Lögberg - 05.03.1953, Blaðsíða 7

Lögberg - 05.03.1953, Blaðsíða 7
LÖGBERG, FIMTUDAGINN, 5. MARZ, 1953 7 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF Hún lá og byltist í rúminu um nóttina, hálf vakandi. Hún gat tæplega trúað því ennþá, að það væri veruleiki, sem henni hafði verið sagt daginn áður. Hann hafði þá aðeins haft hana eins og hjákonu, en verið trúlofaður allan þennan tíma, sem hana hafði dreymt þá sælustu drauma, sem til eru í heiminum: ríkan, góðan mann, allsnægta heimili og virðing allrar sveitarinnar. Hvað hún óskaði, að hún hefði aldrei vaknað af slíkum dvala. En nú var hún víst vöknuð, þó að henni þætti það ótrúlegt, og nú sá hún, að hún hafði hagað sér eins og kjáni. Hún hafði látið tilfinningarnar hlaupa með sig. Án þess að skynsemin kæmist að, hafði hún kastað sér í faðm hans, formálalaust, þegar hann hafði talað um það, að þau ættu að vera eins góðir vinir og þegar þau voru börn. Þetta hafði auðvitað ekki verið neitt bónorð. Hvað hún gat verið mikið flón. I þetta eina skipti, sem hún hafði talað um það við hann í nokkurri alvöru, hafði hann sagt, að hringinn setti hann líklega upp á næstu jólum, og það ætlaði hann líka að gera. En eitthvað skyldi hann fá að heyra næst, þegar þau sæust. Daginn eftir fór hún að gera hreina baðstofuna. En skaps- munirnir voru stirðir. Magga gamla átti slæma ævi. Hún gat ekkert gert, svo að henni líkaði. „Þú tekur þér ekki mikið fram með geðprýðina, þó að þú umgangist þessa dagfarsprúðu konu dagsdaglega, þar sem Lísibet er,“ sagði kerlingin eftir eina hrotuna. Þóra svaraði engu, en var vægari á eftir og reyndi að stilla sig. Á jólanóttina voru hringarnir settir upp, eins og ráð var fyrir gert. Daginn eftir batt Jón á sig skauta og fór út að Hvammi. Þóra kom út í dyrnar, þegar hún heyrði, að gest bar að garði. Henni datt sízt í hug, að það væri Jón. Hún var búin að hugsa sér að vera stillt og köld og láta ekki á neinu bera, þegar fundum þeirra bæri saman. „Góðan daginn, Þóra mín,“ sagði hann brosandi. „Þá er ég kominn til að lofa þér að sjá, hvað hringurinn fer mér vel. Þig langaði víst til að sjá það einu sinni, ef ég man rétt. Ég þarf ekki að segja þér, hver kærastan er; hún er víst búin að því sjálf.“ „Svo þú ætlar að sýna mér, hvað hann fer þér vel, mér til ánægju. Það er vel hugsað af þér eins og annað,“ svaraði hún með beisku brosi. „Náttúrlega verðurðu glöð yfir því, að sjá mig hamingjusaman. Það gerir hver góð systir.“ Hún rétti honum höndina og tautaði eitthvað, sem átti að vera hamingjuóskir. „Hvað er þetta? Ætlarðu ekki að óska mér öðruvísi en svona til lukku? Við höfum nú vanalega kysstst, svona þegar fáir hafa séð til, og gerum það líklega eins hér eftir. Þó að þú verðir tannlaus kerling, skal ég alltaf heilsa þér með kossi.“ Hann kyssti hana tvo kossa. Hún ýtti honum sterklega frá sér. „En nú á Anna alla kossana þína héðan í frá.“ „Nei, það þarftu ekki að láta þér koma til hugar, að ég láti hringinn setja mér takmörk, hvað ég kyssi margar stúlkur. Slíkt er ekkert annað en heimska. Hún þarf varla að kvarta um, að ég kyssi hana ekki nóg. En við verðum sömu vinirnir, Þóra mín, eins og við höfum verið.“ Þá missti hún algerlega jafnvægið. Hún stappaði niður í hlaðið með fætinum. „Skammastu þín fyrir framferði þitt! Ég skal segja önnu alt um þig, þegar ég sé hana næst,“ sagði hún bálreið. „Um mig? Um okkur, segðu þá heldur. Þú getur ekkert sagt um mig, nema þín sé getið líka. En ég er ekki smeykur. Þú ert of stórlát til þess.“ „Nei, ég er ekki of stórlát til þess að segja henni frá því, hvað þú ert trúr unnusti.“ „Jæja,“ sagði hann og hló ertnislega rétt við nefið á henni. „Segðu þá eftir okkur, en mundu, að segja satt og rétt frá öllu og draga ekkert undan og helzt að lofa mér að heyra það, svo að ég geti samsinnt því. Það er aldrei nema hálfsögð sagan, þegar einn segir frá.“ Magga gamla hafði heyrt hávaðann inn í eldhúsið og kom fram í dyrnar. Við það lækkuðu raddirnar og geðofsann lægði. Jón heilsaði henni. „Það er óhætt að óska honum til lukku, Magga. Hann er kom- inn með trúlofunarhringinn,“ sagði Þóra háðslega. „Er þetta satt?“ spurði hún hissa. Hann sýndi henni breiðan og glitrandi hringinn. „Er hann kannske ekki fallegur?“ spurði hann. „Jú, víst er hann fallegur, en hvað er hann hjá Önnu,“ svaraði Þóra. „Hún er nú bæði fíngerð og falleg, blessuð stúlkan mín,“ sagði hann, og aðdáun skein úr augum hans. „Hún er alltof falleg og fíngerð handa öðrum eins slarkara og þú ert,“ sagði Þóra og kvaldi sig til að brosa um leið og hún kleip hann í eyrað til að slá ryki í augun á Möggu gömlu. „Þú slærð nú líklega upp balli í tilefni af trúlofuninni,“ bætti hún við. En Magga gamla skaut því inn í svo hinsegin: „Ja, bara að hún verði þá ekki öfunduð af slarkaranum sínum.“ „Auðvitað ætlaði ég að slá upp balli, en Sigga gamla þurfti þá endilega að fara að veikjast, svo að ég verð að láta það bíða þangað til á nýárinu." „En hverslags er þetta, manneskja!“ sagði Magga gamla. „Ætlarðu ekki að bjóða honum inn, heldur en láta hann standa hér úti á hlaði og þrátta þar og karpa við hann, nýtrúlofaðan manninn?“ Þau hlógu að fyndni hennar og gengu til baðstofu. Björn bóndi sat á rúmi sínu, klæddur í sín betri föt og hafði greitt hár sitt og skegg, hvorttveggja silfurgrátt. Hann hýrnaði, þegar hann sá Þóru koma með mannsefnið. Jón bauð gleðilega hátíð og heilsaði honum. „Ég kom til að láta þig óska mér til hamingju," sagði Jón hlægjandi. Björn hoffði á hann spyrjandi augum og svo Þóru, sem ekki gat horft á móti. Hann sá hringinn á hendi hans. Þetta var ekkert gaman. „Hver er sú lukkulega?“ spurði hann hikandi. „Það er hún Anna Friðriksdóttir,“ svaraði Jón. „Anna Friðriksdóttir?“ tók Björn upp eftir honum. Þóra hjálpaði minni hans. „Það er hún Anna, fóstursystir hans,“ sagði hún kalt og rólega. „Nú, kaupmannsdóttirin?“ „Já, já,“ svaraði Jón. „Hún er nú ekkert betri fyrir það; en hún er falleg og góð stúlka.“ „Því dróstu ekki á hana hringinn, áður en hún fermdist?“ spurði Björn og hló skjálfandi hlátri. „Það er nú ekki til siðs, Björn minn. Annars hefði ég gert það,“ svaraði Jón brosandi; samt leið honum ekki rétt vel. Björn horfði hálfsljóum augum út í gluggann dálitla stund, svo sagði hann: „Aumingja barnið!“ Jón hló. „Þú ætlar þó líklega ekki að fara að kenna í brjósti um hana, fyrir að hún verður konan mín.“ „Ég yrði þá líklega sá eini, sem gerði það.“ Hamingjuóskin gleymdist algerlega. „Þið komið fram eftir í kvöld og drekkið trúlofunargildið. Mamma er í sjöunda himni yfir því, að ég verð ekki piparsveinn,“ sagði Jón. „Ekki held ég, að ég nenni að hafa fyrir því. Þóra mín hefur víst hugsað um, að eitthvað væri til með kaffinu. Samt þakka ég þér fyrir boðið, Jón minn.“ Þóra sótti fram góðgjörðir handa gesti sínum. Hann tafði stutt. Samræðurnar voru strjálar og stirðar. Björn leitaði Þóru, þegar Jón vár farinn. Hann fann hana frammi í eldhúsi. Hún sat við hlóðirnar og horfði inn í útbrunna glóðina. Svipur hennar var stór og kaldur. Hann lagði höndina ofan á höfuð hennar. „Svo þú hrepptir þá sama hlutskiptið og skáldkonan Rósa, barnið mitt. Þetta óttaðist ég alltaf,“ mælti hann skjálfraddaður. Hún horfði kuldalega í augu hans. „Ætli það hafi verið við tvær einar, sem höfum ætlað okkur að klífa hærra en fæturnir gátu borið okkur. En þó að ég væri skáld, skyldi ég aldrei hafa sett tilfinningar mínar í bundið mál handa ófæddum ógæfumann- eskjum til þess að staglast á í sams konar raunum. Nei, þær skulu deyja með mér; hvorki hann né aðrir skulu fá að vita, hversu hjarta mitt er sárum sært. Ég fer fram að Nautaflötum í kvöld og drekk trúlofunargildi hans, eins og hann væri bróðir minn. Það verður hann líka altaf. Þú skalt koma með mér, pabbi, svo engan gruni, að okkur hafi dottið þessi vitleysa í hug.“ Hann hristi höfuðið. „Nei, ég verð varla gestur Lísibetar Helgadóttur í kvöld. Hún lætur son sinn blinda sig, sú góða kona. En gættu að því, barnið mitt, að láta hann ekki leiða þig lengra en búið er. Mundu það, að þetta vesalings barn, sem verið er að vefja í þetta glæsilega svikanet, er vinkona þín.“ „Þú þarft ekki að vara mig. Ég læt ekki leiða mig út í ógöng- urnar, fyrst ég er orðinn sjáandi. Ég skammast mín nóg fyrir það, hvernig ég hef breytt. En hvernig átti mér að detta þetta í hug?“ Það kólnaði með kvöldinu og gerði hriðarél. Þóra gekk fram grundirnar, vafin í þykkt sjal. Samt fann hún ekki til kuldans. Þetta ferðalag var hliðstætt ævi hennar. Hér eftir mundi hún ganga alein móti kuldastormum lífsins. En hvað var hún að fara út í þetta veður? Var ekki betra að sitja heima, eins og faðir hennar? Hún ætlaði að sýna Jóni og móður hans, að hún hefði aldrei látið sér detta neitt annað í hug um ástalíf þeirra, en að það væri áframhald af æskuvináttu þeirra. Móður hans? Gat nokkur maður látið sér hugkvæmast að slá ryki í augun á þeirri konu? Hún átti víst ekkert skylt við þetta svikabrugg. Hún hafði náttúrlega hugsað, að hann væri að hjálpa Þóru eins og góður bróðir við fjármennskuna. Gat hún ekki séð, að þau voru ekki lengur börn, heldur fullþroska unglingar? Duldist henni, þeirri gáfuðu konu, hvaða tilgang hann hafði annan en greiðviknina? Já, Þóra var þess viss, að hehni var það hulið. Þó heyrði hún að faðir hennar var annarrar skoðunar. Þóra var ekki vön að berja að dyrum á Nautaflötum; til þess var hún of kunnug. Borghildur og Lísibet voru í kokkhúsinu, þegar hún kom inn. „Hvað sagði ég ekki, að Þóra myndi koma? Ég þekkti hana þá illa, ef hún léti hríðarfjúkið að tarna hindra sig,“ sagði Lísibet og faðmaði Þóru að sér með móðurlegri blíðu. „En pabbi þinn hefur ekki treyst sér, auminginn. Er hann samt ekki hress núna?“ bætti hún við í sínum blíðasta samúðartón. „Jú, hann er það,“ sagðj Þóra. Lísibet hélt áfram: „Þó það væri nú, að þú kæmir til að samgleðjast leiksystkinum þínum á hamingjudegi þeirra. Þér hefur sjálfsagt ekki komið þetta á óvart. Jafn skynsamri stúlku og þú ert hefur ekki dulizt það, hvernig hugir þeirra hafa tvinnazt saman frá því fyrst. Samt sagðist Þórður vera hálfhissa; sér hefði aldrei dottið í hug, að Anna yrði annað en systir Jóns. Ég vona, að ég eigi eftir að lifa það, að sjá ykkur hin leiksystkinin eins hamingju- söm og þau eru nú. Ekkert er til í heiminum, Þóra mín, eins unaðslegt og að fylgjast með þeim manni, sem maður elskar, og ala upp börn hans.“ Þóra var óskiljanlega lengi að hafa skóskipti. Hún vissi, að augu Lísibetar hvíldu á sér, en hún treystist ekki til að mæta þeim. Seinustu orð hennar ýfðu hjartasár Þóru. Anna kom fram og flaug eins og hvítt fiðrildi upp í fangið á Þóru. „Er ekki höndin á mér orðin falleg?“ spurði hún og sýndi henni tvo hringi, sem hægri*höndin var prýdd með. „Þessi með steininum er þrengri, þess vegna er hann fyrir framan, svo hinn týnist ekki. Hann er svo víður. „Ó, þetta blessað gæfulamb ræður ekki við sig fyrir kæti,“ sagði Lísibet. Svo lagði hún höndina á öxlina á Þóru, og henni fannst hún óeðlilega þung. „Þóra mín!“ sagði hún. „Manstu, þegar ég bað þig að vera Önnu góð systir? Það hefurðu líka verið, og ég vona, að það verði svo alla ævina, ef þið eigið samleið. Það má ekki breytast, þó að æskan sé á 'förum.“ Það settist harður kökkur í hálsinn á Þóru. Hún beit saman tönnunum til að hafa vald yfir tilfinningum sínum, og henni tókst það. Hún leit hvasst í augu Lísibetar og spurði: „Má góð systir leyna nokkru fyrir systur sinni?“ „Góð systir hugsar um það eitt, að litla systir sé ánægð og gætir hennar fyrir öllu, sem að eirihverju leyti er skaðlegt fyrir hana,“ svaraði Lísibet; en það var eitthvað skínandi í augnaráði hennar, sem Þóra óttaðist. Þær skildu hvor aðra. „Svo skaltu nú, góða mín, koma inn og spila. Þórður í Seli er hér og Elli á Hóli. Lilja gat því miður ekki komið. Hún var svo slæm af tannpínu. Það hefðu áreiðanlega verið fleiri hér í kvöld, ef hún hefði ekki verið svona veik, hún Sigríður auminginn." Þóra spilaði fram á nótt. Enginn gat séð annað, en að hún væri ánægð. Á annan var messað að Nautaflötum, svo nýja trúlofunin barst fljótlega um dalinn. BAÐSTOFUHJAL Það var á þriðja í jólum, að Jóhanna Andrésdóttir kjagaði ofan að Hrafnsstöðum. Hún vissi, að enginn myndi verða búinn að flytja fregnina þangað. Það var þó óneitanlega gaman, að geta sagt svo óvænt tíðindi. Valgerður húsfreyja kom til dyranna. „Það var þó svei mér bærilegt, að þú skyldir koma. Þú getur komið í púkk við okkur í kvöld,“ sagði hún, þegar þær höfðu heilsazt með mörgum kossum. „Æi-já. Ég tók mig nú upp í góða veðrinu. Ég hef ekki farið spor út úr bænum yfir jólin. Ekki svo mikið sem til kirkju,“ másaði Jóhanna. „Það hef ég nú ekki heldur gert. En ég hef lesið alla lestrana í Vídalínspostillu, eins og þeir leggja sig, og það hélt ég, að væri alveg eins gott og ruglið úr honum séra Benedikt." „Ætli það sé ekki heldur kraftmeira,“ sagði JÓhanna og leysti af sér styttubandið. Síðan fylgdist hún til baðstofu með Valgerði.“ María saumaði á nýja saumavél með trépalli undir. „Þarna ertu búin að eignast fallegt stykki, María mín. Það eru nú færri bændadæturnar, sem eiga svona fallegt,“ sagði Jó- hanna og strauk með hendinni yfir rósirnar á vélinni. „Enn sá ljómi! Skyldi hún Ástríður mín fá sting í hjartað, þegar hún sér hana, þessa!“ Valgerður brosti ánægjulega. „Það má til að gefa stúlkum vélar, sem eru eins lagnar og María. Það segir prestsfrúin, að engin stúlka hafi verið hjá sér neitt í líkingu við hana.“ „O, sei, sei, aldrei munar um það hjá henni, blessaðri,“ greip Jóhanna fram í og gretti sig. „Svo fer hún nú fram að Nautaflötum til þessarar lærðu frúar eftir nýárið,“ hélt Valgerður áfram. „Ekki hefði ég komið henni Ástu minni þangað, þó að mér hefði verið borgað fyrir það.“ „Ekki dettur mér nú annað í hug en að fara þangað,“ skaut María inn í hlægjandi. „Hún skartar líklega ekki illa þar, maskínan mín.“ Jóhanna settist niður og lagði útprjónaða-vettlinga við hlið sér. Valgerður tók þá og skoðaði prjónið úti við gluggann. „Hver semur þetta? Það er nógu laglegt." „Anna Pétursdóttir. Það er eitt af því, sem hún hefur lært á Nautaflötum. Hún er bráðlagin í höndunum, greyið," segir Jó- hanna. Svo bætir hún við: „Hún er nú ekki komin ennþá úr hófinu stóra.“ „Fór hún til kirkju?“ „Hún fór á aðgangadagsmorguninn, og Pétur gamli sagði, að hún hefði ekki verið lánlaus að lenda í þessu.“ „Hvað átti það nú að þýða?“ spurði María. „Hafið þið ekki heyrt það nýjasta — trúlofunina?“ spurði Jóhanna og horfði lymskulega til Maríu. „Hvaða trúlofun?“ spurði Valgerður. ( „Hann er nú reyndar búinn að setja upp hringinn, blessað kvennagullið eftirsóknarverða þarna frammi í dalbotninum. Það kvað standa ofurlítið til fyrir Lísibetu, hafi það ekki fyrri skeð,“ sagði Jóhanna og hló kuldahlátur. María varð dökkrauð í framan og horfði forviða á Jóhönnu. „Hver er hún, sem varð fyrir valinu?“ spurði Valgerður. „Getið þið.“ „Hún er líklega ekki blásnauð,“ sagði Hannes bóndi. Hann sat á fremsta rúminu við dyrnar og prjónaði sokk. „Hún á víst ekki annað en skrokkinn á sjálfri sér, og hann er nú ekki sérlega bermilegur,“ svaraði Jóhanna. „Er það Þóra?“ spurði María. „Nei, ónei, svo myndarlegt var það ekki. Hún er þó dugleg stúlka og efnileg búkona. Svo eiga þau jörðina. Það hafa margir haldið, að hún yrði fyrir happinu.“ „Ja, nú gengur fram af mér,“ lagði Valgerður til málanna. „Er það nú þessi prófastsdóttir, sem verið var að þvætta með í hitteðfyrra?“ „Ekki aldeilis. Það var ekki seilzt svo langt.“ „Kannske það sé Anna Pétursdóttir? Hún lætur vel yfir því, að hann hafi kysst sig svo oft,“ sagði María. „Ertu vitlaus?“ greip móðir hennar fram í fyrir henni. Held- urðu að hann fari að taka að sér sveitarómaga. Það er það líklegasta.“ Jóhanna gat ekki fengið af sér að draga þær lengur á þessu. „Það er engin önnur en fósturdóttirin, Anna Friðriksdóttir, þessi merkispeningur, sem hann ..grípur upp af götu sinni, pilturinn." „Er hann vitlaus, mannfjandinn?“ sagði Valgerður. „Hvað skyldi hún Lísibet mín blessunin segja. Margt fer nú öðruvísi en ætlað er, Líklega hefur honum boðizt eitthvað meira „Hún kvað vera nógu lukkuleg yíir þessu, segir fólkið. Hver skilur líka í þeirri manneskju? Er hún ekki vön að sleikja það helzt utan, sem ekkert er í varið, flækinga og hreppsómaga og því um líkt. Því segi ég það, sem ég hef alltaf sagt, að það er ekki svo lítið í það varið, að hafa laglega snoppu og geta náð í svona gjaforð. Þessi manneskja, sem ekkert er í varið og ekkert nennir að gera nema að dunda við hekl og rósasaum og liggja í bókum,“ sagði Jóhanna hörkulega. „Þetta sagði Anna Pétursdóttir við Maríu mína í fyrravor. Ég tók þá náttúrlega ekkert mark á því frekar en öðru, sem hún þvaðrar; en oft ratast kjöftugum satt á munn,“ sagði Valgerður. „Það hafa nú líklega fleiri en hún séð, hvernig hann lét við stelpuna. Það sagði hún Ásta mín, þegar hún var þar til spurn- inganna, að hann hefði svo sem átt að segja henni til við skrift og reikning og eins að spyrja hana út úr kverinu. Þá hefði það gengið í eintómum kossagangi og hláturflissi. Jakob hafði líka spurt hann að því, hvort hann héldi, að presturinn spyrði Önnu að því, hvað marga kossa hann kyssti hana daglega. Hann hafði bara hlegið eins og fífl. Þetta gat Lísibet liðið á sínu heimili, svona skikkelsi. Það hefði ekki þótt geðslegt, ef það hefði viðgengizt á mínu heimili. Og svo kunni stelpan aldrei stakt orð í kverinu,“ romsaði Jóhanna upp úr sér. „En sú lýgi!“ gall við í Hallgrími, bróður Maríu. „Anna kunni alltaf langbezt af öllum krökkunum og skrifaði svo afskaplega vel.“ „Þó að hún hefði nú gert það. Hún hefur líklega haft nægan tímann til að liggja yfir því. Skriftin er ekkert annað en æfing, og það sagði hann séra Benedikt, að hún Ásta mín hefði áreiðanlega skrifað vel, ef hún hefði nokkurn tíma mátt vera við það. En hann vildi nú kannske heldur sjá hana vinna eitthvað, hann faðir hennar, harðjaxlinn sá,“ geisaði Jóhanna.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.