Lögberg - 12.08.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 12.08.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 12. ÁGÚST, 1954 „Ég þóttist vita, að henni mundi leiðast“, sagði Anna óg strauk hárið á Dísu litlu, sem var setzt á hné henni. „Þú hefðir átt að lofa henni að verða eftir, eins og ég fór fram á“, sagði Borghildur. „Já, ójá, það hefði ég átt að gera. En það er nú svona þegar skapið er æst, þá 'verður skynsemin stundum að láta í minni pokann. Mér var þungt í skapi þann dag, Borghildur mín. En ég hef iðrazt framhleypni minnar þann dag, því að ég finn hvað ég hef mátt líða fyrir hana. En hvað er það þó hjá því, sem blessað barnið hefur liðið. Þórdís litla, þú ert bara setzt upp í fangið á henni mömmu þinni. Reyndu að setjast þarna á stólinn. Hún er ekki fær að sitja undir þessu hlassi. Hún kann sér bara ekki læti yfir því að vera komin aftur“, sagði Ketilríður og brosti sínu fallegasta brosi. „Hefur hún ekki gaman af því að leika sér með litlu drengjun- um á Hóli? Þeir eru á líku reki og hún“, sagði Borghildur. „Það er lítil von á því, að hún geti fellt sig við það sem þeir leika sér að, eftir að hafa verið með öðru eins barni og Jakobi. Svo er hún þá kannske dálítið öðru vísi að upplagi líka“, sagði Ketilríður. „Víst er um það, að það má vera mikið lán, ef þau verða ekki glæpamenn með tímanum börnin þau. Slíkur og því- líkur munnsöfnuður, og þvílíkir siðir. Þið tryðuð því sjálfsagt ekki, þó að ykkur væri sagt það“. „Það eru nú svo sem engin undur“, sagði Borghildur. „Það hefur ekki verið svo fagurt orðbragðið á heimilinu því. Það er eðlilegt, að börnin læri það, sem þau heyra fyrir sér“. „Ójá, það eru víst engin undur“, sagði Ketilríður og fór að klæða sig úr sokkunum. „Það er líka farið að kólna í ánni, þó að tíðin sé góð. Ég bjóst við, að hægt yrði að lána mér sokka“. „Fékkstu ekki hest yfir ána?“ spurði Anna. ^Ónei, Anna mín, ekki var það nú svo vel, að mér væri boðinn hestur, og varu þeir þó á túninu. Ég hafði heldur ekki í geð í mér til að biðja um hann. Það hefði líklega ekki þurft að biðja um hann hérna á þessu heimili“. Borghildur kom með sokka og leppa innan í skóna og lagði þá hjá Ketilríði, en tók blautu sokkana, þvoði þá og hengdi þá fyrir framan eldavélina. „Ertu þó ekki nema farin að þvo úr plöggunum mínum?“ sagði Ketilríður. „Ekki spyr ég að þér með ónotalegheitin eða hitt þó heldur“. „Nei, auðvitað bar ég hana, litla skinnið“, sagði Ketilríður í gæluróm, sem fór henni allt annað en vel. „En dugnaðurinn í þér, Ketilríður. Hann er alltaf sá sami“. „Svo verð ég nú víst að biðja þig að gefa henni Dísu litlu einhvern matarbita, því að hún gerði grautarglundrinu lítil skil í morgun. Hún hafði eitthvað veður af því, hvað ég ætlaði mér“, sagði Ketilríður við Borghildi. Hún setti fyrir þær mat á mörgum diskum og fór svo að hella á könnuna. Ketilríður virti matinn ánægjulega fyrir sér. „Dísa mín, sýnist þér vera nokkuð öðruvísi borinn fram mat- urinn hérna en á Hóli, þar sem hver kraflar upp í sig með sjálf- skeiðung, og hefur snjákollana fyrir borð? Það get ég svarið, að ég hafi bragðað svið í allt haust, nema eina hálfnagaða kúpu út úr strákunum. Enda hefur Dísa mín selt bagga síðan hún kom þangað. Ég er hrædd um, að henni hafi fundizt maturinn þar hálf óviðfelldinn, og ekki átt gott með að borða hann“. „Eru þau svona fátæk?“ sagði Borghildur. „Ég hélt, að þau hefðu dágott bú“. „Þau hafa það líka“, sagði Ketilríður tyggjandi. „Það vantar sízt matinn, og nógu marga sviðahausana hef ég fengið að saga sundur og sjóða, en svo er það ekki meira. Skammturinn er nú svona. Þeir fá nóg af sviðunum, bræðurnir, sé ég er“. „Þeir éta þau upp úr vösum sínum“, sagði Dísa. „Hverslags óskaplegur óvani er á börnunum?“ sagði Anna alveg hissa. „Þú segðir það líklega, blessuð mín, ef þú kynntist því. Það er lítil von til þess að Dísa mín geti fellt sig við þá, eftir að hafa leikið sér við annan eins engil og Jakob, enda kvíði ég fyrir því að fara með hana yfir um aftur“. Jakob kom fram og varð kátur, þegar hann sá að Dísa var komin. „Við líklega smölum nú saman kindunum okkar í fyrra- málið, fyrstþú ert komin“, sagði hann, og átti þar við hornahjörð, sem hann átti uppi á kvíabóli, en hafði lítið sinnt um meðan hann var einn. „Þær verða þó líklega í nótt, mamma?“ „Já, auðvitað“, sagði móðir hans. Rétt á eftir þutu krakarnir út, en" Ketilríður drakk kaffið með hvíldum, milli þess sem hún lýsti fieimilislífinu á Hóli heldur báglega. Hún sagði, að Dísa væri öll blá og marin eftir klip og hrindingar strákanna. Svo læddust þeir aftan að henni og örguðu inn í eyrun á henni, svo að hún væri að verða frá fyrir hjartanu. Vinnufólkið kom inn. Siggi bar tvær fötur með sauðamjólk. Ketilríður heilsaði þeim brosandi. „Það er aldrei þú ert orðin konuleg, Lína mín. Mér sýnist þú hafa fitnað mikið síðan ég fór“, sagði hún og kleip Línu í undir- hökuna. „Ég hef líka borðað vel í sláturtíðinni“, sagði Lína. „Hvað segir þú, Siggi minn?“ hélt Ketilríður áfram. „Ég hef oft hlegið að því með sjálfri mér, sem þú sendir mér út um gluggann þegar ég var að fara í sumar. Það var svo líkt þér, hrekkjalómurinn þinn“. „Það mátti ekki minna vera en að ég óskaði þér til lukku í nýju vistinni“, sagði Siggi. „Þér hefur víst liðið bærilega þar, þykist ég vita“. „Við skulum nú ekkert minnast á það núna“, sagði hún og dróg við sig svarið. „Náttúrlega er ekkert varið í að vera þar síðan Sigurður gamli flutti í burtu. Það var gaman að heyra hann kalla“, sagði Siggi. „Þú lætur það altaf eitthvað heita, Siggi. En það er þó gott við þig, að þú ert ekki uppstoppaður með fýlu“, sagði Ketilríður og gaf Þórði hornauga. Hann var þungur á brúnina og hvarf fljótlega út aftur. Ketilríður sat allt kvöldið inni í hjónahúsinu hjá Önnu og lýsti fyrir henni heimilislífinu á Hóli. „Hvað sem við tekur fyrir mér, þá fer ég ekki þangað aftur með barnið. Heldur geng ég bæ frá bæ um alla sveitina og fæ að vera dag og dag, kannske vill einhver þiggja verkin mín, svo sem viku eða hálfs mánaðar tíma“, sagði hún margsinnis. Rétt fyrir háttatímann kom hreppstjórinn heim. Jakob flýtti sér fram, þegar hann heyrði til hans. „Dísa mín“, sagði Ketilríður, „ertu ekkert að hugsa umi að heilsa honum pabba þínum?“ Hún ýtti stelpunni til dyranna og sagði eitthvað í hálfum hljóðum í eyra henni. „Sko, sjáðu bara, Dísa er komin“, sagði Jakob brosandi. „Hún verður í nótt“. Dísa tróð sér upp í fangið á Jóni: „Elsku pabbi“, vældi hún sínum blíðasta rómi, „lofáðu mér að vera hérna hjá Jakobi. Það er leiðinlegt á Hóli, og maturinn er svo slæmur“. „Þú veizt það, að þú mátt vera hérna, Dísa mín, ég sagði þér það í réttunum. Ef mamma þín vill láta þig verða eftir, þá færðu það“. Ketilríður kom fram og heilsaði Jóni með miklum virktum og þakkaði honum fyrir hana Dísu sína fyrr og síðar. „Hún er nú kannske ekki mjög langt frá þér, get ég hugsað“, sagði hún, „svo mikið er hún búin að þrá að^jomast yfir um“. „Þú lætur hana verða eftir angann litla. Hún er búin að biðja mig þess“, sagði hann. „Það er nú svo, Jón minn. Ég gæti ekki sofið, nema hafa hana fyrir ofan mig, angann litla, að annar eins faðir og þú ert, munir skilja mig, þar sem ég er búin að láta öll hin börnin frá mér“, sagði hún og strauk yfir votaugun. „Já, það var leiðinlegt, að drengurinn skyldi vera farinn frá Hóli, þegar þú ert komin þangað“, sagði Jón. „Leiðinlegt, nei, það er áreiðanlega það bezta. Mér hefði lík- lega ekki verið ánægja að því að sjá hvernig farið hefur verið með hann þar“. ^ „Ég held, að hann hafi ekki átt þar slæmt“, sagði Jón. „Náttúr- lega hefur það ekki verið að klappa honum eða gæla við hapn; það er ekki svoleiðis fólk — en hann leit vel út þar“. „Já, ég býst við, að hún hafi ruslað einhverju í hann. En ég §r nú búin að sjá og þekkja heimilið það, og get svona hugsað mér, hvernig ævin hans hefur verið þar“, sagði hún. Morguninn eftir var Ketilríður altekin af gigt í öðrum hand- leggnum. Borghildur átti andarnefjulýsi til að linna með mestu þrautirnar, svo að hún gat farið að klæða sig rétt á eftir. Það var meira en hún hafði búizt við. Reyndar voru það svo sem engin undur, þó að hún fyndi til í handleggjunum, eins og hún hafði þrælað þessar vikur, sem hún var við heyskapinn á Hóli, sagði hún. Borghildur bjóst við því, að það væri sama hvar hún ynni, hún lægi ekki á liði sínu. Jakob og Dísa báru horn og leggi í litlum þvottabala á milli sín af kvíabólinu inn í skála. Þar áttu þau að fá að hafa fénað sinn yfir veturinn. Jón horfði brosleitur á þau út um gluggann. „Nú eru þau að flytja fénaðinn í hús, svo að hann verði ekki undir fönninni“, sagði hann við konu sína. „Jakob hefur gripið tækifærið, að hafa Dísu sér til hjálpar, fyrst hún kom. Þetta minnir mig á, þegar ég var sjálfur að leika mér að hornum og leggjum“. „Já, svo vildir þú alltaf láta mig vera að því með þér, en ég vildi helzt alltaf vera með brúðurnar, en þær vildir þú ekki sjá, af því að þær gátu ekki talað“, sagði hún. „Þú varst alltaf svo sáralítið gefin fyrir búskapinn, og Jakob verður alveg eins“. „Hann er bara dugnaðarlegur núna, þegar hann hefur Dísu til að hjálpa sér. Honum þótti líka svo vænt um að sjá hana í gær. Mér finnst synd að hrekja hana í þurtu aftur“, sagði Anna. „Já, mér þykir það leiðinlegt. Hún bað mig svo vel að lofa sér að vera hérna hjá Jakobi. En Ketilríður segist ekki geta látið hana frá sér, og það er ekki hægt að lá henni það“. „Mér finnst það líka voðalegt, að þurfa að fara aftur með barnið að Hóli, enda segist hún heldur flakka með hana en verða þar. Hugsa sér þessi börn! Ég skil ekkert í þeim að ala börnin svona upp“, sagði Anna. „Svona hvernig?" spurði hann og hló. „Eins og hún segir. Ég hef nú bara aldrei þekkt annað eins“. „Og þú trúir því öllu. Ekki mikil hætta á öðru“, sagði hann og hló hátt. „Heldurðu að það sé ekki satt?“ „Ég held ekkert um það sem ég veit, helmingurinn af því er lygi. Ég er nú farinn að þekkja sögurnar hennar. Svona ber hún út hvert einasta heimili, sem hún hefur verið á“. „Það veit ég, að hún hefur ekki talað svona um heimilið hérna. Hún hefur aldrei lýst Jakobi eins og þessum drengjúm“, sagði Anna alvarlega, „eða hefur þú heyrt það nokkurs staðar?" „Ég hef ekki verið að spyrja eftir því. Mér stendur nokkuð á sama um, hvað sagt er um mig“. „Svo“, sagði hún. Svo varð löng þögn. Það var ekki svo auðvelt að koma orðum að því, sem hana langaði til að koma í framkvæmd. Hann settist við gluggann og fór að blaða í sögubók. Hún stóð hjá honum og studdi höndinni á öxl hans. Svo fór hún að strjúka mjúklega yfir hárið á honum. „Var það nokkuð, góða mín?“ spurði hann blíðlega og hélt áfram að lesa. „Ég get ekki hugsað til þess, að Dísa litla flækist um sveitina og fái ekki nóg að borða“. „Sem betur fer er efnahagur fólksins orðinn svo góður, að það hefur nóg til síns heimilis. En það er ekki gott við því að gera, því að engan langar til þess að fá Ketilríði aftur á heimilið, — allra sízt mig“. „Ég er ekki búin að fá mér neina stúlku í hennar stað. Það verður lítið spunnið, ef Lína verður ein. Ketilríður er svo fjarska dugleg við spunann". „Það er víst engin hætta á því, að ekki verði hægt að fá stúlku“, svaraði hann fálega. „Hún talaði lengi við mig hérna inni í húsinu“, hélt Anna áfram, þó að hún þættist heyra, að það mvndi ekki ganga sem bezt að fá hann á sitt mál í þetta sinn. Hún varð þó að fara það sem hægt var. Hann var þó vanur því að uppfylla óskir hennar, hverjar sem þær voru. „Hún sagðist vera búin að iðrast þess, hvernig hún hefði komið fram hérna síðasta daginn sem hún var, og það skuli ekki koma fyrir sig aftur. Enda var þetta nú ekki svo mikið, sem hún sagði“. „Það var þó nóg til þess að gera þig frávita“. „Það skal ekki koma fyrir aftur, því skal ég lofa. Ég kenni svo mikið í brjósti um hana, að eiga hvergi athvarf. Hún er búin að vinna okkur mikið“. „Já, já, hún er dugleg, að hverju sem hún gengur“, svaraði hann, og nú var málrómurinn ekki eins kaldur og áður. Anna varð kjarkbetri. Hún þekkti líka hvað átti bezt við hann. Hún grúfði andlitið að vanga hans og bað í blíðasta málrómi: „Má ég ekki hafa hana til jólanna? Þá verður búið að spinna það mesta“. Hann hló og kyssti hana. „Jæja þá, taktu hana til jólanna, en ef þú lætur hana spilla þér við mig, eins og hún hefur gert, þá skal ég reyna að koma henni burtu“. Ketilríður lá uppi í rúmi, þegar Anna kom Ijrosleit fram fyrir. „Ég sé, að þú kemur með góðar fréttir", sagði hún og settist upp, en stundi þó dálítið um leið og strauk handlegginn. „Þú verður að minnsta kosti hérna fram að jólum“, hvíslaði Anna. „Það var honum líkast, blessuðum, að hrekja mig ekki burtu, þegar ég á hvergi höfði mínu að að halla. Ég var nú líka dálítið kæn, eins og fyrri, og lét Dísu biðja hann að lofa sér að vera. Ég þekki nú allt mitt heimafólk, Anna mín. Hefurðu ekki eitthvað á prjónunum handa mér, góða. Ég er óðum að hressast. Gigtar- skrattinn lét undan andarnefjulýsinu, sem blessunin hún Borg- hildur kom með. Hún er alltaf jafn notaleg". „Þetta fer nú að lagast með prjónaskapinn, skal ég segja þér. Bráðum kemur prjónavél hingað. Það verður munur á. Borghildur ætlar að læra á hana vestur á Felli. Svo getur Lína kannske lært af henni. Það er sagt, að það sé erfitt að sprjóna mikið á þær“, sagði Anna og settist fyrir framan hjá Ketilríði. Þær voru tvær einar í baðstofunni; Lína og Borghildur voru að þvo þvott frammi í gamla elrhúsi. „Hann ætlar nú kannske að verða fyrstur með það eins og annað, að fá prjónavél. Ég var svo sem búin að frétta þetta, en hélt, að það væri einhver þvættingur eins og svo margt fleira“, sagði Ketilríður. „Nú, hver gat svo sem sagt frá því?“ spurði Anna hissa. „O, það fljúga nú fiskisögurnar að Hóli. Það er nú meiri fréttastöðin sem þar er. Sigga gamla Halldórsdóttir kom einn daginn og hafði frá mörgu að segja eins og vant er. Við vorum 'búnar að hlæja mikið að því, sem hún sagði okkur. Hún sagðist hafa orðið Jóni samferða um daginn, þegar hann fór út á Strönd- ina að selja dótið hans Láka gamla“. „Sigga Halldórsdóttir? Hvaða manneskja er nú það?“ spurði Anna. „Það er hálfsystir hennar Helgu á Hóli. Manstu ekki eftir henni? Hún var lengi á Hjalla í húsmennsku“. „Jú, nú man ég eftir henni. Hvað sagði hún?“ „Það hafði verið margt í hópnum út á Ströndina, og heldur betur glatt á hjalla. Jón var víst þægilega kenndur. Sigga sagðist vita það, að sér hefði litizt vel á hann, ef hún hefði verið yngri. Það hefði ekki verið því líkt, að hann væri fullorðinn maður, og það hreppstjóri, heldur tvítugur galgopi. Ég sagði henni, að svona væri hann nú alltaf, hvar sem maður sæi hann. Sigga sagði, að hann hefði farið að segja þeim „Haga-systrum“ frá þessari prjóna- vél. Þær höfðu riðið sín við hvora hlið honum. Hann hafði boðið að lána þeim peninga fyrir vél. Þær gætu verið kaupa konur hjá sér næsta sumar og unnið það af sér. Svo hafði hann kallað þær „góðurnar sínar“ í hverju orði. Svona stóð nú á því, að ég vissi um þessa vél. Það voru ósköp miklar dylgjur í kerlingunni. Þær þykja víst talsvert fjörugar, heimasæturnar í Haga. Ég tók nú ekki mikið undir það með henni. Helga hafði þá heldur betur lyst á sögunum hennar“. „Ég man eftir þessum systrum frá Haga. Þær eru bjarthærðar, og dansa anzi vel“, sagði Anna. „Já, þær eru á hverri skemmtun, sem haldin er í sveitinni, og hanga utan í hverjum strák, sagði kerlingin. Þær eru líka snotrar í sjón. Hún var það, hún móðir þeirra, á sínum yngri árum“, sagði Ketilríður. Jakob kom inn og sagði þeim að koma fram til að borða. „Það þarf nú kannske ekki að bíða eftir miðdegismatnum, þangað til klukkan sex að ganga sjö á þessu heimili eins og á Hóli, ekki einu sinni þó að Borghildur sé í þvotti“, sagði Ketil- ríður og nældi saman prjónunum. „Hvernig endaði svo þetta ferðalag?" spurði Anna. Hún var ekki að hugsa um matinn. „Hún sagði, að það hefði allt hvolft sér ofan að Haga og slokað þar í sig kaffi með nógu víni út í. Svo sagði hún, að hann hefði víst gist þar á heimleiðinni“. Ketilríður var ofsakát yfir matborðinu og kastaði gullhömr- um og fyndni til alls heimilisfólksins nema Þórðar. Henni fannst hann svo þungur á brúnina. Líklega var eitthvert fýlukastið i honum núna, hugsaði hún. En Þórður var ekki með neina fýln> það datt heldur engum í hug nema Ketilríði. Honum fannst bara eins og þungt óveðursský hefði dregið yfir heimilið við komu Ketilríðar. Kannske var það einhver óhugnanlegur fyrirboði o- gæfu þeirrar, sem fyrir honum lá þennan örlagaríka vetur. Anna var þögul við borðið. Hún gat ekki að því gert, að sagan, sem nýbúið var að segja henni, hafði gert hana órólega. Undan- farnar vikur hafði henni liðið svo vel, og hún hafði verið svo ánægð. Nú var komin breyting á um leið og hún hafði rutt þessari konu braut inn á heimilið. En hún mátti ekki láta á því bera. Og það er hægara að kenna það heilræði en að halda það, eins og svo mörg önnur. Hún sá alltaf þetta ferðalag út á Ströndina. Bjart- hærðu blómarósirnar frá Haga sína á hvora hlið manni hennar- Hann hafði boðið þeim peningalán, og þær höfðu veitt honum kaffi og vín, og svo hafði hann gist þar. Hún gat ekki lifað í þessari óvissu og spurði mann sinn að því, þegar hlé varð á blaðværðinni- „Gistirðu í Haga, góði minn, þarna um daginn, þegar þú varst að selja dótið hans Láka gamla?“ Hún stóð á öndinni meðan hún beið eftir svari. „Nei, manstu ekki eftir því, að ég kom heim um nóttina i hvassviðrinu. Við Sigurður í Hvammi urðum samferða“. „Jú, nú mundi hún það. Hún hafði átt svo bágt með að sofa, eins og alltaf þegar hvasst var, og hún var heldur ekki laus við myrkfælni, þegar hún var ein í húsinu hjá drengnum. Og henni hafði þótt svo vænt um þegar hann kom heim, hreint ekki fundið vínlyktina af kossum hans, heldur hjúfrað sig svo vel í faðmi hans, og sofið í einu mdúr til morguns. Það var einmitt nóttina eftir þetta ferðalag. En gott var, að það var ekki satt, að hann hefði gist í Haga. Fleira gat verið ýkt og rangsnúið í frásögninni- Henni létti við þá hugsun.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.