Lögberg - 02.07.1953, Blaðsíða 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 2. JÚLÍ, 1953
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
\
Svo tók hann hverja þökuna eftir aðra og ^astaði þeim í
flagið, en hún gekk heim hálfbrosandi og hálfhissa á þessu sam-
tali. Varla gat þetta verið nokkur alvara, bónorð gat það því
síður heitið. Enginn maður gat þó beðið sér stúlku án þess að
minnast á það, að sér þætti vænt um hana. Auðvitað var þetta
ekkert annað en gaman. Samt var hún alltaf að hugsa um, hvað
íallegt yrði í Hvammi þegar allt túnið yrði orðið slétt, en það
gátu víst fleiri sléttað en hann, það var óþarfi að ganga að neinum
afarkostum þess vegna.
Daginn eftir kom bóndinn frá Hjalla. Hann hét Þórarinn og
var búinn að vera nágranni Þóru í mörg ár. Hanh fór upp að
flaginu og dáðist að því, hvað það væri stórt og vel frá því gengið.
„Ég býst við því,“ sagði hann við Möggu, „að Þóra hafi verið
heppin að fá hann þennan pilt. Það er látið af því, að- hann sé
duglegur og sparsamur.“
„Ég var að hugsa mér það líka,“ sagði sú gamla.
Þóra heyrði samtal þeirra inn í eldhúsið, hún var að þvo þvott.
Sigurður kom inn til hennar þegar gesturinn var farinn. „Þeir
rífa upp fiskinn á Ósnum. Ég var að hugsa um að róa nokkra
róðra, meðan aflinn er svona góður. Finnst þér það ekki heillaráð,
nú er flagið búið og rúningurinn byrjar ekki strax.“
„Jú, ég hugsa að það væri gott,“ svaraði hún. „Jæja, þú út-
býrð þá einhvern svolítinn mat handa mér, góða. Jói getur svo
komið ofan eftir annað kvöld eftir fiski. Það er gott fyrir okkur
að fá innleggið, fiskurinn er í svo góðu verði.“ Hvaða svo sem
„okkur“ var þetta, hugsaði hún. Var hann farinn að eigna sér
búið með henni eða ætlaði hann að leggja fisk inn í félagi? Hver
gat skilið hann þennan mann? Það var víst ekki búið að undirrita
þennan samning, sennilega yrði það aldrei gert, það var því óþarfi
fyrir hann að eigna sér neitt, sem hennar búskap heyrði til.
ALDREI SKAL ÉG GLEYMA ÞÉR
Eftir viku kom Sigurður heim frá sjónum. Hann afhenti Þóru
margar nótur yfir fiskinnlegg. Hún þakkaði honum fyrir með
handabandi. „Ekkert að þakka, góða mín, það var ekki nema það,
sem sjálfsagt var, fyrst ekkert var sérstakt að gera heima. Þú
hefur þá ekki verið alveg iðjulaus heldur, búin að hreinsa allt
túnið og bera af því.“
Hann tók einhvern veginn svo undarlega hlýlega í hendina á
henni, að hún roðnaði.
„Hún er nú engin aukvisi til verka, hún Þóra litla,“ sagði
Magga gamla hreykin. Næstu dagana var farið að rýja féð.
Sigurði þótti vera væn reyfin af dalafénu og vel var það fylgað.
Hann hafði orð á því við Þóru. — „Já, hann var ágætur fjármaður
hann Fúsi. Ég vona, að þú látir þér ekki farast það ver úr hendi,
annars verð ég snakill,“ sagði hún.
„Ég er nú óvanur við innigjöf,“ svaraði hann.
„Ég lít þá eftir því, að þú gefir almennilega, ef þú gerir það
ekki, kæri ég mig ekkert um tíu ára vinnumennsku,“ sagði hún
og hló.
„En þúfurnar, eiga þær að bíða?“
„Það getur nú víst hver sem er fækkað þeim.“
„Ojá, náttúrlega.“
Henni sýndist hann verða svo brúnaþungur, og ekki lengdi
hann samtalið.
Eitt kvöldið þegar þau voru á heimleið af stekknum, sagði
hann við Þóru: „Mig langar til að skreppa heim að Hvoli núna
um helgina og vita, hvort það lifir nokkur grislingur undir þessum
skjátum mínum. En ég verð að biðja þig að lána mér hest, fyrst
það kom klárnum mínum aldrei frameftir.“
„Þú getur fengið hest, hvenær sem þú vilt. Það hefur verið
ónærgætni af mér að tala ekki um það fyrri, því líklega er þig
farið að langa til að sjá foreldrana og systkinin fyrir löngu,“
sagði Þóra.
„Ekki ósköp. Ég er nú ekki svo óvanur að horfa á þau dags-
daglega, að ég þoli ekki að sjá af þeim nokkrar vikur,“ svaraði
hann allt annað en innilega. Það leit ekki út fyrir, að hann
elskaði fólkið sitt neitt sérstaklega mikið, hugsaði Þóra. Það hlaut
þó að vera gaman að eiga svona mörg systkini og lifandi foreldra.
En kannske var það með þá auðlegð eins og annað, að þeim þætti
lítið í það varið, sem ekki þekktu einstæðingsháttinn í fjölskyldu-
lífinu. Svo var nú þetta Hvolsfólk náttúrlega allt annað en
skemmtilegt.
Á laugardagskvöldið í 10. viku sumars fór Sigurður út að
Hvoli. Þóra setti þann mósótta undir hann.
„Mér þykir þú ekki velja af verri endanum,“ sagði hann
kátur, „að lána mér reiðhestinn.“
„Það hefur enginn komið á bak á honum nema ég og Jóli litli,
síðan hann kom úr tamningunni.“
„Hver tamdi hann?“ spurði Sigurður.
„Það eru nú ekki margir tamningamennirnir hérna í dalnum,
sem ég hefði trúað fyrir honum Mósa mínum,“ svaraði hún bara.
Hann varðaði ekkert um, hver sá þriðji var, sem hafði setið á baki
þessarar eftirlætisskepnu.
Þóra stóð á hlaðinu og horfði á eftir honum þegar hann reið úr
hlaði. Reyndar var það nú Mósi, sem hún hafði gaman af að sjá.
En það kom nú ekki sjónin til. Ósköp var að sjá, hvað maðurinn
gat setið hestinn ólánlega, var það nú reiðlag. Og hvað hesturinn
bar sig illa. Hún hafði séð Mósa áður undir fullorðnum karlmanni,
það var þegar hann var í tamningu. Mikill var nú munurinn. En
það er nú enginn maður í sveitinni, sem líkist honum á hesti, og
þó lengra væri leitað. Hún ranglaði suður fyrir bæinn. Henni
fannst hún sjá hann skeiða út með ánni, fagra riddarann, æsku-
vininn ógleymanlega. Brjóstið belgdist af beiskju saknaðarins, og
tárin þrengdu sér út á milli hvarmanna. Hún hvíslaði að sunnan-
blænum þessum ódauðlegu hendingum skáldkonunnar: „Steinar
tali og allt hvað er, aldrei skal ég gleyma þér.“ En vindurinn
flaug út að hafinu, þar sem litlu síkviku bárurnar biðu hans óró-
legar og iðandi af þrá. Hann sagði þeim frá dalameyjunni, sem
syrgði svo mjög æskuvininn, að hún ætlaði aldrei að gleyma
honum. Ekki þó að steinarnir færu að tala. Þær ærsluðust og
hlógu. „Þetta er gömul saga,“ sögðu þær. „Okkur hefur verið sögð
hún svo oft áður. En samt er hún ný núna. Hún fær sér bráðum
annan vin. Faðmar hann í vökunni en fallega sveininn í draumum
sínum, það hafa þær allar gert í hinum sögunum.“
Vindur blés á þær sterkri stroku og sagði: „Skjáturnar ykkar.
Þið dæmið aðra eftir ykkur sjálfum. Ekkert annað en gjálífið og
óstöðuglyndið.“
Bárurnar þutu út fjörðinn hver á eftir annari flissandi og
hvíslandi: Svona hafa þær alltaf verið. Svona hafa þær alltaf verið.
Þóra sat við stofugluggann og kepptist við að gera skó til
sláttarins. Það var nóg annað að gera, þegar hann stóð yfir, fyrir
húsmóðir, sem gengur út allar stundir milli mála — Glugginn á
stofunni sneri fram á hlaðið móti vestri, því var nóg sólskin þar,
þó sólskinslaust væri í baðstofunni nema fram að dagmálum.
Hún gætti öðru hvoru út um gluggann, hvort hún sæi ekki Sigurð
koma utan eyrarnar. Hún hafði saknað hans af heimilinu, það
var fámennt, og hann hafði kynnt sig sem dagfarsprúðan mann
þessar vikur, sem hann var búinn að vera í hennar húsum. Hana
langaði til að sjá, hvort Mósi bæri sig ekki betur en þegar hann
reið úr hlaði. Þarna kom hann þá og einhver með honum á gráum
hesti. Þeir létu skokka fram eyrarnar. Hún sá, að Mósi lá í taum-
unum. Hvernig skyldi honum líka þessi kerlingareið. Einkennilegt,
að fullorðinn maður skyldi ekki kunna að láta hestinn bera sig
almennilega. — Hún færði sig frá glugganum, þegar þeir nálguðust
bæinn. Hún þekkti komumanninn, hann hét Ármann og var utan
af ströndinni. Undanfarin sumur hafði hann verið kaupamaður á
Ásólfsstöðum, og hún hafði séð hann við kirkju. Sigurður bauð
honum inn upp á kaffi, en sagði Jóa að spretta af Mósa og flytja
hann. Hún heyrði þá ganga til baðstofu, en Jóa hringla í hnakkn-
um, þegar hann draslaði honum inn í skálann. Þegar hann kom út
aftur lagðist hann hlægjandi á rúðuna rétt þar sem Þóra sat.
,Hvað viltu? Að hverju ertu að hlæja?“ spurði hún alvarlega,
Það var ekki vani að hlæja að gestum, sem komu.
„Klárinn er ekki einu sinni sveittur undir hnakknum,“ svaraði
hann og hló ennþá meira. Þá brosti Þóra.
„Það er þá gerandi að lána honum hest,“ sagði hún.
Drengurinn kastaði sér á bak og reið í burtu á harða spretti.
Þóra kepptist við að ljúka skógerðinni, svo hún gæti farið inn til
gestanna. En Sigurður kom áður fram í stofuna. Hann rétti henni
hendina brosandi:
„Sæl og blessuð, þakka þér fyrir hestlánið. Ég kom hérna
heim með gest, sem mig langaði til að fengi kaffi.“
„Já, ég var nú rétt að koma,“ sagði Þóra og roðnaði, hún fann,
að hún var ekki rétt vel gestrisin. „Ég býst við, að Magga hafi látið
upp ketilinn. Hvert er hann að fara þessi piltur?“
„Hann er að fara fram að Ásólfsstöðum. Vinnumaðurinn þar er
handlama, og svo verður hann þar fyrstu vikurnar af slættinum.
Þú getur fengið hann, ef þú vilt fyrir kaupamann. Hann er ekki
ráðinn annars staðar.“
„Pabbi tók alltaf kaupamann í þrjár vikur á túnið.“ —
„En svo fara nú þessar kindur hans Fúsa, þá fækkar,“ greip
hann fram í.
„En ætlar þú ekki að hafa þínar kindur hér í vetur?“
spurði hún. ,
„Það er allt undir þér komið,“ sagði hann. „Þú manst, hvað
ég sagði um daginn, þegar ég var að þekja flagið. Mér var alvara.
Ef það getur ekki gengið, verð ég ekki hjá þér nema þetta ár, og
ekki fer ég að flækja kindunum fram eftir einn einasta vetur. En
við getum sjálfsagt heyjað tvö ein fyrir þessum, sem eru hér á
heimilinu, því ég þykist sjá, að engjarnar séu/ loðslægar.“ Svo fór
hann fram úr stofunni aftur. Þóra horfði á eftir honum alveg
hissa. Svo honum hafði þá verið alvara. Skárri var það nú hug-
myndin. Hvað skyldu þau vera búin að vera lengi saman? Svona
sjö vikur. Nú var henni nóg boðið. Skyldu karlmennirnir ekki
geta verið samtíða nokkrum kvenmanni nema að vilja giftast
henni. Hún bar gestinum kaffi, talaði við hann nokkur orð fyrir
siðasakir, helzt um vinnumanninn á Ásólfsstöðum, sem var hand-
lama. Hún sá vonbrigði í svip Sigurðar, þegar hún fór fram án
þess að minnast á kaupavinnuna einu orði.
NÁGRANNAKONUR
Þóra var þögul og hugsandi næstu dagana. Það var Sigurður
líka. Hann vissi, að hún var að velta fyrir sér, hverja ákvörðun
hún ætti að taka, og það valt á miklu fyrir hann, hver niðurstaðan
yrði á endanum. Hann reyndi að vera svo mjúkmáll, sem hann
gat við hana. En það var eins og hún veitti því enga eftirtekt,
heldur hugsaði hún sömu hugsanirnar upp aftur og aftur. Hún
hafði hugsað sér að giftast aldrei, vegna þess að hún gat engan
mann elskað eins og konu ber að elska eiginmann sinn. Hún hafði
líka hugsað sér að búa í Hvammi, hlúa að honum eins vel og hún
gæti. En það gat orðið erfitt, ef hún þyrfti sífellt að vera að hafa
vinnumannaskipti, kannske á hverju ári. Sjálfsagt yrðu þeir flestir
einhverjir gallagripir, ómögulegir fjármenn eða liðónýtir við
heyvinnu. Það voru óvíða eins duglegir menn og Sigurður.
Hún athugaði alla pilta í sveitinni, sem nokkrar líkur voru til,
að hún gæti fengið næsta vor, það var sitt að hverjum nema
helzt Þórði í Seli. Mikill dauðans asni gat ihún verið að
fá hann ekki í vor. En hér eftir var hann ekki fáanlegur, ekki
yfirgæfi hann föðurhúsin undir öðrum eins kringumstæðum. Það
var ergilegt, að Sigurður skyldi setja henni þessa kosti. Hún varð
að tala við hann betur. Og það gerði hún einn morguninn, þegar
þau voru að fara í stekkinn. Vanalega var Jói með þeim, en í þetta
sinn var hann sofandi. Hann hafði verið að leita að einni ánni
frameftir nóttinni, þess vegna hlífði Þóra honum og lét hann
lúra í friði.
„Hvað á ég að bjóða þér góð kjör, Sigurður, til þess þú verðir
hjá mér næsta ár vinnumaður?“ spurði hún og lagði áherzlu á
síðasta orðið. Hann brosti íbygginn, en lét hana ekki sjá það. „Ég
er búinn að segja þér það.“
„Ég get aldrei trúað því, að þér sé alvara,“ sagði hún stuttlega.
„En mér er nú samt hreinasta alvara. Ef ég fæ þig ekki, fer
ég eftir árið.“
Hún leit á hann. Hann var kaldur og alvarlegur eins og hann
var vanur.
„Mér finnst þú gætir alveg eins verið næsta ár eins og þetta,
kannske gæti ég þá fengið einhvern annan,“ sagði hún hálfhikandi.
„Eins og þú getir ekki, hvenær sem er fengið annan mann.
Það getur hver sem er fækkað þúfunum í túninu og unnið öll
varaleg sveitastörf.“
„Nei, það geta ekki allir,“ svaraði hún. Ég hef verið að líta
eftir þeim í huganum piltunum hérna í dalnum, og mér finnst ég
ekki geta kosið mér að hafa nema aðeins einn mér til hjálpar við
búskapinn. Um giftingu hef ég ekki ætlað mér að hugsa hvorki
seint eða snemma," sagði kún.
„Hver er hann þá þessi eini útvaldi?“ spurði hann hörkulega.
„Það er Þórður í Seli,“ svaraði hún. Hann er leikbróðir minn
frá æskuárunum og duglegur piltur. Ég hefði kannske getað fengið
hann í vor, ef ég hefði — gengið nógu rösklega fram í því.“
„Því þá ekki að fá hann næsta ár?“
„Hann yfirgefur ekki föður sinn, þegar hann er orðinn ör-
kumla, hann er betri sonur en það geti komið til mála.“
„Þarna sérðu. Ég hef átt að koma til þín. Forlögin eru alltaf
dálítið út undir sig,“ sagði hann og hló hásum, óviðfelldnum hlátri.
„Skrifaðu bara undir samninginn, góða, þetta á svona að verða.“
Þóra hristi höfuðið. „En við þekkjum ekkert hvort annað, og
þykir ekkert vænt hvoru um annað.“
„Það þykir mér nú skrítið. Ég sá þig undir eins út á kross-
messudaginn. Skapstóra, duglega búkonu, — og ég þóttist vita, að
þú værir sú tilvonandi eiginkona, sem mér einum væri ætluð. Er
það ekki nóg?“ sagði hann og brosti þrákelknislega.
„En það verða engin hjón ánægð, ef ástina vantar,“ sagði hún.
Hann varð skrítilega háðslegur á svipinn.
„Nú þú heldur það. En ég hef nú aðra skoðun. Það var ná-
granni minn þarna út á ströndinni, sem trúlofaðist kaupakonu,
sem var á næsta bæ við hann; hún var sunnlenzk og hann sagðist
elska hana svo mikið, að hann gæti ekki lifað, ef hún færi suður
um haustið, svo hún varð þar hjá honum um veturinn. En um
vorið þaut hún í burtu, og það var hlegið að því, að þau hefðu
víst verið búin að éta upp alla ástina þennan stutta samverutíma.“
„Þetta er nú ósköp eðlilegt,“ sagði Þóra. „Þau hafa ekki þekkzt
neitt, og svo hafa þau ekki átt lund saman, þegar til alvörunnar
kom. Svoleiðis fer fyrir þeim, sem ekkert þekkja hvort annað,
eins yrði fyrir okkur.“
„Ekki er ég nú ósköp hræddur um það,“ sagði hann dálítið
hreykinn.
Þóra kepptist við að mjólka „af“ ánum, það var þögn langa
stund, svo spurði hún: „Kom hún svo aldrei aftur til hans?“
„Jú, hún kom aftur, og þau búa saman, en samlyndið er víst
ekki betra en þar, sem byrjað er með minni hita.“
Þóra talaði ekki meira en þetta í það skipti, en var í sömu
óvissunni og áður. Hana langaði til að ráðfæra sig við einhverja
sér reyndari manneskju, en hvar var hana að finna. Ef hún færi
að tala við Möggu um svona lagað, gat það verið komið dalinn á
enda eftir fáa daga. Svo hafði hún víst litla reynslu í þessum
efnum. öðru máli var að skipta með Lísibetu, hún var alvanur
ráðgjafi fólks, þegar svona stóð á. Engin vinnukona, sem hjá
henni hafði verið, hafði þorað að stíga spor í hjúskaparáttina,
nema spyrja hana ráða, og það jafnan reynzt vel. En Þóra var
hikandi að leita til hennar, hún bjóst við, að hún væri gröm við
sig, síðan hún virti tillögur hennar að engu, hvað Þórð snerti. Það
var víst bezt að láta þetta liggja milli hluta, nógur var tíminn.
Það var mikið annríki um fráfærurnar eins og vant 'var.
Lömbin voru setin saman við Hjallalömbin. Þóra og Jói voru
bæði yfir þeim fyrstu dagana. En Sigurður sat yfir ánum upp
á fjalli.
Eitt kvöldið, þegar liðið var að mjaltatíma, kom Magga gamla
inn með fjasi og fyrirbænum. Hjallakýrnar voru nú bara komnar
heim í tún með heimakúnum og nautið búið að týna af sér
hnyðjunni. „Hvernig í ósköpunum fer maður að þessu og hundur-
inn ekki heima?“ vældi hún aumkvunarlega.
„Ætli það sé ekki hægt að koma kálfskrattanum frá sér nema
með hundi,“ sagði Þóra. Hún fór inn í skemmu og fann þar eitt-
hvað barefli, sem hún bjóst við að ekki færi í sundur. Tarfurinn
var tvævetur og illur viðureignar við ókunnuga, og tók til kröftugra
bæna, þegar hann sá hana koma. Magga stóð uppi á fjósinu, lengra
þorði hún ekki.
„Taktu af þér skýluna!" kallaði hún. „Þeir eru alltaf svo æfir
yfir hvítum skýlum.“
„Ég geÞ ekki verið að hafa svo mikið við að taka ofan fyrir
honum,“ kallaði Þóra, og hljóp út túnið. Henni ofbauð að láta
þær háma lengi í sig úr algrónu túninu. Nú hófst eltingaleikur og
ekki var fallegur söngurinn í tarfinum, samt varð hann að láta
undan. Magga skreið ofan af fjósinu og kom heimakúnum í fjósið,
þegar Þóra var komin svp langt í burtu með hinar, að hún bjóst
við, að sér væri óhætt. „O, það verður flest að láta undan henni
Þóru litlu, ef vel á að fara,“ tautaði hún hreykin.
Þóra rak kýrnar út og ofan í mýrarnar, og ætlaði að snúa
heim aftur til að hjálpa Möggu að mjólka kýrnar. Enn var heldur
snemmt að fara út að hjalla og láta inn lömbin með drengnum.
Tarfurinn elti hana, þangað til hann sá torfbunkana, sem Sigurður
hafði vandað mikið til að hlaða sem myndarlegast. Þá lét hann
reiðina bitna á þeim. Þóra hljóp til baka. „Láttu torfið mitt í friði,
kvikindið þitt, eða ég skal kenna þér að láta undan,“ sagði hún og
óð að honum með bareflið á lofti. Hann gekk aftur á bak fyrst í
stað, svo lét hann undan og gekk bölvandi alla leið heim undir
túnið á Hjalla. Líklega var bezt, að hún kæmi honum í fjósið,
Sigþrúður var víst ein heima. Húsfreyja kom suður fyrir bæinn
og bað fyrir sér, kjarkurinn var lítið meiri en hjá Möggu gömlu.
„Er þá ekki nautskömmin búin að týna af sér hnyðjunni.
Hvað skyldi hafa orðið úr mér, hefði ekki forsjónin sent þig mér
til hjálpar?“ sagði hún feginsamlega.
Þóra kom kúnum í fjósið með henni og batt tarfinn. Hún var
sveitt og móð eftir eltingaleikinn. „Þú bíður nú, þangað til tími er
kominn að láta inn lömbin. Ekki ferðu að rölta heim og koma svo
aftur, Magga fer einhvern veginn að því að mjólka kýrnar. Við
fáum okkur svo kaffisopa á meðan, þér veitir áreiðanlega ekki af
að hvíla þig,“ sagði Sigþrúður.
Þóra þáði það. Hún sat ein inni í baðstofunni, meðan húsfreyja
hellti á könnuna. Henni fannst eins og því vera hvíslað að sér að
tala við þessa konu um vandamál sín. Þær voru nákunnugar,
búnar að vera í nágrenni, síðan Þóra mundi fyrst eftir sér. Þar til
og með var Sigþrúður mjög orðvör kona. Hún hafði verið í mörg
ár vinnukona á Nautaflötum, enda bar heimili þeirra þess merki,
það var friðsamt og börnin siðprúð og vel upp alin. Allt var þar
þrifalegt, þó voru efnin frekar lítil.
Sigþrúður hafði verið trúlofuð, áður en hún kynntist Þórarni,
og misst unnusta sinn í sjóinn. Ekki var ómögulegt, að hún gæti
sagt henni eitthvað af sinni eigin reynslu í ástamálum. En það er
allt annað en þægilegt að byrja samtalið. Samt tókst það, þegar
þær sátu yfir rjúkandi rjómakaffinu.