Lögberg - 08.01.1953, Qupperneq 6
6
LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 8. JANÚAR, 1953
J- ". .
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
„Sigríður hefur víst falið það einhvers staðar, sem ekki er
hægt að finna það. Svo er hún stokkin á bæi. Hún ætlar að sitja
að því sjálf, ef hún hefir þá ekki gefið prestinum það í nesti yfir
fjallið. Slíkt og því líkt hef ég aldrei vitað. Ég get ímyndað mér,
að honum hafi litizt á heimilisbraginn hérna, eins og myndarskap-
urinn er hjá honum,“ sagði hún raunamædd.
„Gefðu mér þá eitthvað að éta, áður en ég fer til ánna aftur.
Þá skal ég segja þér, hvað hann vgr að segja við hann Jakob hérna
upp á túninu í morgun.“
„Blessaður öðlingurinn. Hann segir nú margt,“ sagði hún og
stóð upp og sótti flatköku ofan í búrkistu, smurði hana þykkt handa
smalanum og fékk honum. Hann tók til hennar rösklega. „Hvað
sagði hann svo?“ spurði Jóhanna. Henni fannst hún vera búin að
leggja inn fyrir svolitlum fréttum.
„Hann fann mig hérna fyrir ofan túnið og fór strax að tala við
mig, eins og hann væri mér málkunnugur. Hann hefði ekki gert
það hann séra Sigurður, sem lætur eins og hann sjái mig ekki,
og þó er hann frændi minn.“
„Það eru nú ólíkir prestar. Það er svona lítillátt allt þetta
Fellsfólk,“ greip Jóhanna fram í fyrir honum.
„Og hann þúaði mig,“ hélt Runki áfram tyggjandi. „Svo fór
hann að spyrja mig, hvað Jakob fengi marga landskuldargemlinga
á hverju vori.“
„Ja, nú gengur fram af mér. Ekki vantar búhyggindin hjá hon-
um blessuðum. Vissurðu nokkuð, hvað þeir voru margir?“
„Ég fer líklega nærri um það. Þeir eru svona sextíu.“
„Mikil er auðlegðin,“ sagði hún og brosti.
En Runki hélt áfram: „Svo kom Jakob. Þá fór hann að ræða
við hann. Ég heyrði það ekki allt, en svo mikið heyrði ég, að hann
var að tala um, hvort hann ætlaði ekki að fara að gifta sig. En
Jakob sagði, að það væri vandi að velja sér konu.“
„Einmitt það,“ sagði Jóhanna og kinkaði kollinum.
„Svo heyrði ég, að klerkur sagði: ,Komdu vestur að Felli. Ég
á nokkur stykki af konuefnum.1 — Svo heyrði ég ekki meira.“
„Og bölvaður refurinn,“ hvæsti Jóhanna. „Það vantaði nú
bara, að hann færi að troða stelpugálunum sínum inn á hann. Hann
fengi að vita af þeim. En það er nú ekki aldeilis séð, að hann Jakob
hlaupi á sig. Hann er gætnari en svo. Líklega hefur hann þó narrað
hann með sér núna vestur eftir?“
„Nei, nei. Hann var að koma áðan að Ásólfsstöðum,“ svaraði
Runki. Flatkakan var horfin ofan í hann, svo að hann ranglaði af
stað til kindanna og skildi við Jóhönnu allt annað en ánægður.
KOSTARÍK KONA
Eftir þetta reyndi Jóhanna að koma dætrum Helga prests inn
í samtalið við heimilisfólkið, hvenær sem hún gat og lýsti þeim
langt frá því, sem hún gerði í fyrstu. Nú voru þær fínindisdrósir og
stoltar landeyður. Aldrei skipti Jakob sér neitt af því. Henni fannst
hann vera eitthvað öðru vísi en hann var vanur, fátalaður og
hugsandi. Oft sá hún hann standa við stofugluggann og horfa yfir
yfir að Ásólfsstöðum, eins og hann væri að meta jörðina til verðs.
Honum nægði sjálfsagt Nautaflatir, ógiftum. Að hugsa sér slíkt.
Það var eins og fólkið sagði. Það var óskemmtilegt að hreppstjór-
inn skyldi vera ógiftur.
Svo var það einn daginn, að Jakob kom inn með ísak flæking
á eftir sér. Hann flæktist um hálft landið. En sjaldan hafði hann
komið að Nautaflötum. Það var verið að borða miðdegismatinn.
Sigríður sagði svona við Jóhönnu, að það væri sjálfsagt að gefa
vesalingnum að borða. En hún sagðist ekki gefa svona fólki mat.
Hún var reið yfir, að Jakob talaði ekki um það sjálfur við hana.
Þá tók Sigríður búrhnífinn og sagði: „Það hefur víst enginn beðið
þig að skammta, hvorki honum né öðrum.“ Þá byrjaði hávær
rimma, meðan hún tók til matarbitann.
Umrenningurinn fór, þegar hann var búinn að seðja sig, en
Jakob var nú fálátari en nokkru sinni áður, það sem eftir var
dagsins. Morguninn eftir lét hann sækja þrjá beztu hestana, sem
hann átti, og tygjaðist til fferðar. Hann fór í sparifötin og lét falleg-
asta silkiklútinn um hálsinn. Jóhanna stóð á hliðinu, þegar hann
kom út. „Hvert er ferðinni heitið?“ spurði hún. „Vestur yfir fjall,“
svaraði hann stuttaralega. „Á ekki að fara að hreinsa tún á morg-
un?“ spurði hún mjúkmál. „Ég hef sagt fólkinu fyrir verkurn,"
sagði hann jafn þurrlega og áður. Henni líkuðu ekki vettlingarnir,
sem hann var með, og hljóp inn eftir öðrum betri; en þegar hún
kom aftur, var hann kominn langt fram á eyrar. „Það liggur eitt-
hvað ekki vel á blessuðum húsbóndanum núna,“ sagði hún við
Runka. „Veiztu til þess, að kerlingarskrattinn hún Sigríður liggi
í eyrunum á honum? Hann var ekki svona fyrst eftir að ég kom
hingað. Hvað skyldi hann ætla langt?“ Runki vissi ekkert.
Það liðu þrír dagar, án þess að Jakob hreppstjóri kæmi aftur.
Jóhanna var óróleg. „Nú hlýtur hann að koma í dag,“ sagði Runki
að morgni fjórða dags, „jafnvel þó að hann hafi farið vestur að
Felli.“ „Hvernig dettur þér í hug, að hann hafi farið vestur að
Felli?“ spurði Jóhanna. „Af því að presturinn bauð honum það.
Svo kom ísak gamli með bréf, sem hann sagði, að væri frá séra
Helga.“ „Hver fjandinn! En ég býst ekki við, að hann anzi svo-
leiðis,“ anzaði hún, en það leið kvíðvænleg stuna frá brjósti hennar.
Seint um kvöldið, þegar allt vinnufólkið var hætt útivinnu
og sat inni, kom Runki að utan og var talsvert niðri fyrir. „Nú
kemur Jakob, og það er kvenmaður með honum, í söðli og með
hatt,“ sagði hann. „Hvern fjandann skyldir þú sjá það, þvættikoll-
urinn þinn!“ sagði Jóhanna og sló til hans með sokk, sem hún hélt
á. „Þú skalt sanna til, hvort ég segi ekki satt,“ sagði harín móðgaður.
Allt heimilisfólkið þaut fram í skála og stofu og horfði út um
gluggana, sem sneru fram á hlaðið.
Það var satt, sem Runki hafði sagt. Jakob var að koma heim
túntröðina og kona með honum á bleikum hesti.
„Þetta er einhver hofróða, sem slegizt hefur í förina með hon-
um. Hún er ekki á hestunum hans,“ sagði Jóhanna.
Jakob fór af baki, gekk til stúlkunnar og lét hana styðjast við
sig, meðan hún hoppaði fjörlega niður úr söðlinum. Það var svo
sem auðvitað, hvað til stóð. Svona lagaða kurteisi sýndi hann
engri konu.
Enginn þekkti gestinn, nema Jóhanna. Hún snerist í hring á
gólfinu og sló vindhögg út í loftið. „Fjandinn fjærri mér! Það er
engin önnur en Lísibet Helgadóttir. Þið fáið að vita af henni, dé-
skotans hrokagikknum þeim. En ég skal sýna henni það, að hún
skal ekki kúga mig. Og það er heldur ekki víst, að ég sé búin að
afhenda henni lyklavöldin.“ Hún þaut inn í eldhús ,og henti og
hrinti kollum og kirnum með miklum hávaða.
Sigríður gekk út og allt hitt heimilisfólkið á eftir. Jakob heils-
aði því og sagði, að þetta væri tilvonandi húsmóðir þess og nefndi
nafn hennar.
Lísibet var glæsileg kona, há og grönn, með mikið, hrafnsvart
hár. Hún líktist mjög föður sínum í sjón, blíðmál og aðlaðandi.
Jakob sýndist næstum ólaglegur við hliðina á henni, og var hann
þó myndarlegur.
Það var komið kvöld. Lísibet var látin sofa í stofurúminu.
Jóhanna reyndi að vera kumpánleg við hana, en átti þó fjandi bágt
með það.
Morguninn eftir leiddi Jakob heitkonu sína um allt túnið og
upp í fjall. Hann var að sýna henni jörðina sína og dalinn. En
heima í búrinu andvarpaði Jóhanna. „Aumingja Jakob! Ég kenni í
brjóst um hann. Hún velgir honum áreiðanlega, þessi drós. Það
er flagð undir fögru skinni. Það skuluð þið sanna.“ Hún bar á
borðið fyrir þau bæði frammi í stofu.
Þegar þau höfðu matazt, sagði Lísibet: „Mér finnst, að margt
gæti farið betur hérna í stofunni. En þú vilt kannske ekki láta
breyta því, fyrst mamma þín hafði það svona.“
„Hafðu það eins og þú vilt, góða mín,“ sagði hann auðmjúkur.
Hún fór að færa allt úr lagi og í lag aftur í stofunni. Sömu
skil gerði hún hjónahúsinu. Allir sáu, að þetta fór mikið betur.
Og hún hélt áfram um allan bæinn. Seinast var búrið tekið.
Jóhanna var í illu skapi. Hún var að skammta við búrborðið,
þegar Lísibet kom inn og fór að gæta inn í búrskápinn.
„Ég kæri mig ekkert um, að það sé verið með nefið niðri í því,
sem ég geng um,“ sagði Jóhanna æst.
„Nú, hvað er um fyrir þér?“ spurði Lísibet og gekk fast að
henni. „Jakob hefur sagt mér, að þú hafir ráðizt hingað sem
vinnukona,“ bætti hún við. Rómurinn var ekki eins blíður og
vant var.
„Ég tók að mér ráðsmennskuna, af því að heimilið var allt í
skít og skötulíki og ekki boðlegt nokkurri almennilegri manneskju,“
hreytti Jóhanna út úr sér. Hún fann til smæðar sinnar í návist
þessarar konu.
Lísibet tók búrhnífinn úr hendi hennar, án þess að hún sýndi
mótþróa. „Nú þarf þín ekki lengur við,“ sagði hún. Það var eitt-
hvað í málrómnum sem gaf til kynna, að það ætti að hlýða henni.
„Annað hvort ferðu að hreinsa með hinum stúlkunum eða þú
ferð burt af heimilinu. Nú tek ég við.“
Jóhanna gekk í burtu steinþegjandi, tók saman fötin sín og
fór í burt, án þess að kveðja nokkra manneskju. Hún kom á flesta
bæi í dalnum og umtalsefnið var alltaf það sama: „Hafið þið heyrt
það nýjasta? Nei, þið hafið ekki heyrt neitt nýtt. Svo þið hafið
ekki heyrt um nöðruna, sem séra Helgi á Felli er búinn að koma
inn í sveitina, inn á Jakob hreppstjóra. Hún er nógu stássleg, ekkl
vantar það. En hvað stoðar það. Úlfurinn gægist alltaf undan gær-
unni. Hún byrjar á því þriðja daginn, sem hún er á heimilinu, að
reka dyggðahjú burt úr vistinni, og það verður ekki síðasta til-
tækið hennar. Hún kemur út svitanum á Jakobi, þessum ágætis-
manni, og hún velgir fleirum. Þetta er mesta flagð. Ég heyrði,
hvað sagt var um hana þar vestra.“
Þannig lét Jóhanna dæluna ganga, og fregnin flaug um
sveitina.,
Næsta sunnudag var messað að Nautaflötum. Það var fjöldi
fólks við kirkju. Alla langaði til að sjá þetta nýja konuefni, sem
komið var í dalinn. Konurnar litu hana allt annað en hýru auga.
Þær vissu vel, að slík kona myndi standa þeim fyrir ljósi og njóta
eftirtektar allrar sveitarinnar. Kirkjufólkið talaði ekki um annað
á heimleiðinni en fallegu konuna, sem komin var svona allt í einu í
sveitina fyrirvaralaust.
Jóhanna Andrésdóttir slóst í förina utarlega í dalnum. Hún
hafði verið að rangla eitthvað milli bæja.
„Nú, hvernig lízt ykkur á nýja maddömuefnið?“ spurði hún
hæðnislega.
„Það er nú tæplega hægt annað en að lítast vel á hana,“ svaraði
ungur vinnumaður í hópnum. „Ég blóðöfunda Jakob af henni. Mér
hefur alltaf fundizt hann laglegur, en við hliðina á henni er hann
tilkomulítill og rindilslegur,“ bætti hann við.
„Það er ekki furða, þó að þú öfundir hann af því að vera
skóþurrkan hennar; því það verður hann auðvitað,“ svaraði
Jóhanna.
„Ég skil ekkert í því, að hann skyldi fá svon fallega konu,“
sagði vinnumaðurinn; hann vissi, hvað Jóhönnu sveið mest.
„Það eru vandræði að skilja það. Hvað ætli séra „silkitunga“
hafi verið að hugsa um, þegar hann spurði Runka að því hvað
Jakob fengi marga landskuldagemlinga á vori hverju, og fór svo
að bjóða Jakobi vestur að Felli á eftir. Ætli það hafi ekki verið
auðurinn, sem hann hefur verið að hugsa um. Hann hefur líklega
séð, að það myndi ekki fara neitt sérlega illa um dóttur sína í
reytunum hans. Hún notar sér þær líklega. Þær verða varla lengi
að fuðra upp í lúkunum á henni. Hún hefir ekki verið lengi að
stinga honum undir iljarnar, þessum kærasta, sem hún átti í
Reykjavík, af því að hann var fátækur. Það má segja, að séra
Helgi er reglulegur refur. Þessi blíða og gæði, en flærðin undir
niðri. Það eru fleiri en kvenfólkið, sem hann yfirtalar, sá maður.
Mér heyrðist nú fólkið þarna fyrir vestan álíta, að hún líktist
honum í flestu. Því segi ég það. Aumingja Jakob, þessi skikkelsis-
maður, að lenda á þessari manneskju.“
Jóhanna talaði í háum prédikunartóni, sem heyrðist um allan
hópinn.
„Hann hefði sjálfsagt getað fengið sæmilega konu nær sér,“
kvað við frá einni húsfreyjunni.
„Það er líklegt,“ svaraði Jóhanna. „Hvað ætli hún sé betri
fyrir það, þó að hún sé prestsdóttir. Ekki er auðurinn þar. Allt
gengur í fínheitin. Þessar jarðir, sem hann átti, er búið að selja.
Eyðslan er þessi óstjórn. Þau venja á sig allra handa óþjóðalýð,
flækinga og óþrifakrakka. Ef hún hefur sama siðinn, get ég hugs-
að, að Jakobi þyki nóg um, því hann er nú sparsamur eins og ættin.“
Það heyrðust ýmsar raddir úr hópnum. Konurnar voru öllu
tortryggnari og spáðu, að hún reyndist ekki vel, þó að hún væri
falleg. Karlmennirnir höfðu gagnstæða skoðun.
„Ég get tæplega ímyndað mér annað, en að hún sé gæðakona,
fyrst hún er dóttir séra Helga. Sá maður fær almenningslof,“ sagði
einn bóndinn.
„Ykkur verður að því,“ sagði Jóhanna. „Ég gæti trúað, að það
heyrðist eitthvað um það, áður en lýkur.“
Á næsta bæ fyrir utan Nautaflatir, sem hét Hvammur, bjó
bóndi, sem Björn hét. Hann hafði verið mörg ár vinnumaður í
Felli og var því eini maðurinn í sveitinni, sem þekkti Lísibetu.
Honum hafði þótt fjarska vænt um börn séra Helga, sem öll voru
góð og vel uppalin. Hún tók vel á móti honum og sagðist vonast
eftir, að þeim semdi sæmilega í nágrenninu. Og honum var boðið
ásamt konu sinni í brúðkaupið, sem haldið var vestur í Felli.
öðrum var ekki boðið úr sveitinni, og þótti það mjög ómyndarlegt.
Séra Helgi og kona hans, sem hét Dagbjört, fylgdu nýgiftu
hjónunum á leið, að afstöðnu brúðkaupinu.
„Það er lítill heimamundurinn, sem fylgir dóttur minni,“
sagði prestur, þegar Jakob kvaddi hann. „En þessa stóðhryssu á
hún, og vona ég, að hún verði kynsæl. Það er valið kyn að henni.
Hún getur gefið þér reiðhest handa Jóni Jakobssyni. Ég þykist
vita, að hann hafi gaman af að sitja á hesti.“ Hann rétti Lísibetu
tauminn á hryssunni, sem var bleik að lit.
Birni í Hvammi fannst það óviðeigandi, að brúðurin teymdi
hryssuna, og bauðst til þess. En prestur hló bara. „Hún vill sjálf-
sagt teyma hana sjálf heim í dalinn, þar sem þær eiga báðar að
auka kyn sitt.“
Svo kvöddust vinirnir. Leiðirnar skildu.
Það fundu allir, að það var komin húsmóðir á heimilið, þegar
Lísibet tók við stjórninni. Hún sagði öllum fyrir verkum, jafnt
körlum sem konum. Jakob spurði hana ráða um flest, sem þurfti
að gera. Hún var hjúum sínum góð og umhyggjusöm. Heimilið
breyttist algerlega. Enginn þóttist hafa þekkt aðra eins húsmóður
eða séð slíkt hjónaband. Þegar hún var búin að vera tvö ár að
Nautaflötum, voru allir þess fullvissir, að hún væri alveg einstök
kona, því í hennar fari væri enginn galli. Hún tók fátæk börn
heim til sín, þegar þröngt var í búi hjá foreldrunum, og hafði þau
hjá sér, þangað til ástæðurnar fóru eitthvað að skána. Þá skilaði
hún þeim aftur vel útlítandi. Hún áminnti mæðurnar um að leggja
vöndinn til hliðar og láta ekki börnin hafa nein kynni af honum,
slíkt væri skammarlegt athæfi. Hún fór til þeirra, sem veikir voru,
og hlynti að þeim. Margt gamalmennið tók hún heim til sín og
annaðist það, meðan það þurfti þess. Það var leitað til hennar með
flest vandkvæði, og hún gat jafnan greitt úr þeim. Hún var einstök
kona. Hún gat sýnt fólki fram á, að hreppsómagar hefðu sömu
tilfinningu og annað fólk. Konurnar komu dætrum sínum til
hennar. Þar lærðu þær fínan tóskap og margt nytsamlegt. Þær
komu heimaftur dagfarsprúðari og orðvarari en áður.
Jakob lét allt vera eins og hún vildi, og búið stækkaði, en
minnkaði ekki, þrátt fyrir alla rausn hennar.
Fátæklingar sögðu, að það fylgdi guðs blessun öllu, sem slík
kona ætti um að hugsa. Hún ríkti sæl og einvöld yfir sveitinni.
Það þýddi ekkert, þó að Jóhanna Andrésdóttir reyndi að kosta
skugga á tign hennar. Hún var dáð og elskuð, ekki vegna auðæfa
sinna, heldur vegna mannkosta. Samt þóttust margir vissir um,
að hún væri ekki alls kostar ánægð. önnur eins kona, sem breiddi
sig yfir börnin, hlaut að þrá að verða móðir. En hjónaband hennar
var barnlaust. Bleika hryssan var búin að færa henni tvö hestsefni
í búið handa erfingjanum, en*hann lét bíða eftir sér.
STÚDENTINN
Þá kom nýr maður í sveitina. Hann hét Hallgrímur og var
frændi Lísibetar, og það gaf honum mikið gildi. Hann kom til
kaupmannsins, sem verzlaði í Ósnum, og var alltað kallaður „undir-
kaupmaður.“ Hann vakti mikla eftirtekt eins og frændkona hans.
Hann var fallegur maður og hann var lærður maður. Fólkið kall-
aði hann því oft stúdentinn. Heldur þótti hann vera á ferðinni þar
í kaupstaðnum. Hann var drykkjumaður og gekk mjög í augun á
kvenþjóðinni. Oft fór hann fram að Nautaflötum að finna frænku
sína, og var honum þar vel tekið, eins og öðrum. En konu kaup-
mannsins var illa við útslátt hans og drykkjuskap. Hún vildi láta
hann vera heima og líta hýrlega til systur, sem hún átti og var
orðin nokkuð roskin til að bíða öllu lengur eftir hjónabandssæl-
unni. En stúdentinn elskaði frelsið og lét ekki búrið halda sér,
heldur flaug burtu, hvenær sem færi gafst.
Allt gekk þó sæmilega, þangað til á jólunum. Þá vildi maddam-
an láta spila og fara í leiki. Hann tók þátt í því dálitla stund, en
svo fór hann að syfja, svo að hann varð að fara út. Eftir það sást
hann ekki, nema við máltíðar.
Eitt kvöldið var húsmóðir hans svo reið, að hún lokaði hann
hreinlega úti. Um morguninn, þegar komið var á fætur, sat vesal-
ings stúdentinn á forstofutröppunum, blár í framan af kulda, og
steinsvaf. Kaupmaðurinn átaldi konu sína fyrir tiltækið, en við
því yarð ekki gert. Hallgrímur veiktist svo upp úr þessu og lá uppi
í óupphituðu herbergi sínu og þjáðist af öllu því lakasta, sem
drykkjuslark og næturvökur hafa í för með sér. Jómfrúin, systir
maddömunnar, reyndi að hjúkra honum eins vel og hún gat, en
hann var oftast með óráði, þegar hún var uppi, eða þá að hann
svaf, og gat því lítið gert henni skiljanlegt, hvers hann þarfnaðist.
Mörg sjómannsdóttirin horfði upp í gluggann hans og hafði sterka
þrá til að hjúkra honum, en þorði ekki að láta sjá sig í húsinu.
En fregnin flaug um sveitina, að undirkaupmaðurinn væri orð-
inn veikur af fylliríi og hefði óráð.
„Ekki get ég sagt, að mér falli það vel að láta þetta eina
skyldmenni, sem ég á, liggja þarna dauðveikan en aðhlynningar-
lausan,“ sagði Lísibet á Nautaflötum, þegar hún heyrði fregnina.
Jakob skildi konu sína vel. Hann lét hana ráða í því sem öðru.
Það var sleginn saman kassi, mátulega stór fyrir stúdentinn. í
hann var svo hnoðað mörgum sængum og farið með hann á sleða
ofan að Ósi. Húsfreyja fór sjálf með og tveir vinnumenn hennar.
Maddaman varð vandræðaleg, þegar hún heyrði gestakom-
una. En Lísibet var blíð í máli, eins og vant var. Hún sagðist vita,
að allt væri gert til þess, að Hallgrími liði sem bezt. En af því að
hann væri svo skyldur sér, þá langaði sig til að flytja hann fram-
eftir, -— með hennar leyfi auðvitað. Sér léti og heldur vel að
hjúkra veikum. Þá hýrnaði yfir maddömunni. Hún hafði hálvegis
óttazt, að Lísibet léti í ljós óánægju yfir meðferðinni á stúdentin-
um. Nú varð hún guðsfegin að losna við að láta hjúkra honum og
bíða eftir því að hann dæi á hennar heimili, því hún þóttist vita,
að sá yrði endirinn. Hún leyfði því fúslega, að hann yrði fluttur.
En jómfrúin sagði, að hann væri áreiðanlega ekki ferðafær, því að
óráðið væri alltaf það sama. Lísibet langaði þó til að sjá hann.