Lögberg - 14.01.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 14.01.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 14. JANÚAR 1954 „Það er nú eitt af því, sem við getum ekki fengið svör við, góða mín“, svaraði Lísibet alvarleg, „Ég vona að himnafaðirinn gefi ykkur annað barn í hennar stað. Þá verðurðu ánægð með að hugsa til þess, að hún er saklaus engill, sem bíður okkar á fyrir- heitna landinu. Geymdu litlu fötin hennar vel og reyndu að hugga þig við, að hún er hætt að þjást, blessunin litla“. „Drottinn sendir okkur mótlætið til að styrkja trúna og snúa huganum frá gjálífinu og alvöruleysinu“, sagði Jakob hreppstjóri hátíðlega. „Vertu viss um það, barnið mitt, að þetta verður okkur á einhvern hátt til blessunar, eins og allt annað, sem hann út- hlutar okkur mönnunum, þó við skiljum það ekki. Lestu um góða, guðhrædda manninn Job, hvað guði þóknaðist að láta hann reyna margt og mikið; þ’ó gat hann alltaf lofað hann og vegsamað“. t Hann lagði biblíuna ofan á sængina hjá ungu, sorgmæddu móðurinni. Hún nlýddi eins og gott barn og fletti upp þar, sem hann sagði henni og fór að lesa. Eftir lesturinn sagði hún þungt hugsandi: „Finnst þér þetta ekki óskaplegt, pabbi, að guð skyldi / taka frá honum öll börnin?" „Hann gaf honum jafn mörg börn aftur“, svaraði hann. „Heldurðu, að þetta sé satt, allt sem stendur í biblíunni?" spurði hún hikandi. „Já, góða mín. Láttu engan telja þér trú um annað en biblían sé heilagur sannleikur. Þú skalt lesa iðulega í henni, þá sann- færistu um það. Ég vona, að þú látir hana ekki liggja rykfallna, þegar ég er hættur að lesa í henni, og kennir drengnum það líka, ef hann lifir hjá þér. Aðrir gera það líklega ekki“, sagði hann hryggur. „Ég skal gera það, pabbi. Ég skal kenna Jakobi snemma að lesa, strax og hann verður orðinn talandi“. Daginn eftir var allt borið í burtu úr húsinu, sem minnt gæti á litlu stúlkuna. Fötin^hennar voru sléttuð og látin ofan í kommóðu- skúffu. Jakob litli var sá eini, sem minntist á litlu systur, sem væri hætt að gráta og svæfi frammi í stofu, en saknaði hennar þó ekki neitt úr baðstofunni, sagði bara, þegar hann sá mömmu sína gráta, að hann ætlaði að vera góður og hafa ekki hátt, svo litlu systur gæti batnað. Enginn annar minntist á litla engilinn, sem allir söknuðu. En fólkið í dalnum sagði, þegar það heyrði að litla stúlkan, sem var lifandi eftirmynd föður síns, væri dáin, að nú segði Lísibetu húsfreyju fyrir. LITLA LIKIÐ Heyskapurinn hafði gengið vel seinni part sumarsins. Hvert heyið eftir annað var „borið upp“. Sigurður í Hvammi var orðinn ánægjulegri á svipiryi og þægilegri í sambúð en hann hafði verið, meðan óþurrkarnir gengu. En alltaf var þó hugurinn jafn þungur til nágrannanna, þótt hann léti það aldrei uppi. Þóra átti líka bágt með að útrýma gremjunni, sem heimsókn Lísibetar hafði valdið henni, þótt hún fyndi, að hún hefði haft gott af því sjálf. Nú fór hún ekki út, nema að Jói væri í bænum með Möggu, til að hugsa um drenginn og sækja vatn og eldivið. Magga var ekki lengur manneskja til þess. Sigurður var alveg hættur að setja upp fýlusvip yfir því. Það þýddi ekkert, fyrst Þóra hafði tekið það í sig. Það munaði líka um hana, þegar hún kom út. Þau voru að binda það síðasta úr engjunum, þegar Sigþrúður á Hjalla kom til þeirra og afhenti Sigurði gangnaseðilinn. Hún var alvarlegri en hún var vön. „Hefurðu heyrt það?“ spurði hún Þóru, „að litla stúlkan á Nautaflötum er dáin. Þvílík sorg. Þetta indæla, hraustlega barn“. Hún tárfelldi af samúð og strauk sér um augun með svuntunni. Þóra horfði á hana, hissa. Það hafði henni ekki dottið í hug, að kæmi fyrir, þó að barnið væri veikt. Lísibet hafði bætt of mörgu barninu, til þess að hægt væri að efast um, að þetta barn lifði. Hún hafði alltaf dregið að fara fram eftir til að sjá barnið, þótt hana hefði langað til. Hún þóttist vita, að Sigurði þætti það ekki beint þarflegt, og ætlaði að láta verða af því einhvern tíma þegar hann væri ekki heima um haustið. Sigurður glotti köldu, ósvífnislegu glotti upp úr lestrinum. „Þið hafið náttúrlega álitið, að það væri ómögulegt, að dauðinn vogaði sér að taka það, fyrst það var af Nautaflataættinni“, sagði hann. Þóra kafroðnaði, en Sigþrúður varð fyrir svörum: „Það datt mér ekki í hug“, sagði hún móðguð. „En hitt er óvanalegt, að Lísibet geti ekki bætt börnum. Ég held, að hún sé skammlíf blessuð, manneskjan“. „Þá held ég, að þið settuð upp dökkt, dalbúarnir“, sagði hann með sömu kaldhæðninni og áður. Sigþrúður sneri sér að Þóru og talaði við hana dágóða stund í hálfum hljóðum, svo kvaddi hún og fór. Sigurður var farinn að reyra sátuna. Þóra fór að setja á úr næsta sæti, svo hann tæki ekki eftir því, hvað henni var brugðið. Hún var fátöluð það, sem eftir var dagsins, og gat ekki um annað hugsað en litla barnið, sem hún hafði verið búin að hlakka svo mikið til að sjá, en dregið það allt of lengi. Sigurður var aftur á móti óvanalega kátur og fór meira að segja að spauga við Maríu um Ármann. Það var hann þó ekki vanur að gera. „Heldurðu, að hann fari ekki bráðum að senda þér fargjald. Ekki verður hann nú líklega lengi að safna nokkrum dollurum, jafn fésæll maður“. „Reyndu að skipta þér ekkert um það“, svaraði hún gröm, „þú lagðir ekki svo gott til þeirra mála. Það má segja, að það hlakki í þér skálkurinn yfir því, að þetta blessað barn er dáið“, bætti hún við. Sigurður leit hornauga til Þóru. Hún lét sem hún heyrði hvorki né sæi. „Það skæla sjálfsagt nógu margir yfir því, þótt ég geri það ekki. Það er líka jafn gott, þó það baði ekki alltaf í rósum, dótið það“, svaraði hann, kergjulegur á svip. „Þú ert meiri óartargemlingurinn. Þú ættir þó að muna, hvernig Lísibet kom fram við ykkur í fyrra haust“. „O, hún vinnur upp öll sín gæði, konan sú“, sagði hann tóm- lega. Hún rausaði heilmikið um vanþakklæti og ótuktarhátt, en hann fjarlægðist hana og anzaði engu. Hann bjóst við, að konu sinni myndi lítið gefið um þessar samræður, þótt hún léti þær afskiptalausar ennþá. Eftir þetta unnu allir þegjandi, þangað til seinasta sátan var látin til klakks og María kastaði rakapokanum ofan á milli, þá sagði Þóra: „Sigþrúður var að biðja mig að lána sér Maríu í band á morgun. Þau ætla að hirða úr engjunum11. „Nú, gat hún ekki talað um það við mig?“ sagði Sigurður þurrlega. Það leit út fyrir að, að fólkið ætlaði seint að taka það með í reikninginn, að hann væri húsbóndi á þessu heimili. „Hún hefur sjálfsagt ætlazt til, að ég minntist á það við þig“, svaraði Þóra. „En sVo er nú María ekkert frekar hjá þér en mér“. „Ég skal vera hjá þeim, ef þú óskar þess“, sagði María og sneri máli sínu að Þóru. „Já, mér þætti vænt um það“, svaraði hún. Sigurður lét brýnnar síga, en stillti sig um að þrefa við Þóru. Ekki var á bætandi, hvað. skapsmunina snerti, Þeir voru framúr- skarandi stórir og ósveigjanlegir nú í seinni tíð. Morguninn eftir fór María ofan að Hjalla, eins og um hafði verið talað. Sigurður var farinn að gera fyrir heyin með Jóa, áður en orðið var full-bjart. Nú voru göngurnar á næstu grösum og því sjálfsagt að ljúka því af áður. En Þóra gekk hugsandi að því, sem hún þurfti að vinna. Hún hafði ekki sofið mikið um nóttina. Það vaf einhver skipandi rödd í sál hennar, sem sagði henni að fara fram að Nautaflötum og sjá barnið, áður en það yrði kistulagt, fyrst hún hefði aldrei látið verða af því, meðan það lifði. Hún vissi, að hún yrði aldrei róleg, fyrr en hún hlýddi henni. Hún hafði fataskipti og sagði Möggu, að hún ætlaði að ganga til næsta bæjar. Og áður en hún vissi af var hún komin fram undir merki. Hún gat ekki annað en farið. Þó hún hefði verið búin að fastsetja - sér að koma ekki á þetta heimili svo og svo lengi, kannske ekki í mörg ár, var hún nú komin hálfa leið þangað. Hvernig skyldu við- tökurnar verða? Seinast, þegar hún fór þaðan, Kvaddi hún ekki sumt af fólkinu. Það var sjálfsagt ekki búið að gleyma því. Þegar hún kom heim á túnið, kom svolítill, vaggandi maður á móti henni, í röndóttri peysu og bláum klæðisbuxum með gylltum hnöppum utan á skálmunum. Ofurlítil ljósleit húfa sat ofarlega á kollinum. Fram undan henni var glóbjart, silkimjúkt hár. Hann dró á eftir sér dálítinn, rauðmálaðan tréhest í skrautlegu bandi. Hann stanzaði rétt fyrir framan hana og starði á hana athugulum, saklausum barnsaugum. Hún kraup niður, tók hann í faðm sinn og kyssti hann. „Elsku Jakob minn, hvað þú ert orðinn stór og fallegur drengur“. „Já. Jakob faddejur og gójur“, sagði barnið ánægjulegt á svip og vafði handleggjunum um háls henni og kyssti hana marga hljóðlausa kossa, með hálfopnum munninum. Hún fann óþekkta sælukennd gagntaka sig, og augu hennar fylltust af tárum. Því hafði hún neitað sér svona lengi um þessa ánægju, að sjá þetta elskulega barn, með augu föður síns og líkingu hans í hverjum drætti í andlitinu, þótt hann líktist móðurinni meira. „Þú ert að leika þér úti með hestinn þinn, elsku vinurinn litli“, sagði hún og brosti gegnum tárin. Drengurinn tók dýrgripinn upp og sýndi henni hann. „Dódói gefa Jakob estinn“. „Gaf Tóti þér hestinn? Ósköp er hann fallegur. Nú skal ég bera þig og hestinn heim“. Hún tók drenginn á handlegginn og bar hann heim á hlaðið. Þegar þa ugengu fyrir stofugluggana, sagði Jakob: „Lilla systi dáin og hædd að gráta“. Þóra leit á gluggana. Tjöldin voru dregin fyrir. Þarna inni var víst þessi litla stúlka, sem hún ætlaði að sjá. Hún kunni ekki við að ganga inn eins og hún var vön, heldur stanzaði í dyrunum og beið þess, að einhver kæmi fram. Jakob teymdi hestinn sinn inn göngin, en hún varð að hjálpa honum við hvern þröskuld. „Þetta er vesaldar reiðskjóti“, varð Þóru að orði, þegar hún sá erfiðleikana, sem hann olli eiganda sínum. Þá var stofuhurðin opnuð til hálfs, og Jón stóð í dyrunum, strangur og kaldur á svip. Hann hafði heyrt, að einhver ókunnugur var að tala við Jakob. Þóra bauð góðan daginn og heilsaði með handabandi. Hann tók fast og hörkulega í hönd henni. „Þú komin, Þóra, til að gleðjast yfir sorg minni“, sagði hann beisklega. Hún roðnaði og tárin leituðu fram í augun í annað sinn. „Þegar ég sagði þessi heimskulegu orð, vorum við bæði reið, og vissum ekki, hvað sorg var“, svaraði hún stillilega. „Nú hefur hún heimsótt okkur bæði. Þú kómst til mín, þegar pabbi sálugi dó, og mér þótti vænt um. Því má ég þá ekki koma hingað núna?“ Það var eitthvað næstum biðjandi í rödd hennar. Hann hafði látið hurðina aftur, eins og það væri of gott fyrir hana að sjá inn í stofuna. „Því komstu ekki fyrr?“ spurði hann talsvert hlýrri. „Mér datt ekki í hug, að litla stúlkan yrði tekin svona fljótt frá ykkur. Mig langar til að sjá hana, áður en hún hverfur alveg“, sagði hún vonbetri um úrslitin. Hún fann, að hún var að vinna. Hann opnaði hurðina. „Gjörðu svo vel“, sagði hann kuldalega. Hún gekk inn í stofuna hálf hikandi. Þetta voru óneitanlega kaldar móttökur, en hún átti kannske ekki betra skilið. Það var bjart í stofunni, þótt tjöldin væru dregin fyrir gluggana. Á litla borðinu, þar sem hálstau og vínflöskur höfðu verið síðast, þegar hún kom hér inn, lá litla líkið vafið í snjóhvítu líni. Anna sat á stól rétt hjá. Hún hafði auðsjáanlega verið að máta, hvað líkhjúpurinn átti að vera síður. Hún klippti efnið í sundur, skjálfhent og tárfellandi. „Hér er kominn gestur, góða mín“, sagði Jón og breytti alger- lega um tón. „Þóru langar til að sjá litla líkið, áður en það verður látið í kistuna“. ,,Æ, hvað það var fallega gert af þér, Þóra mín“, sagði Anna, þegar þær höfðu heilsazt, „en þú hefðir átt að koma fyrr. Hún var svo falleg, alveg eins og hann, og það þótti öllum svo vænt um, að hún skyldi líkjast í þá ættina. Sjáðu, hvað hún er indæl“. Hún tók sveitadúkinn ofan af andlitinu. Þóra lagði höndina ofan á kalt ennið. „En hvað hún hefur verið falleg, og haft svona mikið hár. Ég var búin að hlakka svo mikið Id að sjá hana“, sagði Þóra alvarleg. Hún barðist við grátinn, en tókst þó að hafa vald á tilfinn- ingum sínum, af því Jón var viðstaddur. „Drottni þóknaðist að taka hana til sín“, kjökraði Anna. „Þess vegna má maður ekki mögla“. Jón stóð við gluggann og horfði út. Svipur hans var orðinn jafn kaldur og hann var í fyrstu. Jakob hreppstjóri kom fram í stofuna úr litla svefnherberginu, með heilmikið af bréfum og bókum í hendinni. Hann heilsaði Þóru alúðlega. „Þú ert nýr gestur, Þóra mín. Ég býst við, að Önnu þyki vænt um að sjá þig. Þið ættuð að koma inn í hlýjuna; það er svalt hér frammi. Svo er ekki hollt fyrir hana að horfa á þetta bliknaða blóm. Hún hefur verið róleg fram yfir allar vonir. Hún veit, að það var Drottinn sem gaf og tók. Lofað veri Drottins blessað nafn“. Þóru fannst bæði kuldi og ásökun í augnaráði hans, þegar hann leit til sonar síns. Jón sneri sér við og horfði á föður sinn, meðan hann gekk fram og lokaði stofunni. Þá gekk hann að borðinu og leit á litla líkið. „Gætir þú lofað og vegsamað Drottinn, sem tæki frá þér svona elskulegt barn?“ spurði hann Þóru. Það var sama beiskjan í málrómnum og þegar hún heyrði hann tala fyrst frammi í dyrunum. Hún hristi höfuðið angurvær. „Ég get ekki svarað þessu. Ég varð fengin, þegar pabbi sálugi fékk að hvílast frá þjáningunum“, svaraði hún skjálfrödduð. „Það var allt annað eða þetta barn, sem átti allt lífið fyrir höndum. Hvers vegna var það látið þjást og deyja? Þó bað Anna þess grátandi hvað eftir annað, að það yrði heilbrigt og fengi að lifa. En hann daufheyrðist við bænum hennar, þessi gæzkuríki himnafaðir, sem þið lofið og vegsamið, þótt hann taki hvern ást- vininn frá ykkur eftir annan. Það verð ekki ég, sem tek undir þann lofsöng“. Hann snerist á hæl frá borðinu og hvarf út úr stofunni. Anna leit á Þóru með augun full af tárum. „Finnst þér ekki voðalegt, að maðurinn skuli tala svona? Ég þekki hann ekki, síðan barnið dó. Hann er alltaf svo æstur og blátt áfram reiður við guð almáttugan. Og svo það, sem er ofboðslegast: Hann drekkur. Hann var að loka skápnum þarna, þegar ég kom fram núna áðan“. Hún benti á lítinn skáp í stofuhorninu. „Ég veit, að hann hefur verið að drekka vín, því hann bauð mig ekki vel- komna fram í stofuna — með kossi. — Hann hefur vitað, að ég fyndi lyktina. Er þetta ekki hryllilegt, að drekka vín hérna inni hjá líkinu af litla englinum okkar? Ég held bara, að hann verði geðveikur“. „Þú þarft varla að vera hrædd um það“, sagði Þóra hug- hreystandi. Hann þolir bara ekki mótlætið. „Þeir, sem alltaf hafa verið sólarmegin j lífinu, eiga bágt með að vera lengi í frostinu og kuldanum. Hann jafnar sig aftur. Hitt finnst mér engin synd, þó hann bragði vín. Það finnst þeim deyfa sorgina, drykkju- mönnunum, svo þetta er hvorki hættulegt eða hræðilegt, Anna mín“. Þóra lagði sveitadúkinn yfir litla andlitið og gerði kross yfir brjóstið. Anna hélt áfram að kjökra. „I fyrradag fór hann ofan í kaupstað, og ég hlakkaði svo mikið til, að hann kæmi heim, því ég klæddi mig þá í fyrsta sinn. Svo kom Siggi inn og sagði, að hann væri kominn, og svo sagði hann eitthvað við pabba, sem ég heyrði ekki. Þú hefðir átt að sjá, hvað hann pabbi varð fölur, og svo flýtti hann sér fram og mamma líka. Þórður í Seli var nýkominn, það var kallað á hann fram. Og svo eftir langan tíma kom mamma inn og sagði, að Jón væri farinn fram að Seli. Það væri veikur hestur þar. Hann hefði beðið ósköp vel að heilsa mér. Og pabbi var svo þungbúinn allt kvöldið. En Jón kom ekki heim fyrr en einhvern tíma undir morgun. Ég veit bara ekki, hvernig hann hefir háttað, án þess að vekja mig. Ég er nærri eins viss um, að hann hefur verið drukkinn, og Þórður hefur haft hann með sér fram eftir, svo ég sæi hann ekki, en enginn hestur verið veikur“. „Hvernig getur þér dottið þetta í hug, að hann pabbi þinn og hún mamma séu að skrökva að þér?“ sagði Þóra. „Pabbi sagði það aldrei; bara mamma. Hún hefur sagt það, til þess ég yrði ánægð. Finnst þér þetta ekki voðalegt? Þetta verður eini skugginn á okkar sambúð. Ég þoli ekki að sjá hann drukkinn. Og pabbi og hann fjarlægjast hvor annan. Ég held, að pabba sé hætt að þykja vænt um hann.“ „Góða Anna mín!“ sagði Þóra hughreystandi, „þú tekur þér þetta of nærri. Þetta lagast. Þú hefur ekki kynnzt því, hvað hann er stórlyndur og á bágt með að láta undan. Ég kannast vel við það, okkur hefur ekkl samið svo vel. Komdu nú inn með mér og reyndu að vera róleg. Honum hefur fundizt hann gleyma sorginni, ef hann drykki“. Það heyrðist eitthvert þrusk frammi í dyrunum eða úti á hlaðinu. Anna hrökk við og leit hræðslulega til dyranna. „Hvað var það?“ spurði hún kvíðafull. Þóra var því alvön, að sjá vinnukonurnar á Nautaflötum sífellt á verði, ef þær töluðu eitthvað, sem húsmóðirin mátti ekki heyra. Nú var Anna orðin eins — vesalingurinn. „Guð hjálpi mér, ef mamma heyrði til mín“, sagði Anna svo átakanlega munaðarleysislega og hjálparvana, að Þóra vafði sterk- um handleggjunum um herðar henni, eins og til að vernda hana. „Og ég sem hélt, að þú værir svo sæl og hamingjusöm“. „Ég er það líka að öllu leyti nema þessu eina. Þú getur ekki trúað því, hvað hann getur breytzt til augnanna, og svo lyktin af honum. Mig langar til að snúa frá honum, þegar við erum háttuð, en ég veit ekki, hvað hún mamma segði. Henni finnst það bara skemmtilegt, af því faðir hennar var drykkjumaður“. Það heyrðist hringlað í reiðtygjum úti á hlaðinu, og mannamál. „Það er einhver gestur að koma,“ sagði Þóra, sárfegin því að Anna sliti huganum frá raunum sínum, þótt ekki væri nema augnablik. „Svona, góðurinn minn! Styddu þig við mig“, heyrðist Jón segja í sínum vanalega, hlýja málrómi. Þarna var einhver á ferð- inni, sem var honum kærkomnari en Þóra. Svo heyrðist léttur hlátur. „Prikið ætti nú að duga, sei, sei. Þetta gengur eins og í sögu“. Hver átti þennan hlátur, sem vakti svo hlýjar endurminningar í huga Þóru. Nú var gesturinn kominn inn í bæjardyrnar. „Hver heldurðu að þetta sé?“ sagði Þóra lágt við vangann á önnu. „Það er Hjálmar í Seli. Mamma sendi hann Sigga eftir honum í morgun. Hann er orðinn svo hress, að hann getur setið á hesti. Það á að drekka engjagjöldin í dag. Hún mamma, henni sést lítið brugðið; þó þótti henni svo vænt um litlu stúlkuna. Bara að ég væri eins stillt. Kannske maður verði það, þegar maður fer að eldast?“ „Finnst þér nú ekki, Hjálmar minn, að himnaföðurnum hafi farizt hálf hlálega við þig í seinni tíð?“ heyrðist framan úr dyrunum. „Dettur þér í hug, að ég fari að kenna honum um það, hvernig fór? Það var dálítil fyrirhyggja af rosknum manni, að þjóta í klettana í bræði sinni og ætla að komast fyrir dýrstyggt fé. Nei, mér bæri heldur að þakka honum þá náð, að hann hefur lofað mér að tóra fram á þennan dag og njóta ástar og umhyggju konu minnar og barna, því aldrei hef ég fundið, hversu gott heimili ég á, eins og síðan ég varð aumingi“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.