Lögberg - 02.07.1953, Blaðsíða 4

Lögberg - 02.07.1953, Blaðsíða 4
4 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 2. JÚLÍ, 1953 Ritstjóri: EINAR P. JÓNSSON GefiC út hvern fimtudag af THE COLUMBIA PRESS LIMITED 695 SARGENT AVENDE, WINNIPEG, MANITOBA J. T. BECK, Manager Utanáskrlft rltstjórans: EDITOR LÖGBERG, 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MAN. PHONE 74-3411 Verð $5.00 um árið — Borgist fyrirfram The ‘Lögberg” ia printed and published by The Columbia Press Ltd. 695 Sargent Avenue, Winnipeg, Manitoba, Canada Authorized as Second Class Mall, Post Office Department, Ottawa ísland og íslendingar Erindi flutt á íslendingadeginum að Hnausum, 1. júlí, 1953, af VALDIMAR BJÖRNSSYNI Flestir verða mér samdóma að full djúpt sé í árinni tekið að reyna á tæpum hálftíma að gera ræðuefninu skil — „Island og íslendingar“. En sarinleikurinn er, að hraði nú- tímans og skáldleg hneigð nefndarmanna hér að Hnausum liggja á bak við þetta efnisval. Þeir setja sér að „slá tvær flugur í einu höggi“ — að þjappa tveimur ræðum saman í lausa heild og láta það sem nú verður sagt duga bæði sem „Minni landnema“ og „Minni íslands.“ Þeir eiga það kannske sammerkt við Káinn, að „langar ræður leiðast mér, léleg kvæði og minni.“ Að maður víki fyrst að landnemunum, þá er hægasta leiðin sú að vera bara „sammála síðasta ræðumanni". Sann- arlega hefur margt verðskuldað verið sagt á stórhrífandi hátt um frumbýlingshetjur okkar Vestur-lslendinga, hér nyrðra í Nýja-íslandi, og annars staðar þar sem landar hafa reist sér byggðir. Dyggðir landnemanna eiga það alt skilið, sem skáldin og ræðumennirnir hafa sagt um þau. Aðdáunar- verð einkenni komu í ljós hjá þeim — hreysti og hugrekki, dugur og drenglyndi, fastheldni og fórnfýsi. Ekki hefur verið orðum aukið í frásögnum þeim, sem allir hér þekkja. Og enn eru margir, sem muna þessa daga — virkir þátt- takendur sjálfir í bardaganum, sem háður var á erlendri slóð, við erfið kjör, og þrátt fyrir vankunnáttu bæði á vinnu- brögðum og landsháttum. Flestallir þessir landar voru bláfátækir. En stórlyndi réði þó í smá-hreysunum. Altaf var sjálfsagt að rétta ná- unganum hjálparhönd. íslenzkir frumbyggjendur, sem við hyllum í dag, gátu sagt eins og núverandi forseti Banda- ríkjanna sagði um sjálfan sig og fjölskylduna á bernsku- árum sínum: „Jú, við vorum vafalaust fátæk — en við vissum það bara ekki sjálf.“ Fátækt og ríkidæmi eru hugtök, sem breytast samkvæmt því, sem miðað er við. Helztu eigur ættmanna okkar hér vestra fyrstu árin voru af sama tagi og eigur þeirra heima á íslandi — fjársjóðir andans frekar en veraldarauður. Þrátt fyrir að að „góð vísa er aldrei of oft kveðin“, ætla ég ekki að verða fyrir þeirri freistingu að halda áfram með endurtekningar um dyggðir landnámsmanna okkar. Ég leyfi mér heldur að halda því fram, að kjarkur, þrautseigja og dugur þessara manna, sem ruddu brautirnar er við fylgjum í dag, voru ekki þau einkenni, sem ættu að vera mest í heiðri höfð hjá okkur. Þetta virðist fela í sér mótsögn. En mér finnst, nefnilega, önnur einkenni miklu þýðingar- meiri, og kem ég strax að þeim. Sjálfsagt er það lofsvert að íslendingar hér í Nýja- Islandi gátu afkastað því, sem þeir gerðu fyrir meira en sjötíu árum. Það þarf hetjulund og óbilandi styrkleik að sigra erfiðleika eins og gert var. En er samt ekki réttmætt að játa það, að mannkynseðlið hefur ávalt sýnt sig vand- anum vaxið þegar um virkilega erfiðleika er að ræða? Saga íslands um liðnar aldir veitir okkur nóg dæmi. Eldgos, harðstjórn, „Svarti Dauði“ — eymd og hungur og harðindi — nærri öll ímyndanleg mótöfl hafa skerpt og meitlað skap og skoðanir íslendinga á þann hátt að innri styrkleiki hefur orðið að þjóðarsérkenni. Athugum aðeins eitt nærtækt dæmi hjá frændþjóð okkar — Norðmönnum. Ekki var tilveran kröfuhörð hjá þeim, um margra ára bil, eftir aldamótin síðustu. Einu áhrif fyrri stríðsáranna voru í áttina að almennri velmegun Sumum fannst kannske hálfgerður sljóleiki einkenna þessa niðja forn víkinganna. En þegar á reyndi, þá kom hinn forni styrkleiki í ljós. Norðmenn stóðust prófraunina þegar Nazistalýðurinn orðræmdi klófesti land og þjóð. Hlutlausir og rétt að segja vopnlausir í meir en öld börðust þeir með hetjudáð þegar innrásin hófst. 1 hundraða tali tókst ungum mönnum að komast til Englands, hraktir um haf í smá- bátum. Margir voru í flughersæfingum hér í Kanada. Bæði heima fyrir og út á við kepptu Norðmenn með einurð og djarfleik á móti óvininum. Þeir sýndu hreysti og hugrekki andlega og líkamlega þegar mest varði. Það er einmitt þessi eiginleiki, sem ég vil leggja á- herzlu á í sambandi við starfsferil íslenzkra landnáms- manna hér um slóðir. Þeir eiga hrós og heiður skilið. En innri máttur þeirra var þjóðareinkenni, sem fáir hugsuðu um og fæstir furðuðu sig á, þegar mótspyrna frumbýlings- erfiðleikanna kallaði þann mátt fram á sjónarsviðið. Við erum hreyknir í dag af framkomu landnámsmanna okkar — en -éið erum alls ekki hissa. Við bjuggumst við þessu hjá arftökum Gunnars og Héðins og Njáls. Við hefðum verið vonsviknir hefði saga okkar hér vestra verið öðruvísi. Nú væri hægt að spyrja — ef við teljum frækni og fórnir frumherjanna alveg sjálfsagða hluti — hvers er þá að minnast? Hvað verður þá lofræðuefnið á tyllidögum okkar? Mér finnst auðvelt að svara þeim spurningum. Það sem er helzt athugavert við karlmenn og konur, sem unnu þessar þrautir, nýkomin frá íslandi, var — í einu orði — lífsskoðun þeirra. Þau sóttu um langa og erfiða leið eftir kjarabótum. Ekki rengjum við þá sögulegu staðhæf- ingu. En um leið og viljinn stefndi að bættum hag í framandi landi, var hann jafn einbeittur um það að glata ekki andlega arfinum. Þið Ný-íslendingar gleymið vonandi aldrei að ein fyrsta stofnun í félagslífi ykkar var Prentfélag Nýja-Islands, rætt árið 1876 — þrátt fyrir bóluveik- ina — sett á stofn í janúar 1877, með fyrsta blað Framfara prent- að í september það haust. Það er eiginlega hrífandi fyrir mann nærri uppalinn í prentsmiðju að lesa í þriðja bindi Sögu íslend- inga í Vesturheimi, eftir Þorstein Þ. Þorsteinsson, um bónarbréfið, sem sent var séra Jóni Bjarna- syni, þá ritstjóra við norskt blað í Minneapolis, snemma á árinu 1877, að biðja hann að kaupa prentvélina og letrið — sem hann gerði, þrátt fyrir það, að nauðsynlegt var að láta laga stíl með íslenzku stöfunum, sem voru ekki fáanlegir í þessari heimsálfu! Að hugsa sér þessa fróðleiks- þrá og löngun til þess að tengja félagsböndin — rétt eftir bólu- veturinn mikla, þrátt fyrir örð- ugleika og ástvinamissi — að vilja koma prentsmiðju á stofn og tryggja það að blaðið kæmi út reglulega! Það sætir sannarlega undrun. Og ekki gátu landar hér beðið nema nokkrar vikur, í rauninni. Skrifað blað varð fyrst til, ”Nýi Þjóðólfur“ — fyrsta haustið, 1875, þó að aðeins þrjú tölblöð yrðu til. Ekki var beðið með skóla- haldið heldur — kennsla hófst strax fyrsta haustið í heimahús- um. Húslestrar dugðu, hér eins og annars staðar, þangað til prestar fengust, og þegar prest- þjónusta var skipulögð voru samkomuhúsin notuð sem kirkj- ur fyrst um sinn. Lestrarfélög voru stofnuð. Dufferin lávarður, þá landstjóri Kanada, við heim- sókn sína hingað til Nýja- íslands, 1877, lýsti hrifningu sinni yfir bókaforða fátækra frumbýlingsmanna — sá og mat þá, bókhneigð íslendinga, sem hefur verið þeim í blóð borin um aldaraðir. Ég er ekki hingað kominn til að rekja sögu- Nýja-íslands — þið þekkið hana og megið vera stoltir af. Tilraunin hjá mér er aðeins að undirstrika það, sem er mest athyglisvert við land- námsmenn — virðingu þeirra fyrir andlegum verðmætum, fróðleiksfýsn og félagshneigð. Að maður minnist á blaðið Framfara aftur, þá kom það út aðeins tæp tvö ár — síðasta tölu- blaðið að vori, 1880. Þ. Þ. Þ. — og í hve mikilli þakkarskuld við Vestur-íslendingar s t ö n d u m gagnvart þeim „Ara fróða“ — segir um útgáfu Framfara, að það hafi verið „eitt þarfasta og mesta happaverk íslenzkrar þjóðrækni, er landar hafa unnið vestan hafs, sem aldrei verði of vel metið. En þrátt fyrir það get- ur sú hugsun hvarflað að lesara hans, að þótt blaðið sé sómi minningu þeirra manna er það stofnuðu, og máske óbrotgjarn- asti bautasteinn landnámsins, þá sé eins víst og ekki, að deilu- málin í nýlendunni hafi magnast með mönnum við það, að sjá bituryrðin á prenti og vita þau lesin af löndum sínum í tveimur heimsálfum.“ Þessi hugmynd — vafalaust vel rökstudd — að blaðaútgáfa geti aukið sundurlyndi, minnir mig á það, sem sagt var heima á íslandi haustið 1944, þegar ég var þar í herþjónustu. Margir héldu því fram, að stjórnin, sem mynduð var þá, í októbermánuði, hefði aldrei orðið til nema vegna þess, að prentaraverkfall olli því, að engin blöð komu út í fleiri vikur. Flokkarnir gátu ekki komið deilum sínum á opinberan vettvang, og unnið var að því í kyrrþey að „bræða saman" ólík sjónarmið, með þriggja flokka stjórn sem árangurinn. Ný-ís- lendingar voru minnst tvíklofnir ef ekki þríklofnir á þessum ár- um — og trúmálin urðu deilu- efnið mikla hjá okkur löndum, alveg eins og hjá Norðmönnum | sunnan við landamærin. Ekki' ætla ég að rekja þá sögu — en mér finnst að góð bending sé til handa okkur í því, sem Þorsteinn sagnfræðingur okkar Vest- manna lýsir með orðunum, — „þarfasta og mesta happaverk íslenzkrar þjóðrækni“ — stofnim fyrsta blaðsins meðal Islendinga í Vesturheimi. Kannske sumum finnist ein- hvers konar kyrrðar-molla kom- in yfir félagslíf okkar Vestur- Islendinga, þar sem við erum næstum því hættir að rífast. Ég sagði „næstum því“ — vel að merkja. Gamla máltækið rifjist upp — „Það siglir enginn í logni“. Deilur mega teljast altaf sem lífsmerki, og alger eining ber með sér deyfð, að vissu leyti. Ég geri þó ráð fyrir því, að flestir landar telji það fagnaðarefni að mestu deilur okkar hafa lognast út af. Hugsum á ný um það, sem sagt var um fyrsta blað Vestur- íslendinga sem þjóðræknislegt happaverk. Þetta framtak gerðist í fátækt og fámenni frumbýl- ingsáranna, þrátt fyrir efnaskort og örðugleika, og jafnvel þótt nægur forði af prentletri fengist ekki. Það væri okkur til hábor- innar skammar ef við reyndum ekki nú að láta hönd fylgja máli með því að tryggja í lengstu lög framtíð tveggja vikublaða, sem hafa verið málgögn okkar og tengiliðir byggða og einstaklinga á milli í meir en 65 ár. Lögberg og Heimskringla eiga stuðning okkar skilið. Þau hafa frá upp- hafi verið, og eru enn, stoð og stytta þjóðræknisstarfseminnar. Þjóðræknisfélagið er gott og blessað út af fyrir sig — tímarit þess er fyrirtaks rit, þing þess og deildarfundir uppörfandi og gagnleg. En ekki er til starf meðal okkar, sem nær fjöldanum á þann hátt, sem vikublöðin gera. Blöðin eru einu stofnan-. irnar sem eru helguð eingöngu því sem íslenzkt er. Við eigum sjálfsagt að hlynna að útbreiðslu þeirra eftir mætti, gerast kaup- endur, standa í skilum með árs- gjöldin, veita þeim þann stuðn- ing, sem þau hafa frá öndverðu sjálf veitt þjóðræknisviðleitninni og félagsstarfsemi okkar. Ég trúi því varla að nokkur heilvita maður láti sér detta í hug, að nú sé öllu borgið í þjóð- ræknismálum okkar, þar sem kennslustóll í íslenzku sé kominn á stofn við Manitoba-háskóla. Starf kennslustólsins, nýbyrjað hjá Finnboga prófessor Guð- mundssyni, er vel byrjað. En aukastörf hans hafa, fram að þessu, ekki síður haft mikla þýðingu í þjóðræknisstarfsemi okkar. Hópferðin til Islands, með alt að 40 þátttakendum, er Finnboga einum að þakka — og ættu slíkar ferðir að endurtakast ár frá ári. Dvöl á íslandi, náin kynni að uppsprettulind menn- ingarerfða okkar, verða hverjum Vestur-Islendingi ómetanleg og ógleymanleg. En tengslin okkar við alt það sem íslenzkt er verða altaf per- sónuleg tengsli. Við komum slíku ekki upp á stofnanir og við vinn- 'um jafnvel lítið á í þjóðræknis- starfi með ræðuhöldum og fund- ársamþykktum. Ef íslenzkan á hér vestra nokkra framtíðarvon sem mælt mál meðal manna, þá verðum við að „vaða“ bara hik- laust í það -— tala málið eftir beztu getu, og sérstaklega að virða tilraunir í þá átt, þó ófull- komnar séu. Hér má enginn rembingur eiga sér stað, ef vel á að fara. Málvandir verðum við þó að vera, eins og við bezt get- um. Það er til lítils að vera að reyna að varðveita íslenzkuna hér vestra, ef hún verður hjá okkur afskræmd „blanda“. Að ég vitni einu sinni enn í uppáhalds vísu eftir Þorstein Erlingsson: „Þeir ættu að hirða um arfinn sinn, sem erfa þessa tungu.“ ☆ Ef við eigum að halda áætlun- inni, þá ættu þáttaskipti að fara að koma fram í ræðunni. Það er erfitt að greina að milli Islands og íslendinga, og minni land- nema verður eðlilega inngangur að minni íslands. Um „gamla landið góðra erfða“ vildi ég gjarnan reyna að bregða upp myndum, sem enn eru ljóslif- andi í endurminningum þeim, er ég geymi alla ævi af fjögra ára dvöl á Islandi, 1942 til 1946. Gaman væri að láta ykkur flytj- ast með mér í huga frá Iðavöllum við Winnipeg-vatn að Þingvöll- um við Öxará. I slíkri langferð getum við breytt dagatali og ári um leið, og horfið þannig aftur að sögulegum viðburðum fyrir níu árum og tveimur vikum síðan. Ég vil lýsa fyrir ykkur lýðveldisdeginum sjálfum, 17. júní, 1944. Það var dásamlegt að fylgjast með athöfninni á Þingvöllum. Um 20 þúsund manns voru við- staddir, margt víðsvegar að úr landinu. Þar sá ég, til dæmis, frænku móður minnar heitinnar, bóndafrú úr Hörðudalnum í Dalasýslunni, sem hafði ekki komið suður í ein tólf ár. Landar alls staðar vildu vera sjónar- vottar þess atburðar, sem verður í minnum geymdur „meðan sól á kaldan jökul skín.“ Það var Alþingi Islands, sem alt snerist um — arftakar þingræðisstjórn- arinnar fornu. Alþingi var aðal og nærri því eina aflið í forn lýðveldi íslands. Og þeirri skip- un hefur verið fylgt nú. For- setavaldið er veikt og takmark- að. Stjórnarskrá lýðveldisins gerir úr forsetanum nokkurs konar „ceremoníu“-meistara, og eru völd hans ekki meiri en þau, er forseti franska * lýðveldisins fer með. Þess vegna var það, að forseti sameinaðs Alþingis var maðurinn, sem fékk þann óvið- jafnanlega heiður að stjórna og lýsa formlega yfir lýðveldis- fetofnuninni. Maður gat ímyndað sér hvað hafi búið í brjósti Alþingis- manna, er þeir voru kvaddir saman til fundar á palli, sem byggður var á Lögbergi helga. Að hugsa sér þann heiður; þá ánægju, það glæsilega tækifæri, sem gafst þessum arftökum elzta lögjafaþings í heimi, að mæta á staðnum, þar sem fornþingmenn þjóðar sinnar höfðu komið sam- an á hverju sumri ár eftir ár í aldaraðir — að vera þar mættir til að lýsa yfir í heimi stórveld- anna, er háðu þá stríð og iðkuðu morð og eyðileggingu, að nú væru þeir að endurreisa lýð- veldið gamla. Hugsið ykkur það fágæta tækifæri, sem gafst Gísla Sveinssyni, forseta sameinaðs Alþingis fyrir rúmum níu árum, er hann fékk að fara með orð á þessa leið: „Hér með lýsi ég yfir að þingfundur þessi sé settur hjá Alþingi íslendinga á Þingvöllum við Öxará.“ Ætli að þingmönn- um hafi ekki dottið í hug að nú, eftir alda bið, hefði náðst upp- fylling á hvatningarorðum Jón- asar Hallgrímssonar, er ort voru fyrir meira en öld: •— Hátt á eldhrauni upp, þar sem ennþá Öxará rennur ofan í Almannagjá, alþingi feðranna stóð. Þar stóð hann Þorgeir á þingi, er við trúnni var tekið af lýði, þar komu Gizur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll. Þá riðu hetjur um héruð, og skrautbúin skip fyrir landi flutu með fríðasta lið, færándi varninginn heim. Það er svo bágt að standa í stað, og mönnum munar annað hvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið. Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur? Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Landið er fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar, himininn heiður og blár, hafið er skínandi bjart. En á eldhrauni upp, þar sem ennþá Öxará rennur ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut. Nú er hún Snorrabúð stekkur, og lyngið á Lögbergi helga blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik- Ó, þér unglinga fjöld, og Islands fullorðnu synir! Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá! Feðranna frægð var vakin úr gleymsku á þessum degi. Hæstu hugsjónir og heitasta þrá íslend- inga voru að rætast. Hátindur athafnarinnar náðist, fannst mér, í einni setningu. Gísli Sveinsson var maðurinn, sem fékk að fara með þá setningu, sem forseti sameinaðs Alþingis. Hugsið ykkur staðinn og stundina. — Rigningin, sem haldið hafði á- fram alla nóttina, fór að aukast fram eftir deginum. Nú er sögu- ríkasta örlagastundin komin •— klukkan tvö eftir hádegi. Al- þingissamþykktin var afgreidd. Þingmenn, tilvonandi forseti, embættismenn þings, sátu í frökkum, margir vafðir í tepp- um, rigningin drjúpandi af börmum höfuðfatnaðar þeirra ofan á skjölin, sem þeir höfðu meðferðis. Forseti sameinaðs Al- þingis stendur upp •— og ég býzt varla við að lifa nokkurs staðar í heimi jafn hátíðlega stund og þá, er hann mælti skýrt og ákveðið: „Hér með lýsi ég yfir gildistöku stjórnarskrár lýð- veldis Islands.“ Ég stóð í þyrpingu með fáein- um íslenzkum blaðamönnum á bak við þingpallinn. Mér varð litið til aldraðrar konu, er stóð næst mér. Rigningin, hæg núa, í fínum dropum, baðaði andlit hennar, en gleðitárin blönduðust rigningunni. Hér var auðsjáan- lega gömul sveitakona, er þekkt hafði strit og storma erfiðrar vinnu alla ævi. Andlit hennar Ijómaði af ánægju — maður sá speglast þar hugsunina: „Komin er nú stundin — langþráða stundin. Að þessu marki höfum við íslendingar verið að keppa í nærri því sjö aldir. Ég þakka guði fyrir að fá að lifa þennan dag.“ Slíkar hugsanir geisluðu aug- ljóslega úr svip allra. Stundin var of heilög, of þrungin alvöru og hátíðargleði, til að fara að hrópa. Næst kom þögn í heila mínútu — þögn um alt landið, í hverju koti og í hverjum kaupstað, til sjávar meðal þeirra er „fluttu varniginn heim“, í erlendum borgum við útvarpstæki, þar sem íslendingar hlustuðu á út- varp athafnarinnar. Ég þarf ekki frekar að reyna að lýsa því, sem orð fá eigi lýst. Framhald á bls. 8 KAUPENDUR LÖGBERGS Á ÍSLANDI Gerið svo vel að senda mér sem fyrst greiðslu fyrir yfirstandandi árgang Lögbergs, kr. 75.00. Dragið ekki að greiða andvirðið. Það léttir innheimtuna. Æskilegt að gjaldið sé sent í póstávísun. Þeir sem eiga ógreidda eldri árganga, eru vinsamlega beðnir að snúa sér til mín. BJÖRN GUÐMUNDSSON FREYJUGATA 34 .REYKJAVIK

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.