Lögberg


Lögberg - 29.10.1953, Qupperneq 6

Lögberg - 29.10.1953, Qupperneq 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 29. OKTÓBER, 1953 Oft sat Sigurður þungbúinn langan tíma út í fjárhústótt og barðist við ískyggilegan grun, sem afbrýðin hafði vakið í brjósti hans, um að það væri ekki hans barn, sem kona hans gengi með og hlakkaði svo mikið til að eignast. Nóttin, sem lömbin voru rekin, var sí og æ að rifjast upp fyrir honum, og minna hann á öll þessi ástríðufullu kersknisorð, sem þeir félagar sögðu um Þóru. Þú mátt vera mjúkhentari við Þóru, ef henni á ekki að bregða við eftir okkur hérna í dalnum. Kannske höfðu þeir báðir faðmað hana. Hann efaðist ekki um Jón. Ef til vill hafði hún gifzt honum til að hafa hann eins og varaskeifu. Hann var hálf- hissa, hvað það gekk fljótt fyrir sig. Hann spurði Jóa, hvort Jón á Nautaflötum hefði komið þar stundum, þegar hann hefði verið við sjóinn um haustið. „Hann hefur ekki komið síðan á krossmessudaginn," var svarið. „En fór Þóra stundum fram eftir?“ spurði hann ákafur. „Aldrei nema hreppaskiladaginn.“ Þá var hann út á Kárastöðum, hugsaði Sigurður. Svo spurði hann Möggu í öðru lagi, en svörin urðu þau sömu. Hann varð ekkert rólegri, hún hafði vel getað farið í kringum strákinn og kerlinguna, þau voru bæði flón. Loks gerði hann sig blíðan við konu sína og spurði hana, hvenær hún ætti von á þessum litla gesti, sem hún hlakkaði svo mikið til. „Snemma í nóvember." Þetta breytti algerlega málinu. Hann skammaðist sín fyrir tor- tryggnina og varð nú mikið hlýlegri við hana en áður. Strax á krossmessu var byrjað að stinga og rista. Ármann var þar vormaður. Svo var farið að flytja heim trjávið og smiða grindina. Þóra hafði mikið að gera, hún gætti sjálf að lambfénu með Jóa, eins og hún var vön. Túnávinnsluna varð hún að hafa í hjáverkum sínum. Sigurður hugsaði ekki um neitt nema bygginguna. Svo var það einn morgun, að Sigurður kemur fram í eldhús og skipar þeim hranalega að fara að bera allt úr baðstofunni. Hann var búinn að kalla inn í baðstofuna, en þær heyrðu ekki til hans, þess vegna var hann í illu skapi. Þóra fékk allt í einu ákafan hjartslátt, og augar hennar urðu viðkvæmar og titrandi. Hún skildi ekkert í þessu, til þess hafði hún 'ekki fundið, nema þegar hún sat í nábýli við dauðann. Samt flýtti hún sér að bera fram úr baðstofunni. Magga hjálpaði henni möglandi. „Það er nú skárra umturnið. Ætli manni líði nokkuð betur í þessari nýju baðstofu, ef hún kemst þá nokkurn tíma upp.“ Rúmfötin voru látin á stofugólfið. Áður en lokið var að bera fram, var farið að rista ofan af baðstofunni. Það brakaði og brast í súðunum, og þekjan gaf frá sér urgandi, óviðfelldið hljóð, þegar ljárinn skar sundur grassvörðinn, sem bergmálaði í viðkvæmum taugum Góru eins og stunur og vein helsjúkrar manneskju. Hún kastaði sér titrandi ofan í rúmfatahrúguna á stofu- gólfinu. Hún hlaut að vera að veikjast, eða var það kannske af því, að hún var ekki eins og hún var vön? Hún hresstist þó aftur og hugsaði sér að rangla suður og upp á fjall og aðgæta lambféð, það mundi eiga betur við hana. Hún var lengur en hún þurfti við kindurnar, hún kinokaði sér við að sjá gömlu baðstofuna, fyrr en hún væri alveg fallin. Þegar hún kom heim aftur, var ekki annað eftir af henni en veggirnir og heilmikið af fúnu spýtnadrasli og óhemju moldar- hrúga. Magga gamla og piltarnir röðuðu sér á veggina og horfðu ofan í tóttina. „Hvað skyldi hann Björn heitinn segja, ef hann sæi baðstofuna sína,“ vældi Magga gamla. „Það er þó ekki nema ár, síðan hann var fluttur burt úr henni.“ „O, Jaetta er nú ekki annað en þessi vanalegi endir á allri 'armæðunni og stritinu í þessu lífi. Hvað fáum við annað en fúa- spýtur og mold,“ sagði Þórarinn á Hjalla. Þóra bættist í hópinn. „Ég segi það líka,“ endurtók Magga gamla og þurrkaði and- litið með svuntunni. Þóra horfði ofan í tóttina, henni fannst hún standa yfir'gröf í kirkjugarði. Sigurður stökk ofan í tóttina, tók fáeinar fúaspækjur og kastaði þeim rétt hjá Möggu gömlu. „Þið ætlíð þó líklega ekki að fara að skæla ofan í tóttina," sagði hann í sínum óviðfelldna kaldhæðnisróm, „hún var heldur ekki svo ljót, það er ekki furða þó þið syrgið hana,“ bætti hann við. „Okkur hefur nú liðið svo vel í henni,“ svaraði Magga. „Þóra á allar æskuminningarnar bundnar við hana. En hvað er nú framundan fyrir henni?“ Þóra sneri sér við og gekk burtu. Það gerði gamla konan líka. „Déskotans sérvizkan í þessu kvenfólki," tautaði Sigurður. Þetta var alveg rétt hugsaði Þóra. Æskuminningarnar, sem tengdar voru við þessa hrörlegu baðstofu, voru að hverfa, þess vegna hafði henni liðið svona illa, meðan verið var að rífa hana. En hvað var framundan, eins og Magga hafði spurt. Það var ein- kennilegt, hvað ógreindar manneskjur geta talað skynsamlega stundum. Skynsemin svaraði þessari spurningu: Löng, erfið ganga með þessum kaldlynda förunaut, sem aldrei gæti skilið hana — eða hún hann. Um skilnað hugsaði hún ekki framar. VORANNIR Daginn eftir kam enn nýr verkamaður utan af strönd. Hann átti að hlaða veggina. Magga rausaði um alla þessa fyrirhöfn við hlóðarsteinana og felhelluna. „Það hefði verið nær að láta gömlu baðstofuna standa eitt árið ennþá, en reyna að koma áburðinum ofan í túnið á venjulegum tíma. Fyrir utan það, sem þyrfti ofan í þetta allt saman í hverja máltíðina. Eitt kvöldið kom Erlendur á Hóli skeiðríðandi heim í hlaðið. Hann þurfti að finna Þórarinn á Hjalla. Sigurður var að flytja heim hnausa til hleðslukarlsins, en sagði Möggu að bjóða gestinum kaffi. Þóra var að mala úti á túni. Magga beið í dyrunum, meðan hann lauk erindinu við Þórarinn, þegar hann kom heim á hlaðið og fór að leysa Dreyra frá hestasteininum, sagði hún honum, að kaffið byði eftir honum á könnunni. „Ég er á hraðri ferð, Magga mín. Það er sama sem þegið,“ svaraði hann og bjó sig til að stíga á bak. Svo spurði hann allt í einu: „Lætur Sigurður konuna standa eina við skítavélina?" Magga færði sig fast til hans. „,Ójá, þetta er nú allt dálætið, Elli minn. Hún má hamast við ávinnsluna hverja stund, sem hún hefur afgangs, en þeir eru fjórir við þessa byggingu. Hleðslukarlinn klappar hverjum hnaus, áður en hann leggur hann í vegginn, þetta er víst óttalegur „puðari". —“ „Hann gerir það líka vel“ — skaut hann inn í. Hann hafði gefið hleðslunni auga, meðan hann stanzaði. „Það er ekki svo mikið, að hann lofi henni að hafa drengang- ann til að „láta upp í“ heldur snýr hann honum líka,“ hélt Magga áfram áköf. „Og svo má hún alltaf vera með annan fótinn við skepnurnar. Ég er hrædd um, svona þér að segja, að það sé öðruvísi afkoman en hjá Fúsa greyinu. Það gerir víst ekki betur en að tvævetlurnar fæði. Og eitt gemlingstetrið klæddist alveg úr hýðinu hérna um daginn. Hún gefur honum alltaf inni, svo hann sjáist ekki. Hvernig heldurðu honum Birni heitnum hefði líkað?“ Erlendur hló napurt. „Déskotans skussinn að geta ekki fóðrað almennilega á öðrum eins heyjum og voru í fyrrasumar. En þetta er nú siðurinn utan af ströndinni að gefa skepnunum aldrei æta tuggu. Þar þekkist engin fjármennska. Og vertu blessuð." „Það er nú skárri asinn á þér,“ sagði Magga, hún hefði haft gaman af að skrafa ögn meira. Hann reið út á túnið til Þóru og talaði við hana dálitla stund án þess að fara af hestbaki. Morguninn eftir kom þrekvaxinn kvenmaður gangandi frá Hóli og óð ána og gekk berfætt yfir engjarnar heim að Hvammi. Þetta var vinnukona frá Hóli. Hún klæddi sig í sokkana inn í elhúsi hjá Möggu. „Hvað er þessi stelpubrussa að fara?“ spurði Sigurður konu sína út við læk. „Hún ætlar að hjálpa mér til að koma ofan í túnið. Erlendur bauð mér það, og mér datt ekki í hug að neita því. Ég kann illa við að grásið vaxi yfir hlössin og er líka óvön að vera á eftir öllum öðrum með vorverkin,“ svaraði hún. Hann sótroðnaði. „Ég hefði sjálfsagt getað látið hann Manna hjálpa þér heldur en að fara að sækja vinnukraft til Erlendar á Hóli. Láttu stelpuna fara undir eins,“ sagði hann æfur. En þegar þær voru farnar að mala, kom Ármann og sagðist eiga að hjálpa þeim. Nú fór það að ganga, og ekki var það þegjandi fannst Sigurði. Hlátrarsköllin og masið heyrðist alla leið heim að bæ, en það var ekkert út á það að setja, fyrst það hélt áfram við verkið. Manni var símalandi, hvar sem hann var og hafði lag á að koma öllum 1 gott skap. Það veitti heldur ekki af; konan hafði verið heldur þurr á manninn nú um tíma. Klukkan átta kvöldið eftir var búið að mala og ausa allt túnið. Magga hafði til kaffi og heitar lummur, þegar fólkið kom inn. Jói hafði verið að leita að tvævetlu, sem Sigurður átti, allan daginn, en ekki fundið hana og kom heim rétt í því, að þrenningin var að gæða sér á kaffinu inn í búri. „Aumingja barnið!“ vældi Magga. „Ósköp ertu víst orðinn lúinn að rangla þetta í allan dag, og svo sýnist mér ekki betur en þú sért búinn að botnganga skóinn þinn, þar til og með. Þér veitir ekki af að fá lummu.“ „Og sokkinn líka,“ bætti Jói við. Sigurður opnaði búrið, hann var í slæmu skapi yfir því að tvævetlan fannst ekki. Þóra bauð honum strax kaffi. „Nei, ég er ekki vanur að drekka kaffi svona seint,“ svaraði hann. „En mér datt í hug að það væri hægt að ná í eitthvað af gemlingum og rýja þá í kvöld.“ „Hverjum ætlarðu það verk?“ spurði Þóra stuttlega. „Ykkur þessum þremur,“ svaraði hann. Þá var Þóru nóg boðið. „Drengurinn er slituppgefinn og þar að auki skólaus, hann fer að hátta bráðum. Og ég get þegið að hvíla mig líka. Gemling- arnir geta víst beðið til morguns." Hann skellti aftur hurðinni og skálmaði þegjandi í burtu. Um kvöldið trúði Magga felhellunni fyrir því, að hann dræpi alla með þrældómi þessi kauði, ef hann mætti ráða. NÝJA BAÐSTOFAN Fyrir fráfærur var svo nýja baðstofan komin upp í hólf og gólf með stórum glugga í suðurstafninum. Þóra var svo glöð yfir baðstofunni, þegar búið var að flytja í hana, og ný eldavél var komin í fremsta stofugólfið og kommóða, sem Sigurður gaf henni, að hún lagði hendurnar upp um háls honum og kyssti hann tvo kossa með brosandi vörum. „Nú finnst þér hún nokkuð skárri en gamla hróið?“ spurði hann glottandi. „Mér sýndist þú sakna hennar svo mikið.“ „Það var nú bara af því, að ég var svo lasin þann dag,“ svaraði hún. „Það hlýtur að verða gaman að hafa sólskin í baðstofunni allan daginn.“ Hún hafði keypt ramma utan um myndirnar, sem hún átti, þær voru ekki margar, bara af Nautaflatahjónunum hvorum- tveggju og föður hennar, hana hengdi hún á þilið yfir hjóna- rúminu. Hinar lét hún standa á kommóðunni. Sigurður hafði orð á því við Möggu, að það væri óviðkunnan- legt að hafa myndir af „þessu fólki“ alltaf fyrir augunum. Hún horfði, á hann og skildi ekki, hvað væri að því. N^grannakonurnar, Sigþrúður á Hjalla og Helga á Hóli gerðu sér erindi að Hvammi til að sjá baðstofuna, og Magga bjóst endi- lega við, að Lísibet myndi koma næstu daga og Anna, en sú von brást. En þegar hún minntist á það við Þóru, svaraði hún því bara, að nú ættu allir svo annríkt. Næstu dagana var Sigurður kátur, alveg eins og tilhugalífs- dagana sumarið áður. Eitt kvöldið þegar þau stóðu á hlaðinu og horfðu yfir dalinn skrúðgrænan í ljóma kvöldsólarinnar, slöngvaði hann allt í einu handleggnum utan um hana og kyssti hana á kinnina, sem að honum sneri. Hún sá hann var svo glettinn á svipinn. Kannske var það vegna þess, að hún var farin að gildna, datt henni í hug. Hún hallaði höfðinu að öxl hans og brosti. „Því ertu svona glaður?“ spurði hún hlýlega. „O, það gengur allt svo vel hjá okkur núna, baðstofan komin upp og engjarnar og túnið ágætlega sprottið.“ Hún vonaðist eftir að heyra meira, en hann þagði yfir því, sem gladdi hann mest, það var kistuhandraðinn. Hann var þess fullviss, að hann hefði eitthvað að geyma meira en ýkjurnar úr kerlingunni. Þóra hafði borgað verkamönnunum kaupið sjálf. Reyndar fannst honum það hefði verið tilhlýðilegra að fá honum peningana. En hún var nú svona ráðrík frá náttúrunnar hendi, það þýddi víst lítið að fást um það. Einhverntíma fengi' hann sjálfsagt að sjá ofan í hann, en hann kunni ekki við að biðja hana þess. En Þórarinn hafði gefið honum það í skyn, að allir hefðu vitað að gamli maðurinn hefði lagt fyrir og það ekki lítið. Þessi glaðværðarvíma, sem Þóra bjóst við að væri forsmekkur af hjónabandshamingju, stóð í nokkra daga, þá þurfti Sigurður að bregða sér ofan í kaupstað til að taka út það, sem þurfti fyrir sláttinn. Hann var meiri búmaður en það, að hann væri alltaf að rápa í kaupstaðinn frá heyvinnunni. Um kvöldið, þegar hann kom heim, var auðséð, að skapið var eitthvað úr skorðum gengið. Hann sló til Snata litla, þegar hann flaðraði upp um hann með fagnaðar- látun\ skammaði Jóa fyrir að vera ekki ibúinn að reka í stekkinn og sló með beizlinu í lendina á Rauð í þakklætisskyni fyrir sam- fylgdina. Þóra kom út á hlaðið og vonaðist eftir hlýlegri heilsan, en í þess stað kastaði hann á hana stuttlegu „sæli nú“ og spurði svo í sama tón, hvers vegna hún væri ekki búin að koma fénu 1 stekkinn. „Það liggur víst ekkert á að reka fyrr inn þetta kvöld en önnur,“ svaraði hún. Þá sljákkaði í honum. „Nú, mér finnst vera orðið svo framorðið.” „Klukkan veit betur en þú,“ sagði Þóra og sótti vatn í fötuna, sem hún hélt á, í lækinn. „Hún hefur víst alltaf gengið vitlaust þessi nýja klukka," sagði hann jafn stygglega og áður. „Það er ekki satt, hún gengur alveg rétt,“ svaraði hún í sama tón. Hann gekk til baðstofu. Magga gamla var inni að búa um rúmin. Þóra heyrði, að hún fór að spyrja hann eftir, hvort hann hefði komið með smjörsaltið, sem hún hefði minnt hann á, þegar hann fór. Hann anzaði engu. Hún spurði þá aftur og talaði öllu hærra, eins og hún áliti, að hann hefði ekki heyrt til sín. „Skárri er það bölvaður saltjarmurinn í þér, það fékkst víst ekkert salt eða þá að ég kærði mig ekkert um að spyrja eftir því, þær mjólka líklega ekki svo mikið rollurnar, þegar þær eru komnar í kvíarnar, hafi þær ekki fætt lömbin í vor“ — hreytti hann úr sér. Magga var horfin fram úr baðstofunni á sömu stundu. Ekki eru lengi að breytast skapsmunirnir, hugsaði Þóra og hraðaði sér út að stekknum til að hjálpa Jóa að reka inn. Sigurður kom ranglandi á eftir henni með fýlusvip. Þau töluðu varla orð saman, það sem eftir var kvöldsins. Daginn eftir, sem var sunnudagur, fór Magga að tala utan að því, að farið væri til kirkju. „Á að messa á Nautaflötum í dag?“ spurði Þóra fáfróð. „Ósköp eru að heyra þetta manneskja. Ertu þá hætt að fylgjast með messudögunum, hvað þá að sækja kirkjuna," sagði Magga. „Ég man það ekki, þegar ég fer aldrei til kirkju, en mér finnst svo stutt síðan ég sá fólk vera að ríða til kirkjunnar. Þú skalt bara fara, Magga mín, núna fyrir mestu annirnar. Ekki verður seinna vænna.“ „Mér finnst þú ættir að koma líka. Það er orðið fáferðugt milli bæjanna þykir mér,“ sagði Magga. „Jói má fara með þér,“ svaraði Þóra, um leið og hún fór inn. Magga fór að búa sig, en Sigurður aftók, að Jói fengi að ’fara, hann þyrfti að hafa ærnar vísar, því í kvöld yrði „tekið undan.“ Það dugði ekki að þjarka um það, þegar hann var þá svona til skapsmunanna þessi nýi húsbóndi. Skyldi sá kauði verða vinnuhjúasæll tautaði Magga við sjálfa sig, þegar hún trítlaði fram grundirnar. Það var ekki ómögulegt, að hún kæmist að því, hvað hefði komið fyrir 1 skírnarveizlunni. Eitthvað var það, sem sat í þeim báðum. Þóra var ekki orðin svo gildvaxin, að hún gæti ekki farið á mannamót. Hitt leyndi sér ekki, hvað Sigurði var illa við nágrannana. Hún hafði oft séð hann blása á myndirnar á kommóðunni. Það var áreiðanlega eitthvað meira en hugarburður, að eitthvað hefði komið fyrir. „Hvern fjandann ætlar kerlingarálkan að flækjast til kirkju núna,“ sagði Sigurður við Þóru út á hlaðinu, þegar Magga fór suður túnið. „Bara til að bera slúðursögur út af heimilinu.“ Þóra var ergileg út af skapvonzku hans og svaraði því heldur stuttlega: „Er það vanalegt, að fólk fari til kirkju í þeim tilgangi. Kannske er það siður ykkar þarna á ströndinni." Það var eins og kveikt í honum,- „Þú skalt láta það vera að hnýta í strandafólkið! Þeir eru áreiðanlega merkilegri, þegar öllu er á botninn hvolft, ’en kunn- ingjarnir þínir hérna í dalnum, þó þeir séu tungumýkri,“ sagði hann og stikaði hlaðið fram og aftur. „Það er nú ólíkt,“ sagði hún og glotti dálítið ertnislega að þessu gamla og nýja þrætuefni. „Það var svo sem ekkert ómerkilegt, sem ég frétti í gær eftir einur* góðkunningjanum þínum hérna í dalnum,“ hélt hann áfram. „Þess vegna hefurðu verið þetta litla geðvondur, þegar þú komst heim. Ekki getum við gert að því, þó þú fréttir einhvern þvætting niðri í kaupstað.“ „Það hefur einhver borið það út af heimilinu.“ „Við förum nú ekki svo langt, að það sé hægt að bera eftir okkur sögur,“ svaraði Þóra. „Hvað svo sem fréttirðu?" „Ég trúi, að Erlendur vinur þinn á Hóli hefði verið að segja bændunum frá því yfir kaffiborðinu á Kárastöðum, þegar þingað var, að ærnar hérna hefðu ekki fætt og gemlingarnir hefðu skriðið úr. Þetta er svo sem ekki ósómalegt eins og flest annað, sem hann lætur út úr sér,“ þusaði hann. „Ég trúi ekki, að Elli hafi sagt þetta,“ sagði Þóra, en roðnaði þó talsvert. „Þarftu að nefna hann tæpitungu nafni?“ spurði hann æstur. ,.Ég hef alltaf kallað hann þessu nafni, síðan við lékum okkur saman í æsku,“ svaraði hún þykkjulaust. Hún fann til þess, hvað Sigurður var einmana meðal dalbúanna. „Því kallarðu þá ekki Jón á Nautaflötum Nonna?“ spurði hann. „Af því hann hefur aldrei verið kallaður annað en Jón,“ svaraði hún rólega. Svo varð dálítil þögn. „En það var þá Jakoþ hreppstjóri, sem svaraði honum,“ tók Sigurður til máls, „og sagðist hafa séð féð hérna í vor, þetta væri hæfulaust. Það er eins og sá maður eigi ekkert skylt við aðra hér í dalnum.“

x

Lögberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.