Lögberg


Lögberg - 11.02.1954, Qupperneq 6

Lögberg - 11.02.1954, Qupperneq 6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 11. FEBRÚAR 1954 6 ^ .. ^ GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF S --------r „Það er nú svo margt, sem við skiljum ekki, Sigríður mín“, var það eina, sem Þóra gat sagt. Hún þóttist heyra, að nú væri eit-t kastið, þegar Sigga væri óánægð bæði með guð og menn. Jón kom inn og litaðist um eftir Jakobi litla. „Hann er hérna“, sagði Þóra. „Svona er hann góður, að hann vill ekki að Björn fari, þótt hann meiddi hann í dag“. „Það er nú sjálfsagt gleymt fyrir nokkru. Maður er nú létt- lyndur á æskuárunum. Það ættirðu að muna, vinkona", svaraði Jón brosandi. Hann tók Jakob á handlegg sér. „Nú skaltu kveðja litla drenginn. Svo verðum við að sitja inni hjá góðu mömmu, meðan mamma fylgir konunni og Birni litla“. Anna Pétursdóttir bauðst til að draga sleðann. „Þú getur leitt önnu á eftir", sagði hún við Þóru. „Þið þurfið líklega að tala eitthvað saman, eins.og vant er, sem enginn má heyra“. Björn var ánægður, þegar hann var kominn í kassann, því Anna hljóp með hann út túnið. Þóra og Anna Friðriksdóttir leiddust á eftir. Þóra byrjaði samtalið með því að tala um, hvað veðrið væri gott. „Já, mamma vildi líka endilega, að ég færi með þér í þessu góða veðri. Ég vil helzt ekkert fara frá henni, meðan hún er í rúminu“, sagði Anna og andvarpaði. „Heldurðu, að það sé mögu- legt, að hún mamma eigi eftir að verða frísk aftur?“ „Er hún ekki hressari en hún hefur verið?“ sagði Þóra. Hún gat ekki sagt henni sína skoðun, til að auka á kvíða hennar. „Það er nú víst heldur lítið, þótt hún sé að reyna að sitja við gluggann, meðan sólin skín, þá er það enginn bati. Ég get ekki vonað, að hún verði frísk aftur. Ég hef svo oft heyrt til dauðans fyrir utan gluggann, þegar ég er ein inni hjá henni. Þá heyrist þetta þunga fótatak. Það gengur enginn maður þannig. Það er líkast hrossi, og stanzar alltaf fyrir utan gluggann“. „Náttúrlega eru það hrossin“, flýtti Þóra sér að segja. „Þau eru svo oft heimavið“. „Nei, ég hef látið Önnu fara út og hún hefur farið allt í kring- um bæinn, en ekki séð neitt, og hún heyrir aldrei neitt, þótt hún sé ein inni og enginn nema ég. En ég veit, að það er dauðinn. Hann ætlar að taka hana líka frá okkur. Heldurðu, að það sé ekki óttalegt að hugsa til þess? Og svo talar hún stundum svo undar- iega. Ég hef nú engum sagt það nema þér. Eins og þú veizt, segjum við hvor annarri alla skapaða hluti. Hún segir mér, hvað mamma sín hafi verið góð við sinn mann, og þannig eigi allar konur að vera við góða menn, umbera þá og fyrirgefa þeim og ekki vera kaldlyndar við þá, þegar þeir séu drukknir. En hún þarf nú ekki að vera hrædd um það, að okkur beri það á milli, því Jón er alveg hættur að drekka“. „Þér hlýtur að þykja vænt um það“, sagði Þóra, en minntist þess þó um leið, að hún hefði heyrt Þórarinn á Hjalla segja það nýlega í Hvammsbaðstofunni, að það væri sagt, að nýi hrepp- stjórinn væri farinn að súpa heldur mikið á, síðan faðir hans hefði fallið frá. „Svo dreymir mig svo margt, þegar ég er ein. Jón er svo oft í burtu, síðan hann tók við þessari hreppstjórn“, hélt Anna áfram. „Mig dreymir börnin hans Hjálmars í Seli í sömu gröfinni. Stundum eru þau að leika sér þarna niðri, svo kát og felleg. Stundum eru það bara kisturnar. Einu sinni dreymdi mig, að pabbi kom með litlu stúlkuna okkar á handleggnum inn og bað mömmu að fara að koma með sér út í kirkju, og hún fór með honum, klædd í hvítan kirtil. Sigga sagði, að þetta væri feigðar- draumur". „Þú ert bara að hugsa um þetta, áður en þú sofnar. Það er heldur ekki undarlegt, þótt þú sért orðin veikluð af þessu veikinda- stríði“, sagði Þóra , full samúðar með þessari kjarklausu konu. „Já, auðvitað er ég alltaí að hugsa um það. Ég held ég hefði orðið alveg kjarklaus, ef Anna hefði ekki verið hjá okkur. Hún er svo kát og einbeitt“. Þær voru nú komnar út undir merki. Þóra kallaði til Önnu, að nú skyldi hún ekki fara lengra. „Ég ætla að koma þér yfir lækinn“, kallaði Anna á móti. „Björn er ákfalega ánægður með mig fyrir fylgdarmey“. Rétt fyrir ofan þær var stórt holt, snjólaust að mestu. Þar reis upp maður allt í einu og kom til Önnu. Það var Sigurður. „Þarna hefur þú legið og ætlað að sjá, hvort eitthvað af piltunum kæmi ekki með Þóru“, sagði Anna hlæjandi. Þau þekktust vel utan af ströndinni. „Það hefði nú verið heldur skemmtilegra fyrir hana en að hafa þig, tryppið þitt“, sagði hann í sama tón. Þóra var frekar fáorð á leiðinni við mann sinn. Hún gat ekki gleymt því, sem Anna hafði kastað fram í spaugi, þegar hún sá Sigurð. Skyldi það geta skeð, að hann tortryggði hana ennþá. Loks spurði hún hann: „Varstu búinn að bíða lengi þarna í holtinu?“ „Onei, ég sá til ykkar og settist niður. Mér fannst að þær hefðu gott af því að koma út fyrir túnið einu sinni á vetrinum, þessar Nautaflatastúlkur. En hvernig tók Björn sig út þarna hjá öllum ókunnugum?11 „Það gelck allt ágætlega“, svaraði hún, þótt henni fyndist allt annað. Þegar drengurinn var tekinn upp úr kassanum, kom í ljós heilmikið af mislitum völum í kassahorninu og tveir tveggja krónu peningar í hvorum kápuvasa. Þóra þóttist vita, hver hefði leikið á sig, en lét ekki á neinu bera, sagði að Jakob litli hefði gefið honum völurnar, en Lísibet hefði víst látið krónurnar í vasana. Hefði öðru vísi staðið á, hefði hún sent þetta hvorutveggja fram eftir, en nú kom slíkt ekki til mála, vegna Lísibetar. Þóra lá vakandi fram yfir miðnætti. Það var alvanalegt, eftir að hún hafði komið frá Nautaflötum. Þá fannst henni hún vera vansæl og fátæk. Helzt ætti hún aldrei þangað að koma. En nú var það hvorki öfund né óánægja yfir sínu hlutskipti, sem hélt fyrir henni vöku. Anna Friðriksdóttir var ekki öfundsverð núna, heldur það gagnstæða. Nú var það Lísibet og Björn litli, sem hún hugsaði um á víxl, þótt varla væri hægt að hugsa sér ólíkara, konu sem komin var að því að kveðja lífið, og ómálga barn, sem ekki var farið að skilja það að neinu leyti. Hún hafði verið ánægð yfir því, að Björn líktist henni að öllu leyti, og vonaðist til, að honum svipaði að engu leyti til föðurættarinnar. Henni þótti vænt um það, eins og Anna vinkona hennar hafði gloprað út úr sér, samt hafði henni fallið illa að heyra það. En hvað var það hjá því, þegar Anna Pétursdóttir hafði sagt, að Björn litli ætlaði að líkjast föður sínum með ágirndina. Einmitt það lang leiðinlegasta í fari Sigurðar átti barnið að erfa. En þetta gat nú verið eins og hvert annað rugl. Anna var alltaf jafn framhleypin, ógætin í orði, lét allt fara, sem henni datt í hug. En hitt var heldur ekkert ólíklegt, að drengurinn líktist föður sínum. Hann var þó sonur hans, þótt Sigurður elskaði hann ekki eins og föður bar að gera. Það var bara einn þáttur í óhamingju hennar. Og svo það, sem Lísibet hafði sagt: Kannske skilur þú mig betur, þegar þý ert orðin móðir full- orðins sonar. Hún gat tæplega hugsað sér, að þessi litli kroppur, sem steinsvaf í faðmi hennar, yrði nokkurn tíma fullorðinn karl- maður, sem léti líklega við tvær leiksystur sínar samtímis. Hvað skyldi hún segja við slíkan son? Hún gat tæplega hugsað sér neitt annað en þegja og láta það afskiptalaust. Engin stórlát móðir gat farið til ástmeyjar sonar síns og flett ofan af ókostum hans fyrir framan hana — sagt henni, að hann væri flagari, er ekkert ætlaði sér meira með hana en það, sem augnablikið veitir. Nei, hel'dur yrði það eins og. — En að hún skyldi aldrei hafa athugað þetta fyrri. Ég er búin að fyrirgefa þér, Lísibet. Hefðirðu minnzt á þetta fyrr, hefði ég skilið þig fyrr. En þú hefðir aldrei minnzt á það, ef nálægð eilífðarinnar hefði ekki komið þér til þess. Drottinn minn, sú breyting, sem getur orðið á manneskjum á þeim tímamótum. Gott var, að hún fór frameftir. Einhvern tíma kæmi röðin að henni sjálfri. Láttu það, góði guð, bíða, þangað til barnið er orðið fullorðið. SÓLARLAG Næsta dag var sama blíðan. Lísibet hafði setið við gluggann eins og vant var og horft fram dalinn. Þegar sólin hafði fært sig undir fjallið í suðvestri, og dalurinn virtist kólna og sortna eins og stirðnuð ásjóna, bað hún Jón að bera sig yfir í rúmið. Mér finnst sólarlagið eitthvað svo ömurlegt og öðruvísi en það er vanalega“, sagði hún þreytulega. Hann bar hana yfir í rúmið og reyndi að hagræða henni eins vel og hann gat. „Svona, þetta er gott, vinur minn. Seztu hérna hjá mér. Ég þarf að tala við þig“. Honum sýndist hún eitthvað öðruvísi en hún var vön, og bauðst til að kalla á stúlkurnar til að hagræða henni betur. Hún rétti honum höndina, magra og tærða. Hann tók hana og klappaði henni. Svona hafði hún alltaf verið hrein, hvít og falleg þessi gjöfula, fórnfúsa hönd. „Farðu ekki frá mér. Ég þarf að tala við þig“, bað hún. „Ég býst við, að ég sé á förum frá ykkur, þótt ég hefði helzt viljað vera lengur hjá Önnu — einkanlega hjá henni. Hún er svo mikið barn ennþá. En ég hef beðið Borghildi að yfirgefa hana ekki strax. Kannske aldrei. Mundu það, sem ég hef svo oft beðið þig, að koma ekki heim drukkinn. Henni er það svo ógeðfellt. Ég hef ekki gleymt veðrinu giftingardaginn ykkar. Þetta er nú náttúrlega hjátrú, en mér hefur virzt það ganga oft eftir“. „Það getur ekki komið neitt það fyrir, sem breyti okkar sambúð. Þú þarft ekki að vera óróleg þess vegna, elsku mamma mín. Anna er líka svo elskuleg og góð kona, að enginn getur verið öðruvísi en góður við hana“, svaraði hann. „Já, hún er góð stúlka, en það er þó vandbúið við hana, hún er svo veiklynd. Þegar ég er farin, á hún engan að í heiminum nema þig“. „Þér hlýtur að vera illt í höfðinu, mamma. Þú ættir að sofna“. „Nei, ég veit ekki, hvort ég fæ tíma til að tala við þig aftur, við erum tvö ein núna. Ég átti eftir að tala við hann pabba þinn. Það er ekki alltaf ráðlegt að draga það, sem þarf að gerast. Þér finnst það líklega undarlegt, að ég skyldi eiga eitthvað vantalað við hann, eftir öll þessi ár, en svo var nú samt. Það er erfitt að játa yfirsjónir sínar fyrir þeim, sem eru heiðarlegri en maður sjálfur. Hann var svo saklaus og vandaður og treysti mér svo vel“. Rómurinn smálækkaði, eins og hún væri að sofna. Jón þóttist þess fullviss, að hún væri ekki með réttu ráði. Hann klapþaði henni hlýlega á ennið. „Þú ert syfjuð, góða mín. Vertu ekki að þreyta þig með því að tala svona mikið“.. „Já, ég er syfjuð, en ég verð að segja þér þetta, sem ég hafði aldrei kjark til að segja honum. Þér kemur það við, ekki síður en honum“. „Sofnaðu, góða. Við getum talað um það seinna“. „Bara að náðartíminn sé ekki úti“, sagði hún lágt og óskýrt. Svo bætti hún við, ögn skýrar: „Komdu ekki heim til hennar drukkinn. Hún þolir það ekki“. Hún festi svefn samstundis, en losaði hann fljótlega aftur, og sagði sæmilega skýrt: „En hvað dalurinn er fallegur, alveg eins og fyrsta morguninn. Við skulum gangá hérna upp í fjallið og horfa yfir sveitina og bæinn“. Hún dró að sér höndina, sem hann hafði alltaf haft milli handa sinna, eins og hún þyrfti að rétta öðrum hana. Andardrátturinn var þungar og hryglukenndur. Hann flýtti sér að opna húsið. Baðstofan var mannlaus, en framan úr kokkhúsinu heyrðist glað- vær hlátur stúlknanna. Þær höfðu verið að fá sér aukakaffi og ætluðu að láta Siggu lesa í bollana. Hann bað Borghildi að finna sig. Hún setti frá sér bollann, hálfan af kaffi. Hún þóttist heyra á málrómi hans, að eitthvað hefði komið fyrir. Kannske það, sem hún bjóst við að kæmi á hverjum degi nú upp á síðkastið. Þau fylgdust að inn að rúminu. „Þetta er að verða búið“, sagði Borghildur stillilega. ,„Hún sofnar út af þjáningarlaust. Það er það bezta“. Jón hafði með bjartsýni æskumannsins verið farinn að vonast eftir bata síðustu daga. Borghildur sá, að hann titraði af geðs- hræringu. „Ég, sem hélt að henni væri að batna, en hún sagðist vera á förum frá okkur. Ég áleit það óráð. Mér finnst þetta alveg dæmalaust, sem hér hefur komið fyrir á þessu ári. Það má segja, að nú sé skammt milli stórra högga. Lofaðu mér að vera einum hérna inni, meðan ég er að jafna mig. Það er svo erfitt að átta á því, að hún sé farin. Mér finnst vera orðið svo skuggsýnt inni. En hvað lífið getur verið hörmulegt“. Borghildur fór fram í kokkhúsið og sagði, hvað var orðið skipt um inni. Bollarnir voru settir harkalega niður, eins og þeir hefðu átt sök á því, að látið var svona kjánalega á þessari alvörustundu. En hvernig gat okkur dottið í hug að þetta kæmi fyrir, afsökuðu þær sig fyrir sinni eigin samvizku og hurfu á augabragði burtu úr kokkhúsinu, daprar og beygðar af nærveru þessa kalda og óvel- komna gests, sem enn einu sinni var búinn að heimsækja þetta hamingjusama heimili. Spákonan lagðist upp í rúm undir yfir- sæng. Anna Friðriksdóttir tók Jakob litla á handlegg sér og fór fram í stofu til að gráta í næði. Nú var hún orðin foreldralaus í annað sinn. Borghildur þvoði bollapörin og kom þeim á sinn vana stað, föl og alvarleg, og hendur hennar skulfu af óstyrk, þegar hún hugsaði til hans eftirlætisdrengsins síns, sem nú sat inni hjá líki móður sinnar. Aldrei yrði hann svo stór, að hjartað hennar rúmaði hann ekki. Honum hafði sýnzt vera orðið skuggsýnt. Það var sízt að furða, þótt honum fyndist það, hamingjubarninu, sem alltaf hafði leikið sér í birtunni og hlýindunum, þangað til nú, að skuggar sorgarinnar útilokuðu alla geisla. Það yrði áreiðanlega lengi dimmt yfir þessu heimili, eftir fráfall þessarar konu. „Drott- inn, nú er dimmt í heimi. Drottinn, vertu því hjá mér“, andvarpaði hún hálfhátt. En nú voru fleiri, sem þurfti að hugsa um. Þessi góða kona, sem nú var ný horfin, hafði falið henni þunga skyldu á hendur, sem var að annast Önnu, þetta veiklaða barn, sem hún hafði hlúð að með óviðjafnanlegri nákvæmni. Það yrði erfitt að upp- fylla þessa ósk, en það varð hún að reyna. Líklega sæti hún nú ein og grátandi frammi í kaldri stofunni. Borghildur stundi þreytu- lega. Hér eftir hlyti öll fyrirhyggja heimilisins að hvíla á henni. Nú gat hún ekki sótt ráð inn í hjónahúsið, eins og vanalegt var fyrir henni og öðrum. ÓRÓLEG SAMVIZKA Næstu dagar og nætur urðu erfiðir fyrir Þóru. Hún hafði tæplega svefnfrið fyrir sífelldum átölum samvizkunnar fyrir, að hún hefði verið ómerkileg og vanþakklát Lísibetu. Hvað eftir annað lagði hún fyrir sjálfa sig þá spurningu, hvort hún hefði með öfundsýki sinni leitt óhamingju yfir heimili leiksystkina sinna. Hún hafði eitthvað verið að tala um það, að Jón ætti ekki víst barnalán, í stofunni forðum. Kannske jafnvel óskað þess í geðofsakastinu, þótt heimskulegt væri. Ekki átti hún það víst, að hennar barn lifði lengi eða yrði henni til ánægju. Einu sinni spurði hún Möggu að því, hvort hún áliti, að óvild og öfundsýki gerði þeim nokkurt mein, sem það væri borið til. „Ekki held ég það“, svaraði Magga annars hugar. „Það eru bara sumar manneskjur með þeim ósköpum fæddar, að vera sífellt að öfunda einhvern. Ég býst við, að það geri engum mein, nema því sjálfu“. Þóra settist niður og skrifaði Önnu nokkrar línur með Jóa, sem þurfti fram eftir einn daginn. Þar bað hún Önnu að hlífast ekki við að láta sig vita, ef hún gæti gert henni eitthvað til þægðar. Sér væri sönn ánægja að því. í tvo daga beið hún þess með óþreyju að fá svar við þessu bréfi. Á þriðja degi kom Anna frá Brekku allt í einu inn á baðstofu- gólfið og heilsaði glaðlega. Hún var stolt og hnarreist eins og ótamið tryppi. „Ég átti að reka erindi fyrir Önnu“, byrjaði hún. „Þær langar til að fá þig fram eftir til að hjálpa Borghildi við kökubaksturinn, en ég ætla að ráðska hjá Sigurði, ef hann tekur það í mál“. „Er ekki Anna dauðans vesalingur?“ spurði Magga, „kannske í rúminu?“ „Onei, fótavist hefur hún nú, en hún gerir lítið annað en lesa í biblíunni og telja sér harmtölur“, svaraði Anna glettnislega. „En Sigga gamla les í Passíusálmunum og bollum, einstaka sinnum sé ég, að hún er með spil líka“. „Óttalegur galgopi ertu, stelpa“, gat Magga ekki stillt sig um að segja, þótt hún þekkti hana lítið. Anna hafði áreiðanlega góða samvizku, hugsaði Þóra, fyrst hún gat verið svona hress, enda hafði hún alltaf verið hlýðin við Lísibetu og hjúkrað henni nú upp á síðkastið. Sigurður gaf það fúslega eftir, að Þóra færi fram eftir, en helzt vildi hann, að hún kæmi heim á kvöldin, vegna Björns; hann kynni að vera órólegur. Um kvöldið, þegar hún kom heim, sagði Anna við hana ertnislega: „Þú hefur ekki þorað annað en koma heim; hefur vitað, að það var stutt yfir að rúmstokknum húsbóndans, og ekki treyst Möggu til að vaka nógu laust“. „Nú tekur Anna til“, sagði Magga hlæjandi. „Hún hefur hreint látið mig hlæja í allan dag. Það er meiri skrafskjóðan hún er“. „Þú mátt víst lúra þarna hjá honum í nótt, ef þig langar til þess. Ég skal ekki vera óróleg“, svaraði Þóra í sama tón og Anna. „Nei, hvaða ansi ertu skrítin. Ég trúi ekki öðru en ég geti komið þér á aðra skoðun, ef við yrðum lengi saman, eða þú ert þá ólík nöfnu minni á Nautaflötum. Ég þarf nú stundum að stríða henni“, sagði Anna. „Ég fór nú suður í hús til Sigurðar í dag og sótti moð. Mikið ansi var hann nú góður við mig uppi í tóftinni“. „Það var nú það versta, að ég var ekki í húsinu“, gegndi Sigurður fram í og leit vandræðalega til konu sinnar. En hún hló aðeins að gamninu í Önnu og fór að hátta Björn litla, sem var mjög kátur yfir því, að mamma var komin heim aftur. Morguninn eftir fór Þóra snemma fram eftir. Hún mætti manni sínum í bæjardyrunum. „Þú kyssir mig þó vonandi áður en þú ferð“. Hún kyssti hann. Hann lagði handlegginn yfir mitti hennar og kyssti hana aftur. Þetta var svo óvanalegt, að hún varð alveg hissa. „Þú mátt ekki trúa þessu, sem Anna var að segja þér. Ég var ekki í tóftinni, þegar hún kom eftir moðinu“, sagði hann. „Heldurðu, að ég þekki ekki blaðrið í henni Önnu og viti ekki, að hún var bara að reyna að stríða mér?“ svaraði hún hlæjandi. „Svo held ég þú megir vera góður við hana í tóftinni fyrir mér, ef þig langar til þess“. „Getur þér ekki þótt svo mikið í mig varið, að þú viljir eiga mig ein. Það vilja þó víst flestar konur. Væri þér sama, þótt ég hefði fram hjá þ^r, þegar þú ert ekki heima?“ spurði hann og lagði áherzlu á hvert orð. „Mér hefur aldrei dottið slíkt í hug“, svaraði hún. „Kannske er það af því, að hjónaband okkar var ekki stofnað af ást. En þið karlmennirnir álítið það víst órækt merki um mikla elsku, ef konan er blóðhrædd um ykkur. En ég hef aðra skoðun á því. Ég hef nefnilega aldrei ætlað mér að líta utan hjá þér og treysti þér til að hugsa það sama. Og nú er Borghildur áreiðanlega búin að leggja að í vélinni, svo að mér er ekki til setu boðið. Hún hefur aldrei þurft að vaka út af ástar- eða hjónabandsgrillum, og getur þess vegna vaknað á morgnana“. Hún bætti þriðja kossinum við og flýtti sér út. Hann horfði ánægjulegur á svip á eftir henni, þar til hún hvarf bak við ærhúsin. Hann var þó vel giftur, því varð ekki neitað.

x

Lögberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.