næst heimsóttu þeir prestinn, og af þeirri heimsókn fara engar sögur. — Svo fór Gabríel heim til sín og bjó sig undir morgun- daginn. „Liddy,“ sagði Bathsheba áður en hún fór að hátta um kveldið. „Ég ætla að biðja þig um að vekja mig klukkan sjö í fyrramálið, ef að ég vakna ekki sjálf.“ „En þú vaknar alltaf á undan mér, frú.“ „Já, en það er nokkuð áríðandi, sem að ég þarf að gjöra, sem ég skal segja þér frá hvað er þegar tími er kominn til þess, svo að það er bezt að vera viss.“ En Bathsheba vaknaði sjálfkrafa þegar klukkan var fjögur næsta morgun og gat með engu móti sofnað aftur. Þegar klukkan var orðin. sex fannst henni að hún mundi sjálfsagt hafa stansað um nóttina, gat hún ekki beðið lengur. Hún fór og barði að dyrum hjá Liddy, og eftir ítrekaðar tilraunir tókst henni að vekja hana. „Ég hélt að það hefði verið ég, sem átti að vekja þig?“ sagði Liddy hálfringluð. „Klukk- an er ekki sex ennþá.“ „Vissulega er hún orðin sex; því ertu að fara með slíka vitleysu, Liddy?“ Ég veit að hún er langt gengið átta. Komdu yfir í her- bergið til mín pins fljótt og þú getur, ég vil að þú burstir hárið á mér vel.“ Þegar að Liddy kom inn í herbergi hús- móður sinnar, þá var hún farin að bíða eftir henni. Liddy gat ekki áttað sig á þessum ó- vanalega hraða sem var á húsmóður hennar. „Hvað stendur til, frú?“ spurði hún. „Ég skal segja þér,“ sagði Bathsheba og það lék glettnislegt bros um varir hennar. „Oak kemur hér í dag og borðar með mér miðdags- verð!“ „Oak — einsamall? — Þið tvö ein?“ „Já“ „Er það óhætt, frú?“ spurði Liddy efa- blandin. „Heiður konunnar er brothættur eins og gler.......“ 4 Bathsheba hló og roðnaði og hvíslaði að Liddy, þó að enginn væri inni hjá þeim. Liddy stóð og starði á húsmóður sína og stundi svo upp: „Sem ég er lifandi, skárri eru það nú fréttirnar! Ég er svo gjörsamlega hissa!“ „Það er ekki frítt við að hjartað slái örara í brjósti mér en endranær," sagði Bathsheba. „En hvað sem um það er, þá er ekki hægt að snúa til baka nú!“ Veðrið var leiðinlegt, dimmt og drungalegt.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.