Lögberg - 16.09.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 16.09.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 16. SEPTEMBER 1954 Borghildur sneri inn afur. Hún reyndi ennþá einu sinni að ráða fram úr því, hvaða breyting væri orðin á heimilinu, einkan- lega þó á Þórði. Það hafði áreiðanlega eitthvað komið fyrir. Eftir þetta hætti Þórður alveg öllum áflogum. Hann fór að koma miklu seinna inn úr húsunum en Siggi. Þegar hann hafði borðað fór hann inn í rúmið sitt og lá þar allt kvöldið. Hann talaði ekki orð við nokkurn mann að fyrra bragði. Oft kom þó Jón fram fyrir og spurði hvort hann væri nokkuð lasinn, eða þá að hann bauð honum í glímu og kitlaði hann í hjánum. En Þórður svaraði því alltaf neitandi. Stundum viðurkenndi hann, að það væri ein- hver lumbra í sér, til þess að hafa frið fyrir kitlunum. „Ég veit, að Þórður er lasinn. Hann er svo daufur í augunum“, sagði Jakob eitt kvöldið, þegar hann var að spila við Dísu frammi í eldhúsi. „Það er gott, að hann er lasinn“, sagði Dísa. „Ég vildi, að hann væri veikur, svo að það þyrfti að sækja lækni handa honum“. „Það er ljótt að segja þetta, Dísa. Þegar einhver er svo veikur, að læknirinn er sóttur, þá deyr hann. En Þórður má ekki deyja“. „Ójú, hann má víst deyja“, sagði Dísa. „Hann er ekki svo góður við mig. Manstu um daginn, þegar hann hratt mér á gólfið, en settist með þig?“ „Þú beizt hann nú líka í hendina“. Borghildur hastaði á þau. „Verið þið ekki að þessu rugli, krakkar, Þórður er ekkert lasinn. Vertu gott barn, Dísa mín, þá verða aðrir góðir við þig. Ég vona, að Þórður fari ekki að veikjast. En ekki kæmi mér það á óvart þó að líkkista yrði borin hérna út úr bænum, áður en veturinn er liðinn“. „Af hverju heldurðu það, Borghildur?“ spurði Siggi forvitinn. „Það er bara draumur, Siggi minn, bara draumarugl, sem ef til vill hefur enga þýðingu“. „UPP KOMA AUGU . . .“ „Upp koma augu, þá ann kona manni“, segir máltækið. Og máltækin segja alltaf satt. Ketilríður fór að veita því eftirtekt, að Lína horfði stundum út undan sér til húsbóandans, þegar setið var við morgunmatar- borðið. Þá borðuðu allir í einu. Það var eitthvað í þessu augna- ráði, sem hún hafði ekki séð fyrr. Hún sagði önnu frá því, að sér fyndist dálítið skrítið, hvernig Sigurlína væri farin að horfa til mannsins hennar nú í seinni tíð. Þau hefðu líka verið anzi mikið ein út af fyrir sig þarna um daginn, meðan Borghildur var fyrir vestan. „Það er þó ómögulegt, að neitt hafi komið fyrir hana. Hún er svo mikið barn, hún Lína“. „Læt ég það nú vera, hversu mikið barn hún er. Þegar þú varst á hennar aldri áttir þú ársgamlan son“, sagði Ketilríður. „Hún er áreiðanlega komin á þann aldur, að hætta getur stafað af henni; og svo er hún snotur, stelpan. Ég hef tekið eftir því, að hún lyktar af ilmvatni, og alltaf er hún að snurfunsa sig fyrir framan spegilinn. Það er eitthvað á seyði“. Anna átti bágt með að trúa þessu, en samt bað hún Ketilríði að hafa gætur á þeim; hún væri svo glöggskygn. Hún tók það að sér, því að allt vildi hún gera húsmóðurinni til geðs. Spunakonan var nú farin, svo að hún þurfti ekki að sitja allan daginn við rokkinn, og gat þess vegna ranglað út og inn og litið eftir því sem fram fór. En hún var aldrei svo heppin að geta fært sönnur á grun sinn. Oft hellti hún niður úr vatnsfötu, svo að Lína þyrfti að fara eftir vatni í lækinn, en þaðan var svo stutt í hesthúsið. Ekki var ómögulegt, að hún álpaðist inn í hesthúsið til hans. Lína hljóp alltaf eftir vatni, þegar þess þurfti með, því að hún var viljug stúlka. En inn í hesthúsið álpaðist hún aldrei. Lestrinum í eldhúsinu var lokið jafn snemma og Borghildur kom heim. Nú sat húsbóndinn við lestur og skriftir inni í hjóna- húsinu, nema þegar hann fór út í hesthúsið tvisvar á dag. Stundum fór hann til fjárhúsanna, eða þá að hann brá sér á bæi og ofan í kaupstað. „Það er orðið hljóðara yfir nú heldur en var um daginn“, sagði Anna eitt kvöldið við Ketilríði, sem sat og prjónaði fyrir innan hjá henni og sagði krökkunum og henni sögur. „Já, það er eiginlega steinhljóð í öllum bænum“, bætti hún við. „Hvar er allt fólkið?“ „Ég býst við, að stúlkurnar séu komnar j fjósið. Þórð sá ég vera að skafa kálfsbjórinn, sem ég hélt, að ætlaði að úldna hjá honum, áður en hann kæmist að því að raka hann. Ég veit svo sem ekki hverslags bölvuð fýla er í honum. Hann liggur uppi í rúmi allt kvöldið og horfir á stelpuna, þegar hún er að skrölta á vélina. En aldrei tekur hann sér bók í hönd, eins og hann hefur svo oft gert, greyið. Kannske honum finnist þetta allt of erfitt fyrir blessaða handleggina á henni, að snerta vélina. Eða þá að hann hafi komizt á snoðir um þetta, sem ég var að minnast á við þig um daginn, og sé súr í broti yfir“. Hún gaf Jakobi lymskulegt horn- auga. „Sem betur fer er það nú víst ekki neitt“, sagði Anna. „Varasamt er að treysta því. Ég þekki þá illa augun í mér, ef mér hefur skjátlazt. Það er eins og hún geti aldrei litið til hans nú orðið öðruvísi en útundan sér, og svo aðgætir hún ævinlega, hvort Þórður hafi séð í hvaða átt hún leit“. „Ég er bara alveg hissa á þessu“, sagði Anna. Eftir þetta samtal tók Borghildur við niðri-verkunum aftur, að ósk Önnu. Lína var látin kemba fyrir Ketilríði og prjóna á vélina, ef einhver kom með band utan úr sveitinni. Tíminn leið tíðindalaust fram að jólunum. Þórður var farinn að hressast og verða skrafhreifnari á kvöldin. Stundum hafðist hann til að spila við hjónin og Sigga. Einn daginn kom Sigþrúður á Hjalla með prjónaband. Borg- hildur tók til vélarinnar í snatri, því að Sigþrúður ætlaði að doka við á meðan. Það var ekki stundarverk. Ketilríður kom utan ffá snúrum og mætti Jóni í bæjardyrunum með fat í hendinni, sem í var einhver matarkássa, sem hann ætlaði hestunum. Hún tók vatnsfötu í eldhúsinu og hellti úr henni, fór síðan til baðstofu og • sagði Línu, að hún mætti til með að skreppa eftir vatni, því að kjötið kraumaði þurrt yfir eldinum. „Það er áreiðanlega vatn inni“, sagði Borghildur. „Ekki einn dropi“, sagði Ketilríður. „Ég er á bráðónýtum skóm, annars hefði ég skroppið eftir því. En hún er svo ári dugleg að kemba, stelpan, að ég hef ekki við henni. Og hún telur heldur ekki eftir sér að taka af manni snúning. Hún er bráðskörp". Það seinasta var talað til Sigþrúðar, sem var ókunnug kostum Línu. Lína lagði frá sér kambana og fór fram. Ketilríður settist við rokkinn, dálítið íbyggin á svip. „Skyldi ekki vera mögulegt að hafa hana í snöruna, stelpuólánið?“ hugsaði hún með sjálfri sér; en upphátt talaði hún til Sigþrúðar í sínum hlýjasta málrómi: „Það er ekki oft, að þú ert á ferðinni, góða mín. Við sáumst oft hérna á árunum, meðan við vorum nágrannar hvor við aðra“. „Ójá, þú ert svo löt að koma til mín, síðan þú fjarlægðist", sagði Sigþrúður eins og annars hugar. Hún hefur fréttir að færa þessari konu, sem henni er óhægt um að flytja. En samt verður það að gerast. Annað er óviðeigandi, fyrst hún er hingað komin á undan þeim. „Það eru hræðilegar fréttir þarna utan af Ströndinni“, byrjaði hún dálítið hikandi. „Mér finnst, að ég verði að segja þér þær, Ketilríður mín, þó að þær snerti þig ónotalega, en samt hefðu þær getað verið átakanlegri. En það er eins gott að ég segi þér þær eins og einhver annar“. Ketilríður stanzaði rokkinn og horfði spyrjandi framan í aðkomukonuna. „Nú, hvað svo sem er það eiginlega?“ „Það villtust tveir drengir þarna í stórhríðinni seinustu. Kiddi þinn var annar þeirra. Þeir voru að koma innan úr kaupstað. Þeir ráfuðu lengi, og seint og síðar komst Kiddi til bæja, nær dauða en lífi, talsvert kalinn á fótum. Hinn er ófundinn ennþá. Það þarf líklega ekki að spyrja að því, hvað orðið hafi af honum“. „Ja, sei, sei, alltaf er það eitthvað myndarlegt, sem ég heyri um þessi börn mín. Hann hefur líklega verið heldur ómyndarlega útbúinn til fótanna hjá því, hyskinu þarna á Múla. Því hefur lengi farizt heldur ákammarlega við hann“, sagði Ketilríður gremjulega. „Það er ekki hægt neinum um að kenna, góða mín, öðrum en hamförum náttúruaflanna. Honum hefur víst ekki liðið illa á Múla. Konan er sögð vera bezta manneskja. Húsbóndinn er nú náttúrlega hálfóviðfelldinn“, sagði Sigþrúður. Það var nú einu sinni siður þeirrar konu, að bera allt í bætifláka fyrir þá, sem hún talaði um. Borghildur stanzaði vélina á meðan fréttirnar voru sagðar. „Óskaplegt e rað heyra þetta“, sagði hún. „Náttúrlega ferðu út eftir til að vitja um drenginn, Ketil- ríður“, sgaði Anna. „Verst af öllu er, hve færðin er slæm“. „Það læt ég nú vera. Einhvernveginn kæmist ég það nú sjálfsagt. En hvað svo sem ætti ég að gera þangað? Það versta er víst afstaðið fyrir honum. Ég er orðin vön því að vera eins og þögull áhorfandi þess, að börnin mín séu hrakin og hrjáð. Guði sé lof, að þau eru nú að komast svo upp, að þau geta farið að bera hönd fyrir höfuð sér“, sagði Ketilríður beisk í huga. Borghildur spurði hvaðan hinn drengurinn hefði verið. „Hann var frá Hlíðarenda. Aumingja foreldrarnir. Þau eiga bágt, það má nú segja, að missa hann svona voveiflega“. „Þau eiga nú eitthvað eftir samt, og ekki hafa þau þurft að sjá af þeim út í heiminn eins og ég“, sagði Ketilríður, ýtti frá sér rokknum og skálmaði fram úr baðstofunni. Það voru nú svo sem ekki nein ósköp, fyrst að drengurinn- komst lifandi heim, fannst henni. En Sigþrúður vesalingurinn var alltaf eins og bráðið smjör, ef eitthvað kom fyrir. Hún hafði víst aldrei orðið fyrir hagabarðinu á veföldinni, annars væri þykkari skrápurinn á henni en svo, að hún viknaði og kviknaði við, þó að hún heyrði annað eins og þetta. Sjálfri hafði henni hitnað tals- vert innanbrjósts, eins og vant var, þegar hún minntist á krakkana, sem henni fannst alltaf vera farið illa með. Hún hafði ætlað að fá sér vatn að drekka til að róa sig, en þá var ekkert vatn til inni. „Já, svoleiðis. Hún er þá ekki komin ennþá, drósin. Hún hafði gleymt því, sem hún hafði átt að muna. Sigþrúður hafði dregið athygli hennar og annarra að fréttunum, sem voru þó ekki lengi sagðar. En hún gat alltaf teygt úr lopanum, konan sú. Og sjálf hafði hún gleymt því alveg, að hún átti spenntan boga. Skyldi það geta skeð? Hún flýtti sér fram í bæjardyrnar, því að þaðan sást fctil vatnsbólsins. Það stóð heima. Þarna var vatnsfatan, en Lína sást hvergi. Hún fór hið hraðasta inn aftur, opnaði baðstofuhurð- ina og reyndi að gefa Önnu bendingu um að finna sig. En það var nú eins og vant var, skilningsleysið í henni. Seinast varð hún að kalla til hennar í sínum hlýjasta róm, þó að hún væri gröm við hana fyrir skil’ningsleysið. „Viltu finna mig, Anna mín“. „Aumingja manneskjan“, andvarpaði Anna um leið og hún stóð upp. „Náttúrlega er hún alveg eyðilögð“. „Ójá, mér þótti nú ekki skemmtilegt að segja henni þessi tíðindi, vesalingnum“, sagði Sigþrúður. „Það lítur út fyrir að hún sé ekki mjög viðkvæm, konan sú, og aldrei heyrist hún minnast á þessa krakka-anga eða hugsa til þess að gleðja þau á neinn hátt“, sagði Borghildur. „Hvað get ég gert fyrir þig, Ketilríður mín?“ sagði Anna ósköp gæðalega, þegar hún kom fram í eldhúsið. Hún bjóst við að sjá Ketilríði flóandi í tárum út af drengnum, sem lá skaðkalinn I úti á Strönd. En það var eitthvað annað en sorg í svip hennar. „Þú skalt heldur gera eitthvað fyrir sjálfa þig en mig“, | sagði hún. „Eins og hvað?“ Þá færði Ketilríður sig alveg að eyra hennar og hvíslaði, þó að enginn væri nálægur, sem gæti heyrt til þeirra: „Það er líklega svona hér um bil hálftími síðan stelpan fór að ná í vatnið. Hún er ókomin ennþá, og ég sé, að fatan stendur við lækinn“. „Hvað er að?“ spurði Anna og saup hveljur af undrun. „Hann er úti í hesthúsinu“, sagði Ketilríður og ýtti henni til dyranna. Þá skildi hún loksins, hvað um var að vera, og hljóp fram göngin. „Það er illmögulegt að hjálpa svona fólki, sem aldrei getur komið nokkurri hugsun inn í hausinn á sér fyrr en eftir marga klukkutíma", hugsaði Ketilríður. Lína kom með fötuna í hendinni á móti Önnu. Þær mættust á miðri leið. Hvorug yrti á aðra. Anna flýtti sér út að hesthúsinu. Það var hespað. Hún opnaði hurðina og leit inn. Hestarnir jóðluðu töðuna úr stallinum og litu ekki einu sinni við, þó að ókunnan gest bæri að dyrum. Hún nefndi nafn manns síns tvisvar, svo hátt að hann hlaut að heyra það, ef hann var inni í hlöðunni. En það svaraði enginn, enda hafði húsið verið hespað að utan. Hún gekk allt í kring um hesthúsið og hlöðuna, og fór svo inn aftur. Lína var að leggja að eldinum, þegar hún kom inn í eldhúsið. Hún gat ekki séð, að hún væri neitt öðruvísi en hún var vön að vera. „Á ekki að hita kaffi handa henni Sigþrúði?“ spurði Lína. „Jú, það er víst bezt að gera það“, svaraði húsmóðirin fálega og fór inn í húsið sitt til að jafna sig. Nokkru seinna kom hún fram. Þá sat maður hennar við eld- húsborðið og var að kveikja í pípu sinni. Lína sat inni í búrinu og malaði á könnuna. „Nú, þarna ertu þá kominn í leitirnar“, sagði hún ólundarlega. „Hvað? Hefur einhver verið að spyrja eftir mér?“ spurði hann, þegar hann var búinn að kveikja í pípunni. „Hvar varstu eiginlega, þegar ég var að leita áð þér?“ spurði hún og gaf Línu meiri gætur en honum. Hún sá, að Lína kafroðnaði. „Ég hef sjálfsagt verið úti í hesthúsinu“, sagði hann. „Það var hespað. Þú hefur þá látið loka þig inni, ef þú hefur verið þar“. „Þá hef ég verið kominn ofan í hús til Þórðar. Hvað vildirðu mér, góða mín?“ „Það var svo sem ekki mikið. Ég var bara svona að athuga, hvar þú gætir verið allan þennan tíma“. „Var ég nokkuð lengur úti en ég er vanur að vera?“ „Heldur fannst okkur það“. „Nú, voru allar stúlkurnar farnar að leita að mér — eða hvað?“ spurði hann kíminn. „Onei, bara ég ein. Ég leitaði hjá læknum og hesthúsinu“. Hann hló dátt. „Þú hefur haldið, að ég hafi dottið í lækinn? „Það er naumast að það liggur vel á þér“, sagði hún með þykkju. „Hvað kætir þig svona mikið?“ „Þetta er svo hlægilegt! Að leita í læknum! Góða, bezta hlæðu með mér heldur en vera með þennan dauðans fýlusvip, sem gerir þig svo gamla og leiðinlega“. „Þú ert leiðinlegur sjálfur“, sagði hún gröm. „Hvað hef ég eiginlega gert af mér, til þess að þú þurfir að vera svona vond?“ spurði hann hálfhlæjandi. Þórður var allt í einu kominn inn á gólfið. Hann bað Línu að sækja fyrir sig eldspýtustokk, sem væri inni á hillunni yfir rúminu sínu. Þau töluðust við, eins og ekkert hefði komið fyrir, þegar aðrir heyrðu til, ef ef þau urðu tvö ein, sem sjaldan kom fyrir, þögðu þau bæði. „Það var gott, að þú komst, Þórður“, sagði Anna. „Ég þarf að spyrja þig að dálitlu“. „Nú, jæja, þá er ég hérna“, sagði hann og brosti sínu þung- lyndislega brosi. „Hún er eitthvað svo ónotalega tortryggin“, sagði Jón háðskur. „Hún segist vera búin að leita að mér í bæjarlæknum og víst á fleiri stöðum, sem ólíklegt er, að fullorðinn karlmaður geti falið sig í. Ef ég þekkti það ekki til hennar, að vera laus við alla ímyndun, væri hægt að taka framkomu hennar svo, að hún óttist að ég sé á kvennafari. En slíkt kemur ekki fyrir hana, að hugsa þannig um manninn sinn“. „Ó, þú ert hræðilegur! Hvað þú getur kvalið mig, Jón. Ég sagðist hafa beðið hjá læknum, en ekki í honum“, sagði hún sár- gröm. „Og svo“, bætti hún við og sneri máli sínu til Þórðar, „segir hann, að ég sé gömul og leiðinleg“. „Þetta er ágætt“, sagði Þórður, „og svo klagið þið hvort annað •fyrir mér, eins og ég eigi einhverja sök á þessu. Mér finnst, að þú ættir ekki að taka það nærri þér, þó að hann segi að þú sért gömul, því að alltaf verður hann þó þessum sömu þrem árum eldri en þú“. „Já, en það var bara þetta, sem ég ætlaði að spyrja þig um: Kom hann í húsin til þín í dag — núna rétt áðan?“ Þórður varð seinn til svars eins og svo oft fyrr, og svar hans varð hvorki neitandi né játandi, þó höfðu fjögur konu-eyru beðið þess með óþreyju og eftirvæntingu. „Þó að hann líti einstaka sinnum á rollurnar sínar, þá er það ekki til þess að fara að leita að honum. Mér þætti ekki mikið, þó að þú kæmir sjálf í húsin við og við. Það gera allar búkonur“. , „Ég að koma í húsin til þín“, sagði hún og brosti vandræðalega. „Það þætti mér reglulega gaman, ef þú hefðir svo mikla hugsun á búskapnum, að þú kæmir í húsin öðru hverju, þótt ekki væri nema einu sinni til tvisvar á vetri“, sagði Jón og blés stórum reyk upp í loftið. „Ég á nú bara ekkert orð til yfir það, sem þú lætur út úr þér í dag“, sagði Anna. „Ég gæti hugsað mér að það þætti grun- samlegt framferði“. „Já, ég átti náttúrlega ekki við það, að mér þætti vænt um að þú værir að heimsækja Þórð eða annan. Og svo átti ég eftir að segja það líka, að það væri ekki ómögulegt, að ég kæmi á eftir þér“, sagði maður hennar og hló dátt að vandræðasvipnum á andliti hennar. Þórður hló líka, en hlátur hans var hálf þvingaður og ólíkur því, sem hann var vanur. Línu hafði gengið ótrúlega seint að finna eldspýturnar. Hún hafði staðið lengi fyrir innan hurðina og hlustað á það, sem skrafað var í eldhúsinu. Nú kom hún fram og smeygði stokknum i lófa Þórðar. Hann þakkaði henni fyrir og Anna settist við fremri borðsendann, Jón sat við hinn og reykti. Lína fór að hella a könnuna. Þau þögðu. Anna gætti að því í laumi, hvort maður sinn gæfi Línu auga, en svo var ekki. „Á ekki að láta kaffið á þetta borð? Drekkur ekki Sigþrúður hér frammi?“ spurði Lína. Hún var hálf vandræðaleg og kafrjóð í framan. Anna hugsaði um, hvað hún væri sælleg samanborið við sig, sem var snjóhvít af innisetum og blóðleysi, enda var Lína næstum áratug yngri. Og svo hafði Jón sagt, að hún væri gömul og leiðinleg- Var það ekki kveljandi? Lína endurtók spurninguna. „Jú, jú“, svaraði Jón, „hraðaðu þér bara að koma með það- Mig er farið að langa í kaffi. Svo sneri hann máli sínu til konu sinnar: „Þú heyrir ekki, Anna mín. Lína hefur talað tvisvar til þin • „Þú heyrir það þó þess betur“, sagði hún. „Það stafar líklega af því, að ég er orðin svo gömul og leiðinleg". „Hvaða ergelsi er þetta, góða mín? Ég sagði, að þú gerðir gamla með þessum leiðinlega fýlusvip, þegar þú setur hann upp- Komdu hingað og seztu hjá mér, þá batnar þetta allt, eins og vant er“, sagði hann í sínum hlýjasta málróm. » „Nei, ónei, þú hefur strítt mér svo mikið“. „Jæja, þá er það kaffið, sem gerir allt gott“, sagði hann þegar hann sá, að Lína var að hella í bollana.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.