Lögberg


Lögberg - 13.05.1954, Qupperneq 6

Lögberg - 13.05.1954, Qupperneq 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 13. MAI 1954 s-... X GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF Hann kastaði gærunni á garðabandið og vatt sér upp í garðann, kraup niður í tóftardyrnunum og reif heyið sundur með höndunum. Hann fann fljótlega það, sem hann leitaði að. í>að var eins og hornið smeygðist upp í greipina. Hann fann til eins konar glímu- skjálfta meðan hann var að komast til dyranna. Loksins gæti hann þó klófest Pál. Til þess hafði hann lengi langað. Hann þurfti ekki að þukla eyrun, svo vel þekkti hann þessa lífvana, loðnu ásjónu. „Veturgamli Gulur minn“, tautaði hann milli læstra tannanna. Nú skal þó þrællinn fá það, sem hann hefur til unnið“. Hann þrammaði heim að bænum og barði harkalega á glerið í gluggakytrunni. „Vaknaðu af syndasvefninum, postuli!“ kallaði hann svo hátt sem hann gat. En enginn vaknaði. „Vaknaðu, mannskræfa!" kallaði hann aftur. „Við þig hef ég erindi!“ „Hvað svo sem gengur á fyrir mannfýlunni?“ heyrði hann Ketilríði segja inni. „Maður gæti hugsað sér, að það væri kominn dómsdagur", vældi Páll syfjulega. „Já, það er einmitt það sem er!“ kallaði Erlendur. „Hann er kominn. Þér er óhætt að fara að taka saman skriftirnar. Ég held hér á gulum hrútshaus, sem þú átt að svara fyrir hvernig kominn er inn í fjárhústóftina þína. Slæmt að hýðingarnar eru ekki lengur löglegar. Ég hefði haft hug á því, að láta þig fá vel útilátið á bakhlutann“. „Það er Drottins að dæma, Erlendur sæll“, vældi Páll fyrir innan gluggann. „Komdu út, refur, eða ég lgeg eld í grenið og bræli þig inni!“ kallaði Erlendur um leið og hann stökk ofan af baðstofuveggnum. Kofarnir hriktu við. Hann gekk fram og aftur um hlaðið nokkra stund, þar til bærinn var opnaður, en það var Ketilríður sem birtist í dyrunum, hálfklædd og berfætt. Innar í göngunum sást Páli bregða fyrir. Erlendi fannst konan heldur svipmikil. „Góðan daginn“, sagði hún með lævísu uppgerðarbrosi. „Hvað gengur að þér, nágranni góður? Ertu svínfullur eða hringlandi vitlaus?“ „Hvorugt er það. En hér er gulur hrútshaus, sem á að koma þér og bóndaræflinum þínum í tukthúsið“. Ketilríður lét sér hvergi bragða. „Hvað kemur hann mér eiginlega við hrútshausinn sá arna?“ spurði hún og glotti háðslega, en bak við glottið brunnu augu hennar af reiði. „Var það ekki ætlun þín að svíða hann í dag og éta hann svo á morgun?“ spurði Erlendur og hélt hausnum fast upp að andliti Ketilríðar. „Nei, áreiðanlega ekki“, svaraði hún. „Ég var búin að hugsa mér að skafa saman ljáarkornið hérna fyrir utan túnið, en ekki svíða fyrir þig hrútshaus“. „Vertu ekki með neinar refjar. Játaðu heldur, að þú hafir látið krakkana rífa hrísknippið, sem er hérna að húsabaki, til þess að svíða hausinn við. Þú notar þau til þess sem illt er, tæfan þín“. „Þú snuðrar með nefið niðri í flestu, fanturinn þinn“. „Gættu að því, Erlendur sæll, að við eigum sama Guð upp yfir okkur báðir“, heyrðist kjökurrómur Páls segja inni í göng- unum. „Já, og hrútshausinn líka“, kallaði Erlendur. „Reyndu að fara að koma fram í dagsljósið, skræfan þín, án þess að hafa kerlingar- flagðið fyrir skjöld eða varðhund“. „Ég er ekki hræddur við þig, Erlendur, þótt þú látir eins og þú sért genginn af vitinu“, sagði Páll og reyndi að hafa vald á skjálftanum í málrómnum. „Ég íklæðist guðs alvæpni, eins og Ritningin býður, svo að ég geti staðizt djöfulsins vélabrögð“. „Þótt þú reynir að vefja öllum blöðum úr Biblíunni utan um þig, þá dugar það lítið. Ég er nú loksins búinn að fá sönnunargögn á ykkur, þrælbeinin ykkar, og nú skuluð þið fá það, sem þið eigið skilið“. Erlendur æddi um hlaðið með hausinn á lofti. Stundum gerði hann sig líklegan til að henda honum inn í bæjardyrnar, en af því varð nú ekki. „Hvar fannstu þennan hrútshaus, og hvað ertu eiginlega að hamast yfir honum?“ spurði Páll, sem kominn var svo utarlega í bæjardyrnar, að nærbuxnalærið sást út undan pilsi konu hans, og rauðan hárlubbann bar yfir öxl henni. „Þar sem þú skildir við hann“. „Þá kæri ég þig, lagsmaður, fyrir að brjótast inn í læst hús“, sagði Páll, sem fannst hann hafa fengið góðan höggstað á Erlendi, sem ekki væri ómögulegt að lækkaði dálítið í honum rostann. En seinustu orðin hrukku ónotalega upp úr honum, ekki ólíkt því, að hann hefði fengið olnbogaskot fyrir brjóstið eða í síðuna/enda sýndist Erlendi það á hreyfingum Ketilríðar, að hún hefði gefið honum bendingu um að þegja. „Þarna sagðir þú sannleikann óafvitandi“, sagði Erlendur. „Þú skalt bara leggja af stað og verða á undan mér, því ég ætla að kæra, það máttu vera viss um“. Erlendur snaraðist í áttina til dyranna, eldrauður í andliti af bræði. Ketilríður hafði alltaf búizt við því, að hann gæti ekki stillt á sér hendurnar, og hafði haft bæjarhurðina til reiðu, ef á þyrfti að halda. Nú skellti hún henni að stafnum og rak loku fyrir. Kveðjuorð voru kölluð úti og inni, ekki neitt sérlega falleg. Erlendur kom við í fjárhúsunum, greip gæruna af garðband- inu og hraðaði sér heimleiðis. ERFISDRYKKJA Helga húsfreyja var nýrisin upp í rúminu og farin að svipast eftir fötunum, þegar bóndi hennar snaraðist inn og kastaði gær- unni á baðstofugólfið og hausnum þar ofan á. „Nú dámar mér alveg. Með hvað ertu, maður?“ spurði hún. „Sérðu það ekki?“ spurði hann hranalega. „Ertu ekki búin að sópa stírunum úr augunum ennþá, svefnpurka góð?“ „Hafðu ekki þennan hávaða, maður, þú vekur barnið. Mikil ósköp er nú að sjá þetta. Ekki hefur nú strákræfillinn sagt annað en það, sem satt var. Þú hefur þó vonandi ekki sagt þeim frá því, að hann hafi vísað okkur á þetta? Hann yrði laminn til óbóta“. Erlendur snerist á baðstofugólfirfu, svo þreif hann í öxlina á karli föður sínum, sem hraut hraustlega í rúmi sínu, og kallaði í eyra hans: „Viltu ekki fara að vakna, gamli skröggur, og sjá hvað liggur hérna á gólfinu". „Hvað svo sem gengur á fyrir þér, Erlendur strákasni?“ kallaði Sigurður gamli og horfði í kringum sig. Svo kom hann auga á gæruna á gólfinu, þá fór hann að skilja ofsann í Erlendi. „Kemurðu með þetta frá. Jarðbrú eða hvað? Og sem ég er lifandi, þá kemurðu með það þaðan!“ kalfaði hann. Erlendur greip hausinn og rak hann alveg upp að andlitinu á föður sínum. „Þekkirðu hann þennan, gamli?“ „O, það er þó líklega ekki Gulur þinn?“ kallaði Sigurður gamli. „Jú, reyndar er það nú hann. Annað átti fyrir honum að liggja en lenda í kjaftinum á Jarðbrúar-hyskinu. En það er líklega ekki fyrsta skepnan með markinu mínu, sem það rífur í sig. Heimt- urnar hafa ekki verið sjálfráðar á þessu heimili í mörg ár. En nú skal skríða til skarar. Jakob heitinn reyndi alltaf að hlífa þeim og telja úr, að ekki yrði lagzt á þetta déskotans greni. En ég býst við, að Jón minn verði ekki alveg eins væginn. Það er ekki ónýtt, að hlífa þessum kvikindum“. „Almáttugur! Að hugsa sér að missa slátrið og mörinn og ristilinn“, sagði Helga og hugsaði til gallsúra slátursins, sem hún skammtaði á hverju máli, og saltkjötsins, sem var á þrotum. „Ætlarðu að drífa í því strax?“ spurði Sigurður gamli og brá hægri hendinni aftur fyrir eyrað, ef unt væri að hann heyrði betur svarið frá Erlendi. „Já, ég fer undir eins fram að Nautaflötum. Mér er orðið heitt í hamsi að rífast við kerlingarflagðið“. „Á, ætli það, að hún hafi þanið kjaftinn! En þú ferð ekki fyrr en þú ert búinn að sötra kaffilöggina. Ég sé, að kerlingarbjólan er komin á fætur og hefur þá líklega skotið upp katlinum áður en hún fór í kvíarnar“, kallaði gamli maðurinn og gaf hornauga koddasnepli, sem var til fóta í rúminu. Þar var kona hans vön að sofa. Upp í til sagði hún, að sér væri ekki vært fyrir hrotunum og olnbogaskotunum úr karlinum. „Kannske ég drekki kaffið áður“, sagði Erlendur og þurrkaði af sér svitann. „Og svo skulum við fá okkur út í, ef nokkur lögg er til, eins og til minningar um Gul minn“. „Fá út í!“ kallaði Sigurður gamli, en var þó ekki alveg viss um, að sér hefði heyrzt rétt. „Áttu nokkuð, hróið mitt?“ „Ójá, einhvern leka“. Karlinn hló hrottalegum, sogandi hlátri og ók sér ánægjulega. . „Það skyldi nú þurfa að fara að halda veizlukorn til minn- ingar um, að maður er búinn að missa hann, og sér ekkert eftir af honum nema gæruna“, sagði húsmóðirin þóttalega. „Maður vonar líka að það verði síðasta skepnan, sem fer ofan í postulaginið. Heldur skal ég leggja eld í kofann, en að þau verði þar lengur“. „O, það yrði reynt að hrófa þeim upp aftur“, kallaði Sigurður gamli. Þá vaknaði yngri sonurinn, reis upp til hálfs, leit í kringum sig og kallaði á mömmu. „Svona er það“, sagði Helga gremjulega. „Börnin hafa ekki svefnfrið fyrir bölvuðum karlinum. Það var víst óþarfi að fara að vekja hann til þess hann færi að hrópa inni í baðstofunni meðan börnin þurfa að sofa“. Erlendur var orðinn svo stilltur, að hann gat farið að stilla til friðar. Á því þurfti hann líka oft að halda, því að samkomulagið á heimilinu var ekki sem friðsamlegast. „Svona, svona, farðu að hella á könnuna, kona, okkur er farið að langa í kaffið. Ég skal sjá um stráksa litla. Það er eðlilegt að allt líti öðruvísi út þegar fólk er orðið næstum heyrnarlaust“. „Það getur þó líklega reynt að halda sér saman“. „Það er eðlilegt, að gamla hróið langi til að heyra hvað talað er í kringum sig. Farðu svo að hella á; ég skal tala við drenginn". „Tala! Heldurðu, að hann sofni, ef þú ferð að tala við hann? Hann má ekki vakna strax, klukkan ekki nema sjö. Þvílíkt bölvað upprif' í þér“, muldraði hún í baðstofudyrunum. Erlendur var setztur hjá drengnum og búinn að gefa honum pelann. „Mér sýndist Þóra í Hvammi vera að hleypa út úr kvíunum, þegar ég kom hérna utan að. Ekki hefur hún vaknað seinna en þú“, sagði Erlendur. „Hún hefur heldur ekki vinnukonu og tengda- móður, sem fara ofan til mjaltanna, svo að hún geti sofið lengur, eins og maddaman á Hóli. Hún er ekki vel ánægð samt, heyrist mér“. „Ég vildi nú sjálfsagt heldur hreyta sjálf ofan úr ánum en hafa kerlingarvarginn á heimilinu, eins og ég hef svo oft sagt, en það verður nú víst ekki hægt að losa mig við þá plágu. Ég verð að reyna að líða það þangað til hún hrekkur upp af, on það lítur út fyrir, að það ætli að dragast“, sagði Helga; hún stóð í baðstofu- dyrunum og aðgætti hvernig Erlendi gengi barnsfóstrið. „Þér bregður við verkin þeirrar gömlu þegar hún fellur frá. Þá kemur morgunkaffið einhvern tíma seint hjá þér“, sagði hann hálf glettinn. „Það lítur út fyrir, að þau ætli aldrei að sálast“, sagði hún, og þokaðist fram úr dyrunum. Drengurinn var sofnaður. Erlendur strauk yfir bjartan koll- inn og brosti hlýlega. „Huggaðu þig við flöskuna, vinur, það er alltaf róandi að hafa hana hjá sér, greyið“. „Alltaf getur þú, Erlendur, verið að kjassa þessa krakka“, sagði Sigurður gamli. „Það var ég, sem leit varla á þau, fyrr en þau voru orðin þó nokkuð stór“. „Það var þó áreiðanlegt að þú sást okkur, þegar þú þurftir að svala þér með því að lemja okkur, hrottinn þinn“, sagði Erlendur og færði sig nær föður sínum, svo að hann heyrði til sín. „Já, það verður að taka til þeirra, svo að þau vaði ekki yfir hausinn á manni“. „Þau voru nú víst ekkert sérlega hlýðin við þig, þó að þú lemdir þau“, sagði Erlendur kíminn. „Verri hefðu þau orðið, ef aldrei hefði verið slegið til þeirra“. „Það skal þá hundur heita í hausinn á mér, ef ég fer að berja börnin mín. Þau verða ekki ódælli en við vorum, það er ég viss um“. „Hún ætlar aldrei að koma með kaffið, konuhengslið“, sagði Sigurður gamli. Annaðhvort vildi hann ekki ræða meira um barna- uppeldið, eða löngunin í kaffið og dropann, sem hann átti að fá út í það, kom honum til að gleyma því. En kaffikannan kom samt, þótt seint gengi, inn á borðið. Erlendur sótti flösku fram í stofu. „Það er lítið í henni, en samt nóg handa okkur. Við verðum bara að vera lítillátir. Ekki má skilja kvenfólkið eftir“, sagði hann, „þá yrði hýr svipurinn á Kölska gamla“. Helga hellti kaffi í stóran bolla og lét kandíssykursmola á undirskálina. Erlendur hellti vel út í úr flöskunni, bætti við sykur- inn og rétti föður sínum pörin. Hann tók við og bað Guð að launa, þefaði af bollanum og ók sér ánægjulega. „Það er ég viss um, að það hefur verið Erlendur, sem tók til sykurinn11, sagði hann lágt og byrjaði að sötra kaffið. Erlendur brosti til Helgu. „Hann var ekki lengi að finna það og sjá“. „Það er víst nóg, sem ég er búin að taka til handa honum“, sagði hún stuttlega. „O, þetta var bölvuð vella eins og vant er hjá þér. Þú nagar allt við neglur þér handa þeim. Þau svíkja okkur þó ekki á vinn- unni sinni, aumingja gömlu hjúin“. Erlendur lét föður sinn hafa aftur í bollann. Þá opnaði Ragn- heiður gamla hurðina og leit inn. „Hvaða hátíð er þetta eiginlega? Ekki nema Helga komin ofan og búin að hella á könnuna, aldrei þessu vön, og mér finnst bara vínlykt. Hver andskotinn stendur til fyrir ykkur?“ spurði hún. „Komdu inn, mamma gamla“, sagði Erlendur og hampaði flöskunni. „Hér er leki út í handa þér. Það er verið að drekka erfi gula hrútsins, sem gæran er af, hún liggur þarna á gólfinu. Og svo skal ég segja þér meira. Ég hef von um, að hægt verði að vinna grenið, sem aldrei hefur verið lagzt á, þó að allir hafi vitað, að þar hafa dýrbítir átt heima. En nú skal verða hert á nára- gjörðinni á þeim“. Ragnheiður tók upp hausinn, sem lá á gólfinu, og þuklaði eyrun. „Ójá, þú átt hann þá sjálfur. Ég sá hvaðan þú komst, og hvað þú hafðir meðferðis. Þú ættir að reyna að koma þeim í burtu úr dalnum þessum rummungum. Það var auma sendingin, að fá þau í nágrennið“. Hún settist og tók báðum höndum við bollanum, sem sonur hennar lét vel út í. „Þetta verður Gudda að fá“, sagði hann eins og til að afsaka að hann tæmdi ekki flöskuna. „O, hún kærir sig víst ekki mikið um það. Þetta var ekki nema rétt handa þér“, sagði hún frekjulega. „Jú, Gudda verður að fá hressingu eins og aðrir. Hún háttaði þreytt í gærkvöldi og vaknaði snemma í morgun. Enginn má líknarlaus lifa“. „Á ég að fá kaffið áður en ég þvæ föturnar?“ kallaði Gudda frammi í göngunum. „Ef það er til á könnunni“, sagði Helga stutt í spuna. „Ég vil fá aftur í bollann“, sagði Ragnheiður gamla. „Stelpan getur beðið þangað til hún er búin að þvo föturnar“. Erlendur þreif kaffikönnuna og hellti í bollann handa Guddu og tæmdi flöskuna út í. „Bölvaður óartargemsinn þinn“, ruddi móðir hans úr sér. „Þú tekur frá mér bæði kaffið og lekann handa henni“. „Þú varst búin að fá út í, og það mest af öllum, og það er meira kaffi í könnunni. Ég læt ykkur ekki setja Guddu tetrið hjá, þegar ég sé til ykkar, þið gerið það sjálfsagt nógu oft samt“, sagði hann hávær. „Það gleymist nú stundum morgunkaffið mitt“, sagði Gudda og brosti einfeldnislega. „Það er ekki það eina sem þú lýgur“, sagði Ragnheiður gamla fokvond. „Þú skalt ekki fá út í kaffið næsta morgun, kerlingarvargur, fyrst þú lætur svona“, sagði Erlendur. „Það er víst engin hætta á að þú gerir það, ófétisgemsinn þinn. Þér þykir betra að gefa stelpunni það, hún er þó nógu vitlaus, þótt hún sé ekki fyllt“. Þá hló Helga. Það var aðeins eitt, sem þær tengdamæðgur komu sér saman um, og það var að hnýta í Guddu. Hún var hálf- systir Erlendar. Sigurður gamli hafði átt hana með vinnukonu sinni. Það ár hafði verið sannkölluð styrjöld á Hálsheimilinu. Gudda hafði alizt upp með móður sinni þangað til um fermingu. Þá fór Erlendur að búa, og hún vildi fara til hans vinnukona, því að hann hafði verið eina manneskjan af skyldfólkinu, sem skipti sér nokkuð af henni. Helga leit niður á hana eins og allt tengdafólkið. Hún var líka heldur illa gefin, en lundgóð og þolin til vinnu. „Það eru góð verkin Guddu. En hvað gáfunum viðkemur, þá væri ekki víst að hún lægi og stæði í skítverkunum hérna, ef hún væri skynsamari“, sagði Erlendur. „Reyndu svo að vera al- mennileg við hana, minna má það ekki vera, og láta aftur í bollann, ef það er til. Ég skrepp yfir að Nautaflötum. Nú skal skríða til skara, skuluð þið vita“. Sigurður gamli hafði lítið heyrt af orðasennunni, en hann þóttist ráða það af svip konu sinnar, að samtalið væri ekki rétt friðsamlegt. Hann spurði því, hvern fjandann það gæti nú fengið sér til að rífast um yfir þessu blessaða kaffi. Erlendur kallaði í eyrað á honum: „Það var kerlingarvargurinn að hnjóða í hana Guddu skinnið". „Ójá“, sagði sá gamli og hló við. „Hún hefur aldrei átt upp á pallborðið hjá henni bóður þinni, flegðunni þeirri“. „Svo skuluð þið hætta öllu rifrildi“, sagði Erlendur. „Þú heldur á gærunni fram í skála, Gudda mín. Verið þið blessuð á meðan“. Hann þaut út úr baðstofunni með hrútshausinn í hendinni. Control of Barley Smut t There are three kinds of Barley Smut: 1. Covered Smut 2. False Loose Smut 3. Loose Smut The first two can be controlled by mercuric compounds: 1. Ceresan 2. Leytosan 3. Panogen For Barley treat as directed and leave for one week before seeding. Loose Smut can only be controlled by hot water treat- ment of Spergon treatment. For further*information write to: BARLEY IMPROVEMENT INSTITUTE, 206 Grain Exchange Building, Winnipeg, Manitoba. This space donated by DREWRYS MD-345

x

Lögberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.